Heim frá Barcelóna

Þá er tveggja vikna Barcelónaför lokið og ekki laust við að maður hafi tekið á sig smá lit í allri þeirri brakandi blíðu sem viðgengst á þarna á Spáni. Barcelónabúar vilja að vísu ekki kalla sig Spánverja, því þeir eru stoltir Katalóníumenn en þetta hérað á Spáni hét áður Gotalónía eftir Vest-Gotum sem þangað fluttu á tímum þjóðflutningana miklu í eldgamladaga. Það er lítið mál að hafa ofan af fyrir sér í þessari borg í tvær vikur enda afskaplega mikið að skoða og upplifa en sumstaðar er þó helst mikið túristum. Hitinn þarna yfir daginn var yfirleitt á bilinu 24-28 gráður sem er víst bara alveg eðlilegt þótt auðvitað geti orðið miklu heitara. Ekkert rigndi nema eitt kvöld en þá skilst mér að hafi fallið heilir 57 mm í tveimur úrhellisskúrum sem þá gerði.

Barcelona_internet

Þegar maður fer svona út í heim, sérstaklega á staði þar sem tungumálið er manni framandi er maður hálfpartinn út úr heiminum. Engin tölva var með í för, þannig að þetta var því í leiðinni ágætis bloggfrí og internetfrí sem er talsverð viðbrigði fyrir mig verð ég að segja. Samt ekki algert internetfrí því það kom fyrir að ég kíkti inn á internetsjoppuna í götunni til að taka stöðuna og þá ekki síst á veðrinu hér heima því ekki má koma eyða í veðurskráningar mínar.

Nú þegar heim er komið hef ég á tilfinningunni að ég hafi ekki misst af neinu merkilegu hér heima. Veðrið hefur þó staðið sig að mestu með prýði þótt engin hafi verið hitabylgjan í Reykjavík. Annars er bara sami barlómurinn og krepputalið hér ríkjandi í öllu sólskininu og ekki bætir úr skák að Fram, liðið mitt í fótboltanum, virðist vera framliðið eftir gott gengi fyrr í sumar. En mestu skipir þó að hafa ekki misst af stórskemmtilegum náttúruhamförum enda virðist hafa verið séð til þess. Að lokum er hér svo ein mynd sem ég tók síðustu nóttina í Barcelóna. Þarna er það bjarminn af tunglinu sem lýsir upp himininn bakvið húsið og ein stjarna að auki sem gæti verið sjálfur Júpíter miðað við birtu og stöðu. Kýs að kalla myndina: Nótt í Katalóníu.

Barcelona_nott


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Velkominn heim. Það er rétt, hér er sami barlómurinn og krepputalið en veðrið er búið að vera prýðilegt. Fengum nokkra rigningardaga sem var bara mjög gott - bæði fyrir gróður og mannfólk. Það var orðið æði þurrt og drullan sem fauk innum gluggana miklu meiri en í meðallagi.

Flott myndin af nótt í Katalóníu!

Lára Hanna Einarsdóttir, 19.7.2008 kl. 00:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband