Útsynningur á gervitunglamynd

Ég get ekki stillt mig um að birta þessa gervitunglamynd frá því í gær 8. mars sem sýnir éljaloftið sem streymir hingað frá köldu svæðunum í vestri. Ísland er til hægri á myndinni, að mestu í skýjaþykkni, en vel sést í suðurhluta Grænlands. Ískalt heimskautaloftið blæs suður frá ísjaðrinum vestan Grænlands og síðan í fallegum boga suður fyrir og dreifir úr sér og berst með suðvestanáttinni hingað. Það má líka greina lægðarmiðju í éljaloftinu milli Íslands og Grænlands sem á sína sök á þessu öllu saman. Það má vel ímynda sér að mikill vindstrengur sé við suðurodda Grænlands sem éljaböndin raða sér eftir. Vindurinn sem blæs frá ísbrúninni af miklum móð þarna vestanmegin hlýtur að auka útbreiðslu íssins vestan Grænlands auk þess sem nýmyndum íss hlýtur að vera talsverð. 

Éljaloftið myndast þarna eins og endranær þegar kalda loftið berst yfir hlýrri sjó, þannig að neðstu loftlögin hitna og loftið gerist æði óstöðugt. Fer ekki nánar út í svoleiðis en bloggveðurfræðingarnir okkar, þeir Einar og Trausti eru báðir með mjög svo fræðilega pistla um ástand mála.

Útsynningur 8. mars 2012

Myndin er skjáskot af vefsíðu NASA - Arctic Mosaic. Þetta er hluti stórrar myndar af Norður-Heimskautasvæðunum sem uppfærist smám saman á hverjum degi.

Slóðin er: http://rapidfire.sci.gsfc.nasa.gov/subsets/?mosaic=Arctic

 


Hásæti Satans í Berlín

Um daginn var sýndur tónleikaþáttur með þungarokkshljómveitinni Iron Maiden í Sjónvarpinu. Þegar sveitin hafði tekið sitt þekktasta númer, 666 - the Number of the beast fannst mér komið gott að sinni, enda enginn sérstakur þungarokksaðdáandi. Eftir smá flakk á milli stöðva staðnæmdist ég við ansi athyglisverðan, en þó mjög undarlegan fræðsluþátt á Ómega sem ég hef eitthvað séð af áður á sömu stöð en þar er fjallað um þau myrkraöfl sem óðum eru að ná tökum á Evrópu með ófyrirséðum afleiðingum. Já það var eiginlega bara gefið í skyn að Satan sjálfur væri að leggja undir sig álfuna án þess að íbúarnir áttuðu sig á alvarleika málsins og lýsti sér meðal annars í gyðingahatri Evrópubúa ásamt undirgefni gagnvart múslimum.

EvrupeningurÞað er erfitt að rekja í stuttu máli allt það sem kom fram í þættinum en það má reyna. Fyrst skal nefna hina nýju táknmynd Evrópu sem sýnir Evrópumærina ríðandi á bola. Sú táknmynd kemur meðal annars fram í evrupeningum sumra landa og ekki síst sem skúlptúrverk fyrir framan einhverja af byggingum Evrópusambandsins í Brussel. Þarna er vísað í fornar sagnir um Gríska himnaguðinn Seif sem brá sér gervi bola, narraði Evrópu á bak sér, hljóp með hana út á haf og nauðgaði henni áður en hann afhúpaði hver hann væri í raun. Átti svo með henni þrjú börn.

Hásæti SatansPergamon-altarið
Hið alvarlegasta af öllu alvarlegu er, samkvæmt því sem fram kom í þættinum á Omega, hið alræmda Pergamon altari sem staðsett er í samnefndu safni í Berlín. Þetta er talsvert mannvirki sem Hellenar reistu á vesturhluta Tyrklands á 2. öld fyrir Krist, sennilega til heiðurs guðunum og þá ekki síst Seifi sjálfum, höfuðguði Grikkja.

Samkvæmt sjónvarpsþættinum er tengsl þessa mannvirkis við myrkraöflin alveg ljós útfrá því sem fram kemur í Opinberunarbók Jóhannesar: „Engli safnaðarins í Pergamos skaltu rita: Þetta segir sá sem hefur sverðið tvíeggjaða og beitta: Ég veit að þú býrð þar sem hásæti Satans er.
Pergamon hefur ekki verið talinn góður staður fyrir gyðinga og með krókaleiðum er hægt að finna út að Seifur er í raun sá sem múslimar tilbiðja í raun og veru, eða tunglguðinn. Þessi tunglguð er Satan sjálfur sem hefur bæði horn og klaufir eins og við vitum. Hornin hafa sama form og mánasigðin sem er einmitt tákn múslima.

Seint á 19. öld hóf Þýskur fornleifafræðingur rannsóknir á rústum þessa altaris og fór svo að það var flutt til Þýskalands stein fyrir stein og endurbyggt. Fyrst árið 1901 og síðar í nýju safni sem opnaði í Berlín árið 1930. Ekki þarf að spyrja að afleiðingunum því upp úr því hófst uppgangur Nasismans í Þýskalandi með öllu því sem því fylgdi. Hitler hélt mikið upp á musterið og notaði það sem fyrirmynd af sínum eigin hástalli í Nurnberg þar sem hann hélt miklar vakningarsamkomur. Í stríðinu var Pergmaon altarið tekið niður og varið en það féll síðan í hendur Rússa við fall Berlínar. Það var endurreist í Leningrad með öllum þeim illu öflum sem því fylgir en var svo flutt aftur til Austur-Berlínar upp úr 1958.
Íbúar Vestur-Evrópu voru ósnortnir af hinum illu öflum altarisins fram að falli Berlínarmúrsins. Nú hefur Berlín verið endurvakin sem höfuðborg Þýskalands á sama tíma og Þjóðverjar eru á ný orðnir öflugasta ríki Evrópu. Ekki þarf að spyrja að því hverja Evrópumenn styðja í heilögu stríði Ísraelsmanna við hina alræmdu Palestínumenn. Á sama tíma fara áhrif múslima vaxandi í Evrópu og styttist í allsherjar yfirtöku þeirra í Evrópu. Allt þetta mátti fræðast um í þættinum The Rape of Europe, sem virðist öðru hvoru vera á dagskrá sjónvarpsstöðvarinnar Omega.

- - - -
Já það er vandlifað í henni veröld og við sem teljumst til hinna hófsömu í skoðunum, eigum stundum undir högg að sækja. Öfgahyggja tilheyrir ekki bara fortíðinni, hún kemur úr ýmsum áttum og hefur örugglega ekki sungið sitt síðasta. 

Létt lag hér í lokin:


Um hæstu hæðir Danmerkur

Þótt Danmörk sé fræg fyrir sitt fjallaleysi er ekki hægt að segja að landið sé marflatt enda einkennist það víða af ávölum hæðum. Eins og í öðrum löndum þá vilja menn vita fyrir víst hver sé hæsti punktur landsins, jafnvel þótt hæð þess hæsta punkts þætti ekki frásögum færandi víðsvegar annarstaðar. Það hefur verið dálítið á reiki hvaða hæð sé sú hæsta í Danmörku og heimildum ber ekki alveg saman. En eftir að hafa lagst í dálitla rannóknarbloggmennsku þá hef ég komist að hinu sanna í málinu.

HimmelbjergetÞekktasta hæðin hefur löngum verið Himmelbjerget (147 m.) á Jótlandi og standa sumir í þeirri meiningu að það sé hæsta „fjall“ Danmerkur. Nafnið Himmelbjerget þykir okkur Íslendingum frekar spaugilegt enda virkar það sem öfugnefni og hlýtur að skýra frægð hæðarinnar að hluta. Þetta er þó alls ekki hæsta hæð Danmerkur en vissulega í hópi þeirra hæstu. Himmelbjerget er reyndar hin reisulegasta hæð á Danskan mælikvarða og var talin hæsti punktur landsins fram til ársins 1847 þegar nánari mælingar sýndu annað. Sjálfsagt hefur sú landmæling valdið einhverjum vonbrigðum en breytti því þó ekki að þarna reis 25 metra hár útsýnisturn til heiðurs Friðriki VII fyrir að færa landsmönnum stjórnarskrá árið 1849.

Hinar raunverulegu hæstu hæðir Danmerkur eru hinsvegar ekki langt undan því um um 10-15 kílómetrum suðaustur af Himmelbjerget liggur landið heldur hærra þótt ekki sé um að ræða tilkomumikil björg sem takmarka útsýn til himins. Frekar mætti tala um einskonar hálendi sem bungast mishátt upp á við. Tvær hæðir þarna eru þekktastar og hafa báðar gert tilkall til titilsins hæsti punktur Danmerkur: Yding Skovhøj og Ejer Baunehøj. Til að komast endanlega að því hvor þeirra er hærri var árið 2005 ráðist í nákvæmar mælingar á svæðinu í heild þar sem sentimetrar skáru úr um niðurstöðu.

Yding Skovhøj er eins og nafnið bendir til skógi vaxin hæð og mældist hæsti náttúrulegi punkturinn þar vera 170,77 metrar. Sé hinsvegar forn víkingahaugur ofan á hæðinni tekinn með í reikninginn er hæðin 172,54 metrar. Sá haugur er í rauninni það samgróinn náttúrunni að vel mætti telja hann hluta af hæðinni og sé svo, er þetta hæsta hæð Danmerkur eins og sumstaðar kemur fram. Eðlilega vilja menn þó vera strangir á skilgreiningunni, hæsti náttúrulegi punktur landsins.

Ejer Baunehøj
(eða Bavnehøj) er um tvo kílómetra frá Yding Skovhoj og var lengi talinn hæsti náttúrulegi punktur Danmerkur 171m. Nýju mælingarnar segja hæðina hinsvegar vera 170,35 m og er hún því óumdeilanlega lægri en Yding Skovhoj. Árið 1920 var 13 metra hár turn reistur á þarna og með honum er hæðin samtals 183 metrar sem telst auðvitað ekki gilt.
Møllehøj
Møllehøj. Með hinum nýju nákvæmu mælingum árið 2005 kom hið sanna í ljós sem er að hæsti náttúrulegi punktur í Danmörku er rétt um 200 metrum frá Ejer Baunehøj. Sú hæð er kölluð Møllehøj og mælist 170,86 metrar eða 9 sentí­metrum hærri en Yding Skovhøj er frá náttúrunnar hendi. Hvort þetta er sjálfstæð hæð eða ekki er matsatriði, en samkvæmt nýjustu yfirlitum þá er þetta heitið á hæstu hæð Danmerkur. Møllehøj lætur ekki mikið yfir sér frekar en aðrar mishæðir á þessum slóðum. Þarna var mylla áður og til minjar um hana stendur gamli myllusteinninn stoltur og getur verið það eftir þá stöðuhækkun að marka hæsta punkt landsins.

Danska hálendið
Á kortinu má sjá aðalhluta þess svæðis sem kalla mætti Danska hálendið og er það greinilega heldur grænna en það Íslenska. Hæstu punkta landsins er þarna að finna eins og ég hef merkt inn.

Til samanburðar má nefna að samkvæmt lauslegri athugun minni ná hæstu byggðir á höfuðborgarsvæðinu okkar upp í rúmlega 100 metra hæð. Í næsta nágrenni við byggðina er Vífilstaðahlíð 152 m. og Vatnsendahæð 153 m. Skammt þaðan er hæð á landamörkum Garðabæjar og Kópavogs er nefnist Arnarbæli og er hún 174 metrar.


Um örnefni á skögum og jöklum

Skagar JöklarÖrnefni eiga sér mislanga sögu. Sum þeirra eru jafn gömul byggðinni í landinu á meðan önnur eru nýtilkomin. Eins og orðið örnefni vísar til þá snúast örnefni oft um heiti á hinum smærri einingum í landslagi enda var og er nauðsynlegt að kalla hlutina einhverju lýsandi nafni svo menn fari ekki villu vegar og ekki síður til að ljóst væri hver ætti hvað. Firðir og fjöll fengu að sjálfsögðu líka sína nöfn en þegar kom að hinum stærri þáttum í landslagi svo sem stórum skögum, kjálkum og jöklum virðast örnefni ekki alltaf eiga sér langa sögu og eru jafnvel ekki til. Lítið var um landakort í gamla daga, hvað þá loftljósmyndir eða gervitunglamyndir og því eðlilegt að menn hafi ekki mikið pælt í hinum stærri einingum þegar kom að nafngiftum.

Stóru skagarnir fyrir norðan

Á hinu eina sanna norðurlandi eru þrír meginskagar. Sá vestasti er sá eini sem hefur heitið eitthvað í gegnum tíðina og ber einfaldlega nafnið Skagi sem fjörðurinn þar fyrir austan er nefndur eftir. Heitið Tröllaskagi er hins vegar nýtilkomið því lengst af var hann nafnlaus. Þar hefur mönnum kannski fundist alveg nóg að vera annað hvort staddir í Eyjafirði eða Skagafirði, en þar á milli var bara eitthvert ógurlegt fjalllendi með mörgum djúpum nafnkenndum dölum og fjallsrönum. Austasti skaginn á milli Eyjafjarðar og Skjálfanda hefur hinsvegar varla fengið nafn en það mun þó verið að vinna í því og tillögur komnar fram en gallinn er bara sá að Eyfirðingar vilja ekki kenna hann við örnefni Skjálfandamegin, og Skjálfandamenn vilja ekki kenna hann við Eyfirskt örnefni. Það segir sína sögu eins og ég kem að hér síðar. Mestar líkur eru á því skaginn verði nefndur Flateyjarskagi sem Eyfirðingar eru lítt hrifnir af og hafa haldið á lofti heitinu Gjögurskagi.

Vatnajökull
Nafnasaga þessa mikla jökuls virðist vera talsvert snúin og ýmsar skýringar til. Fyrsta Íslandskortið sem sýndi Vatnajökul sem alvöru jökul var teiknað árið 1794 af Sveini Pálssyni lækni og náttúrufræðingi þeim er kleif Öræfajökul fyrstur manna. Á korti hans voru tvö nöfn látin gilda fyrir jökulinn og hann merktur sem Klofa- eða Vatnajökull. Ekki veit ég hvort heitið er eldra en allavega virðast fleiri en ein skýring á þeim báðum. Klofajökulsnafnið hefur stundum verið túlkað sem svo að jökullinn hafi áður fyrr verið klofin í tvennt að sumu eða öllu leyti enda vitað að Norðlendingar og Austfirðingar stunduðu ferðir suður yfir jökulinn. En þótt vitað sé að jökullinn hafi verið umtalsvert minni en í dag þá er samt varasamt að líta svo á að Klofajökulsnafnið sé lýsandi fyrir heildina og að jökullinn hafi beinlínis verið klofinn. En hvað sögðu menn á 18. öld:

Í Ferðabók Eggerts og Bjarna 1772 má lesa þetta um Klofajökul: „Klofajökull er nafn á tveimur geysimiklum jökulálmum, sem skapa skarð eða bug á milli sín, en úr jökulkrók þessum koma þrjár stórár, Skjálfandafljót, Jökulsá í Axarfirði og Jökulsá í Múlasýslu“. Þarna virðist átt við skarð í jökulinn að norðanverðu sem virðist hafa verið nógu vítt til að geta af sér þessar þrjár stóru jökulár sem í dag eiga upptök sín á þremur aðskildum stöðum við jökulbrúnina. Klofajökull gæti því hafa verið notað um Vatnajökul að norðanverðu en ekki endilega jökulinn í heild. Kannski vísar nafnið í kverkina sem Kverkfjöll eru kennd við nema skýringin sé sú að Kverkfjöllin beinlínis kljúfa jökulinn að norðanverðu séð.

Sveinn Pálsson ritaði hinsvegar árið 1794:  „…heitir hann Klofajökull vegna hinna fjölmörgu rana sem út frá honum kvíslast í ýmsar áttir, og allmarga fjallgarða, er skerast upp í hann. Hann er einnig nefndur Vatnajökull vegna hinna hart nær óteljandi elfa, sem eiga upptök sín í honum“ Ég get ekki séð að Sveinn sé endilega á sama máli og Eggert og Bjarni varðandi Klofajökul því hinir „allmörgu fjallgarðar sem skerast inn í hann“ er nefnilega ágætis lýsing á sunnanverðum jöklinum. Hinar „óteljandi elfur sem eiga upptök sín í honum“ er einnig nothæf skýring á nafninu Vatnajökull að sunnanverðu þar sem jökulárnar hafa lengi flæmst um hina sístækkandi sanda.

Hvað er rétt í þessu er ómögulegt að segja til um en sjálfum finnst mér ekki ólíklegt að Klofajökull hafi verið lýsandi heiti á jöklinum að norðanverðu en Vatnajökull að sunnanverðu og hafi þessi tvö heiti því getað verið notuð samtímis eftir því hvaðan var horft. Önnur skýring á Vatnajökulsnafninu vísar til Grímsvatna enda virðist hann stundum hafa verið nefndur Grímsvatnajökull. En hvort menn hafi þekkt nógu vel til Grímsvatna til að nefna jökulinn eftir þeim veit ég ekki en hitt er víst að menn hafa þekkt hlaupin miklu sem þaðan komu. Heitið Grímsvatnajökull þarf þó ekki að hafa verið notað um jökulinn í heild frekar en önnur nöfn á þessu jökulflæmi. Það giltir því kannski það sama með jökulinn og Tröllaskaga á sínum tíma að menn gáfu landinu nöfn í samræmi við það sem menn bjuggu við á hverjum stað án þess að hafa yfirsýn á heildina.

- - - - -
Tilvitnanir eru fengnar úr bókinn Íslenskir jöklar, eftir Helga Björnsson.


Óvenju kalt í Evrópu - óvenju hlýtt í Norðurhöfum

Það er gjarnan þannig að þegar kólnar mikið á einum stað þá hlýnar á öðrum. Hæðin mikla sem sem kom sér fyrir í Evrópu á dögunum er óþægilega staðsett fyrir flesta Evrópubúa þar sem hún dælir Síberísku vetrarlofti yfir álfuna. Þessi kuldalega staða veðrakerfana er vel þekkt og íbúar álfunnar vita af Síberíukuldanum sem alltaf býður eftir tækifæri til vestursóknar.

Á sama tíma, hinu megin við hæðina, er allt aðra sögu segja að segja enda snýst vindur réttsælis í kringum hæðir. Sunnanáttirnar hafa verið eindregnar milli Íslands og meginlandsins og náð lengst norður í höf með óvenju miklum hlýindum. Á Longerbyen á Svalbarða mældist t.d. fyrir stuttu, hæsti hiti sem mælst hefur á eyjunum í febrúar, ein 7 stig.

 Hlýtt og kalt

Annars eru það hafískortin sem eru einna athyglisverðust í dag. Eins og sjá má kortinu hér vinstra megin þá er engan hafís að finna í Barentshafinu og íslaust svæði teygir sig austur fyrir Rússnesku eyjarnar Novaya Zemlya sem hlýtur að vera mjög óvenjulegt. Mjög lítill ís er einnig við Svalbarða og er norðurströndin þar íslaus, en íslaust svæði teygir langleiðina til smáeyjaklasans, Franz Josefslands. Það má því segja að það sé sumarástand á hafísútbreiðslunni þarna. Það er þó enn vetur og nóg eftir af honum á norðurslóðum. Ástandið getur auðveldlega breyst og mun örugglega gera það fyrr en varir. Þessi mikli skammtur af hlýindum þarna norðurfrá hlýtur þó að hafa sín áhrif á framhaldið og getur haft sitt að segja þegar kemur að sumarbráðnunnni.

- - - -

Hafískortið sem er hluti af mynd frá Bandarísku snjó- og hafísmiðstöðinni (NSIDC), sýnir hafísútbreiðsluna þann 10. febrúar 2012, miðað við meðallag áranna 1979-2000.

Veðurkortið er af „Wetterzentralnum“ og er einnig hluti af stærri mynd sem sýnir hita í 2ja metra hæð 11. febrúar, samkvæmt spá.

 


Veðurbókarhiti í Reykjavík

Undanfarið hafa veður- og loftslagspekingar hér á blogginu rætt um meðalhitann í Reykjavík og vafasamar leiðréttingar sem gerðar hafa verið á honum af erlendum aðilum. Ég ætla ekki að velta mér upp því máli, en ætla þó að líta í eigin barm því sjálfur hef haldið uppi mínum eigin veðurskráningum frá árinum 1986. Þær athuganir eru aðallega ætlaðar mér sjálfum og hafa væntanlega ekki mikil áhrif á þær tölur sem notaðar eru til að túlka þróun hitafars á hnattræna vísu. Þessi bloggfærsla á því kannski ekki mikið erindi við aðra en sjálfan mig en tilgangurinn færslunnar er annars sá að athuga hvernig mínar skráningar standa sig við hlið hinna opinberu talna frá Veðurstofunni.

Þegar ég upphaflega hóf skráningar þá var tvennt haft í huga. Skráningin átti að sýna hið dæmigerða veður dagsins og vera það einföld að ég þyrfti ekki að vera háður því að fylgjast með veðurfréttum á hverjum degi. Þetta gilti einnig um hitann sem ég skilgreindi einfaldlega þannig að annaðhvort voru dagar heitir, kaldir eða í meðallagi. Reyndin varð þó sú að ég fylgdist nógu vel með hitanum til að geta skráð hinn dæmigerða hita dagsins sem ég hef einmitt gert frá árinu 1991.
Sú tala sem ég kalla hinn dæmigerða hita dagsins var lengi vel fengin með því að sjóða saman hitanum klukkan 18 í Reykjavík og hámarkshita dagsins samkvæmt veðurfregnum í útvarpi í bland við eigin upplifun og stopulan lestur af heimilislegum gluggahitamæli. Eftir tilkomu netsins og heimasíðu Veðurstofunnar breyttist aðferðin og byggist nú að miklu leyti á sjónrænu mati á línuritum frá sjálfvikum athugunum. Ég nota ekkert útreiknað meðaltal, bara þá tölu sem mér finnst vera skynsamlegust og eðlilegust fyrir hvern dag. Það getur þó stundum verið erfitt að fá eina góða hitatölu (án aukastafa) vegna mikilla hitasveiflna sem oft eru óháðar dægursveiflum. Ég horfi ekkert á kvöld eða næturhita enda hefur Veðurbókin bara áhuga á veðrinu yfir daginn.

Eftir hvern mánuð geri ég smá samantekt og reikna út meðalhita mánaðarins samkvæmt mínum tölum og síðan árshita í lok hvers árs. En þar sem ég skrái bara hitann fyrir daginn er auðvitað munur á mínum tölum og tölum Veðurstofunnar. Mínar tölur eru á milli hins eiginlega meðalhita og meðalhámarkshitans sem er eðlilegt útfrá forsendum. Það má benda á að ég skrái árið 2010 hlýrra en metárið 2003. Það þarf þó ekki að vera óeðlilegt í ljósi þess að árið 2010 var metár þegar kemur að meðalhámarkshita samkvæmt Veðurstofu. Í heildina verður ekki betur séð en að Veðurbókartölur mínar séu nokkuð samstíga opinberum tölum þegar kemur að einstökum árum og fyrir tímabilið í heild – þrátt fyrir misjafnar skráningaraðferðir. Það er því ekki nokkur ástæða fyrir mig að ráðast í stórfelldar leiðréttingar og endurskoðanir á mínum gögnum.

Hiti Veðurbók

- - - -

Þess má geta í lokin að nú standa veðurskráningarnar frammi fyrir þeim vanda að gormaðar A5 rúðurstrikaðar bækur frá Kassagerðinni með hvíta fuglinum framaná eru ekki lengur fáanlegar í verslunum og ég er á síðustu blaðsíðunni í bókinni sem ég skrái í núna. Fyrir næsta mánuð verð ég því að kaupa aðra tegund. Nú eru bara til útlenskar reiknibækur sem eru ekki eins hentugar. En hvernig sem þetta bókarmál leysist þá munu skráningar halda áfram með óbreyttum hætti.

 


Hvað er verið að gera við Lögreglustöðina?

Lögreglustöðin

Nú hafa viðgerðarflokkar hafist handa við stórfellda endurnýjun á ytra byrði Lögreglustöðvarinnar við Hlemm. Samkvæmt frétt sem ég sá einhverstaðar munu gulu flísarnar, sem gefið hafa lægri byggingunni sinn sérstaka karakter ekki sjást meir. Þær verða huldar einangrunarefni og húsið klætt hvítum álplötum sem einnig munu hylja hvíta múrverkið sem rammar inn flísarnar. Hvort hærri aðalbyggingin hljóti sömu örlög veit ég ekki en það kæmi mér ekki á óvart. Sjálfsagt hefur verkfræðingum þótt þetta góð lausn og ég efast ekki um að þessi málmhjúpur verji bygginguna ágætlega fyrir veðrum og vindum. En er þetta samt bara sjálfsagt mál?

Mikið gert af því að vernda útlit bygginga séu þær nógu gamlar. Sjálfsagt þykir að færa hin elstu hús í upprunalegt útlit eða jafnvel að endurbyggja þau frá grunni. Annað virðist gilda um hálfgömul hús – eða þau sem eru ekki nógu gömul, eins og tilfellið er með Lögreglustöðina við Hlemm. Sú bygging er reist á þeim tímum þegar Reykjavík var að breytast úr bæ í borg en þá risu mikil skrifstofuhús í nútímastíl þess tíma. Sennilega hafa ekki margir velt fyrir sér þeim möguleika að Lögreglustöðin við Hlemm sé merkileg bygging últitslega séð. Húsið var teiknað af Gísla Halldórssyni sem annars er þekktur fyrir merkisbyggingar eins og Hótel Loftleiði, Tollhúsið o.fl. Þessar byggingar voru margar metnaðarfullar og gáfu borginni nútímalegt yfirbragð, þótt vissulega hafi allskonar útlitslegir árekstrar stundum átt sér stað, aðallega í kvosinni.

Þegar vinnupallar við Lögreglustöðina hafa verið teknir niður mun blasa við ný ásjóna hússins sem væntanlega verður mun karakterlausara en áður. Kannski munu einhverjir fagna því en ég er ekki alveg sáttur … en hvað skal gera í þessu veit ég ekki. Það þýðir kannski lítið að hringja í lögguna.


Ört vaxandi trjágróður í Öskjuhlíð

Verkefnið 365 Reykjavík sem ég kynnti hér á blogginu um síðustu helgi virðist hafa vakið einhverja athygli, allavega nógu mikla til þess að ég hef þurft að svara fyrir mig í fjölmiðlum. Þar mun ég hafa talað um ört vaxandi gróður í Öskjuhlíðinni en mikill munur er nefnilega á umfangi hans nú og fyrir nokkrum árum. Ég man ekki alveg hvenær mér datt upphaflega í hug að taka ljósmyndir af Reykjavík á hverjum degi frá sama stað í heilt ár en allavega var ég farinn að spá í þetta árið 1994. Upphaflega var ég með annan stað í huga en síðar beindist athyglin að Öskjuhlíðinni þar sem gott útsýni er til Esjunnar með borgina í forgrunni. Lítið varð þó úr framkvæmdum utan þess að ég fór nokkrum sinnum þarna upp eftir til að máta sjónahornið. Tilvalið er því að bera saman hvernig útsýnið hefur þróast.

Reykjavik janúar 2002

Elsta myndin frá þessum stað sem tengist þessum pælingum er frá janúar 2002. Eins og sjá má er þarna vetrarástand á gróðri, snjór hefur fyrr um veturinn pressað sinuna niður í svörð en annars var þessi janúarmánuður nánast alveg snjólaus í Reykjavík. Trjágróðurinn er ekki mikill þarna og vel sést til hringtorgsins við Eskihlíð og húsanna sem þar standa.

Reykjavík 8. október 2003

Þann 8. október árið 2003 var ég þarna á ferð í sömu pælingum. Sjónarhornið er ekki alveg það sama og því erum við ekki að sjá alveg sömu trén. Haustlaufin á trjánum gerir gróðurinn meira áberandi en á fyrstu myndinni. Væntanlega hafa trén sprottið vel á þessu ári sem var það hlýjasta sem sögur fara af í Reykjavík. Við sjáum þó enn vel til húsanna sem standa næst hlíðinni.

Reykjavík 3. október 2011

Hér erum við komin til vorra daga og eins og sjá má er nú talsvert öðruvísi um að litast. Myndin er hluti af verkefninu 365 Reykjavík sem loks var ráðist í og dagurinn er 3. október 2011. Hér eru hríslurnar orðnar að samfelldum skógi og greinilegt að ekki munu líða mörg ár þar til trén taka að mestu fyrir sýn til borgarinnar frá þessu sjónarhorni. Þetta fer ágætlega saman við það hversu mikið vind hefur lægt í borginni eins og talað hefur verið um, en síðustu 11 ár hafa líka verið sérlega hlý og hagstæð trjávexti. 

EIns og gefur að skilja hefði ekki verið hægt að framkvæma verkefni undir nafninu 365 Reykjavík núna í ár þar sem árið 2012 er hlaupár og varla eftir það frá þessum stað vegna trjágróðurs. En nú er þetta búið og gert og afraksturinn með öllum 365 myndunum er sem fyrr á slóðinni: www.365reykjavik.is

 

 


Vefsíða ársins komin í loftið

Eins og ég fjallaði um fyrir áramót þá réðist ég í það verkefni í fyrra að taka mynd af Reykjavík séð frá Öskjuhlíð á sama stað og sama tíma alla daga ársins 2011. Nú er ég tilbúinn með vefsíðu sem ég kalla 365 Reykjavík þar sem getur að líta allar myndirnar – settar upp á skipulagðan hátt.

365Reykjavik
Þarna má sjá veðrið á hverjum degi um hádegi, hvenær snjór lá yfir borginni, hvenær Esjan var hvít og hvernig gróðurinn tók við sér að vori og fölnaði að hausti.

Við þekkjum vel hversu mikill breytileiki er á milli ára og varla hægt að segja að eitt ár sé dæmigert fyrir öll ár. Eins og sést á myndunum þá var mjög snjólétt í upphafi síðasta árs en það átti eftir að breytast. Þann 1. maí var til dæmis alhvít jörð og hvít Esja blasti við borgarbúum 10. júní. Prýðilegt sumar kom þó að lokum. Ekkert snjóaði síðasta haust fyrr en seint í  nóvember og hélst sá snjór út árið. Allt þetta má skoða á myndunum og einnig framvindu gróðursins. Hin öfluga planta skógarkerfill þýtur upp og blómstrar í júní og tekur yfir forgrunn myndanna en fölnar fljótt upp úr miðju sumri. Á myndunum má sjá hvernig hæstu trén bæta við sig á vaxtartímanum og síðan hvernig haustið tekur á sig lit. Mannlíf er ekki áberandi frá þessu sjónarhorni. Göngustígur var lagður rétt neðan við tökustað á árinu en lítið sést þó til framkvæmda fyrir gróðri nema einn dag í september þegar vart fer á milli mála að eitthvað er í gangi. Það er sem sagt ýmislegt að sjá á þessari myndaseríu – á vef ársins.

Sjón er sögu ríkari - slóðin á síðuna er:

www.365reykjavik.is

Þegar komið er inn á síðuna þarf að velja mánuð til að skoða. Myndirnar flettast sjálfkrafa í rólegheitum en þá má líka handfletta og skoða stöku myndir af vild.


Meðvitaðar skekkjur í letri

Það getur stundum verið dálítill munur á því sem sýnist vera rétt og því sem er alveg rétt. Hlutir geta virst ójafnir í lögun af því að þeir eru jafnir og til að leiðrétta þá meintu ójöfnu eru þeir viljandi hafðir ójafnir. Best er bara að taka dæmi um bókstafinn minn: E. Sá bókstafur er ágætt dæmi um það sem ég er að reyna að koma orðum að.

E E

Þessi tvö E virðast kannski vera eins við fyrstu sýn en þau eru það þó ekki. Stafurinn til vinstri er eins jafn og hugsast getur en sá til hægri er það ekki. Í E-inu til hægri eru láréttu strikin mislöng. Neðsta strikið er örlítið lengra en það efsta, miðjustrikið er greinilega styst auk þess sem það situr aðeins ofan við miðju. Þykktirnar eru líka misjafnar, láréttu strikin er þynnri en það lóðrétta. Þetta er samt mjög venjulegt og dæmigert E og er úr hinu útbreidda Helvetica letri og svona er bókstafurinn teiknaður í nánast öllum leturgerðum. Jafni stafurinn til vinstri er hinsvegar ekki úr neinni leturgerð. Ég teiknaði hann bara upp í fljótheitum enda mjög einfalt að útbúa svona jafnan bókstaf í tölvu.

Af ýmsum ástæðum virkar Helvetica bókstafurinn til hægri stöðugri og þægilegri að horfa á enda búið að taka tillit til nokkurra atriða sem hafa áhrif á hvernig við skynjum form og hlutföll. Sjónrænt séð er betra hafa lóðrétta strikið sverara, eins og trjástofn sem heldur uppi léttari greinum. Neðri hlutinn skal vera meiri en sá efri en þar kemur líka við sögu sjónrænt burðarþol rétt eins og í snjókarli þar sem sjálfsagt þykir að léttari kúla hvíli á þyngri kúlu. Bókstafirnir B og S er eru ágæt dæmi um slíkt.
Það má skoða þetta með aðstoð hjálparlína. Að vísu sést ekki greinilega að neðsta strikið í E-inu sé lengst en það er það samt – munar nokkrum hársbreiddum.

B E S

Það má alveg fara langt aftur í tímann til að finna dæmi um svona sjónleiðréttingar. Meyjarhofið á Akrópólíshæð er klassískt dæmi um ýmsar skipulagðar bjaganir. Súlurnar sjálfar eru látnar bunga örlítið að neðanverðu svo þær virki traustari, án þess þó að það sjáist í fljótu bragði. Þeir kunnu þetta til forna og svona eiga allar súlur í fornklassískum stíl að vera.

Meyjarhofið

 


Hversu séríslensktur er éljagangurinn?

Það er mikið fjör í veðrinu núna og þykir örugglega mörgum nóg um. Það er spurning hvort hægt sé að kalla þetta útsynning enda er vindáttin eiginlega beint úr vestri. Einkennin eru þó hin sömu, dimm él ganga yfir með sterkum vindgusum og styttir upp á milli. En hversu algengt ætli þetta veðurlag sé í öðrum löndum? Getum við kallað þetta séríslenskt? Ég hef kannski ekki alveg svar við þessu sjálfur en ætla samt að spá í þetta.

Veðurtungl éljagangur

Éljaloftið sem hingað kemur úr vestri og suðvestri er ættað frá hinum mjög svo köldu svæðum Grænlands og Kanada. Þegar loftið berst yfir hafið hitnar það að neðanverðu og gerist óstöðugt þegar það leitar upp í kaldari háloftin. Þetta er ekki ósvipað og gerist á heitum skúrakenndum sumardögum nema að á veturna myndast éljaklakkar yfir hafinu, því sjórinn er þá svo miklu hlýrri en loftið fyrir ofan. En þótt éljaloftið sé oft allsráðandi á stórum svæðum hér nyrst í Atlantshafinu kemur það ekki víða að landi á byggðu bóli. Það á þó auðvelda leið hingað til Íslands bæði með suðvestanáttinni og norðanáttinni. Það er kannski helst að Austfirðingar fari á mis við élin því ekki koma þau með austanáttinni - úr þeirri átt koma aðallega hlýindi að vetrarlagi.

Íbúar hinna köldu svæða í vestri fá varla mikið af éljum utan að hafi enda myndast élin aðallega þegar kalda loftið berst frá þeim svæðum að vetrarlagi eins og minnst var á hér að ofan. Ef éljaloftið nær alveg yfir Atlantshafið þróast það yfir í skúraveður sem getur herjað á Breta og meginland Evrópu. Kannski upplifa íbúar þar þó stöku sinnum él eða slydduél. Það væri helst að íbúar norðurhluta Noregs upplifi almennilegan éljagang eins og við. Þar væri þá um að ræða kalda heimskautaloftið sem éljast á leið sinni suður um hafið þegar norðan- og norvestanáttin nær sér þar á strik. Norðlendingar eiga því það sameiginlegt Norðmönnum að fá sitt éljaloft ofan af ísilögðu Norður-Íshafinu.

Það má fara víðar í leit að éljagangi. Nyrstu svæði Kyrrahafs koma til greina og strandvæði Síberíu gætu líka orðið fyrir éljum en þá kannski helst þegar opið haf myndast milli ísbreiðunnar og meginlandsins en á þeim svæðum eru ekki margir til frásagnar. Á suðurhveli ættu éljaklakkar að myndast útfrá ísbreiðu suðurskautsins en ekki sé ég fyrir mér að þau él nái landi nema kannski syðst í suður-Ameríku.

Það eru mörg kannski í þessu hjá mér, og kannski er éljagangur algengari en ég sé fyrir mér. Samt finnst mér svona veður þó vera mjög Íslenskt og ekki síst mjög Reykvískt – sérstaklega að vetralagi – og alltaf jafn skemmtilegt.

- - - 

Veðurtunglmyndin er fengin af vef Veðurstofunnar og gildir þriðjudaginn 10. jánúar 2012. Bláa krotið eru mínar viðbætur.


Árshitinn í Reykjavík 1901-2011 í kubbamynd

Árið 2011 hefur nú fengið sinn sess í kubbamyndinni sem ég gerði fyrir tveimur árum og hef uppfært síðan. Nú liggur fyrir að meðalhiti liðins árs í Reykjavík var 5,4 stig. Það er örlítið undir meðalhita síðustu 10 ára, rúmlega gráðu yfir 30 ára meðaltalinu frá 1961-1990 og næstum hálfri gráðu yfir hlýja 30 ára meðaltalinu 1931-1960. Nýliðið ár er í félagsskap með fjórum öðrum jafnhlýjum árum, grænblátt að lit sem verður litur áratugarins. Annars sést þarna ágætlega hvernig áratugirnar dreifast á hitaskalanum. Sá síðasti hélt sér alfarið ofan við 5 stigin öfugt við fyrsta áratug 20. aldar sem komst ekki upp fyrir 4,5 stigin. Efst trónir þarna árið 2003 með 6,1 stig í meðalhita en árið 1979 situr sem fastast á botninum með árshita upp á aðeins 2,9 stig.

Árshiti Rvik kubbamynd

Nú má velta fyrir sér hvort árshitinn sé kominn til að vera yfir 5 stigunum. Ég held að það sé frekar ólíklegt og alls ekki hægt að stóla á að nýhafinn áratugur verði hlýrri en sá síðasti. Miðað við fjölbreytileika hitafars getum við alveg átt von á talsvert köldu ári eða árum hvað sem líður almennri hnattrænni hlýnun. Einn kaldur mánuður eins og nýliðinn desember þarf hinsvegar alls ekki að vera boðberi kaldari tíma og segir lítið um hvort árið 2012 blandi sér í botn- eða toppbaráttuna.

- - - -

Í framhaldi af þessu minna má minna á að hér á síðunni er myndalbúm sem inniheldur allskonar heimatilbúna veðurgrafík eins og þessa mynd. Þær myndir uppfærast óreglulega.


Veðrið í Reykjavík árið 2011

Ég hef sett hér saman dálítið veðuryfirlit fyrir árið 2011. Þetta er aðallega unnið upp úr mínum eigin veðurskráningum þar sem aðaláherslan er á veðrið í Reykjavík. Ýmis athyglisverð frávik voru á árinu eins og venjan er en árið í heild var samt hið ágætasta veðurfarslega séð. Opinber meðalhiti hefur reyndar ekki endanlega verið opinberaður en það má búast við að hann verði á bilinu 5,3 til 5,4 stig sem telst vera hlýtt en þó rétt undir meðalhita síðustu 10 ára.

Janúar. Árið hófst með alauðri jörð og hita yfir frostmarki. Talsvert kólnaði með miklu norðanáhlaupi þann 6. janúar og fór frostið þá niður í 11 stig. Eftir þann 10. hallaði vindurinn sér til austurs en síðan tóku við hlýindi sem stóðu hæst dagana 21.-26. janúar en þá var hiti yfirleitt á bilinu 6-8 stig. Í heildina var þetta hlýr mánuður og mjög snjóléttur. Lítið sást hinsvegar til sólar eða í heiðan himinn.

Febrúar. Strax í byrjun febrúar hrökk veturinn í gang og snjór lagðist yfir borgina. Nokkuð umhleypingasamt var dagana 8.-14. febrúar og talsvert vindasamt með köflum. Snjórinn kom og fór fyrir hluta mánaðarins en síðan varð alauð jörð og hlýtt seinni hlutann. Þegar upp var staðið var mánuðinn hlýr og frekar úrkomusamur.

Mars. Að þessu sinni var mars kaldasti mánuður vetrarins. Snjór var á jörð megnið af mánuðinum en mestur var hann í kringum 8-10 mars. Talsverða kulda gerði einnig og fór frostið niður í 12,5 stig þann 13. mars sem reyndist mesta frost ársins. Nokkur minniháttar illviðri gerði einnig en þá aðallega í kringum 5. og 15. mars. Þann 26. mars var snjórinn horfinn og þokkaleg hlýindi voru ríkjandi síðustu vikuna.

Apríl. Þetta var nokkuð óstöðugur mánuður sem einkenndist af hvössum vindum, gjarnan úr suðvestri með þrálátum skúrum, en ekki síður slyddu- og snjóéljum. Þann 10. skall á stormur sem olli dálitlu tjóni suðvestanlands. Jörð náði alloft að hvítna en þó aldrei neitt að ráði nema síðasta kvöldið þegar óvenjumikla snjókomu gerði miðað við árstíma. Margir kvörtuðu að vonum yfir að vorið léti bíða eftir sér en þrátt fyrir allt var mánuðurinn hlýr í heildina.

Maí. Mánuðurinn hófst á kafi í snjó en hann var fljótur að hverfa þegar snögghlýnaði þann 2. maí og hitinn rauk upp í 14 stig. Mjög hlýtt var næstu daga og náði hámarkshitinn 16 stigum þann 8. maí. Þessi snögga sumarkoma fór þó fyrir lítið því frekar kalt var seinni mánaðarins. Þann 21. maí hófst kröftugt gos í Grímsvötnum sem olli talsverðu öskufoki suðaustanlands.

Júní. Kalt var í veðri á landinu framan af mánuðinum, sérstaklega þó norðaustanlands. Aðfaranótt 10. júní varð Esjan hvít niður í rót en eftir það fór hitastigið upp á við og sumarið gat hafist fyrir alvöru. Í Reykjavík sem og víða sunnan- og vestanlands var mjög þurrt og sólríkt enda norðlægar áttir ríkjandi. Þetta var kaldasti júní í Reykjavík frá 1999 en hékk þó samt í meðalhita áranna 1960-1991.

Júlí. Veðrið í júlí var yfirleitt með betra móti en þó komu nokkrir vindasamir dagar og þungbúnir. Ágætlega hlýtt var í veðri allan mánuðinn, úrkoma með minna móti og alveg bærilega sólríkt. Bestu dagarnir voru frá 15. til 21. júlí en síðasta vikan var frekar þungbúin og blaut.

Ágúst. Ágætis veðurfar í mánuðinum sem einkenndist helst af þurrviðri í Reykjavík og víðar um land. Sólskin var yfir meðallagi og hlýtt í veðri. Hámarkshiti sumarsins náðist síðdegis þann 5. þegar hitinn fór í 20 stig í borginni og varð mjög gott sumarveður dagana þar á eftir. Yfirleitt var hægviðrasamt nema um miðjan mánuðinn þegar norðanáttin gerðist frekar ágeng.

September. Mánuðurinn var hlýr í gegn og mjög sólríkur fyrri hlutann. Kaldast var þegar hvessa tók af norðri dagana 7-8. september en hægviðrasamir dagar tóku við eftir það. Seinni hlutann voru vindar meira af suðaustri með tilheyrandi úrkomu. Nokkuð hvasst var dagana 16.-18. september og einnig síðasta daginn.

Október.
Mjög breytilegt veður var allan mánuðinn og yfirleitt milt nema þann 18. þegar hitinn var ekki nema 1 stig eftir dálítið norðanskot. Ekkert snjóaði að þessu sinni í Reykjavík nema þá í Esjuna sem í fyrsta skipti á þessari öld náði ekki alveg að losa sig við síðasta skaflinn frá borginni séð. Úrkoma var heldur yfir meðallagi en hitinn í samræmi við hlýindi áranna á undan.

Nóvember. Lengi frameftir einkenndist mánuðurinn af hlýindum og góðri tíð og var hitinn yfirleitt á bilinu 7-9 stig dagana 8.-18. nóvember en fór mest í 12 stig. Síðustu vikuna tók hinsvegar að frysta og snjóa og var jörð hvít alla síðustu vikuna. Í blálokin kólnaði enn meir og fór frostið niður í 9 stig síðasta sólarhringinn.

Desember. Eindregin vetrartíð einkenndi þennan mánuð enda var þetta kaldasti desember frá 1981. Talsvert frost var fyrstu 10 dagana en mildaðist eftir það. Mest fór frostið niður fyrir 11 stig þann 9. desember. Hitinn náði sjaldan yfir frostmark af einhverju ráði og hélst jörð meira og minna hvít allan mánuðinn. Djúp lægð fór yfir land á aðfangadag með skammvinnri hlýnun. Mikla snjókomu gerði svo aðfaranótt þess 29. sem spillti færð enda var þarna meiri snjódýpt að morgni í desember en áður hafði mælst í borginni. Snjórinn sjatnaði þó dálítið fyrir áramót eftir hláku.

Reykjavík 10. júní 2011

Sumarsnjór í Esju þann 10. júní 2011.


Stóra snjókomumyndin

Þar sem snjórinn er mál málanna er mál til komið að birta nýjustu útgáfu af snjókomumósaíkinni sem ég setti saman á sínum tíma og bæti við eftir því sem á líður. Myndin á að skýra sig sjálf en geri hún það ekki þá táknar hver lárétt runa einn vetur samkvæmt ártali vinstra megin. Hvítu skellurnar tákna hvíta jörð í Reykjavík á miðnætti. Flekkóttir dagar eru einnig taldir með ef ég hef metið snjóhulu næga. Þetta er gert upp úr mínum eigin athugunum og því getur verið einhver munur á þessum gögnum og athugunum Veðurstofunnar sem gerðar eru á túninu þar að morgni til.

Snjór 1986-2011

Neðst á myndinni er núverandi vetur svo langt sem hann er kominn og ég gef mér að hann verði hvítur til áramóta. Það sem af er vetri er þetta einfalt. Jörð var fyrst hvít á miðnætti 24. nóvember og hefur verið síðan. Alhvítur desember sést ekki á myndinni fyrr en nú í ár en nokkrir eru þó nálægt því. Hvítasti veturinn á myndinni er 1994-1995 með 129 daga en sá snjóléttasti er veturinn sem kom varla, nefnilega veturinn 2002-2003 með 32 daga. Aðeins einum snjódegi meira var svo veturinn 2009-2010.

Snjódýptin sést ekki á myndinni en í minningunni er veturinn 1988-1989 eftirminnilegastur vegna mikils fannfergis eftir áramót og fram í apríl. Veturinn þar á eftir var snjórinn einnig mjög þrálátur en ekki nærri eins mikill og samfelldur.

Það má líka skoða endana. Árin 2008 og 2009 snjóaði óvenjusnemma en það entist þó ekki lengi. Þrjú tilfelli eru um hvíta jörð í bláendann í apríl. Sumir muna kannski eftir mikla snjónum að morgni 1. maí á þessu ári, svipað og gerðist árið 1987.


mbl.is Taka daginn snemma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndir af Esjunni alla daga ársins

Þeir sem hafa fylgst með bloggskrifum mínum ættu að vita að ég er haldinn dálítilli skrásetningaráráttu og þá sérstaklaga þegar kemur að ýmsum þáttum veðurs. Ég hef líka stundað árlegar samanburðarmyndatökur af Esjunni síðustu árin að vorlagi og fylgst grannt með afdrifum snjóskaflanna þegar líður á sumarið. Nú skal það hinsvegar tilkynnt að frá 1. janúar á þessu ári hef ég gengið skrefið til fulls og mætt á hverjum degi upp í Öskjuhlíð um kl. 12 á hádegi og tekið mynd í átt að Esjunni frá nákvæmlega sama punkti. Þetta hefur tekist með þeim árangri að nú á ég myndir frá sama sjónarhorni alla daga ársins með öllum þeim fjölbreytileika sem felst í misjöfnum veðrum og mismunandi árstíðum. Auk Esjunnar spilar gróðurinn stórt hlutverk í myndunum og nánast hægt að segja að þarna fari allt á kaf í grósku á miðju sumri öfugt við það sem er núna þegar allt er komið á kaf í snjó.

Eins og við er að búast hef ég stöku sinnum ekki verið staddur í bænum í hádeginu eða hreinlega ekki komist til að ljósmynda. Í þeim tilfellum hef ég kallað til sérlega staðgengla sem hafa hlaupið í skarðið því auðvitað má ekki vanta dag. Smá myndrænar lagfæringar hefur þurft að gera í undantekningatilfellum en við tölum bara ekkert um það. Þegar þetta er skrifað eru fimm dagar eftir af árinu og ekkert sem bendir til annars en árið verði klárað með stæl.

Hvað ég mun svo gera við allar þessar myndir verður bara að koma í ljós. Ég stefni allavega á að gera þær aðgengilegar á netinu og hef verið að vinna að því upp á síðkastið. Þangað til birti ég hér smá sýnishorn þar sem sjá má eina mynd fyrir hvern mánuð.

8jan201110feb201110mars2011

11april201115mai201119jun201118jul201115agust201122sept19okt20115nov201111des2011 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband