Göngustígur við Eiðsgranda

Eins og víðar við strandlengju borgarinnar er göngu- og hjólreiðastígur meðfram sjónum við Eiðsgranda vestast í Vesturbænum. Þarna úti fyrir opnu Atlantshafinu hefur hinsvegar gengið erfiðlega að hemja hafölduna því þegar háflæði er og sterk hafátt má brimvörnin sín lítils og sjórinn gengur á land með grjótburði og hamagangi svo stórsér á umhverfinu á eftir. Þegar þetta gerist flettist malbikið á göngustígnum upp á köflum og liggur öfugsnúið innanum stórgrýti og þara sem liggur þarna um víð og dreif. Til þess að göngu- og hjólreiðastígurinn gegni sínu hlutverki þarf því stöðugt að halda honum við, slétta og malbika en það er einmitt búið að gera núna enn eina ferðina eftir síðasta áhlaup sem var núna í haust. Á myndinni sést nýlagt malbikið á stígnum sem var ennþá volgt þegar snjórinn féll. Það á svo eftir að koma í ljós hversu lengi þessi viðgerð dugar, næsta stórstraumsflóð verður 25. desember en svæðið hefur stundum orðið illa úti nálægt stórstraumsflóði seinni hlutann í desember. Maður vonar þó að þetta splunkunýja malbik sleppi við hremmingar um sinn, en ég verð á vaktinni og flyt nýjustu fréttir af ástandi mála ef eitthvað gerist.

Ánanaust


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Uppi eru hugmyndir um að reisa heljarinnar íbúðabyggð á uppfyllingum þarna úti fyrir. Hver ætli vilji búa þar við þessi skilyrði þar sem brimið dynur á og eyðileggur allt sem fyrir er og norðan- og norðvestanáttin er svona skæð.

Lára Hanna Einarsdóttir, 9.12.2007 kl. 17:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband