50 ára sjónvarpsgláp

Ég ætla byrja þennan pistil á minnast á það þegar ég átti erindi í banka nú á dögunum en þá hafði gjaldkerinn séð kennitöluna mína og spurði hvort ég væri Sjónvarpsbarn. "Nei ég er ári eldri" sagði ég. "Já það var 1966" sagði hún og nefndi síðan að hún ætti líka þennan sama afmælisdag, 30. september, nema hún væri sjálf 15 árum eldri en Sjónvarpið. Já það er sem sagt þannig að ég er akkúrat ári eldri en Sjónvarpið og deili með því þessum ágæta afmælisdegi. Ég veit þó ekki hvort það sé endilega ástæðan fyrir því að ég hef alltaf haldið mikla tryggð við Sjónvarpið - og þá meina ég ekki sjónvarpstækið sem slíkt, heldur fyrirbærið sem stundum er nefnt: Ríkissjónvarp allra landsmanna og hefur fylgt manni svo lengi sem maður man eftir sér.

Tilkoma Ríkissjónvarpsins fyrir 50 árum hefur sjálfsagt breitt heilmiklu fyrir landsmenn á sínum tíma en fyrir mér hefur það alltaf verið sjálfsagður hlutur enda þekki ég ekki annað, en man þó vel sjónvarpslausu fimmtudagana og mánaðarlangt sumarfrí. Ekki minnist ég þess að fólk hafi mikið verið að kvarta yfir því á fyrstu 20 árunum að ekki væri sjónvarp alla daga vikunnar eða alla mánuði ársins. Fólk fór heldur ekkert fram á að það kæmi alltaf eitthvað í sjónvarpið, t.d. á miðjum degi þegar kveikt væri á því, annað en svarthvíta stillimyndin.

Á virkum dögum byrjaði dagskráin með Fréttum klukkan átta, en sýningin hófst reyndar á sjónvarpsklukkunni sem taldi niður tímann fram að fréttum, ótrufluð af auglýsingum og öðrum innslögum. Að fréttum, veðri og auglýsingum loknum kom sjónvarpsþulan sem þuldi upp dagskrá kvöldsins sem stóð gjarnan þar til langt gengin í ellefu. Reyndar var barnatími klukkan sex á miðvikudögum og lauk þá útileikjum barna sem þustu inn til að horfa á teiknimyndir. Ekki mátti missa af þeim. Á sunnudögum var það svo auðvitað Stundin okkar sem hófst eftir að presturinn var loksins búinn með sína hugvekju. Ekki má svo gleyma Ensku knattspyrnunni þar sem Bjarni Fel lýsti kappleik sem farið hafði fram fyrir ekki svo mjög löngu síðan og þuldi upp úrslit dagsins, eins og honum var einum lagið.

Þetta var einföld svarthvítt sjónvarpstilvera í föstum skorðum. Allir horfðu á sömu dagskrána, sömu framhaldsmyndirnar eins og Gæfu eða gjörvileika eða Kólómbó. Flestar bíómyndirnar voru um 20 ára gamlar og enginn kvartaði yfir því. Eftirminnilegust var hin svakalega mynd, Maðurinn sem minnkaði, sem kostaði mig ótaldar andvökunætur. Framþróun átti sér þó stað og varla hægt að horfa fram hjá því að Prúðuleikararnir voru flottari í lit. Það var heldur ekki amalegt að geta séð kappleiki í beinni útsendingu. Ég man t.d. enn þegar Michael Platini skoraði sigurmarkið fyrir Frakka í framlengdum úrslitaleik gegn Portúgal árið 1984.

Sjónvarpsmyndir
En svo fór allt að breytast, en það sem gerði útslagið var verkfall ríkisstarfsamanna um miðjan 9. áratuginn og ekkert sjónvarp! Risu þá upp frjálsræðispostular og einkaframtakssinnar sem boðuðu nýja og betri tíma er einokun ríkisins á sjónvarps- og útvarpsrétti yrði aflétt. Og þannig fór. Stöð 2 fór í loftið árið 1986 og flestir bara léttir á því. En ekki ég. Ég vildi bara mitt gamla góða Ríkissjónvarp. Stöð 2 fannst mér hinsvegar, svo ég orða það pent, uppfullt af allra handa sjálfumgleði. Það að eiga þess kost að velja á hvað var horft, fannst mér líka stórlega ofmetið. Best var að hafa bara, eina stöð og eina dagskrá, eins og Martein Mosdal sagði á sínum tíma og er hverju orði sannara, en kannski eru ekki alveg allir sammála okkur Marteini þar. Ég hef ekki einu sinni lagt í vana minn að horfa á fréttir á Stöð 2, en þar kemur vel á vondann því sjálfur hef ég tvisvar komist í fréttirnar hjá þeim og þá ekki vegna afglapa heldur vegna áhugamála minna tengd ljósmyndum. Fréttastofa Ríkisins hefur hinsvegar ekki hringt ennþá en kannski gerist það einn daginn.

Í gegnum sjónvarpstíðina hefur maður horft á eftir ýmsum dagskrárliðum hverfa á braut, yfir á lukta heima samkeppnisaðilana. Enska knattspyrnan hvarf t.d. einn daginn og hef ég ekki haft spurnir af henni síðan en treysti á að Liverpool sé enn að standa sig. Svo hvarf Formúlan, sem í sjálfu sér var bara ágætt enda fór fullmikill tími í það hringsól. Landslag ljósvakamiðlana breytist stöðugt. Sífellt fleiri eru farnir að velja sér dagskrá á netveitum eins og Netflix og glápa heilu dagana á heilu sjónvarpsseríurnar í striklotum. Sjálfur hef ég að vísu aðgang að einhverjum ótölulegum fjölda erlendra sjónvarpsstöðva sem maður kíkir á öðru hvoru, einkum ef von er á stórbrotnum náttúruhamförum úti í heimi. Einnig rekst maður stundum á æsilega þætti um mögulega aðvífandi loftsteina eða ofureldstöðvar sem kannski eru við það tortíma mannkyninu. Ég myndi samt alveg lifa góðu lífi án þeirra.

Ég hef í raunar ekki breytt mínum sjónvarpsvenjum og held ennþá tryggð við Ríkissjónvarpið. Er sami takmörkunarsinninn í þessum efnum hvað mig varðar. Auðvitað mega aðrir hafa það eins og þeir vilja. Ekki má þó halda að ég geri ekkert annað á kvöldin en að glápa á Ríkissjónvarpið. Því er nefnilega öðru nær. Sjónvarpsagskráin er æði misspennandi. Sumt er áhugavert og annað óbærilegt og það er einmitt bara fínt. Maður getur nefnilega fundið sér ýmislegt til dundurs annað en að horfa á sjónvarpið. Margar bækur eru til dæmis ólesnar og mörg tónlistin óáhlustuð en svo er líka alltaf hægt að setjast niður og skrifa bloggpistil eins og þennan.

Já, góðir landsmenn. Svona er það eiga sama afmælisdag og Sjónvarpið, en við ljúkum þessu með Smart spæjara.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband