Allt á kafi í snjó á Setri

Ég hef öðru hvoru birt línurit með samanburði milli ára á snjódýpt við Setur sunnan Hofsjökuls þar sem jeppamannafélagið er með skála. Upplýsingarnar gref ég upp djúpt úr brunni Veðurstofunnar þar sem hægt er að nálgast snjódýptina hverju sinni og úr þeim upplýsingum vinn ég línuritið og uppfæri reglulega með hálfsmánaðar millibili.

Setur er í 693 metra hæð og er þar iðulega hvít jörð allan veturinn og nær hann venjulega hámarki í apríl og er horfinn um miðjan júní. Nú ber hinsvegar svo við þarna við Setur, eins og víða á suðurhálendinu, að allt er enn á kafi í snjó. Þann 15. júní sl. var snjódýptin 163 cm, en eins og sést á myndinni er snjórinn oftast horfinn eða akkúrat að hverfa um það leyti.

Setur 2015

Það má velta fyrir sér hvort 2015-línan muni ná núllinu fyrir næstu mánaðarmót en snjódýptin ætti allavega að dragast mjög mikið saman hér eftir, enda löngu komið sumar. Því miður veit ég ekki hversu snjódýptin var mikil lengst af í vetur en sjálfvirki mælirinn þarna á það til að detta út vikum eða mánuðum saman og því vantar mig upplýsingar alveg frá því í byrjun desember og þar til undir lok maímánaðar.

Snjódýptin er annars mjög misjöfn milli vetra. Veturinn 2009-2010 var til dæmis mjög lítill snjór sunnan jökla og var horfinn upp úr miðjum maí. Veturinn 2012-2013 er ég bara með eina mælingu, þ.e. í marsmánuði og var þá snjórinn minni en á þeim árum sem ég hef til samanburðar - ekki nema um 45 cm. Þann vetur var einmitt óvenju hlýtt tvo fyrstu mánuði ársins þannig að þetta gæti staðist.

Það má segja að allt sé á sömu bókina lært þegar kemur að tíðarfarinu að þessu sinni. Veturinn var mjög umhleypingasamur sunnan- og vestanlands en þó ekkert mjög kaldur. Vorið var hinsvegar kalt og sumarið lengi að ná sér á strik. En nú fer þetta allt að koma.

Ísland Setur

MODIS-gervitunglamynd frá 15. júní 2015.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband