Stóra jeppavitleysan og stóra jeppageymslan

jepparÉg velti stundum fyrir mér hvernig samsetning bílaflotans hefur þróast undanfarið þar sem stór hluti umferðarinnar er núna stórir bílar svo sem jeppar og pallbílar allskonar. Sú þróun hefur orðið að jeppi er orðinn tákn um velgengni og því hafa menn fjárfest í dýrum og stórum jeppum sem mest þeir mega til að sýna velgengi sína og kraft. Þessir fínu jeppar eru samt misfínir, þeir allra fínustu og dýrustu eru sannkallaðir forstjórajeppar á meðan aðra mætti skilgreina sem millistjórnendajeppa en þeir eru ekki alveg eins fínir. Svo eru líka jeppar sem raunverulega eru gerðir fyrir torfærur, gjarnan upphækkaðir á ofurdekkjum og komast bæði yfir stórfljót og jökla. Allir þessir jeppar eiga það þó sameiginlegt að vera mest notaðir til daglegs brúks innanbæjar, hvort sem það er til að aka til og frá vinnu, í innkaup eða til að keyra börnin í leikskóla. Þetta er satt að segja hálfgerð vitleysa allt saman enda eru þetta eyðslufrek kvikindi, eru mengandi, taka mikið pláss og slíta gatnakerfinu með tilheyrandi svifryksmyndun. Ég held að æ fleiri séu farnir að átta sig á þessu, ekki síst nú þegar bensínverð ríkur upp og stjórnvöld farin að tala um að auka álögur. En það er nú samt að vissu leiti skiljanlegt að margir vilja eiga jeppa enda býður landið okkar upp á slíkt og möguleikar á skemmtilegum jeppaferðum eru margir bæði um sumar og vetur. En það breytir því ekki að torfærubílar eiga auðvitað ekkert heima í borgum.

Um þetta hef ég dálítið hugsað undanfarið en mín vegna mætti alveg takmarka jeppaumferð í borginni eins og farið er að gera sumstaðar erlendis. Það mætti byrja á stærstu jeppunum og pallbílunum en í staðinn væri hægt að byggja stóra jeppabílageymslu í útjaðri borgarinnar þar sem menn geta geymt tröllin sín þangað til þeir þurfa að skreppa út á land í leit að torfærum. Þessir jeppaeigendur geta svo fjárfest í léttum eyðslugrönnum bílum til að nota innanbæjar en ef menn vilja halda „kúlinu“ þá mætti útbúa miða til að líma á borgarbílana þar sem á stendur: „ÉG Á JEPPA Í GEYMSLU“. Nú vill svo til til að það er einmitt verið byggja tvö hús í útjaðri borgarinnar sem gætu verið tilvalin fyrir svona jeppageymslur en þar á ég við hin yfirgengilega stóru verslunarhús sem eru að rísa við Vesturlandsveg rétt hjá Korpúlfsstöðum. Ég held nefnilega að það væri mun skárri nýting á þessum húsum eða að minnsta kosti öðru þeirra að geyma þarna nokkur þúsund jeppa heldur en að auka við stórverslunarhúsnæði hér í borginni.

En jújú ég geri mér alveg grein fyrir að þetta er kannski óraunhæfar hugmyndir, allavega enn sem komið er. Sennilega er þessi hugmynd bara svo góð að hún er langt á undan sinni samtíð, en einhvernvegin svona getur samt verið að málin verði leyst í framtíðinni.

JEPPAGEYMSLAN


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mér finnst það nú fremur bera vitni um heimsku og umhverfissljóleika að vera á stórum jappa en velgengni og kraft. Þetta eru svona kraftidjótastælar.

Sigurður Þór Guðjónsson, 6.6.2008 kl. 15:54

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Því miður eru bara of fáir sem líta svona á málin. En kannski eru sumir farnir að sjá að sér.

Emil Hannes Valgeirsson, 6.6.2008 kl. 16:49

3 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Þetta er greinilega viðskiptatækifæri, jeppageymsla.

Hvet þig til að senda erindið til Borgar og Bæjastjóra á Höfuðborgarsvæðinu.

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 9.6.2008 kl. 14:00

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Já, kannski að maður sendi þetta á Hönnu Birnu.

Emil Hannes Valgeirsson, 9.6.2008 kl. 15:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband