Spáð í veðurfréttir

Þar sem ég spái mikið í veður eru veðurfréttir auðvitað eitt af mínu uppáhalds sjónvarpsefni. Sérstaklega er það veðurfréttatíminn á RÚV eftir kvöldfréttir sem ég vil helst ekki missa af en þá má ekki ónáða mig á nokkurn hátt og símhringingar eru illa séðar. Undir þessum sjónvarpslið veitir heldur ekki af allri athygli óskertri því að í einum veðurfréttatíma er farið yfir mörg veðurkort á stuttum tíma og mikið upplýsingamagn sem þarf að innbyrða.

Oft veltir maður fyrir sér framsetningu veðurfrétta, sérstaklega á RÚV. Óneitanlega eru kortin þar áferðafalleg og skýr en samt kemur það fyrir, þrátt fyrir að enginn hafi ónáðað mig, né síminn hringt, að veðrið fari fyrir ofan garð og neðan hjá mér, ólíkt því sem gerðist áður fyrr þegar snúningskassinn með handteiknuðu kortunum var og hét. Kannski er mér bara farið að förlast með aldrinum, en kannski ekki. Hér ætla ég að spá í veðurfréttatíma RÚV sunnudagsins 13. september en þann dag hafði verið spáð miklum hitum á norðausturlandi. Ég tek fram að ég hef ekkert út á veðurfréttakonuna sjálfa að setja, hún kláraði sitt af miklum myndarskap. Hinsvegar er alveg spurning hvort það sé til bóta að hafa veðurfræðinga í mynd. Er kannski betra að hann eða hún víki til hliðar eftir smá inngangsorð og noti síðan bendiprik. Kannski þykir það ekki nógu sjónvarpsvænt, en þegar fólk er í mynd tekur alltaf mestu athyglina til sín.

vedurfrettir RUV 1
Fyrstu kortin eru yfirlitskort. Bæði sýna þau þrýstilínur, hæðir og lægðir, úrkomusvæði og hitastig á nokkrum stöðum. Seinna kortið er hitakort og sýnir hitann í ákveðinni hæð. Bæði kortin hreyfast, og sýna þróunina frá hádegi til kvölds daginn eftir. Kannski er bara ruglandi að sýna þetta á tveimur kortum frekar en í einu. Hitakortið er að vísu mjög upplýsandi, en með því að hafa þetta í tvennu lagi er verið að flakka fram og til baka í tíma. Stundum eru veðurskil teiknuð inná upphafskortið en eftir að kortið fer á hreyfingu hverfa þau og sjást ekki meir í veðurfréttatímanum. Skil finnst mér alveg bráðnauðsynleg á veðurkortum, sérstaklega ef maður skilur um hvað þau snúast. Áður fyrr sáust veðurskil alltaf á veðurkortum (hitaskil, kuldaskil og samskil), þau segja til um hverrar tegundar loftmassinn er og hvar einn loftmassinn tekur við af öðrum.

vedurfrettir RUV 2
Svo koma Íslandskortin og það allt spákort. Nú spyr maður, hvar er kortið sem sýnir veðrið á landinu í dag? Mikilvægi veðurfregna finnst mér ekki bara felast í veðurspám heldur líka hvernig hefur viðrað. Venjulegir fréttatímar snúast t.d. mest um það sem hefur skeð en ekki bara um það sem á að gerast. Einu upplýsingarnar um veðrið á landinu í dag eru á stóra yfirlitskortinu í upphafi. Þar er að vísu sagt lítillega frá veðri dagsins á landinu en það fer sennilega framhjá flestum því kortið er að sýna allt annað á meðan. Íslandskortin líta þó ágætlega út. Í gamla daga voru notaðar vindörvar með mismörgum strikum eftir því sem hvassara var en þannig fékkst góð tilfinning fyrir vindstyrk án þess að þurfa að lesa tölur. Veðurspákortin áður fyrr voru líka almennt þannig að veðrið var verra eftir því sem fleiri strik voru á kortinu. Hér vantar að sjálfsögðu líka veðurskilin ef þau eru á annað borð yfir landinu, stundum er talað um skil þótt séu ekki sýnd og bent á hvar þau liggja, en einfaldast væri bara að sýna þau.

vedurfrettir RUV 3
Síðan koma fleiri veðurspákort hvert á eftir öðru marga daga fram í tíman og þá eru þrýstilínur horfnar. Stundum er dvalið lengi við hvert og eitt þeirra og farið út í meiri smáatriði en efni standa til miðað við ónákvæmni margradaga-spáa. Hér mætti alveg sleppa síðasta kortinu og hafa í staðinn í veðurkort dagsins í upphafi veðurfréttatímans. Langtímaspákortin finnst mér reyndar að mættu vera yfirlitskort eins og er í upphafi veðurfréttanna þar sem hægt er að sjá veðurkerfin í heild sinni og að sjálfsögðu með skilum. Þannig sér maður hvar nýjar lægðir eru að myndast eða hæðir að fikra sig til, sem einmitt ættu að vera aðalatriðin í margradagaspám.

vedurfrettir RUV 4

Eftir öllum Íslandskortunum er svo spákort fyrir Evrópu, þar er staldrað mjög stutt við. Enn eru engin skilakerfi eru sýnd. Nokkrir dropar hér og þar ásamt sólum og hitastigstölum. Í blálokin er aftur varpað fram spákorti morgundagsins til upprifjunar, sem er ágætt og eiginlega bjargar málunum eftir alla kortasúpuna.

Kannski eru margir vel sáttir við þessa framsetningu á veðri þótt ég sé með einhverjar athugasemdir. Veðurfréttatíminn er mjög knappur og lítill tími til sérstakra útskýringa sem koma veðurspánni ekki beint við. Ég held þó að veðurfréttir séu það vinsælt sjónvarpsefni að það mætti alveg staldra oftar við ýmis atriði. Það er þó einstöku sinnum gert, t.d. var sýnd gervihnattamynd í upphafi þessa veðurfréttatíma, sem ég náði reyndar ekki á mynd.

 - - - - - -

Ég sleppi því núna að minnast á veðurfréttir á Stöð2. Sé þær að vísu sjaldnast því þær falla ekki inní sjónvarpsrútínuna hjá mér, en svona almennt þá finnst mér þær ekki minna ruglingslegar. Siggi Stormur finnst mér þó ágætur að því leyti að hann lætur ýmislegt flakka og getur komið með skemmtilega útúrdúra eins og til dæmis þegar hann birti þessa ljósmynd á sínum tíma og spurði: Hvað er þetta? Ég veit allt um það, enda var það bara ég sjálfur sem tók myndina en hana sendi ég í veðurljósmyndasamkeppni. (Stóðst ekki mátið að koma þessu að)

Siggi Stormur - veðurmynd


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Emilsson

Satt og rétt hjá þér frændi. Þessi kort er miklu líkari jólakortum. Í ´gamladaga´ var sagt frá veðri og aflabrögðum, í samræmi við áhuga, sem byggðist á lífsafkomu fólks. Lægðirnar koma og fara eins og ekkert hafi í skorist. Maður heyrir ekki mikið um flóðahættu og hækkun yfirborðs sjávar Íslandi. Annarstaðar eru menn að búa sig undir slíkar hamfarir í fullri alvöru,

Björn Emilsson, 15.9.2009 kl. 04:58

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Já, þetta með flóðahættuna er sennilega meira alvörumál víða um heim en hér á Íslandi, t.d. á Flórída, New York og London. En lægðirnar koma fara, en sumar þeirra eru merkilegri en aðrar og mætti alveg taka fyrir sérstaklega. Nú eru líka monsoon-rigningarnar að hefðast hér á Íslandi með hverri lægðinni á eftir annarri, en þannig hafa haustin verið hér síðustu ár.

Emil Hannes Valgeirsson, 15.9.2009 kl. 11:48

3 identicon

Sammála þér í þessari greiningu, það eru tækifæri til úrbóta og mætti gjarnan líta til fyrri tíðar fyrirmynda. Sérstaklega þykja mér vindhraðatáknin óþægileg, stundum fer mestur tíminn í að rýna í tölurnar og þá vilja önnur atriði á viðkomandi korti fara forgörðum.

Skilin og staðsetning veðurkerfa í stærra samhengi telst einnig skipta máli fyrir þá sem átta sig á áhrifum lægða og hæða og líklegum ferli þeirra.

Hitt er annað að sennilega telst veðurspá ekki eins mikilvæg stærstum hluta áhorfenda og áður og þess vegna reynt að stytta hana eins og hægt er. Það er stundum áþreifanlega og jafnvel ámátlega áberandi þegar spánni er "þjappað saman" og jafnvel klippt á áður en veðurfræðingurinn nær að kveðja.

Að lokum langar mig að nefna Aron nokkurn sem stundum les veðurfréttir í útvarpi og hæla honum sérstaklega. Hann kveður oftast með nokkuð sérstökum hætti og bætti jafnvel við á tímabili í sumar óskum um að fólk nyti dagsins/kvöldsins/helgarinnar. Ég hef reyndar ekki heyrt í honum alveg nýlega og vera má að sett hafi verið ofan í við hann vegna þessa en mér þótti þetta ánægjuleg tilbreyting. Rétt eins og "handarsveiflukveðja" Þórs Jakobssonar var alveg ómissandi í sjónvarpinu á sínum tíma.

TJ (IP-tala skráð) 15.9.2009 kl. 14:24

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég vil bara hafa fáklæddar stelpur í veðurfréttunum með þéttar þrýstilínur. Þá myndi maður kannski nenna að horfa. Sjónvarpsveðurfréttir voru eyðilagðar fyrir mörgum árum.

Sigurður Þór Guðjónsson, 15.9.2009 kl. 19:59

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þetta eru alveg þúsund fimmtíu og tveggja hektópaskala athugasemdir.

Emil Hannes Valgeirsson, 15.9.2009 kl. 22:45

6 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Höskuldur Búi Jónsson, 16.9.2009 kl. 14:02

7 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Það var nú ein þrýstin í flegnum kjól fyrir Sigga um daginn. Ég man að ég hugsaði með mér að nú myndu nokkrir karlar alveg missa af kortinu vegna annars útsýnis.

En ef ég þarf einhvern tíma að hringja í þig, Emil, þá veit ég núna nákvæmlega hvenær það verður! 

Lára Hanna Einarsdóttir, 18.9.2009 kl. 00:24

8 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Jæja Lára. Ef þú villt hitta illa á mig þá er símatíminn uppúr kl 19.30. Ég er líka með á nótunum varðandi fyrra atriðið sem þú nefnir.

Emil Hannes Valgeirsson, 18.9.2009 kl. 00:58

9 Smámynd: Kama Sutra

Alltaf skemmtilegar vangaveltur hérna. 

Kama Sutra, 18.9.2009 kl. 01:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband