Ég er orðinn tíuþúsundkall

Núna á þessum hátíðardegi þegar við ætlum eina ferðinni enn að vinna Eurovision skal það upplýst að ég hef náð þeim merkisáfanga að vera kominn með heilar 10.000 flettingar á bloggsíðu mína eftir átta mánaða bloggstrit. Ég geri mér að vísu alveg grein fyrir því að þetta er ekki nema kannski vikuskammtur hjá þeim alsprækustu, en 10.000 er nú samt fín tala, þætti t.d. nokkuð góður áhorfendafjöldi á landsleik í fótbolta. Þegar ég kom inn á þennan bloggheim á sínum tíma var svo sem aldrei meiningin að gerast einhver stórbloggari eða allsherjar þjóðfélagsrýnir. Fyrir mér hefur þetta alltaf verið einhverskonar tómstundagaman þar sem ég fæ útrás fyrir áhuga minn á náttúruvísindum allskonar, en óhætt er að segja að þar komi veðurpælingar helst við sögu. Svo eru auðvitað ýmis hliðarskref sem snúast um samfélagið og umhverfi okkar bæði nær og fjær og sambúð okkar við það. Ég læt hins vegar dægurmálin og pólitíkina nánast alveg eiga sig því það mega aðrir sjá um það. Svo er ég lítið að blanda fjölskyldunni í þetta, enda er þetta heldur ekki svoleiðis. Ég skrifa ekki daglega, finnst alveg nóg að skrifa svona 2-3 í viku en eyði kannski þeim mun meiri tími í hverja færslu og hef allt ríkulega myndskreytt. Svona bloggskrif eru líka ágætis æfing í textaskrifum en það hef ég satt að segja ekki stundað áður, varla skrifað samhangandi setningar síðan ég lauk menntaskóla einhverntíma á síðustu öld. Ég er hinsvegar framhaldsmenntaður og starfandi sem grafískur hönnuður en í því starfi þarf ég ekkert að skrifa nema kannski eina og eina fyrirsögn eða slagorð.

Í fyrstu ætlaði ég ekki að segja neinum frá skrifum mínum og velti því fyrir mér að sleppa alveg bloggvinum en sá að það gekk ekki til lengdar þegar ég var stundum að fá jafnvel engar heimsóknir eftir ákaflega metnaðarfullar færslur sem ég hafði verið að útbúa í nokkra daga. Ég er alveg sáttur við þá hóflegu traffík sem er hér á síðunni í dag og ætla ekki að breyta ritstjórnarstefnunni en auðvitað þróast allt einhvernvegin til lengdar, hversu langur tími sem það er, en ég get þó sagt að ég hef haft það markmið að klára eitt bloggár og sjá svo til.

Eitt af hliðarskrefum á þessari síðu er tónlistin og frá áramótum ári hef ég verið með það sem ég kalla tónlistarmyndband mánaðarins. Frönsku Eurovisionlögin sem voru um daginn voru eiginlega aukanúmer, en hér kemur hið formlega tónlistamyndband mánaðarins, það er með hljómsveitinni 10.000 maniacs og heitir Like the weather. Gott lag og viðeigandi á þessum merku tímamótum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Til hamingju! Þú ert helvíti flottur tíuþúsundkall. 

Lára Hanna Einarsdóttir, 24.5.2008 kl. 16:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband