Þegar Rússar ætluðu að reisa olíustöð í Viðey

oliustod

Árið 1979 birtist frétt í því sáluga blaði Þjóðviljanum að samkomulag hafi náðst milli ríkisstjórnarinnar og Sovétríkjanna að í Viðey skildi rísa stór og fullkomin olíuhöfn með öllu tilheyrandi. Eins og gefur að skilja var þetta stórpólitískt mál í miðju kalda stríðinu en á þessum tíma voru vinstri flokkarnir við völd, en þeir sem komu að þessu máli fyrir hönd ríkisstjórnarinnar voru þeir Svavar Gestsson, Ragnar Arnalds og Hjörleifur Guttormsson og töldu þeir þetta mikið þjóðþrifamál. Þjóðviljinn var greinilega hlynntur þessum framkvæmdum og hvatti alla sósíalista til að sniðganga mótmælafund sem halda átti við Sovéska sendiráðið. Í frétt blaðsins mátti m.a. lesa þetta:

„Olíuhöfnin í Viðey ásamt tíu 55 þúsund lesta olíutönkum og tilheyrandi leiðslum í land verður gífurlegt mannvirki og verða framkvæmdir boðnar út 1. maí n.k. víða um A-Evrópu og einnig á Kúbu, í Víetnam og Angóla. Samkomulag náðist um að eignaraðild Íslands yrði 50% eða jafnmikil og Rússa eins og viðeigandi er milli bræðraþjóða. Aðalhöfnin verður staðsett í víkinni fram undir Viðeyjarstofu og til marks um stærð hennar er að skip allt að 120 þúsund lestir geta lagst að viðlegukanti.

oliustod_fundurOlíutönkunum verður raðað í hálfhring utanum Viðeyjarstofu og kirkjuna en þess skal getið að þessi fornu mannvirki fá að standa algerlega óhreyfð og hafa Rússar m.a.s. boðist til að gera kirkjuna að minjasafni gegn því að skrifstofur hafnarinnar fái inni i Viðeyjarstofu. Olíutankarnir verða að miklu leyti grafnir í jörðu eða 9/10 hluti þeirra, og er það gert vegna náttúruverndarsjónarmiða. Það sem upp úr stendur verður þó um 40 metrar á hæð. Verður tignarlegt að líta yfir Viðeyjarsund þegar tíu fagurgjörfum turnunum verður raðað með reglulegu millibili sem einskonar umgjörð um höfuðból iðnrekandans Skúla fógeta.“

- - - - - -  

Það er kannski allt í lagi að minnast á það í lokin að þessi frétt birtist þann 1. apríl 1979. Nú eru hinsvegar breyttir tímar, en ekki alveg því eitthvað koma Rússar við sögu í þeim áformum að reisa olíuhreinsistöð á Vestfjörðum, en ég hef reyndar aldrei verið viss um hvort þar sé eitthvað spaug í gangi eða ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband