Antonio Gaudí og fagurfræði náttúrunnar

Gaudí

Þegar maður heimsækir Barcelóna sem ferðamaður og lítur á þær fjölmörgu minjagripaverslanir sem þar eru fer ekki milli mála hvað það er sem þykir túristavænast öðrum atriðum fremur, en það eru verk hönnuðarins og arkitektsins Antonio Gaudí sem bjó þar og starfaði á áratugunum um og eftir 1900. Það eru þó ekkert óskaplega margar byggingar sem hann lætur eftir sig en hinsvegar þykja verk hans svo sérstök að nánast allar hans byggingar eru í dag ekkert annað en fjölsóttir ferðamannastaðir eða söfn þar sem gert er út á verk listamannsins.

Frægasta verk hans og um leið eitt aðalkennileiti Barcelónaborgar er án efa kirkjubyggingin mikla La Sagrada Familia, sem hafist var handa við að byggja árið 1882, en sökum þess hve óskaplega stór hún er og flókin í smíðum sér ekki enn fyrir endann á þeirri byggingarvinnu. Þeir 8 turnar sem þegar eru risnir eru ekki annað en aukaturnar við hlið aðalturnana sem hafa ekki enn verið reistir, þar sem sá hæsti í miðjunni mun rísa í upp í 170 metra hæð. Það sem gerir Verk Antonio Gaudís svo sérstök eru hin óvenjulegu bogadregnu form og skreytilist allskonar sem er fengin úr náttúrunni sjálfri. Þarna eru engar beinar línur, öll form eru lífræn og jafnvel burðarvirki bygginganna eiga sér fyrirmyndir í náttúrunni. Það sem vakti fyrir Gaudí á sínum tíma var að þróa nýjan byggingarstíl sem átti að taka við af hinum reglufasta nýklassíska stíl sem hafði verið allráðandi í byggingarlist Evrópubúa og er uppruninn frá forn-Grikkjum og Rómverjum.

Þessi nýi stíll sem Gaudí þróaði í byggingarlist er náskyldur Art Nouveau stílnum sem fleiri listamenn og hönnuðir voru uppteknir við um aldamótin 1900. Hugmyndafræðin er í þá áttina að líta á manninn sem hluta af náttúrunni í stað þess að líta á að náttúran eigi að vera undirgefin manninum. Þetta þýddi þó ekki að allt ætti að vera í óskipulagðri óreiðu eða bara einhvernvegin, náttúran býr nefnilega yfir ströngum verkfræðilögmálum sem bæði virka og geta búið yfir mikilli fegurð. En fagurfræðin er þó ekki bara sótt til náttúrunnar, flest það sem var framandi og dularfullt þótti spennandi og því var skreytilistin oft sótt til annarra heimsálfa eins og Afríku. Þetta á sér líka hliðstæðu í dálætinu á hinu dulræna og forna sem einkenndi hugarheim manna um 1900, einskonar rómantísk tíska sem skýtur upp kollinum af og til í menningarsögunni, síðast árið 1968 þegar menn hlustuðu á gúrúa frá Indlandi, boðuðu afturhvarf til náttúrunnar og frið á jörð.

Tímabil hinnar náttúrutengdu fagurfræði sem Antonio Gaudí aðhylltist varð ekki langt. Í rauninni þóttu byggingar Gaudí vera allt of framandi og furðulegar á sínum tíma, ásamt því að vera afar flóknar í byggingu þar sem nánast hver steinn hafði sína eigin lögun og öll smáatriði voru með sínu lagi. Á sama tíma var líka að koma fram ný byggingaraðferð sem byggðist á stálgrindum og nýr stíll sem kallaðist funktionalismi þar sem allar línur voru beinar og öll horn 90 gráður. Sú stefna átti eftir að sigra heiminn og er enn ráðandi í byggingarlist dagsins í dag og kemur m.a. fram í verðlaunatillögu að nýjum húsakynnum Listaháskólans sem á að rísa á Laugavegi (þar er hugsanlega enn eitt skipulags- og menningarslysið í uppsiglingu sem mætti skoða betur).

Myndirnar sem fylgja hér að ofan eru fengnar úr dagatali 2009 sem er helgað Antonio Gaudí, gefið út af Triangle Postals. Ljósmyndarar: Pere Vivas og Ricard Pla.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband