Klofajökull og loftslagsmálin

Það er orðið algengt að minnst sé á Klofajökull þegar umræðan um loftslagshlýnun á sér stað. Klofajökull er hið forna heiti á Vatnajökli og telja margir það vitna um að jökullinn hafi verið tvískiptur á fyrri öldum og það eru til óljósar frásagnir af reglulegum ferðum bænda norður og suður yfir jökulinn, jafnvel yfir jökullaust skarð sem jökullinn hefur verið skýrður eftir. Þetta eru forvitnilegar vísbendingar um smæð jökla á Íslandi en það er annars fátt vitað hvernig jöklarnir litu út á landnámstíð. Hvort sem Vatnajökull hefur verið tvískiptur, margskiptur eða ein heild er ljóst að Vatnajökull var miklu minni við landnám en hann er í dag.

En er þá þar með sagt að það hafi verið hlýrra á landnámstíð en það er í dag? Margir gagnrýnendur kenninga um loftslagshlýnun af mannavöldum benda á að minni jöklar áður fyrr þýða að það hafi að sama skapi verið hlýrra áður fyrr. Það þarf þó ekki að vera því að á litlu ísöldinni stækkuðu jöklar í nokkrar aldir og skriðjöklar ruddust fram á láglendi og t.d. mátti litlu muna að Breiðamerkurjökull næði í sjó fram fyrir rúmlega 100 árum. Síðan snerist dæmið við með mikilli hlýnun og er saga jöklanna á 20. öld og það sem af er þessari, nærri ein samfelld hörfunarsaga eins og menn þekkja. Það er því ljóst að við þann meðalhita sem verið hefur á landinu sl. 100 ár minnka jöklarnir og gætu hæglega á endanum náð þeirri stærð (eða smæð) sem var við landnám. Það tekur nefnilega sinn tíma fyrir ís að bráðna, jafnvel í miklum hita. Það hafði heldur ekki verið nein litla ísöld á öldunum fyrir landnám og stærð jöklanna því í samræmi við ríkjandi hitafar ólíkt því sem er í dag. Það er ekki deilt um að það var hlýtt á landnámsöld en hversu hlýtt nákvæmlega er bara ekki almennilega vitað, ekki tóku menn veðrið í þá daga eins og nú.

Svo má spyrja hvers vegna var hlýtt á landnámsöld? Ekki keyrðu menn á jeppum þá eins og stundum er sagt.
En svo ég segi mína skoðun á þessu umdeilda máli þá er náttúrulega ljóst að aðgerðir mannsins eru ekki það eina sem valda hitabreytingum, þar eru ýmsir náttúrulegir þættir (t.d. sólin), enda sveiflaðist hitastig á jörðinni áður en mannkynið setti mark sitt á jörðina. Það hafa verið og verða áfram sveiflur í hitafari en einn þáttur nú á öldum fer vaxandi sem hefur áhrif á hitafar jarðar, það er hin margumtalaða gróðurhúsalofttegund C02, þar eru engar sveiflur, bara aukning. Sú hlýnun sem aukið CO2 veldur leggst ofaná þær sveiflur í hitafari sem mætti kalla náttúrulegar og útkoman verður sú að hlýju tímabilin verða sífellt hlýrri en þau köldu sífellt mildari. Það sem mætti kallast normal í dag gæti því kallast kuldakast í framtíðinni.

Að lokum: Með bráðnandi Vatnajökli gæti það einhverntíma komið upp að eðlilegt þyki að taka aftur upp nafnið Klofajökull eða verða það kannski Klofafjöll?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fríða Eyland

Það er ekki vinsæl skoðun á hlýnun jarðar að hún stafi af sólargosum. Ég hef lent í miklum þrætum um þetta mál, þá er heldur betur hiti í fólki þegar það kemur með, að gott sé að kenna öðru um en kolefnis mengun frá jarðarbúum.

Tók eftir færslu hjá þér um álit íslendinga, af hverju setur þú ekki skoðunarkönnun hérna á síðunni þinni ? 

Fríða Eyland, 7.10.2007 kl. 20:27

2 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Emil

Takk fyrir fróðlega færslu.

Varðandi sólina, þá var ég að sjá í dag svar dönsku vísindamannanna (Henrik Svensmark og Egil Friis Christiansen) við gangnrýni sem kom fram á kenningar þeirra s.l. sumar.

Fróðlegt og auðlesið. Sjá hér:
http://www.spacecenter.dk/publications/scientific-report-series/Scient_No._3.pdf/view

Það verður gaman að fylgjast með þessu þ.e. hvað gerist á næstu árum, nú þegar virkni sólar er hætt að aukast, eins og fram kemur í greininni.

Það er fróðlegt að sjá hitasveiflur upp á 0,5 gráður í takt við geimgeislana eins og sést á gröfum í greininni.

Ágúst H Bjarnason, 7.10.2007 kl. 21:17

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Takk Ágúst fyrir Dönsku skýrsluna, þetta er eitthvað sem þarf að melta en ég er þannig gerður að ég tek öllu með fyrirvara sama hvaðan það kemur. En varðandi skoðannakönnun hér á blogginu sem Fríða talar um þá er það athugandi svona til gamans en ég held að svona bloggkannanir séu varla marktækar til að sjá skoðun þjóðarinar.

Emil Hannes Valgeirsson, 7.10.2007 kl. 22:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband