Er olíukreppan byrjuð?

Sannir svartsýnismenn fengu sannarlega eitthvað að hugsa um þegar myndin A Crude Awekening var sýnd í Sjónvarpinu nú um daginn. Hún fjallar um það að olíuframleiðsla jarðarbúa sé um þetta leiti komin í hámark sem þýðir að hér eftir mun framleiðslumagnið einungis fara minnkandi á sama tíma og eftirspurnin eigi bara eftir að aukast. Það ætti að vera augljóst að svoleiðis jafna gengur ekki upp nema með ört hækkandi olíuverði þar til einn daginn að olían verður fáheyrð munaðarvara sem almenningi stendur ekki til boða. Og þess verður kannski ekki svo langt að bíða eins og kemur fram á þessari mynd sem sýnir þróun olíuframleiðslu heimsins í fortíð og framtíð samkvæmt spá þeirra sem til þekkja.

Olíuframleiðslan

Þegar olían er búin

Ég ætla að gefa mér það að myndin sé nokkurn vegin rétt. Það er allavega ekki spurning að olían er takmörkuð óendurnýjanleg auðlind og þegar hún er uppurin verður engin olía meir svo lengi sem mannkynið lifir. Nútímasamfélagið er algerlega háð olíu í dag og er raunar forsenda þess að það náði að þróast og að lífskjör okkar séu eins og þau eru í dag. Það eru ekki bara bílar, skip og flugvélar sem nota olíu, heldur einnig allskonar framleiðsla, s.s. efnaiðnaður, lyfjaiðnaður, allt plastið, allt malbikið og svo má ekki gleyma allri hernaðarmaskínunni sem þarf sitt með góðu eða illu. Mannkynið hefur svo sem áður skipt um orkugjafa, hestaflið er orðið úrelt, gufuaflið líka og því getum við ekki bara fundið upp eitthvað nýtt? Þar er meinið. Orkuframleiðsla með olíu er ekki úrelt því það er ekkert annað í boði í dag sem leyst getur olíuna af hólmi. Kjarnorkan er t.d. líka takmörkuð auðlind því hún er háð hinu sjaldgæfa efni Úran. Vindorka, vatnsorka, sólarorka eða jarðvarmaorka duga síðan engan vegin til að mæta óseðjandi þörfinni. Vetnið er engin lausn því það þarf orku til að framleiða vetni og því er það ekki orkugjafi. Það er langt í nýjar lausnir, stundum er talað um hina miklu samrunaorku sem er ógeislavirk kjarnorka sem gengur út á það sama og orka sólarinnar, en sú tækni er alltof stutt komin og óvíst að slíkt ferli skili nægilegri orku til að réttlæta gífurlegan kostnað.

Í dag ættum við að vera á fullu að venja okkur við veröld án olíu, en það virðist þó ekkert í þá áttina vera í gangi. Í Bandaríkjunum sem nota fjórðung allrar olíunnar er bensín t.d. ódýrasti vökvi sem seldur er almenningi. Við verðum í framtíðinni væntanlega dæmd sem eigingjarna kynslóðin sem kláraði olíuna. En þetta má ekki ræða, stjórnmálamaður í Bandaríkjunum á enga von um kosningu ef hann vogar sér að benda á þessa hættu, en þeir vita af þessu, þeir vita líka að í Mið-austurlöndum eru einu almennilegu olíubirgðirnar í heiminum sem ekki munu fara þverrandi alveg á næstunni. 

Hvað þá með loftslagsmálin og umhverfismálin?

Það hefur ekki verið mikil umræða um væntanlega olíukreppu, allavega ekki miðað við umræðurnar um loftslagsmálin. Nú fæ ég samt ekki betur séð en að þessi tvö vandamál tengist, en samt með öfugum formerkjum ef hægt er að segja svo. Ef olíukreppan framundan er staðreynd þá er augljóst að þá mun draga úr brennslu olíu sem þýðir að draga muni sjálfkrafa úr þeirri losun gróðurhúsalofttegunda sem talin er nauðsynleg og jafnvel gott betur. Það má því kannski segja að þannig leysist stórt en kannski dálítið umdeilt vandamál og annað stærra og verra taki við. Svo er líka augljóst mál að það er tómt mál að tala um að þriðji heimurinn muni ná því neyslustigi og lífskjörum og við búum við í dag hér á Vesturlöndum. Verður það kannski bara á hinn veginn? Það er óhjákvæmilegt að orkuverð mun hækka í framtíðinni, ekki vegna Kyoto-sáttmálans heldur af hreinum orkuskorti. Og þá er hætt við því að allt verði virkjað sem virkjanlegt er því orkan verður gulls ígildi. Hvað verður þá um Gullfoss? Hvað verður þá um Fagra Ísland?

Meiri svartsýnisfróðleik um þetta mál má finna hér: http://www.lifeaftertheoilcrash.net/


mbl.is Skeljungur hækkar eldsneytisverð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Kannski munu þessar nýju olíulindir bæta upp framleiðsluminnkun á öðrum svæðum í einhvern tíma ef þær verða nýttar sem verður þó ekki alveg strax. Mér skilst að þessi olía í USA, á Bakken svæðinu ef þú ert að meina það, sé mjög erfið vegna þess að hana er að finna djúpt í berglögum og því mjög kostnaðarsamt dæmi. Brasilíuolían er djúpsjávarolía sem einnig er erfitt og kostnaðarsamt að komast að en magnið gæti þó verið talsvert. Í Írak er síðan allt í lamasessi og olíulindir þar nýtast ekki fyrr en stöðuleiki er kominn á. Hvað sem þessu líður þá verðum við að fara að umgangast olíuna sem takmarkaða auðlind. Ódýr, auðfengin olía er eitthvað sem við munum ekki búa við í langan tíma þegar eftirspurnin er vaxandi.

Emil Hannes Valgeirsson, 28.4.2008 kl. 23:18

2 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Mjög góður og þarfur pistill... ég hygg að verð á bensíni muni aldrei lækka aftur - heldur halda áfram að stíga upp á við. Ég hefði svo gjarnan vilja sjá þessa mynd, en missti af henni. Hef reyndar lesið um þessi mál lengi vel en það jafnast ekkert á við góðar heimildamyndir.

Birgitta Jónsdóttir, 29.4.2008 kl. 07:29

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég vona að ég verði löngu dauð þegar Gullfoss verður virkjaður.    Heimildamyndin var fróðleg mjög og það mætti sýna miklu meira af þesslegu efni í sjónvarpinu.

Lára Hanna Einarsdóttir, 1.5.2008 kl. 16:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband