Hafísstaðan á miðju sumri

Sumarið er í hámarki á norðurslóðum og hafísinn bráðnar samkvæmt því. Í hafísyfirliti mínu fyrir mánuði nefndi ég að hafísbráðnunin hefði ekki farið neitt óvenjulega hratt af stað í upphafi sumars, allavega ekki miðað við það sem ég sá fyrir mér að gæti gerst eftir einn hlýjasta vetur á norðurslóðum sem mælst hefur og um leið eitt minnsta ísmagn á Norður-Íshafinu sem mælst hefur. Fram til þessa hefur sumarið þó ekki verið neinn eftirbátur annarra mikilla bræðslusumra, samanber línuritið ættuðu frá bandarísku snjó- og ísmiðstöðinni (NSIDC). Dökkblái ferillinn stendur fyrir árið 2017 og til viðmiðunar eru 10 árin þar á undan. Gráa línan er meðaltal áranna 1980-2010 sem sýnir vel hversu mikið ísinn hefur hörfað að sumarlagi miðað við það sem áður var.

Hafíslinurit NSIDC júlí 2017

Eins og sést á dökkbláu 2017-línunni þá útbreiðsla íssins með allra minnsta móti en þó örlítið meiri en hún var metbræðslusumarið 2012 á sama tíma þann 20. júlí. Árið 2011 er reyndar þarna í tímabundinni forystu en átti eftir að missa hana þegar stórir atburðir fóru að gerast í ágústbyrjun 2012 sem skilaði hina mikla lágmarksútbreiðslumeti í september það ár. Annars er þetta nokkuð þétt flækja af línum. Heldur greiðist þó úr henni þegar líður að hinu árlegu haustlágmarki enda skiptir lokahlutinn í bráðnunartímabilinu miklu máli eins og gjarnan gerist í kappleikjum. Þá er bara spurning hvað gerist með 2017. Á sumarið 2017 endasprett inni eða fær það krampa?

Kortin hér að neðan sýna útbreiðslu og þéttleika íssins á sömu dagsetningu sumarið 2012 og 2017. Auk þess teiknaði ég inn lágmarksútbreiðslu íssins á 2012-kortið til vinstri en þá dróst ísbreiðan meira saman en dæmi er um.
Hafis júlí 2012 og 2016
Nokkur munur er á útbreiðslunni milli þessara tveggja sumra. Til dæmis var þarna ennþá landfastur ís norður af Alaska og Austur-Síberíu sumarið 2012 og styttra einnig frá okkur í hafísinn austur af Grænlandi. Hinsvegar er meiri ís núna við Baffinsland, Svalbarða og við miðhluta Síberíustranda. Það sem gæti þó skipt máli upp á framhaldið er að það sem eftir er af ísnum núna er nokkuð hvítt yfirlitum sem þýðir að ísinn núna er nokkuð þéttur - ekki síst á jaðarsvæðum. Stór svæði á 2012-kortinu er hins vegar farin að blána talsvert enda átti ísbreiðan þarna eftir að dragast saman um ríflegan helming áður en lágmarkinu var náð. 2017-kortið ber hinsvegar með sér að ísinn sé nokkuð þéttur og víðfeðm hafíssvæði ekki í bráðri útrýmingarhættu.

Í fyrri hafíspistli nefndi ég að hinn hlýi vetur gæti hafa framkallað meiri snjókomu í norðri en venjulega sem gæti haft sitt að segja varðandi það hversu tiltölulega hægt bráðnunin fór af stað nú í vor. Mikill snjór á ísnum tefur fyrir bráðnun og snjór á aðliggjandi landssvæðum veldur kælingu í heildina. Súluritið hér að neðan fann ég á netinu en veit þó ekki alveg uppruna þess. Samkvæmt því þá var snjóhula í júnímánuði nokkuð meiri en verið hefur hin síðari ár, en reyndar þó "bara" í meðallagi fyrir tímabilið í heild. Árið 2017 sker sig greinilega úr hvað þetta varðar miðað við síðustu ár þótt snjóhulan sé þó mikill eftirbátur þess sem tíðkaðist á fyrri hluta tímabilsins.
Snjóhula norðurhvel
Hvernig bræðslusumarið 2017 mun plumma sig að lokum mun koma í ljós á næstu vikum. Sennilega þarf eitthvað róttækt að gerast ef lágmarkið í ár á að verða eitthvað í líkingu við metlágmarkið 2012. Eftir sem áður er ísinn núna mjög þunnur þótt hann sé þéttur. Þykktar og rúmmálsmælingar benda einmitt til þess. Sjáum til hvað gerist og að venju boða ég aftur stöðuuppfærslu eftir mánuð. Það má líka taka fram að þetta eru allt saman áhugamannspælingar í mér en sjálfsagt er að benda á mánaðarlegt yfirlit Bandarísku snjó- og ísmiðstöðvarinnar eins og ég kalla hana. Sjá: National Snow and Ice Data Center, NSIDC


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Góður pistill að vanda, rak augun í smá villu ofarlega (í 4. línu): " eftir eitt hlýjasta sumar á norðurslóðum" á væntanlega að vera "eftir einn hlýjasta vetur ..." ?

Brynjólfur Þorvarðsson, 21.7.2017 kl. 05:24

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Jú, einmitt það sem ég vildi sagt hafa. Er búinn að laga.

Emil Hannes Valgeirsson, 21.7.2017 kl. 13:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband