Maðurinn sem minnkaði

Það er eiginlega ekki annað hægt á þessum degi, sem er afmælisdagur sjónvarpsins 30. september, en að minnast á eina allra eftirminnilegustu mynd sem ég hef séð í sjónvarpinu og kostaði mig ófáar andvökunætur lengi á eftir. Þetta er myndin Maðurinn sem minnkaði (The incredible shrinking man) frá árinu 1957, sem var sýnd í Sjónvarpinu nítjánhundruð sjötíu og eitthvað, þegar ég var sjálfur miklu minni en ég er í dag.
Söguþráður þessarar myndar er í rauninni einfaldur. Maður einn tók upp á því að minnka eftir að hann lenti í óvenjulegri þoku, þar sem hann var staddur í bát ásamt ósköp venjulegri konu sinni, sem hinsvegar var svo heppin að vera stödd neðanþylja á meðan. Nokkrum dögum síðar kom í ljós að ekki var allt með felldu, þegar skyrtan sem hann ætlaði í, var orðin of stór. Fleiri atvik leyddu þann sannleika í ljós að maðurinn var farinn að minnka og hvorki læknar né vísindamenn vissu sitt rjúkandi ráð.
Eftir ýmsar dramatískar uppákomur hafði maðurinn búið um sig í góðu yfirlæti í dúkkuhúsi á heimili sínu. Vandræðin byrjuðu hinsvegar fyrir alvöru þegar kattarkvikindið komst óséð inn á heimilið, þegar konan hafði brugðið sér út. Manninum tókst með snarræði að flýja inn um kjallaradyr og þar niðri þurfti hann að heyja harða lífsbaráttu innan um stórhættulega könguló. Upp úr kjallaranum komst hann ekki aftur og náði ekki að gera vart við sig þegar konan fór niður í kjallara.
Þó að þetta sé æsispennandi og ógnþrungin saga þá var það eiginlega endirinn sem gerði útslagið. Maðurinn hélt bara áfram að minnka og átti að lokum kost á því að komast í gegnum fuglanetið í kjallaraglugganum og út í garð. Þar úti beið ekkert nema himinhár gróður og risastórir spörfuglar.

Ég held ég verði áræðanlega andvaka eftir að hafa skrifað þetta. Þessa tilhugsun um að minnka endalaust er erfitt að sætta sig við. Hvað ef maður stækkar endalaust, er það betra? Hér kemur sýnishorn úr myndinni, sem er ekki bara sjónvarpsnostalgía mánaðarins á þessari síðu, heldur sjónvarpsnostalgía allra tíma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vá hvað ég man eftir þessari mynd, þótti óskaplega spennandi :)

Margrét (IP-tala skráð) 30.9.2009 kl. 08:08

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

MAn eftir þessu, en það er draugurinn Belphégor, sem situr mér fastast í minni og margar átti ég svefnlausar næturnar eftir að hafa stolist til að horfa á hann.

Jón Steinar Ragnarsson, 30.9.2009 kl. 13:43

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég kannast hinsvegar ekki við þennan Belphégor.

Emil Hannes Valgeirsson, 30.9.2009 kl. 14:42

4 Smámynd: Rauða Ljónið

Man eftir henni hún fær.  góða dóma 7.7 af 10.

 Kv. Sigurjón Vigfússon

Rauða Ljónið, 30.9.2009 kl. 14:50

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Belphegor var vofa sem ráfaði um Louvre safnið og myrti fólk. Þetta var sennileg fyrsta sjónvarpserían, sem var stranglega bönnuð börnum.  Þetta voru franskir þættir.  Alger klassík.

Jón Steinar Ragnarsson, 30.9.2009 kl. 16:41

6 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Skelfilegasta mynd sem ég hafði séð... köngulóin maður. Man enn eftir jukkinu sem lak niður títiprjóninn. Mun geima hana í minningunni, það verður oft svo lítið úr svona myndum þegar maður horfir á þær á fullorðinsárum

Haraldur Rafn Ingvason, 2.10.2009 kl. 20:05

7 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Belphégor-þættirnir voru í íslenska sjónvarpinu rétt eftir 1970 og voru gríðarlega vinsælir enda ekki um annað sjónvarpsefni að ræða og ekkert videó.

Sigurður Þór Guðjónsson, 9.10.2009 kl. 01:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband