Er hlýnun jarðar komin í pásu?

Víkur nú sögunni að loftslagsmálum og ekki í fyrsta skipti á þessari síðu. En það sem ég er nú að velta fyrir mér er þáttur Kyrrahafsins í sveiflum í hitafari hér á jörð. Síðastliðinn vetur var að mörgu leiti athyglisverður enda var hann kaldari víða um heim en undanfarin ár. Flestir eru sammála um að þar sé um að kenna öflugum La Niñja straumi í Kyrrahafi sem þar hefur ríkt frá því um mitt ár í fyrra en hefur nú farið eitthvað minnkandi. Það sem gerist í Kyrrahafinu virðist því skipta miklu máli fyrir veðurfar í heiminum enda þekur þetta haf næstum 50% af öllu flatarmáli heimshafanna.

KyrrahafsstraumarStóra áratugahringrásin í Kyrrahafinu. En það er fleira í gangi þarna í Kyrrahafinu. Núna undanfarið hef ég tekið eftir vangaveltum um stærri hringrás sem er þarna í gangi og kallast Pacific Decadal Oscillation (PDO) og nær yfir áratugi. Þetta fyrirbæri er nú um þessar mundir talið vera komið í sinn kalda fasa sem þýðir að kaldir straumar koma að ströndum Norður-Ameríku og hefur síðan þau áhrif að þá eykst tíðni hinna köldu La Niñja strauma á meðan tíðni hinna hlýju El Ninjo minnkar að sama skapi. Þetta allt saman hefur síðan áhrif á hitafar um alla jörð. 

Síðustu áratugi hefur hlýnað mikið á jörðinni sem kemur heim og saman við það að þessi PDO hefur einmitt verið í hlýjum fasa síðan árið 1977, en áratugina þar á undan var negatíft ástand á sama tíma og engin hnattræn hlýnun átti sér stað. Ef þarna reynist vera orsakasamband á milli get ég ekki betur séð en þarna sé loksins komin almennileg skýring á því hvers vegna það hlýnaði ekkert á jörðinni uppúr miðri síðust öld þar til hlýnunin tók kipp á áttunda áratugnum og einnig gæti þetta skýrt hversvegna ekki hefur heldur hlýnað neitt að að ráði á allra síðustu árum. Ef rétt reynist að þessi kaldi fasi sé kominn upp af alvöru gæti hann varað ca. 20-30 ár með stöðnun á hnattrænni hlýnun vegna tíðari La Niñja, sem mun vega upp á móti þeirri hlýnun sem annars hefði orðið vegna gróðurhúsaáhrifa.

PDO

Mynd: Þróun hitastigs á jörðinni frá 1870 og til samanburðar hvenær áratugahringrásin í Kyrrahafinu PDO hefur í stórum dráttum verið í köldum og hlýjum fasa. Ath.þessar tímabilsskiptingar eru fengnar frá wattsupwiththat.wordpress. Á öðrum stað er talað um stutt tímabil í köldum fasa um 1920 en það kemur ekki fram hér.

Það eru fleiri svona fyrirbæri á jörðinni sem hafa áhrif á veðurfar, hér í grennd við Ísland er t.d. talað um að hlýnun síðustu ára geti geti kannski gengið til baka að einhverju leiti og þá væntanlega vegna svipaðra breytinga í Norður-Atlantshafinu, sem eru þó smærri í sniðum en sveiflurnar i Kyrrahafi. Semsagt margboðuð hlýnun jarðar er ekki ein brekka upp á við því náttúrulegir þættir koma alltaf inní sem ýmist bæta í eða draga úr áhrifum aukinna gróðurhúsaáhrifa eða geta jafnvel borið þau ofurliði tímabundið. Annars er loftslag jarðar og þróun þess auðvitað flókið fyrirbæri sem mín takmarkaða þekking getur enganvegin náð utanum en vonandi er þetta innlegg ekkert síðra en hvað annað.

Sjá nánar:

http://earthobservatory.nasa.gov/Newsroom/NewImages/images.php3?img_id=18012 

http://wattsupwiththat.wordpress.com/2008/04/29/nasa-pdo-flip-to-cool-phase-confirmed-cooler-times-ahead/

http://www.intellicast.com/Community/Content.aspx?ref=rss&a=126 

Eldri færsla á minni síðu: Um áhrif Kyrrahafsstraumana El Nino og La Nina á hitafar jarðar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Þetta segir okkur það að breytingar í lofthita jarðar eru væntanlega að yfirgnæfandi hluta af völdum sveiflna í náttúrunni, þar á meðal PDO. Áhrif manna á losun CO2 því mjög lítil.

Annars ætti PDO ekki að stöðva hnatthlýnun af völdum aukins CO2. Hlýnun af völdum aukningar á CO2 ætti að vera sívaxandi í takt við losunina, en kæliáhrif PDO koma sem þrep til minnkunar. Ekki sívaxandi áhrif. PDO ætti því að valda nokkuð skyndilegri kólnun, en áhrif losunar á CO2 síðan að grípa inn aftur.  Einnig ætti hitastig sjávar að minnsta kosti að hækka næstu árin, því eitthvað verður varminn að leita. Hann bara hverfur ekki. Það segir eðlisfræðin okkur.

Ef heita vatnið frá Orkuveitunni kólnar, þ.á kólnar líka í íbúðinni, því heita vatnið nær að hita íbúðina upp um 30 gráður ef frostið úti er 10 gráður. Það vitum við öll. Á sama hátt kólnar á jörðinni ef áhrif sólar á lofthita breytast örlítið, því sólin nær að hita jörðina upp um heilar 300 gráður, eða frá alkuli. Því ættu menn að líta sér aðeins fjær. Sjá t.d. þennan pistil.

Ágúst H Bjarnason, 7.5.2008 kl. 07:05

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Getur verið Ágúst að þú sért að flækja málið um of, ég sem var að gera það svo einfalt? Ég held einmitt að kæliáhrif PDO komi fram sem þrep í hlýnun sem eru vegna áhrifa aukins CO2 (af mannavöldum væntanlega). Þegar PDO er svo í hlýjum fasa eykst hlýnunin hratt og vegur upp það hlé sem varð á hlýnunni og gott betur.

Áhrifin af þessum sveiflum í hafinu eru þannig ef ég skil þau rétt að kaldur sjór leitar til yfirborðs í auknum mæli sem leiðir til kólnunar á loftslagi (eða vinnur gegn hlýnun þess). Heildarhitastig hafsins ætti samt ekkert endilega að breytast á meðan sveiflan gengur yfir því annar sjór og ekki eins kaldur sogast niður í staðinn annarstaðar. Þetta gerist allt í smáskömmtum og því þarf ekki endilega að verða skyndileg kólnun á loftslagi.

Emil Hannes Valgeirsson, 7.5.2008 kl. 10:33

3 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Kannski er ég að flækja málið um of Emil, en þessi kerfi eru víst nógu flókin fyrir

Þakka þér fyrir góðan og áhugaverðan pistil. Það er gaman að velta þessum málum fyrir sér og vakna þá oft ýmsar spurningar.

Ég prófa að skýra mál mitt aðeins betur:

1) Nú hefur liðið næstum áratugur síðan lofthjúpurinn hætti að hlýna marktækt, en mjög stutt er síðan PDO viðsnúningurinn yfir í kaldan fasa varð. Skv. Earth Observatory er það á síðustu mánuðum. Getur þá PDO valdið þessum umskiptum í hlýnun lofthjúpsins sem hófust fyrir um áratug?

2) Ef PDO kaldi fasinn stendur yfir í 20-30 ár (og hlýnun lofhjúpsins pásar á meðan), þá ætti sjórinn að safna í sig öllum viðbótarvarmanum frá losun manna á CO2. Það ætti að koma fram sem hlýun sjávar á næstu árum hefði ég haldið. ARGO mæliduflin ættu að skynja það, en þau mæla hitastig frá yfirborði niður á 2000 metra dýpi. 

Spyr sá sem ekki veit.  -  Þetta eru bara leikmannsþankar...


Svo er það AMO og NAO:
The Atlantic Multidecadal Oscillation
 

Ágúst H Bjarnason, 7.5.2008 kl. 12:56

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Maður getur vissulega komist út á ystu mörk eigin þekkingar þegar þessi mál eru annarsvegar en maður skrifar þetta þó aðallega af áhuga en ekki endilega af áhyggjum af stöðu mála.

Ég held að það sé ekki PDO sveiflan sjálf sem ræður úrslitum um hitafar heldur áhrifin sem hún hefur á tíðni El Ninjo og La Ninja straumana sem hafa sýnt sig að vera mjög afdrifaríkir varðandi hitafar. Því getur kannski munað einhverjum árum á þessum umskiptum í hlýnun lofthjúpsins og líka eins og við vitum þá eru fleiri þættir að verki líka.

Það að sjórinn ætti að safna í sig öllum viðbótarvarmanum vegna CO2 er atriði sem ég er bara ekki viss um. Jörðin hlýtur alltaf að tapa sínum varma í gegnum lofthjúpinn þrátt fyrir gróðurhúsaáhifin. Flókna spurningin er hvernig þetta spilar allt saman og í hvaða hlutföllum.

Emil Hannes Valgeirsson, 7.5.2008 kl. 15:27

5 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Ég tek undir með þér að menn eru komnir út á ystu mörk þekkingar þegar fjallað er um loftslagsmál.  Þrátt fyrir gríðarmiklar rannsóknir vísindamanna er óvissan mjög mikil.  Mönnum hættir til að skoða málið frá einu sjónarhorni og því verður umræðan mjög einslit í fjölmiðlum. Það er aftur á móti mjög mikilvægt að skoða málið með opnum hug frá ýmsum sjónarhornum og útiloka ekki neitt fyrirfram

Það er líklega einmitt vegna þess hve flókið málið er að það er áhugavert. Hugsanlega má líkja því við náttúruskoðun að fylgjast með þessum breytingum í náttúrunni. Það er að minnsta kosti mjög fræðandi. 

Ágúst H Bjarnason, 8.5.2008 kl. 06:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband