Um eldvirkni á Reykjanesskaga

 Hraun á Reykjanesskaga eftir landnám


Víkur nú sögunni að jarðeldum, en þar sem hraun hafa runnið getur hraun runnið aftur, það eru einföld sannindi. Reykjanesskaginn er nánast allur eitt eldbrunið svæði með hraunum sem hafa runnið í sjó fram bæði í Faxaflóa og á suðurströnd skagans. Þarna gengur Atlantshafshryggurinn á land og eldstöðvakerfi tengd gliðnun landsins taka svo við hvert af öðru: Reykjaneskerfið, Trölladyngjukerfið, Brennisteins- og Bláfjallakerfið og svo loks Hengilskerfið.
Ef goshrina hefst á Reykjanesskaga væru það athyglisverðir og sögulegir atburðir þótt það sé óvíst hvort þau muni valda meiriháttar tjóni. Það er talið að eðlileg hvíld milli goshrina á Reykjanesskaga sé um 700-1000 ár. Síðasta goshrinan hófst seint á 10. öld og stóð yfir með hléum næstu þrjár aldir og nú eru því komin yfir 700 ár síðan gaus þarna síðast svo vitað sé (óstaðfest gos á 14. öld). Það eru reyndar engar hreyfingar í jörðinni núna sem benda til þess að gos sé á næsta leiti, en hver veit? Til að átta sig á hvað gæti gerst er forvitnilegt að skoða helstu atburði sem urðu þarna á fyrstu öldum Íslandsbyggðar:

Bláfjallaeldar hófust skömmu fyrir árið 1000 og stóðu yfir í nokkra áratugi. Þá runnu talsverð hraun til suðvesturs og náðu að sjó við Herdísarvík og einnig í norðvestur að Straumsvík, en frægast er þó Kristnitökuhraunið, en talið er að þar sé átt við Svínahraun sem þjóðvegur 1 liggur um. Í Bláfjallaeldum runnu einnig hraun í átt að Reykjavík þar sem er Hólmshraun ofan Heiðmerkur.
Krísuvíkureldar sem tilheyra Trölladyngjukerfinu stóðu yfir á árunum 1151-1180. Þá rann meðal annars Ögmundarhraun í sjó til suðurs en til norðurs náðu tveir mjóir hraunstraumar í sjó við Straumsvík og sunnan Hafnarfjarðar.
Í Reykjaneskerfinu voru síðan þónokkur gos árin 1211-1240. Þá runnu hraunin á svæðinu þar sem nú er Bláa Lónið og einnig í sjó fram austur af Reykjanesi. Einnig gaus að hluta til á ströndinni og í hafinu og olli það miklu öskufalli SV-lands og fékk meira að segja sjálfur Snorri Sturluson að kenna á því þegar hann missti fjölda nautgripa að þess völdum.
Hengilssvæðið sem sprungukerfi Þingvalla tilheyrir, slapp við eldsumbrot í síðustu goshrinu en þarna gaus síðast fyrir um 2.000 árum. Fyrir skömmu eða árin 1994-99 voru þarna hinsvegar mjög tíðir jarðskjálftar sem taldir eru tengjast kvikuinnstreymi á svæðinu sunnan Hengils en þar virðist land hafa jafnað sig aftur.
Ef gos kemur upp á Reykjanesskaganum eru allar líkur á því að um væri að ræða svipuð gos og urðu í Kröflueldum seint á síðustu öld, þ.e. sprungugos með hraunrennsli en litlu öskufalli. Þetta yrðu ekki stór gos en gætu komið upp hvað eftir annað nokkur ár eða áratugi í senn. Hættan á öskufalli er aðallega þegar gýs í grunnum sjó skammt undan landi en einnig gæti gos í Þingvallavatni framleitt mikla gjósku. Það eru mjög litlar líkur á því að gossprunga opnist í byggð en nokkrir þéttbýlisstaðir og sumir staðir höfuðborgarsvæðisins gætu vissulega verið í veginum ef hraunrennsli leitaði til sjávar, ef svo yrði gæfist þó sjálfsagt góður tími til að forða sér. Helstu hættusvæðin á höfuðborgarsvæðinu hljóta að vera þar sem hraun eru í dag svo sem við Hafnarfjörð og Garðabæ en ef hraun nálgaðist Reykjavík eru allar líkur á það leitaði í farveg Elliðaánna og næði jafnvel í sjó við Elliðavog. Ýmis meiriháttar óþægindi geta svo orðið ef mikilvægar samgönguæðar, rafmagnslínur eða veituæðar rofna sem þarna liggja þvers og kruss. Ekki má svo gleyma gufuaflsvirkjununum en kannski verða næstu gos einmitt þegar búið verður að raða þeim eftir endilöngum skaganum beint yfir kvikuhólfunum. En hvað um það, það eru ekki líkur á að við þurfum að þola hamfaragos sem gæfi tilefni til allsherjar rýmingar fólks af höfuðborgarsvæðinu. Hinsvegar hef ég heyrt að það versta sem mögulega gæti gerst fyrir íbúa Faxaflóa tengt eldgosum væri ef Snæfellsjökull tæku upp á því að gjósa og í framhaldi af því hrynja í sjó fram og valda flóðbylgju á flóanum. Þá væri fjör á Fróni.

(Mér til stuðning við samantekt þessa leitaði ég í bókina Íslandseldar eftir Ara Trausta Guðmundsson)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Emil. Takk fyrir fróðlega samantekt.

Ágúst H Bjarnason, 6.12.2007 kl. 10:10

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þetta var skemmtilegur pistill, takk.

Eftir því sem ég hef lært meira í jarðfræði kann ég æ betur að meta hraun - alls konar hraun. Og það er gaman að segja erlendum ferðamönnum frá þeim og kenna þeim að "lesa" hraunin, þ.e. ólíkar tegundir, gróður sem er kominn mislangt eftir því hve hraunin eru gömul og hvar þau eru á landinu o.s.frv. Ólík hraun og mislangt kominn gróður á þeim er sérlega áberandi á vissum svæðum á Reykjanesinu. Eins er Hengilssvæðið mjög spennandi fyrir jarðfræðiáhugafólk. Það væri skelfilegt að missa þessi fallegu útivistarsvæði með öllum náttúruperlunum undir virkjanir, háspennulínur og hávaða.

Lára Hanna Einarsdóttir, 6.12.2007 kl. 14:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband