Um hagfræði Björns í Brekkukoti

Ég ætla að leyfa mér í þessum pistli að birta smákafla úr bókinni Brekkukotsannál eftir Halldór Laxness þar sem söguhetjan Álfgrímur fjallar um útgerð afa síns Björns í Brekkukoti:

Björn í BrekkukotiÉg var ekki gamall þegar ég komst á snoðir um að sumir fiskikarlar voru afa mínum sárir af því hann seldi stundum suma soðníngu ódýrra en aðrir menn; þeir kölluðu ódreingilegt að etja með lægri boðum kappi við góða menn. En hvursu mikils virði er einn rauðmagi? Og hvurs virði er pundið í ýsunni? Ellegar kolinn? Það liggur kanski næst að svara þeirri spurníngu, og segja: Hvað kostar sólin, túnglið og stjörnurnar? Ég geri ráð fyrir að afi minn hafi svarað þessu svo með sjálfum sér, undirskilvitlega, að rétt verð, til að mynda á rauðmaga, sé það verð sem kemur í veg fyrir að upp hrúgist hjá fiskimanni peníngar umfram það sem þarf til nauðsynja.

Eftir hagfræðilegu lögmáli hneigðust menn til að hækka verð á fiski þegar afli var tregur eða daufar gæftir, allir nema Björn í Brekkukoti. Kæmi einhver til hans og segði: ég skal kaupa af þér alt sem þú hefur á börunum í dag við helmíngi eða jafnvel þrisvar sinnum hærra verði en vant er, þá leit hann með tómlæti á þann mann er slíkt boð gerði, og hélt áfram að vega í reislunni sinni eitt og eitt pund ellegar afhenda mönnum einn og einn rauðmaga uppúr börunum eftir því hvað hver þurfti í soðið, og við sama verði og venjulega. … En þegar ört var framboð og flestir fiskimenn þóttust tilknúðir að lækka fiskverð sitt á götunni, þá hvarflaði aldrei að afa mínum að lækka sig, heldur seldi hann afla sinn við sama verði og hann var vanur; Þá var fiskurinn orðinn langdýrastur hjá honum. Þannig afneitaði afi minn Björn í Brekkukoti grundvallaratriðum hagfæðinnar. Þess maður bar í brjósti sér dularfullan mælikvarða á penínga. Var þessi mælikvarði réttur eða rangur? Var kanski mælikvarði bánkans réttari? Vel má vera að hann hafi verið rangur hjá afa, en þó ekki rangari en svo að flestir sem höfðu vanist á að kaupa hjá honum fisk upp úr hjólbörum hans, þeir komu til að versla við hann einnig þá daga sem fiskurinn var dýrari hjá honum en öðrum mönnum. … menn trúðu því að að hann Björn í Brekkukoti drægi með einhverjum dularfullum hætti betri og fallegri fiska uppúr sjónum en aðrir menn. Og þessvegna vildu allir kaupa fisk hjá Birni í Brekkukoti, einnig þá daga sem fiskurinn var dýrari hjá honum en öðrum mönnum“

- - - - -

Burt séð frá því hversu ágætur texti þetta er hjá skáldinu þá er ekki víst að hagfræðin hans Björns í Brekkukoti sé gagnlegt innlegg í öllum þeim fjárhagsvangaveltum sem nú eru uppi. Allavega þá hefur ekki verið litið á það sem vandamál ef það ólíklega gerist að peningar hrúgist upp umfram það sem fólk þarf til nauðsynja.

Hagsveiflur eiga sér stað nú sem aldrei fyrr. Þar skiptast á gylliboð og verðbólgur sem margir fara flatt á. Sérstaklega er þetta varasamt þegar peningarnir sjálfir bjóðast á undirverði því þá æsast menn upp í góðærisgleði, slá lán og fjárfesta sem mest þeir mega fyrir þær tekjur sem væntanlegar eru í framtíðinni. Margir fara því inn í krepputíð sem óhjákvæmilega fylgir uppsveiflum með allt of miklar fjárhagsskuldbindingar á bakinu í stað þess að nota góðærið til að safna saman smá hrúgu af peningum sem nýtist þegar ver árar. Það eru nefnilega engir Birnir í Brekkukotum lengur sem bjóða alltaf sama verð, sérstaklega ekki á peningum því þeir lúta lögmálum framboðs og eftirspurnar eins og annað í dag.

- - - - - 

Á meðfylgjandi mynd sést Þorsteinn Ö. Stephensen í hlutverki Björns í Brekkukoti í sjónvarpsþáttunum sem gerðir voru eftir sögunni árið 1972.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Guðmundsson

Það var gaman að rekast á þessa færslu þína Emil. Ég hef reyndar stundum leitað í síðuna þína þegar allt hefur ætlað um koll að keyra, bara til að lesa þínar zen-isku hugleiðingar um náttúruna og veðrið. Þessi kafli úr Brekkukotsannál minnir mig reyndar mikið á Dúfnaveisluna sem ég átti reyndar á kassettu og hlustaði reglulega á sem krakki og unglingur. Mér fannst það alltaf eitthvað svo fyndið og greindarlegt í senn þegar pressarinn biður náðasamlegast um að fá ekki greitt fyrir vinnu sína vegna þess að húsið hans er allt fullt af seðlum sem honum finnast fyrst og fremst vera fyrir sér í lífinu. Ég ætla svo sem ekki leggja út frá þessari hugsun pressarans enda ekki nógu mikill hugsuður til þess en þetta ágæta leikrit hefur nokkrum sinnum komið upp í huga minn síðustu daga og vikur.

Takk fyrir skemmtilega heimasíðu, ég stal myndinni sem þú birtir með, hún er vel þegin, bestu kveðjur. Steini.

Þorsteinn Guðmundsson, 25.11.2008 kl. 23:06

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Takk fyrir innlitið Steini, maður veit aldrei hverjir detta inn á þessa síðu en ég áttaði mig reyndar á því þegar ég setti myndina inn að þú átt væntanlega eitthvað sameiginlegt með Álfgrími. Þessi skáldsaga og sjónvarpsþættirnir sem voru gerðir hafa alltaf verið í uppáhaldi hjá mér, það stóðu sig allir frábærlega sem komu að því.

„Zen-ískt“ – það er væntanlega einhver Kínamannaspeki, sem ég kann lítið í nema þá alveg óvart.

Emil Hannes Valgeirsson, 26.11.2008 kl. 00:06

3 Smámynd: Þorsteinn Guðmundsson

Ha ha nei, einmitt, ég held að það sé einmitt pointið með Zen búddisma, ef þú fattar hann þá fattar þú hann ekki. Kjörin heimspeki fyrir vingul eins og mig.

Kærar kveðjur.

Þorsteinn Guðmundsson, 26.11.2008 kl. 00:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband