Drekasvæðið og opnunarsaga Norður-Atlantshafsins

Undanfarið hefur svokallað Drekasvæði verið í umræðunni í sambandi við hugsanlega olíuvinnslu. Ef svo fer að þarna finnist olía, hljóða villtustu draumar uppá að þarna sé hægt að vinna olíu sem jafnast gæti á við Norðursjávarolíu Norðmanna í magni talið. Það er þó langt í frá að eitthvað sé fast í hendi varðandi þetta enda hefur engin leit átt sér stað ennþá, aðeins jarðfræðilegar rannsóknir sem hafa gefið jákvæðar vísbendingar.

DrekasvaedidEn af hverju ætti að finnast olía við Ísland sem er eins og allir vita jarðfræðilega ungt svæði sem myndaðist á rekhryggnum á milli Evrópu og Norður-Ameríku? Olíulindir heimsins hafa orðið til vegna lífræns sets sem hefur safnast fyrir á óratíma og umbreyst í olíu við réttar aðstæður á fornum meginlandsskorpum jarðar. Þessar aðstæður eru alls ekki fyrir hendi á úthafsskorpunni sem okkur tilheyrir, nema þá að eitthvað af því svæði sé í raun meginlandsskorpa. Svo virðist einmitt vera raunin með Drekasvæðið svokallaða norðaustur af landinu og er nefnt eftir drekanum í skjaldamerkinu okkar. Þetta svæði er annars hluti af neðansjávarhrygg sem liggur suður af Jan Mayen og langleiðina að norðausturhluta Íslands. Þetta hef ég einmitt verið að skoða og búinn að útbúa þessi fínu kort sem eiga sýna opnunarsögu Atlantshafsins, teiknuð eftir bestu heimildum og eru vonandi alveg hæfilega rétt.

 

drekasvæði1 -54 milljón ár.

Norður-Ameríka og Evrópa voru lengi vel föst saman eins og reyndar öll meginlönd jarðar. Þetta stóra meginland fór að brotna upp fyrir ca. 150 milljón árum en þá byrjaði Suður-Atlantshafið að myndast. Langur tími leið þó áður en nyrsti hluti þess tók að gliðna en plötuskrið hófst þar fyrir um 75-80 milljón árum. Í fyrstu leit út fyrir að Grænland myndi fylgja Evrópu þegar það tók að færast frá Kanada vegna staðbundins plötuskriðs þar. Smám saman tognaði æ meir á svæðinu á milli Grænlands og Evrópu eftir endilöngum rekhrygg, sú tognun/gliðnun olli eldvirkni og landssigi sem með tímanum safnaði á sig lífrænum setlögum sem sum áttu eftir að lenda undir basalthraunum og varðveitast til okkar daga. Fyrir um 54 milljónum ára lá rekhryggurinn skammt frá núverandi strönd Grænlands en hliðraðist aðeins til austur skammt fyrir norðan Færeyjar sem í þá daga voru þarna í grenndinni, en auðvitað verður að hafa í huga allir landhættir voru allt öðru vísi en þeir eru í dag. Lituðu punktarnir eru þarna til að sýna afstöðubreytinguna miðað við kortin sem koma á eftir.

 

Drekasvæðið2-44 milljón ár.

Greinilegur úthafshryggur hefur myndast eftir 10 milljón ára rek Grænlands frá Evrópuflekanum. Á milli Færeyja og Grænlands er þversprungubelti sem hliðrar rekhryggnum til austurs norður af Færeyjum og er sá hluti kallaður Ægishryggur. Grönn punktalína við Grænland táknar upphaf nýs rekhryggjarhluta.

 

Drekasvæðið3 -26 milljón ár.

Gliðnun á Ægishrygg fer minnkandi uns hún hættir alveg. Á sama tíma eykst smám saman gliðnun á nýja rekhryggjarhlutanum austur af Grænlandi um leið og hann lengist til norðurs. Þetta veldur því að hluti meginlandsskorpunnar við Grænland brotnar frá og rekur í austur. Þar er kominn forveri Jan Mayen hryggjarins. Hér er elsti hluti Íslands farinn að myndast en á þessum tíma er talið að áhrifa Íslandsreitsins svokallaða hafi farið að gæta en það er heitur reitur með möttulstrók undir og veldur aukinni eldvirkni á svæðinu. Þessi heiti reitur tengdist ekki rekhryggnum í upphafi en með sameiginlegu reki Evrópuflekans og Norður-Ameríkuflekans til norðvesturs færðist þessi heiti reitur sem áður var undir Grænlandi sífellt nær rekhryggnum. Án samspils þessa heita reits og rekhryggjarins væri Ísland annað hvort miklu minna eða alls ekki til.

Drekasvæðið4

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Nútími.

Í dag er þá staðan svona. Meginlandsflísin sem áður var við Grænland er núna á miðju Atlantshafi sem neðansjávarhryggur suður frá þversprungubelti við Jan Mayen og suður til Íslands (Jan Mayen hryggurinn). Mörk meginlandshryggjarins eru þó ekki eins regluleg eins og þau eru sýnd hér enda allt mjög raskað. Það er nú jafnvel talið hugsanlegt að eitthvað af því forna bergi sem honum tilheyra nái jafnvel undir Austfirðina að einhverju leiti. Ísland er áfram í mótun, það gliðnar um 2 cm á ári og nokkurnvegin það sama og eyðist af því til beggja enda. Rekhryggurinn sem liggur um Ísland hliðrast til austurs í viðleitni sinni til að elta möttulstrókinn sem nú er talinn vera undir norðvestanverðum Vatnajökli (rauður hringur). Samband möttulstróksins og rekhryggjarins er annars kafli útaf fyrir sig sem mætti taka fyrir sérstaklega.

Og hvað svo?

Sú staðreynd að hér nálægt Íslandi er flís af meginlandsskorpu ættaðri frá landgrunni Grænlands er forsenda þess að við getum gert okkur vonir um að verða olíuþjóð í framtíðinni. Ef svo fer, þá er samt engin von um skjótfengan gróða enda mikið fyrirtæki að hefja olíuvinnslu út á reginhafi svo ekki sé talað um öll umhverfisáhrifin sem þessu hlýtur að fylgja. Það er þó búið að ákveða að hefja þarna rannsóknir í samvinnu við Norðmenn sem auðvitað kunna ýmislegt fyrir sér í þessum bransa. En svo maður blandi smá pólitík í þetta þá má segja að hér sé kannski komin aukin ástæða fyrir okkur að halla okkur meira að Norðmönnum með ýmis mál í stað þess að afsala okkar auðlindum til Evrópusambandsins.

 

- - - - - - 
Helsta heimild: Skýrsla ISOR unnin fyrir Iðnaðarráðuneytið, jan. 2007: Yfirlit um jarðfræði Jan Mayen svæðisins og hugsanlegar kolvetnislindir
Auk viðbótaupplýsinga frá Ara Trausta Guðmundssyni, jarðfræðingi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Sæll Emil, ég bætti tengingu inn á þessa fínu færslu hjá þér í lið númer 14)

C) ORKUIÐNAÐURINN

1) FLYTJA ÚT ÞEKKINGU - Í samvinnu við Sameiniðuþjóðirnar reka Íslendingar alþjóðlegan skóla sem kennir allt sem viðkemur orkuvinnslu með hjálp jarðgufu.

2) ÞRÓA AÐFERÐIR TIL AÐ NÝTA GUFUORKUNA BETUR - Aðeins er 10 - 15% nýting á þeirri orku sem kemur frá borholum í dag.

3) FRAMLEIÐA ELDSNEYTI Í SAMVINNU VIÐ ÁLVERIN - Nota útblásturinn frá borholum

4) FJÖLGA HEIMARAFSTÖÐVUM - Hér er lítill iðnaður sem mætti vel styðja við bakið á sjá HÉR

5) KANNA MÖGULEIKA Á OLÍUVINNSLU VIÐ ÍSLAND - Spurning um að leita til Norðmanna.

6) FINNA FLEIRI NOTKUNARMÖGULEIKA FYRIR HEITT VATN - Hér má nota frárennsli frá virkjunum. Meðalrennsli frá Reykjanesvirkjun er svipað og í Elliðaánum sem rennur ónýtt til sjávar. Ómar með blogg um vannýtingu á orku HÉR.

7) REYNA AÐ KOMA Á SAMSTARFI VIÐ FYRIRTÆKI SEM FRAMLEIÐA VINDMYLLUR - Spurning um að setja upp vindmyllur á Íslandi fyrir fyrirtæki eins og VESTAS. Ísland er kjörin staður til að álagsprófa slíkan búnað.

8) KANNA MÖGULEIKA Á STÓRFELLDRI FRAMLEIÐSLU Á VETNI Á ÍSLANDI - Nú er verið að þróa marga nýja notkunarmöguleika á vetni.

9) NÝTA VATNSORKUNA BETUR VIÐ KÁRAHNJÚKA - Það virðist vera mun meiri orka þarna á ferðinni en útreikningar sýndu á sínum tíma. Hvernig væri nú að virkja nýja fossinn?

10) ÚTFLUTNINGUR Á RAFORKU (Steinar I) - Leggja neðansjávar rafkapla til Evrópu og USA, jafnvel til Suðurameríku og Afríku. Sífeld þróun er á jarðstrengjum. Spurning hvert þróun á ofurleiðurum er komin.

11) STÓRAUKA METANFRAMLEIÐSLU (Kristín H) - Nýta metangas sem kemur frá svínabúum, hænsnabúum. Umhverfisvænt, kemur í veg fyrir að sjálft metangasið fari óhindrað út í andrúmsloftið (mun verri gastegund en koltvísýringur). Sparar innkaup á bensíni og olíu.

12) GERVITRÉ SEM BINDA KOLTVÍSÝRING ÚR ANDRÚMSLOFTINU - CarbFix verkefni Orkuveita Reykjavíkur miðar að því að kanna fýsileika þess að binda koltvísýring úr jarðhitagufu sem kristalla í basaltjarðlögum. sjá HÉR

13) ÓDÝRA RAFORKU FYRIR ÍSLENSKAN IÐNAÐ - Með því að bjóða íslenskum framleiðsluiðnaði ódýra raforku, þá má styrkja innlenda framleiðslu til muna og jafnvel styrkja útflutning. Gróðurhúsabændur (Ævar R). Aðgerð sem þarf ekki að kosta mikið en getur haft mikil óbein áhrif á samfélagið.

14) OLÍUVINNSLA Á AUST- OG VESTFJÖRÐUM - Hér eru fréttir sem benda á hugsanlega nýtanlegar olíuauðlindir undir Aust- og Vestfjörðum. sjá HÉR og Drekasvæðið HÉR. Líklega koma Þá Norðmenn og jafnvel Danir sterkir inn. Sjá einnig HÉR og HÉR.

15) SJÁVARFALLAVIRKJANIR (Hlynur Þ) - Á Íslandi eru margir góðir staðir sem eru nánast tilbúnir þar sem hægt er að setja upp stórar sjávarfallavirkjanir. sjá HÉR. Sjávarorka ehf í Stykkishólmi hefur verið leiðandi í að kanna möguleika á að virkja HÉR.

16) ÍSLENSK ORKUFYRIRTÆKI VEKJA ÁHUGA, NÝTA MEÐBYRINN - Hér má lesa góða frétt um velgengni Íslendinga í orkumálum. sjá HÉR

17) PAPPÍRSVERKSMIÐJA Á HELLISHEIÐI - Hér má lesa frétt um hvernig nýta má betur alla umfram orkuna (ca. 75% sem fer til spillis í dag) í pappírsframleiðsli. sjá HÉR

Kjartan Pétur Sigurðsson, 29.11.2008 kl. 11:13

2 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Ég þakka þér kærlega fyrir þessa fróðlegu færslu, en það er gott að fá þetta sett fram á svo einfaldan hátt, sem hér er gert.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 29.11.2008 kl. 12:35

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Gallinn við hugmyndir um að virkja yfirfallið á Kárahnjúkastíflu er sá að þar rennur aðeins yfir í nokkrar vikur á haustin. Öll nýtingahugsun hér miðast við álver sem þurfa stöðuga orku.

Svipað er að segja um sjávarfallaorkuna, þar sem engin orka er framleidd á liggjandanum á milli útfalls og innfalls.

Það þyrfti að vera til annað svæði á borð við Breiðafjörð annars staðar til að jafna þetta upp.

Ein lausn er sú að tengja Ísland við streng til Skotlands en þá tapast mikil orka.

Ómar Ragnarsson, 29.11.2008 kl. 17:58

4 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Það hafa verið uppi ýmsar hugmyndir þegar framleiðslan á orkunni er óstöðug.

T.d. mætti vera með tímastýrða hleðslu á rafbílum, dæla vatni öfuga leið í uppistöðulón, framleiða vetni eða annað eldsneyti, hita upp mikið magn af vatni þar sem heitt vatn er ekki aðgengilegt ...

Í dag eru sérstakir samningar í gangi gagnvart stórnotendum á rafmagni þannig að vinnsla sé í gangi þegar nóg er til af rafmagni. Einnig mætti semja við aðila eins og gróðurhúsaeigendur að gervisólin hjá þeim sé í fasa við sjávarföllin ...

Varðandi sæstreng, að þá eru gríðarleg töp og mikil hitamyndun í dreifikerfinu. Aðeins sú aðgerð á sínum tíma að hækka veituspennuna úr 220 volt AC í 230 volt AC minnir mig að hafi sparað um 10% í dreifikerfinu og er það aðal ástæðan fyrir því að það er reynt að hafa spennuna eins háa og hægt er. Vandamálið á móti er að það er svo erfitt að búa til nógu góða einangrun sem myndi halda í mörg ár án vandamála t.d. á miklu dýpi í sjónum.

Mig minnir að til að mæla háspennu að þumalputtareglan sé sú að fyrir hvern 1 cm loftbil á milli póla að það þurfi 10.000 volt spennu til að láta neista hlaupa á milli. Ef að við erum með 220.000 volta línu, að til að neisti hlaupi ekki á milli póla, þá þarf fjarlægðin að vera að lágmarki 22 cm á milli pólana. Þegar svo leiðarinn er komin í vatn, þá verður þetta margfalt verra og má ekki koma minnsta sprunga á kápuna eða einangrunina svo að það verði ekki útleiðsla sem myndi slá út öllu kerfinu og allt yrði stopp í LANGAN tíma!

Kjartan Pétur Sigurðsson, 1.12.2008 kl. 23:05

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Án þess að þekkja vel til svona orkumála þá ímynda ég mér einmitt að hentugt sé að framleiða t.d. vetni með orkugjafa sem ekki er stöðugur.

Emil Hannes Valgeirsson, 2.12.2008 kl. 00:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband