Ólympíuhitt og þetta

peking2008Þá eru hinir miklu kínversku Ólympíuleikar hafnir, hin glæsilega setningarathöfnin búin og athyglin loksins farin að beinast að íþróttunum sjálfum. Þessir leikar eru auðvitað mikið mál fyrir Kínverja sem voru svo vinsamlegir að skjóta skjólshúsi yfir leikana að þessu sinni, enda gefst þeim þarna tækifæri til að sanna sig og sýna hvers þeir eru megnugir. Ólympíuleikarnir eru auðvitað mikil auglýsing fyrir Kína, þótt sú auglýsing sé kannski ekki alltaf sú sem Kínverjar hafa óskað sér. Víða á vesturlöndum er litið á þetta sem Ólympíuleika loftmengunar, mannréttindabrota og yfirgangs stjórnavalda gagnvart minnihlutahópum þótt flestir Kínverjar líta á þetta sem stórkostlega sigurhátíð eigin ríkis.

Ég er ekkert sérstaklega fyrir það að sniðganga Ólympíuleika þótt gestgjafar séu svona og hinsegin. Það er samt ekkert að því að mótmæla og vekja athygli á málum sem eru ekki alveg í lagi, af þeim er víst nóg í Kína miðað við okkar fullkomnu vesturlönd, en margt af því hefði örugglega ekki verið eins áberandi í umræðunni Kína hefði ekki orðið fyrir valinu, ég nefni bara loftmengunina og Tíbetmálin sem dæmi.

Talandi um að sniðganga Ólympíuleika þá eru auðvitað eftirminnilegast þegar Sovétríkin og Bandaríkin sniðgengu Ólympíuleika hvors annars á meðan kalda stríðið var enn í gangi. Fyrst í Moskvu árið 1980 þegar Sovétmenn hertóku Afganistan, en það þótti mikill alþjóðaglæpur í þá daga. Það kom því engum á óvart fjórum árum síðar að austurblokkin svokallaða sniðgekk Ólympíuleikana í Los Angeles árið 1984. Sem varð reyndar okkur til happs því þá komst íslenska handboltalandsliðið á svona leika í fyrsta sinn og stóð liðið sig þar með prýði og íslenska handboltaævintýrið hófst fyrir alvöru. moskva1980

Árangur Íslendinga á Ólympíuleikum í gegnum tíðina hefur verið mjög glæsilegur ef sú skoðun er höfð í huga að þeir síðustu verða ávallt fyrstir og þeir fyrstu síðastir. Það leiðir aftur hugann að Ólympíuleikunum í Moskvu árið 1980, en þar keppti einn okkar besti 1500 metra hlaupari sem við höfum átt, Jón Diðriksson. Í þá daga voru engar beinar útsendingar í sjónvarpi en Ríkisútvarpið sendi hinsvegar lítt kunnan fréttamann, Stefán Jón Hafstein, til að lýsa beint viðburðum í útvarpi allra landsmanna. Stefán lýsti 1500 metra hlaupi Jóns Diðrikssonar af mikilli ákefð ekki síst vegna þess að Jón tók snemma forystu í hlaupinu. Allt hlaupið jós Stefán miklu lofi á hlaup Jóns Diðrikssonar, en þess á milli mátti heyra: „hann er fyrstur“hann er annar“hann er orðinn þriðji“hann dregst aðeins afturúr“hann kemur í mark og er … sjöundi í riðlinum“.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband