Kanínustrákurinn Simbi

Simbi3Nú er komið að fyrstu gæludýrabloggfærslunni á þessari síðu og kannski kominn tími til. Við erum samt ekki að tala um neina hunda eða ketti, heldur kanínu sem hoppar um á heimili bloggarans og ber nafnið Simbi.
Simbi er liðlega eins árs kanínustrákur, frekar smávaxinn, og hefur hárvöxt og lit sem minnir dálítið á hárvöxt ljóna enda er þetta eðalkanína af svokölluðu Lionhead-kyni. Það er hún Stefanía dóttir mín sem er löggildur eigandi Simba en hún var fljót að nefna hann þessu nafni í höfuðið ljónsungann úr Lion-King teiknimyndunum.

Við á heimilinu höfðum enga reynslu af kanínuhaldi þegar við tókum Simba að okkur í fyrrahaust og Simbi var heldur ekki mjög lífsreynd kanína þá, enda bara nokkurra vikna. Hann hefur alltaf búið innandyra en líkar ekkert vel við að vera lokaður inní búri svo hann fær bara að stjórna sínum ferðum sjálfur en á samt sitt búr sem hann hoppar úr og í þegar hann vill. Simbi2

Stundum fær hann þó að fara út í garð en þar er ýmislegt að róta í, skoða og smakka. Svo er líka ýmislegt innandyra sem Simba þykir gott að narta í. Bækur og blöð eru t.d. í miklu uppáhaldi en verra er með allar rafmagnssnúrurnar sem fyrir honum eru sem hinn besti lakkrís. Það hefur því þurft að gera ýmsar ráðstafanir svo við getum notið dásemda raftækninnar í friði.

Annars þarf yfirleitt lítið að hafa fyrir Simba, hann gengur hljóðlega um, felur sig gjarnan tímunum saman í innstu skúmaskotum eða situr hinn rólegasti á gólfinu með eyrun sperrt en það er sjálfsagt eðli kanína að vera varar um sig enda aldrei að vita hvar hætturnar leynast í þessum viðsjárverða heimi.

Simbi1


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessi gæludýrafærsla dugði til að ég hoppaði hingað inn á síðuna í snarhasti!   Hann Simbi er mega krútt!  Ég á einmitt svona lítinn kanínustrák sem "ömmubarn" - sonur minn og tengdadóttir hafa búið honum heimili s.l. tvö ár.  Hann gengur líka um laus og liðugur í íbúðinni þeirra og borðar pappakassa og bækur og blöð af bestu lyst!  Hann nennir sjaldan að vera inni í búrinu sínu - fer reyndar aðeins þangað inn til að gera þarfir sínar.  Hann er of þrifinn til að gera slíkt hvar sem er!  Ég hef aldrei áður kynnst kanínum og verð að segja að þetta eru alveg yndisleg dýr.

Malína (IP-tala skráð) 28.8.2008 kl. 19:35

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Mikið er hann Simbi ykkar fallegt dýr...

Lára Hanna Einarsdóttir, 29.8.2008 kl. 00:19

3 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Góðan dag ,,frændi" - en ég gruna þig sterklega um að vera skyldan mér, þó það sé tenging til lang-eitthvað, sé það á nöfnunum þínum og svipnum.  Svo er það líka skemmtileg tilviljun að dóttir mín, Vala  er stoltur eigandi að hvolpi sem einmitt ber nafnið Simbi. Hún fór nýlega með hann í röntgen þar sem hann bókstaflega étur ,,allt" og sáust m.a. hárteygjur í malla þess unga.

Til hamingju með sætu kanínuna ykkar.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 29.8.2008 kl. 09:03

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Sæl, Jóhanna. Já, ætli þú sért ekki frænka mín. Ég sver mig að ýmsu leyti í föðurættina.

Emil Hannes Valgeirsson, 29.8.2008 kl. 11:04

5 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Júbb, .. fann þetta í Íslendingabók; Charlotta amma mín og Carl Emil afi þinn voru systkini. 

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 29.8.2008 kl. 14:14

6 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það passar. Afi minn hét Carl Emil Ole Möller Jónsson og við erum að tala um Stykkishólm og nágrenni.

Emil Hannes Valgeirsson, 29.8.2008 kl. 14:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband