Smáræði um forsetamálin

Það má slá því föstu að eftir nokkrar vikur verðum við komin með nýjan forseta að Bessastöðum. Hver það verður mun koma í ljós en vissulega verður einn frambjóðendanna að teljast sigurstranglegri en hinir. Framboðsmálin hafa verið nokkuð sérstök, allavega miðað við það sem áður tíðkaðist. Talað hefur verið um offramboð af frambjóðendum enda virðist ekkert tiltökumál fyrir suma að bjóða sig fram til forseta, jafnvel þótt fáir eða engir hafi skorað á þá. Auðvitað má fólk bjóða sig fram ef því sýnist en fæstir þeirra virðast þó gera sér grein fyrir því að vænlegustu forsetaefnin eru kölluð fram af almenningi en ekki frambjóðendunum sjálfum. „Fólkið velur forsetann“ eins og Ólafur Ragnar sagði að Ásgeir Ásgeirsson hafi sagt, en þá er auðvitað ekki verið að tala um gjörvallan almenning, heldur bara nógu stóran hluta hans.

Það var nokkuð ljóst í vetur að þrátt fyrir fjölda frambjóðenda þá vantaði alltaf raunverulegan valkost fyrir þennan almenning. Stungið var upp á ýmsum og alltaf einhverjir að stinga upp á sjálfum sér. Það vantaði samt eitthvað. „Ég get þá svo sem verið eitt tímabil í viðbót úr því að enginn almennilegur kemur fram“ gæti Ólafur hafa hugsað þegar hann lét til leiðast að vera áfram, þó hann hafi örugglega hugsað eitthvað annað líka. Merkilegt annars með hann Ólaf hvernig fylgjendahópur hans breyttist frá því hann var kosinn fyrst. Við þekkjum nokkuð vel hvernig það gerðist, en alltaf hefur hann verið umdeildur. Mig rámar í að einhverjir hafi talað um að flytja úr landi á sínum tíma ef svo færi að hann yrði forseti. Fæstir þeirra hafa látið verða af því og eru sjálfsagt hinir ánægðustu með forsetatíð hans þegar upp er staðið. Margir aðrir eru á allt öðru máli.

Svo maður nefni loksins núverandi frambjóðendur þá hefur maður heyrt álíka tal um búferlaflutninga ef svo færi að annaðhvort Andri Snær eða Davíð setjast á Bessastaði. Það er þó auðvitað sitthvort fólkið sem talar svona en báðir þessir frambjóðendur eiga sér einlæga stuðningsmenn og líka einlæga andstæðinga. Þeir eru andstæðir pólar og eiga nokkuð í land með að njóta stuðning fjöldans. Aldrei þó að vita hvernig mál þróast. Af þeim tveimur á Davíð sennilega meiri möguleika. Hann er sjóaður í pólitíkinni og vill sjálfsagt ljúka störfum fyrir hið opinbera með öðrum hætti en að hafa verið hrakinn úr Seðlabankanum af einhverjum óþekkum krökkum sem fljótlega gætu einmitt tekið völdin til að umbreyta öllu, eins og að skipta um stjórnarskrá, skipta um gjaldmiðil, svo ekki sé nú talað um kippa fótunum undan kvótakóngum. Nei, þá munu menn komast að því hvar Davíð keypti ölið. Reyndar verð ég að segja að þegar kemur að stjórnarskránni þá er ég nú dálítið á íhaldslínunni sjálfur. Að skipta um stjórnarskrá finnst mér ekki óskylt því að skipta um þjóðfána og þjóðsöng. Þjóðir gera ekki svoleiðis af gamni sínu en kosturinn við stjórnarskrár er að þó sá að alltaf má breyta þeim og bæta, séu menn sammála um það.

En svo er það Guðni Th.  – maðurinn sem kom, sá … en hefur ekki alveg sigrað enn. Hann er eiginlega þessi góði gæi sem gat eiginlega ekki annað en boðið sig fram eftir áskoranir hins stóra almennings, eða allavega nógu stórs hluta hans, eftir góða leiksigra í Sjónvörpum landsmanna. Kannski var það gott plott sem virkaði, en hafa verður í huga að ýmsir aðrir hafa birst á skjánum án þess að slá í gegn sem efni í forseta. Það þarf enginn að efast um að Guðni veit svona nokkurnveginn í hverju starfið er fólgið og væntanlega eru fáir sem hóta sjálfskipaðri útlegð fari svo að hann setjist á forsetastólinn. En annars mun þetta fara eins og þetta fer og auðvitað eru allir frambjóðendurnir hver öðrum hæfari á einhvern hátt.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég held að með hann Guðna að það sé vegna Rúv sem hann "kom og sá", hann er frambjóðandinn sem Rúv er búið að velja sér og plástra framan í almenning síðan að það var ákveðið og það gefur honum ákveðið forskot, það er rosalega sorglegt að sjá hvað RÚV er misnotað í pólitískum tilgangi.

Fyrir mínar sakir er hann ekki merkilegur pappír og því ekki gott forsetaefni, maður með ákvörðunarfælni og verandi einlægur stuðningsmaður Icesave ásamt ESB gerir það að verkum að ég gæti ekki hugsað mér að kjósa hann.

En það er nú þannig að smekkur manna er mismunandi og þó að hann sé seinasti einstaklingur sem ég myndi kjósa þá er fólk þarna úti sem gæti ekki hugsað sér að kjósa neinn annan.

Halldór (IP-tala skráð) 29.5.2016 kl. 11:20

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Já það er gjarnan komið inn á allskonar samsæri alið á óþarfa hræðslu almennings þegar komið er að forsetaframbjóðendum. Varðandi Guðna og ESB þá kemur óttinn jafnvel bæði frá stuðningsmönnum og andstæðingum ESB enda hefur hann nefnt að hann sé ekki hlynntur inngöngu í ESB. En talandi um óttann þá ég vitna þá bara beint í Guðna þegar hann segir: "Það er ekkert að óttast".

Emil Hannes Valgeirsson, 29.5.2016 kl. 14:01

3 identicon

Vel skrifað og öfgalaust. Ekki algengt að lesa svona ágætta lýsingu á frambjóðendum. Alltof mikið af skrifum um frambjóðendur er óþverri um Davíð eða Guðna. Skrifa má með eða gegn einhverjum án þess að fara ofan á lægsta plan.

Sigurður Sigurðarson (IP-tala skráð) 30.5.2016 kl. 09:47

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Takk fyrir Sigurður. Reyndar var þetta skrifað áður en Davíð hóf skothríðina að Guðna í umræðuþættinum. Var satt að segja búinn að gleyma hvað Davíð getur verið ósmekklegur þegar hann kemst í sinn ham. Var jafnvel farin að sætta mig við þá mögulegu tilhugsun að hann gæti orðið forseti en það hefur nú aldeilis breyst.

Emil Hannes Valgeirsson, 30.5.2016 kl. 14:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband