Að vera bloggari í vogarmerkinu

voginNú er runnin upp tími Vogarinnar samkvæmt stjörnuspekivísindum, það er svo sem ekki frásögum færandi nema vegna þess að þetta er mitt stjörnumerki enda á ég afmæli á næstunni. Ekkert stórafmæli þannig séð en samt persónulegt met í aldri. Við vogarfólk erum auðvitað afar merkilegt fólk sem vegur hlutina og metur áður en við fellum okkar dóm. Það er af því að við skiljum að á hverju máli eru tvær hliðar og á hvorri hlið geta verið ýmsir fletir og það þarf að taka með í reikninginn. Þetta getur samt orðið til þess að við eigum stundum erfitt með að taka afstöðu til mála eða þá að við höllumst að þeim málstað sem hallað er á. Við viljum nefnilega leita jafnvægis í öllu bæði hvað varðar ýmis sjónarmið og í lífinu almennt. Hitt er svo annað mál og önnur hlið á þessu að auðvitað er spurning hvort eitthvað sé að marka svona stjörnuspeki yfirleitt. Hvernig getur t.d. persónuleiki minn ráðist af afstöðu stjarnanna á þeirri stundu er ég kom í heiminn? Þarna er ég bara ekki alveg viss, þetta er eitthvað sem þarf að vega og meta.

Önnur tímamót hjá mér eru þau að nú er ég búinn að blogga hér í eitt ár. Á þessu bloggári hef ég fyrst og fremst fjallað um hluti sem ég hef gaman að skrifa um sjálfur og þá gjarnan um himinn og jörð en stundum sitthvað þess á milli eins og segir í ritstjórnarstefnunni. Ég hef hinsvegar látið lönd og leið allskonar dægurþras og pólitík og aldrei vogað mér að vega að einstaklingum. Kannski er það einmitt vogareðlið í mér sem veldur því að mér fellur það betur að skrifa um staðreyndir heldur en að fella sleggjudóma enda svo óskaplega meðvitaður um hliðarnar tvær á hverju máli.

En á svona tímamótum veltir maður því fyrir sér hvað gera skal á þessum bloggvettvangi ekki síst vegna þess að mér finnst stundum ég vera búinn að segja allt sem ég veit, nema að ég taki upp á því að gerast deilumálabloggari og þjóðfélagsumbreytir eins og margir eru svo uppteknir af og góðir í líka. Ég ætla samt að halda eitthvað áfram, það má t.d. alltaf skrifa meira um náttúruna og veðrið sem er síbreytilegt og svo er líka spurning hvort ég geti ekki bara endurtekið gamla pistla þegar þeir hafa náð því að vera ársgamlir. Það getur vel verið að ég geri það svona í bland við annað enda lagði ég stundum mikla vinnu í pælingar sem mjög fáir tóku eftir á sínum tíma. En þetta er auðvitað allt eitthvað sem ég þarf að vega og meta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þú náttúrulega hættir ekki að blogga, Emil. Það félli í grýttan jarðveg hjá okkur sem lesum allt sem þú skrifar.

Mér finnst alls ekki vitlaust að endurbirta gamla pistla. Ég hef gert það tvisvar, enda bloggsíðan mín mun meira lesin núna en fyrst þegar ég byrjaði að blogga og fjölmargir sem aldrei hafa séð eldri pistla.

Til hamingju með ársafmælið og þú ert rétt að byrja...  

Lára Hanna Einarsdóttir, 23.9.2008 kl. 12:11

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Við Vogarbloggararar vegum og metum.............. haltu endilega áfram

Hólmdís Hjartardóttir, 24.9.2008 kl. 02:37

3 identicon

Ég les yfirleitt bloggið þitt - ef það er einhver huggun!

Malína (IP-tala skráð) 24.9.2008 kl. 18:54

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það er auðvitað ágætt að vita að einhver nenni að lesa það sem maður skrifar. En annars er ég núna að hugsa um að hætta þegar ég er búinn að leysa lífsgátuna og heildarsamhengi veraldarinnar. Þar vantar bara herslumuninn en verst er að það vakna alltaf nýjar spurningar.

Emil Hannes Valgeirsson, 24.9.2008 kl. 21:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband