27.4.2010 | 21:12
Dare með The Human League - Plötukynning
Það er stundum talað um að hinar og þessar hljómsveitir séu miklir áhrifavaldar í tónlist. Þessir áhrifavaldar eru kannski ekki alltaf einhver stórveldi í tónlistarsögunni, eru jafnvel bara lítt þekkt smáveldi og jafnvel óðum að gleymast. Hljómsveitin The Human League þykir af mörgum vera í þessum flokki og þá sérstaklega vegna þeirra þriðju breiðskífu sem kom út árið 1981 og nefndist DARE en hún þykir gjarnan vera ein þeirra verka sem gáfu tóninn í hljóðgervla-glyspoppinu sem einkenndi næstu árin, eða eitís-poppinu svokallaða.Plötuna DARE eignaðist ég þegar hún kom út seint á árinu 1981. Tónlistin fannst mér afar nútímaleg eða kannski frekar framtíðarleg og svona hélt maður að tónlistin myndi verða í framtíðinni. Þarna voru bara hljómborð og hljóðgervlar - enda var þetta oft nefnt tölvupopp, sem var nýyrði á þessum árum og svo mátti líka heyra þennan kalda og tilfinningalausa nýrómantíska söngstíl sem einkenndi tímabilið og var alveg í samræmi við vélræna spilverkið á bakvið. Á plötuumslaginu birtust hljómsveitarmeðlimir stífmálaðir og mátti vart sjá hvors kyns hver var. Það var líka eitt af tískueinkennum þessa tíma að gera karlmenn kvenlega og konurnar karlmannlegar, kannski átti það að verða þannig í framtíðinni.
Sögu The Human League má rekja aftur til ársins 1977 þegar tveir strákar í Sheffield, Ware og Marsh, fóru að fikta við framúrstefnulega raftónlist í anda Kraftwerk. Það fjölgaði í bandinu og þeir fengu hinn snoppufríða Philip Oakey til að sjá um söng og náðu útgáfusamningi við Virgin útgáfuna. Út komu tvær breiðskífur sem náðu engri sérstakri hylli utan takmarkaðs hóps. Áður en upptökur á þriðju plötunni hófust kom upp týpískur tónlistarlegur ágreiningur, meðal annars vegna pressu frá útgáfufyrirtækinu sem vildi aðgengilegri tónlist. Það varð til þess að stofnfélagarnir tveir hættu en söngvarinn Phil Oakey sat einn uppi með hljómsveitina. Þá var ráðist í endurmönnun sem fólst meðal annars í að ráða tvær unglingsstelpur sem Oakey fann á djamminu og bauð hann þeim að syngja og dilla sér með hljómsveitinni. Þetta voru þær Sulley og Catherall sem hafa verið með allar götur síðan.
Það var hinn nýji Human League hópur sem á heiðurinn að baki DARE plötunni. Áður en hún kom út náðu þrjú smáskífulög inn á top 10 í Bretlandi en platan sjálf fór rakleiðis á toppinn þegar hún kom út í október 1981. Hljómsveitin náði greinilega til stærri hóps en áður án þess að tapa sínum framúrstefnulega hljómi. Síðasta lagið Don't you want me var talsvert poppaðra og hefðbundnara en önnur en var veikasta lagið að mati Philip Oakey sem vildi helst ekki gefa það út á smáskífu. Það var þó gert og sló svo rækilega í gegn beggja vegna Atlantshafsins að hljómsveitin náði aldrei almennilega sínum rétta takti á ný. Allt sem hópurinn gerði eftir þetta féll í skuggann af hinni mögnuðu DARE plötu og ekkert lag átti eftir að leika eftir fyrri árangur.
Sjálfur er ég eiginlega sammála Oakey með þetta Don't you want me-lag. Þegar það sló í gegn hér á landi sumarið 1982 fékk ég satt að segja nóg af þessari hljómsveit og platan var varla sett á fóninn eftir það. Mér fannst platan eldast illa og þetta tölvuteknó eiginlega bara hálf hallærislegt. En kannski var þetta ósanngjarnt því þegar ég set plötuna á fóninn eftir öll þessi ár, heyri ég hvað þetta er í raun merkileg plata og jafnvel á undan sinni samtíð þótt því fari fjarri að öll tónlist hljómi svona í dag.
Lagið sem ég valdi af YouTube heitir Do or Die. Það kannast örugglega mjög fáir við það, en þetta er bara þetta fína teknópopp með miklu instrumentali og þarf helst að spilast á fullum styrk allt til enda.
- - - - -
Þetta var plötukynning mánaðarins en hún er mánuði á eftir áætlun vegna eldgoss.
Heimildir eru héðan og þaðan.
Uppfærsla 18.des. 2015: Örfáar prentvillur lagaðar.
Tónlist | Breytt 18.12.2015 kl. 21:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
25.4.2010 | 01:51
Gígjökulsbreytingar
Gígjökull í norðanverðum Eyjafjallajökli hefur hopað mikið á síðustu árum og hefur þróun hans verið í góðum takti við hitafarsbreytingar hér á landi. Miklar breytingar á landslagi fylgja framskriði og hopi jökla en Gígjökull og umhverfi hans er einmitt gott dæmi um það. Eldgosið sem nú er uppi flýtir mjög fyrir hopi jökulsins enda engin furða að breytingar verði á skriðjökli og umhverfi hans þegar gos hefst í gígnum sem jökullin kenndur við.
En það sem ég ætla að bjóða upp á núna er myndaröð þar sem ég reyni að endurskapa Gígjökul og nánasta umhverfi aftur í tímann frá hann var stærstur fyrir allavega 100 árum. Myndin sem unnið er með er fengin af vefmyndavél Vodafone á Þórólfsfelli þann 17. apríl.
Um aldamótin 1900 gæti Gígjökull hafa litið svona út en undir lok 19. aldar voru jöklar á Íslandi stærstir eftir landnám. Í upphafi Íslandsbyggðar er ólíklegt að skriðjökullinn hafi náð niður á láglendi vegna smæðar og umhverfið hefur sjálfsagt verið gróskumeira en nú. Þegar jökullin skreið fram á litlu-ísöldinni, ruddi hann á undar sér jökulgarði sem sést þarna framan við sporðinn og gróf sig jafnframt niður í sandinn.
Um 1980 leit jökullin einhvernvegin svona út. Eftir því sem jökullin hopaði kom lónið smám saman í ljós, en þar hafði jökullinn einmitt sótt efniviðinn í jökulgarðana þegar hann skreið fram. Á þessum árum náði Gígjökull reyndar að skríða dálítið fram eins og margir aðrir jöklar á landinu.
2009, fyrir gos. Á síðustu 10 árum hefur mikil breyting orðið á Gígjökli þannig undir það síðasta náði bara hluti hans niður að lóni. Kletturinn hægra megin við jökulsporðinn kom í ljós fyrir nokkrum árum en vinstra megin við hann virðist vera þröngt gil sem jökullin leitar í. Lónið er þarna í öllu sínu veldi og leit þarna ekki út fyrir að það myndi fyllast nema á löngum tíma.
2010. Með gosinu í Eyjafjallajökli hafa jökulhlaup úr toppgígnum náð að fylla lónstæðið af aurframburði, krapa og gosefnum þannig að lónið er horfið og kemur ekki aftur fyrr en jökullinn nær að ryðjast fram og hörfa til baka á ný, sem mun væntanlega ekki gerast í náinni framtíð. Neðsta jökultungan hefur mikið látið á sjá en er þó enn til staðar. Mikið flóðvatn hefur runnið innanundir og meðfram jöklinum og gert hann þannig veikari fyrir væntanlegri sumarbráðnun. Síðustu fréttir segja að hraun sé farið að renna undir skriðjöklinum en hvort það ná nái alla leið niður og koma út undan jökli er ómögulegt að segja en það þýddi auðvitað enn meiri breytingar á landinu þarna.
21.4.2010 | 21:03
Gosbólsturinn sýnilegur frá Reykjavík
Upp úr klukkan 18 síðasta vetrardag mátti sjá myndarlegan gosbólstur fyrir austan fjall og því greinilegt að gosið var á þeirri stundu enn í fullum gangi. Á sama tíma var lítið hægt að sjá út úr vefmyndavélum vegna veðurs og lítils skyggnis en óróamælingar benda ekki til þess að draga sé úr gosinu nema síður sé. Annars vita menn lítið um hvernig Eyjafjallajökull ætlar að hafa þetta gos á næstunni, þessi eldstöð virðist vera ólíkindatól sem kemur sífellt á óvart.
En þó að þessi gosbólstur hafi verið svona sýnilegur þarna, þarf það ekki endilega að þýða aukinn kraft í gosinu. Kannski er vindurinn hægari í háloftunum en áður og svo hefur kvikan ef til vill komist í snertingu við bræðsluvatn sem skapar þessa miklu bólstra. En hvað um það. Það er alltaf athyglisvert að sjá gosbólstur héðan úr Reykjavík.
Á myndinni er gosbólsturinn skáhalt fyrir ofan Höfða. Myndin er tekin 21. apríl klukkan 18.18.
![]() |
Gosið ekki að breytast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.4.2010 | 17:51
Hamfarakort af Íslandi
Það eru ekki mörg lönd í heiminum sem geta boðið upp á jafn mikið úrval af náttúrufarslegum uppákomum og Ísland. Eldgos, jarðskjálftar, hafís, óveður og flóð hafa lengi plagað landsmenn og valdið allskonar harðindum í stórum og smáum stíl. Myndin sem hér fylgir er tilraun til að kortleggja það helsta sem við þurfum að fást við í náttúrunni en mjög misjafnt er eftir landshlutum við hverju má búast á hverjum stað.
Eldvirknin á Íslandi er kannski það sem mesta athygli fær og kannski ekki að ástæðulausu. Þó að flest eldgos séu frekar lítil þá geta inn á milli komið hamfaragos sem er stærri í sniðum en viljum hugsa til enda. Eldvirknin er aðallega bundin við gosbeltin á landinu sunnan og norðanlands en áhrifin af þeim geta verið mun víðtækari. Stórir jarðskjálftar verða helst á Suðurlandsundirlendi og á Norðurlandi auk minni skjálfta víðar. Hafísinn kemur oftast að landi á norðanverðum Vestfjörðum og getur breiðst út austur eftir Norðurlandi og jafnvel suður með Austfjörðum. Síðustu áratugi hafa snjóflóð reynst vera skaðlegustu uppákomurnar í mannslífum talið en helsta ógnin af þeim er þar sem fjöllin eru bröttust yfir byggðum á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum. Hætta á skriðuföllum ýmiskonar fylgir einnig þessum fjöllóttu landshlutum. Á suðvesturlandi er hættan á sjávarflóðum mest enda er landið þar almennt að síga af jarðfræðilegum ástæðum. Óveður geta skollið á í öllum landshlutum og úr öllum áttum og þeim geta fylgt mikil vatnsveður eða stórhríðir. Flóð geta komið í stærri ár vegna vatnavaxta en sér-íslensk fyrirbæri hljóta að vera jökulhlaupin á Suðurlandi. Sandfok sunnan jökla teljast varla til mikilla hamfara en á hálendinu er fokið nátengt gróðureyðingu landsins. Þá er bara eftir að minnast á elda sem hér á landi eru aðallega í formi sinuelda en eftir því sem gróðri fer fram á landinu geta gróðureldar aukist.
Ekki hér á landi
Við getum fagnað því að hér verða hitabylgjur ekki til vandræða, jafnvel ekki í framtíðinni. Ekki heldur fellibyljir eða skýstrókar nema þá í smækkaðri mynd. Skógareldar verða hér aldrei í líkingu við það sem gerist erlendis og flóðbylgjur vegna jarðskjálfta koma hér varla því að á Atlandshafinu verða ekki stórir jarðskjálftar. Það má þó ímynda sér flóðbylgjuhamfarir af öðrum og fáheyrðum atburðum svo sem af loftsteinahrapi í hafið sem minnir okkur á að hamfarir geta verið afar víðtækar. En hvað sem öllu líður þá getum við þó kannski fagnað því umfram annað að hér verður enginn engisprettufaraldur.
Vísindi og fræði | Breytt 20.4.2010 kl. 23:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
16.4.2010 | 23:39
Þegar gosmökkurinn tók sér hlé
Það mátti sjá mjög fallegar myndir af gosstöðvunum úr vefmyndavélinni á Þórólfsfelli í kvöldbirtunni þann 16. apríl. Þó vantaði herslumuninn á að upptökin sjálf væru sýnileg á jöklinum. Merkilegt var þó að sjá að gosstrókurinn datt niður á tímabili eins og gosið hefði allt í einu ákveðið að hætta. En svo var þó ekki alveg.
Kl. 20.22. Gosið í fullum gír baðað síðustu sólargeislunum. Gígjökull er fyrir miðri mynd en þaðan koma flóðin sem falla í Markárfljót. Lónið er ekki til staðar lengur enda barmafullt af aurframburði.
Kl. 20.44. Gosmökkurinn fjarlægist í austur og ekkert kemur upp í staðinn. Er gosið búið?
Kl. 20.49. Ekki alveg búið. Nýr hvítur gufubólstur rýkur upp af toppi jökulsins.
Kl. 21.03. Dökkur gosmökkur og allt komið á fullt á ný. Eftir þetta var ekki meira að sjá, ský lagðist yfir og síðan náttmyrkrið.
- - - -
Tengillin á vefmyndavélina á Þórólfsfelli er: http://www.vodafone.is/eldgos
![]() |
Svartur mökkur frá gosinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.4.2010 | 16:01
Á gervitunglamynd sést að mökkurinn er kominn til Noregs
Á gervitunglamynd frá því í dag sést vel það sem málið snýst um núna. Greinilegur gosmökkur liggur austur frá Íslandi alla leið til Noregs og ekki furða að flugumferð liggur niðri á stórum svæðum. Það er þó ekki að sjá að mökkurinn sé þykkur yfir Bretlandseyjum enn sem komið er, en það gæti breyst og samkvæmt fréttum hefur orðið vart við ösku í Skotlandi. Þetta er framlag Íslands til Evrópu í dag og einhverja næstu daga.
Upprunalegu myndina sótti ég af MODIS Rapid Response System gervitunglavefnum:
http://rapidfire.sci.gsfc.nasa.gov/realtime/2010105/
![]() |
Flugbannsvæði stækkar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 16:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.4.2010 | 23:36
Kafli tvö í eldgosi
Gosið í Eyjafjallajökli sem nú er uppi, er meira í takt við það sem menn töldu sig eiga von á, heldur en túristagosið á Fimmvörðuhálsi. Eina tjónið þar voru túristagöngustikur sem hurfu undir hraun ásamt flísvettlingi sem ég átti, en við teljum hann ekki með. Nú höfum við fengið flóð sem rofið hefur þjóðveginn og öskufall austur um sveitir. Áhrifamest er kannski ef alþjóðleg flugumferð raskast á stórum svæðum Norður-Atlantshafsins.
Vegna veðurs höfum við varla getað séð hið raunverulega gos nema mökkinn sem nær upp úr skýjunum. Af og til rofaði þó til á upphafsdegi gossins án þess þó eldsumbrotin sjálf kæmu í ljós. Miðað við hvernig tilkomumikill gosbólsturinn leit út kl 18.45 var greinilegt að gosið var komið upp úr jökli við toppgíginn og spúði þaðan ösku og eimyrju. Það hefði verið flott að sjá gosstrókana koma upp á þeirri stundu. Miðað við veðurspá eru litlar líkur á að það rofi til fyrr en undir helgi, en á laugardaginn ætti dýrðin að koma ljós. Það verður því væntanlega nokkuð um gosglápara á Suðurlandi um helgina. Hversu tilkomumikið gosið verður þá, veit ég ekki. Það vita líka fæstir hvar og hvenær þetta endar allt saman.
![]() |
Kolsvartur strókur frá gosinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.4.2010 | 21:46
Goslokaskýrsla 1
Uppærsla 14. apríl: Vegna nýrra atburða skal lýta á þessa skýrslu sem yfirlit um það sem gerðist á Fimmvörðuhálsi. Augljóslega halda eldsumbrot áfram, en á nýjum stað og undir jöklinum. Ég kalla þetta því nú Goslokaskýrsla 1, og var upphaflega skrifuð svona að kvöldi 13. apríl:
- - - -
Nú er gosinu lokið og þjóðin getur farið að snúa sér að öðrum viðfangsefnum. Ýmsir munu þó kannski sakna gossins og jafnvel vonast eftir einhverri endurkomu. Slíkt er auðvitað ekki útilokað. Ég velti því fyrir mér í upphafi gossins hvort það stæði undir væntingum, að hluta til hefur það gert það. Þetta var allan tíman lítið gos en tilkomumikið í návígi, ekki síst vegna umgjarðarinnar í þessu mikla landslagi. Hraunfossarnir voru skemmtileg nýjung í eldgosum hér á landi og buðu upp á mikið sjónarspil, einnig var það spennandi uppákoma þegar ný sprunga opnaðist nánast undir fótunum á glápandi fólki. Mesta mildi þó að það varð engum að fjörtjóni.
Hraunrennslið. Vegna staðsetningar á eldsumbrotunum var strax ljóst að hraunrennslið færi niður hyldjúp gilin fyrir neðan. Ég var ekki einn um að velta fyrir mér hvað gerðist ef hraunið næði niður á Krossáraura og kannski mynda stíflur og jafnvel uppistöðulón. Það hefði verið mikil breyting á umhverfinu og aðstæðum í Mörkinni en gekk ekki eftir. Hraunframleiðslan var aldrei nógu mikil vegna smæðar eldgossins, hraunið var mjög seigt í sér og átti alltaf erfitt með að ákveða hvort það ætti að falla í Hrunagil eða Hvannárgil sem kom í veg fyrir samstilltan hraunstraumi í eina átt. Svo kom það líka í ljós að hraunið hrúgaðist bara upp í giljunum eins og þegar möl er sturtað niður af vörubíl og rann lítt áleiðis er niður var komið. Ef til vill kólnaði hraunið í fossunum of mikið til að það næði að renna áfram þar í neðra.
Nýja fellið, 82 metra hátt, hefur ekki fengið nafn en nafngiftin mun vera stödd í nefnd. Það er þó betra að ákveða nafnið eftir að gosið er búið. Það flækir aðeins málið að þetta er ekki bara eitt fjall því nýrri gígurinn var byrjaður að hlaða upp nýju eldfelli en átti samt nokkurt verk óunnið.
Nú virðast margir ganga að því sem vísu að Kötlugos sé rétt handan hornsins. Slíku verður að sýna þolinmæði. Ég get ekki séð að menn viti almennilega hvernig gos í Eyjafjallajökli geti komið af stað gosi í nágrannaeldstöðinni Kötlu eða hvort slíkt samband sé yfir höfuð til staðar. Allavega virðist ekkert benda til atburða þar núna. Katla gýs kannski bara þegar henni sýnist en gerir væntanlega einhver boð á undan sér.
Næsta gos. Það er auðvitað erfitt að spá fyrir um eldgos. Ég hef þó reynt það af veikum mætti í árlegum spádómum hér á blogginu. Síðasta spá mín frá liðnu hausti kom út skömmu áður jarðskjálftavirkni tók sig upp að nýju undir Eyjafjallajökli og því hafði ég því litla trú á að næsta eldgos yrði þar, eða einungis 4% líkur. Miklu meiri trú hafði ég á Heklu, Grímsvötnum og jafnvel Kötlu. Ný og örugglega jafn hæpin spá verður sjálfsagt gerð næsta haust.
Að lokum kemur hér mynd frá frá því er goshátíðin stóð sem hæst.
![]() |
Eldgosinu á Fimmvörðuhálsi lokið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 14.4.2010 kl. 08:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.4.2010 | 21:48
Gotnesk letur
Áfram skal haldið með letursögu og nú er komið að því merkilega hliðarskrefi sem gotneska letrið er en það var einkennisletur síðmiðalda þótt það hafi víða verið notað áfram í prentverki næstu aldirnar. Á síðustu öldum miðalda leitaði menning hins kaþólska heims til hæstu hæða og sem allra næst sjálfu himnaríki. Hinn rómanski bogi sem áður hafði einkennt kirkjubyggingar fékk á sig odd sem teygði sig upp á við og úr varð hinn hvassi gotneski stíll. Á sama hátt snéru biblíuskrifarar Mið- og Norður-Evrópu við blaðinu, lögðu til hliðar hina rúnnuðu Karlungaskrift og tóku upp þetta háa og kantaða letur sem hefur verið kallað gotneskt letur. Þessi leturþróun var þó kannski ekki bara fagurfræðilegt tískufyrirbæri heldur líka praktískt því með gotnesku skriftinni var hægt að skrifa þéttar sem sparaði dýrmætt bókfell auk þess sem leturgerðin bauð upp á ýmsar styttingar með sameiningu einstakra stafa eins og sést í dæminu hér að neðan.
Gotneskt letur er stundum kallað öðrum nöfnum eins og t.d. brotaletur og blackletter á ensku. Gotneska heitið festist eiginlega við þessa leturgerð sem niðrandi uppnefni húmanískra Suður-Evrópumanna sem voru á annarri og klassískari línu og héldu áfram að þróa sitt lágstafaletur í þá átt sem við þekkjum í dag.
Elsta og stífasta gerðin af gotnesku letri nefnist textúr og einkennist af jöfnum, lóðréttum strikum í grunninn og misbreiðum skástrikum eftir því hvernig þeim hallar gagnvart fjaðurpennanum. Bogadregnar línur eru nánast engar. Ef tekinn er bútur úr almennilegri textúr-skrift á réttum stað kemur randmynstrið og reglan í ljós.
Frægasta og áhrifamesta notkun á gotneska textúr-letrinu er sjálf Gutenbergsbiblía frá því um 1450-60 sem er fyrsta og eitt fallegasta stórvirki prentlistarinnar. Þar var beitt þeirri byltingarkenndri nýjung að hver stafur var handgerður og steyptur í blý og stöfunum síðan raðað upp á hverja síðu fyrir sig. Gutenberg sjálfur vildi að Biblían væri sem líkust handskrifuðum bókum og því valdi hann að nota gotneska textúr-letrið. Þessi hugsun átti eftir að vera ríkjandi áfram í prentverki um nokkurt skeið.
Elstu íslensku handritin voru ekki rituð með gotneskri skrift heldur hinni eldri Karlungaskrift sem var líkari lágstafaskrift okkar tíma. Um 1400 voru gotnesku letrin hinsvegar nánast allsráðandi hér í handritagerð og síðar í prentverki. Hin þétta og hvassa gerð gotneska letursins - textúr - var þó ekki notuð á prentaðar bækur hér því komnar voru fram léttari afbrigði sem buðu upp á sveigða og mýkri stafi. Gotneska leturafbrigðið sem notuð var í Guðbrandsbiblíu nefnist fraktúr sem byggist bæði á beinum og sveigðum línum sem gerir letrið læsilegra, en verður þó um leið óreglulegra á að líta í samfelldum texta heldur en textúr.
Hinar léttari gerðir gotnesks leturs voru mjög lífseigar fram eftir öldum á vissum svæðum og þá sérstaklega í Norður-Evrópu. Á Íslandi héldu menn áfram að prenta sínar bækur með þessum leturgerðum fram á 19. öld þó að í Evrópu hafi verið komin fram nútímalegri leturgerðir. Lífseigust urðu þessi letur þó í Þýskalandi enda þóttu þetta lengst af vera þjóðleg letur. Nasistum þótti það einnig líka í fyrstu en skiptu svo rækilega um skoðun árið 1941 eftir að þeir fóru að tengja gotnesk letur við gyðinga, hvernig sem þeir fundu það út.
Í dag eru gotnesk letur nánast ekkert notuð í samfelldum texta nema í sérstökum tilfellum. Algengt er enn í dag að nota gotnesku letrin í blaðahausa virðulegra og íhaldssamra dagblaða. Nærtækast fyrir okkur er að benda á haus Morgunblaðsins sem byggist á hinu forna textúr-afbrigði. Hinsvegar má gjarnan sjá gotnesk letur á allt öðrum og hörkulegri vettvangi t.d. meðal þungarokkara og rappara svo eitthvað sé nefnt, en þá erum við kannski komin dálítið langt frá upphaflegu hugsun leturskrifara miðalda.
- - - -
Eldri bloggfærslur mínar um letursöguna má finna hér:
Hið forneskjulega Únsíal letur
Meðal heimilda sem ég notast við er ástæða til að nefna samantektina: Þættir úr letursögu eftir Þorstein Þorteinsson sem birtist í bókinni, Prent eflir mennt, í ritröðinni: Safn til iðnsögu Íslendinga.
7.4.2010 | 00:01
Hvernig kemur Esjan undan vetri?
Hér er komið að einum af hinum föstu árlegu og ómissandi liðum á þessari bloggsíðu. Á fyrsta bjarta deginum í apríl hin síðustu ár hef ég beint myndavélinni að Esjunni til að fá samanburð á snjóalögum á milli ára undir lok vetrar. Að þessu sinni þurfti ég ekki að bíða lengi og tók aprílmynd ársins á fyrsta degi mánaðarins. Eins og sést þá var ekki miklum miklum snjó fyrir að fara, enda var hann með allra minnsta móti miðað við fyrri ár í þessum samanburði, sem nær aftur til ársins 2006.
Að vísu setur það dálítið strik í reikninginn að tvívegis hefur snjóað í Esjuna eftir að síðasta myndin var tekin. Ég læt þó 1. apríl myndina standa enda er þessi nýfallni snjór ekki nema þunn föl sem mun hverfa fljótt og vel næstu daga og mun litlu breyta um ástand hinna raunverulega vetrarskafla sem eftir eru í fjallinu.
Öll þessi ár frá 2006 hefur snjórinn í Esjunni náð að bráðna á sumrin og reyndar hefur snjórinn bráðnað öll sumur frá árinu 2001. Miðað við snjóalög nú er nánast hægt að slá því föstu að slíkt mun einnig gerast þetta sumar þannig að þá fáum við heilan og hreinan áratug þar sem snjórinn lifir ekki sumarið, en það mun ekki hafa gerst áður svo vitað sé. Minnstu munaði þó í fyrra því þá skall veturinn á þann 26. september, daginn eftir að Esjan varð snjólaus. Til samanburðar þá hvarf snjórinn 24. ágúst árið 2006 og 30. júlí árið 2003. Dæmi eru um að snjórinn hafi horfið enn fyrr á heitustu árum síðustu aldar.
5.4.2010 | 14:58
Ístoppur með dýfu
Ég var víst búinn að skrifa um það fyrir nokkrum vikum að hafísshámarki vetrarins hafi verið náð á Norðurslóðum en það gerist venjulega um miðjan mars. En í stað þess að hafísútbreiðslan hafi byrjað að dragast saman eins og venjulega seinni hlutann í mars, hélt hún áfram að aukast. Þrátt fyrir þetta má ekki draga of miklar ályktanir af þessu og segja að hafísnum sé hér með borgið um aldur og ævi. Þau svæði sem valda þessari síðbúnu aukningu eru fyrir utan Norður-Íshafið sjálft svo sem Beringshafið, Barentshafið og jafnvel Eystrasaltið. Norðurpólsísinn getur líka verið að brotna upp eins og oft á þessum árstíma og fer því meira fyrir honum.
Þessi toppur á hafíssútbreiðslunni er sennilega skammvinnur og brátt muni góð dýfa taka við. Hafísmagnið sveiflast talsvert milli vikna og mánaða vegna veðuraðstæðna og hefur lengst af síðustu ár verið vel undir meðallagi, nema núna akkarúat í nokkra daga og þarf það ekki að þýða neitt sérstakt.
Vegna mikilla vetrarhlýinda í Norður-Kanada og við Vestur-Grænland er ástandið á ísnum þar sennilega óvenju bágborið núna og góðar líkur á því að Norðvesturleiðin opnist upp á gátt síðla sumars. Meira um það þegar þar að kemur.
- - - - -
Úr því að í fréttinni hér var minnst á Grænlenska útvarpið KNR, þá má það alveg koma fram hér að KNR - Kalaallit Nunaata Radioa er einnig sjónvarpsstöð og fengu þeir nýtt og aldeilis fínt lógó fyrir ári síðan. Hver annar en ég sjálfur skyldi hafa teiknað lógóið?
![]() |
Hafís eykst á norðurslóðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.4.2010 | 18:58
Vetrarhitasúlur
Myndin hér líkist kannski gosstrókum en hún hefur ekkert með eldgos að gera enda komið nóg af því hér í bili. Hinsvegar sýnir þetta súlurit hvernig hitinn í Reykjavík var frá degi til dags mánuðina nóvember til mars nú í vetur. Það eru tölur úr mínum eigin veðurskráningum sem liggja þarna að baki en hver súla á að sýna dæmigerðan hita yfir hádaginn í Reykjavík sem liggur einhverstaðar á milli meðalhita sólarhringsins og hámarkshita dagsins.
Það er greinilegt á myndinni að þetta var yfirleitt hlýr vetur í Reykjavík, algengt að hitinn væri á bilinu 3-7 stig og stundum meira. En það voru miklar hitaandstæður því inn á milli komu nokkuð eindregnir kuldakaflar og þá sérstaklega um og fyrir hver mánaðarmót, líkt og núna. Lengsti kuldakaflinn var seinni hluta desember og fyrstu dagana í janúar. Í þessum kuldaköstum var yfirleitt bjart og þurrt, enda fylgdi þeim lítil snjókoma.
Þótt þetta hafi verið svona hlýr vetur þá sýnist mér eftir snöggan samanburð að þessir mánuðir séu í 8. sæti miðað við sömu mánuði frá aldamótum 1900, samkvæmt opinberum athugunum. Talsvert hlýrra var t.d. þessa mánuði veturinn 2002-'03 (3,2 stig) miðað við 1,9 stig nú. Annars lýtur samanburðurinn svona út, og sést að það er ekki bara á þessari öld sem við höfum fengið hlýja vetur:
2002-03: 3.2°C
1928-29: 2.9°C
1963-64: 2.7°C
1945-46: 2.7°C
1941-42: 2.3°C
1933-34: 2.1°C
2005-06: 2.0°C
2009-10: 1.9°C
31.3.2010 | 20:33
Nýja sprungan sést vel á vefmyndavélum
Nýja sprungan sést vel á vefmyndavél Vodafone sem staðsett er á Þórólfsfelli. Skjámyndin hér er tekin kl. 19.20 á meðan sprungan er ný og fersk.
Seinni myndin er tekin um 15 mín. síðar þegar gufubólstrar frá nýju sprungunni eru farnir að stíga hátt til himins. Lengst til vinstri (bak við snúruna) eru bólstrar frá Hrunagili. Þessar nýju aðstæður ættu að breyta hraunrennslinu enn á ný því nú ætti megnið af hrauninu að falla í Hvannárgilið. Þetta sífellda flakk á hraunstraumum gæti minnkar líkurnar á því hraunið nái niður á Krossáraura nema að þetta sé hrein viðbót. Annars veit auðvitað enginn hvað endar hvar og hvenær.
Hér er svo mynd frá Mílu myndavélinni á Fimmvörðuhálsi. Tveggja sprungu gos!
![]() |
Fólki vísað af Bröttufönn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.3.2010 | 21:24
Myndir af vettvangi
Laugardaginn 27. mars var ég mættur á gosstöðvarnar ásamt fjölda annarra gosþyrstra áhugamanna. Hér koma nokkrar sjóðheitar myndir af aðstæðum sem svo sannarlega voru ekki alveg hættulausar.
Gönguferðin fram og til baka frá Skógum ásamt góðu stoppi á vettvangitók næstum 12 tíma og var það virkilega þess virði þrátt fyrir kaldannorðanblástur. Þannig blasti tæplega vikugamalt gosið við manni þegar komið var að því úr norðri. Allt er þetta mun hrikalegra en hægt er að sýna á svona mynd. Takið eftir hjólförunum að hrauninu. Vonandi er bíllinn ekki ennþá þarna undir.
Þetta er nú bara ég sjálfur með góðan hjálm enda rigndi þarna öskunni, en þó engu stórgrýti. Myndina tók ferðafélagin minn.
Töluvert af fólki hélt sig neðar við hraunbrúnina þar sem minna var um öskufall, en það var þó ekki hættulaust. Hér hafði rauðglóandi hraungrautur skyndilega brotist í gegn. Hraunið flæddi þarna rólega fram og yfir snjóinn, sem þarna er undir þunnu öskulagi.
Sama hrauntunga og á myndinni fyrir ofan. Þarna hægra megin á myndinni við enda hraunsins er gul stika sem markar gönguleiðina yfir hálsinn. Fáir gerðu sér grein fyrir hvaða hætta er á ferðum við þessar aðstæður. Hér var t.d. það sem einn erlendur ferðamaður girti niður um sig buxurnar rétt við sjóðheitan jaðarinn og lét taka af sér afturendamynd.
Stuttu síðar leit svæðið svona út. Öflugar gufusprengingar höfðu skyndilega orðið þegar vatnið sauð undir hrauninu þannig að hraunmolar þeyttust í loft upp og aukinn kraftur varð í rennslinu. Fólk flúði í ofboði undan en ég sjálfur var kominn í ágæta fjarlægð, myndin er tekin með aðdráttarlinsu. Þetta voru síðustu stundir göngustikunnar.
Hér sést hvernig gufan hefur lagst yfir norðanverðan hraunjaðarinn þar sem fólkið hafði verið áður. Svæðið var þarna orðið yfirlýst hættusvæði og kominn tími á að halda til baka.
Jarðfræði | Breytt 29.3.2010 kl. 08:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.3.2010 | 18:04
Kort - Þegar hraunið nær niður á láglendi
Ef gosið heldur áfram í einhvern tíma mun óhjákvæmilega koma að því að hraunið sem fellur niður Hrunagil muni ná niður á sléttlendið við Þórsmörk. Þá gæti tekið við athyglisvert samspil hraunsins og jökulánna sem þar renna. Einn möguleikinn gæti litið svona út eins og ég hef teiknað inná kortið en ég tek fram að þetta eru bara vangaveltur. Ef hraunið er þykkt og hægfljótandi gætu skapast þær aðstæður að hraunið nái að stífla jökulkvíslina sem rennur úr Tungnakvíslarjökli og jafnvel sjálfa Krossána með þeim afleiðingum að vatnið safnist í uppistöðulón innan við hraunið. Vatnið mun þó alltaf finna sér leið framhjá hrauninu að lokum og renna þá meðfram hlíðunum.
Gosinu á Fimmvörðuhálsi hefur verið líkt við Heimaeyjargosið en hraunið sem þar rann var þykkt og myndaði háan hraunkamb sem kjörinn er til að stífla gil og smádali eins og þarna eru í Þórsmörkinni. Auðvitað veltur þetta allt á því hversu lengi gosið mun vara. En nú þegar hefur verið talað um nokkurra vikna- eða jafnvel mánaðalangt gos, og má samkvæmt því búast við ýmsu. Ég sleppi því hins vegar að spá í hversu langt hraunið mun renna í átt að Básum og Langadal.
Kortið er úr ÍSLANDSATLAS Eddu-útgáfunnar. Það birtist stæra við nokkrar smellingar.
![]() |
Hraunslettur þeytast hátt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Jarðfræði | Breytt s.d. kl. 18:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)