Kort - hvert fer hraunið?

Samkvæmt nýjustu myndum sem hafa verið að birtast í fréttum virðist hraun vera farið að renna ofan í gilin neðan eldstöðvanna. Ekki sér maður vel hvort þetta sé eitthvað magn að ráði en allavega virðist hraun leita niður bratt Hrunagilið sem er austan megin við Morinsheiði, þaðan gæti það náð farvegi Hraunár og niður láglendi. Spurning er síðan hvort hraun nái að renna niður gilin vestan Morinsheiðar og niður Hvanná og komi niður á láglendi vestan við Bása. Á kortinu hér hef ég teiknað inn gosstöðvarnar og hugsanlegar leiðir hraunsins. Hraunrennsli á þessu svæði er eitthvað sem fáir sáu fyrir í aðdraganda gossins, en hraunrennli þarna getur auðvitað haft ýmsar afleiðingar í för með sér. Allt veltur þó á því hversu lengi þetta varir og hversu mikið hraunmagn er á ferðinni.

Goskort 22 mars

Kortið er tekið úr Íslandsatlas EDDU útgáfunnar.

 


mbl.is Almannavarnir loka leiðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stendur gosið undir væntingum?

Ég hef skrifað um það einhvern tíma að það væri fínt að fá dálítið eldgos hér á landi. Kannski ekki alveg hamfaragos en þó nógu stórt til að hrista aðeins upp í tilverunni. Ég hef líka orðið var við áþekka goseftirvæntingu hjá fólki. Kannski má kalla þetta gosþrá eða mannlegan gosóróa. En nú er komið eldgos á Fimmvörðuhálsi, spenna í lofti og fjölmiðlar taka við sér. Nema hvað, þetta eldgos er nú svona heldur í minni kantinum og alveg spurning hvort það standi undir væntingum. Það er í raun svo lítið að ef ekki væri fyrir þá tækni sem við búum við í dag er ekki víst að nokkur hefði tekið eftir því.

Eftir því sem liðið hefur á daginn hefur þó umræða aukist um að þetta eldgos geti bara verið byrjunin á miklu lengri og stærri atburðum og jafnvel stærri en við kærum okkur um. Hvað gerist til dæmis ef neðanjarðarkvika kemst í samband við gúlana hans Páls Einarssonar? Það gæti orðið dágóð bomba. Svo má alveg minna á að stærsta eldgos á sögulegum tíma á Íslandi var Eldgjárgosið upp úr 930. Kvikan sem þar kom upp var ættuð úr Kötluöskjunni, en bara nokkrum árum áður hafði gos verið upp á Eyjafjallajökli.

Annars hef ég litlu við það að bæta sem þegar hefur komið fram fjölmiðlum um þetta eldgos. Ég get þó boðið upp á gervitunglamyndir sem ég sótti á Modis-síðunni og sýna svæðið kringum Eyjafjallajökul í dag, 21. mars. Sú til vinstri er í réttum litum og má sjá þar Eyjafjallajökull og ströndina þar suðvesturundan. Ekkert bólar þar á eldgosi. Á hitamyndinni til hægri má hinsvegar sjá lítinn ljósan, bláleitan punkt sem sker sig úr rauða litnum eins og krækiber í helvíti. Það er eldsuppkoman á Fimmvörðuhálsi.

Eyjafj_gos_Modis21m


mbl.is Þurfum að fylgjast með Kötlu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær er listaverk listaverk?

Sólfar og turn

Það hefur oft reynst erfitt að finna eina skilgreiningu á því hvað sé list. Ýmist er talað um list útfrá einhverjum fagurfræðilegum gildum eða öðrum huglægum gildum sem eiga að sýna okkur tilveruna í nýju og óvæntu ljósi eða að vekja hjá okkur óræðar tilfinningar. Þannig er listrænt gildi verks háð persónulegri upplifun hvers og eins og því ómögulegt að allir geti komið sér saman um það hvenær list er raunverulegt list.

Svo má líka einfalda málið og segja að allt sem gert er í listrænum tilgangi sé list, óháð því hversu vel eða illa heppnað viðkomandi verk sé í huga áhorfandans. Í leiðinni verður þá að gera strangar kröfur til verksins að það sé upphaflega gert í listrænum tilgangi og standi sjálfstætt sem slíkt og ekkert annað. Sólfarið við Sæbrautina er til dæmis hreinræktað listaverk. Þó það hafi víðtækar skírskotanir þá er það ekkert annað en listaverk. Niðursuðudós getur líka verið listaverk, sé hún gerð í listrænum tilgangi eingöngu, jafnvel þótt hún sé í engu frábrugðin venjulegri niðursuðudós sem ætluð er til sölu í matvöruverslun.

Eiffel turninnEiffel-turninn var upphaflega byggður fyrir heimsýninguna í París árið 1889 en til stóð svo að rífa hann niður að nokkrum árum liðnum. Menn voru missáttir við þetta mannvirki sem sumum fannst vera forljótt járnavirki og gagnslaust í þokkabót. Ekki voru allir vissir um hvað Eiffel turninn væri, enda virtist hann ekki byggður í praktískum tilgangi sem gagnaðist samfélaginu. Þá sagði einhver snjall náungi að Eiffel turninn væri ekkert annað en listaverk, enda byggður sem slíkur og gæti því staðið sem listaverk um aldur og ævi. Eftir það hefur engum dottið í hug að rífa Eiffel turninn.

Einn flötur er á þessu máli til viðbótar. Hafi Eiffel turninn verið byggður sem gagnslaust mannvirki, hvað þá með byggingar sem hér hafa verið reistar á undanförnum árum – góðæristurnana? Háhýsið við Höfðatorg mætt flokka sem ágætis byggingarlist en er reyndar ekki alveg gagnslaust því einhver starfsemi fer þar fram á efri hæðunum. En ef hann stæði alveg tómur og væri þar með gagnslaus, mætti þá flokka hann sem sjálfstætt listaverk? Í rauninni ekki, enda var hann byggður sem skrifstofuhús sem er praktískt fyrirbæri og því alltof seint að skilgreina hann sem sjálftsætt listaverk. Ef bygging hússins hefði hinsvegar verið ákveðin með listrænan tilgang í huga eingöngu þá mætti vel kalla hann listaverk í dag.

Turnendi


Sölvi Helgason og vísindin

Undanfarna mánuði hef ég verið að lesa bók Davíð Stefánssonar, Sólon Íslandus sem segir af hinum undarlega Sölva Helgasyni. Bókin kom út árið 1940 og er með skemmtilegustu lesningum sem ég hef komist í og er ég því ekkert að flýta mér við lesturinn. Þetta er þó ekki bara hreinn skemmtilestur enda var lífshlaup Sölva Helgasonar enginn dans á rósum. Sölvi var af fátæku fólki kominn, missti föður sinn á barnsaldri en erfði þó frá honum óbilandi áhuga á grúski ýmiskonar við lítinn skilning sveitunganna.

Sölvi málverkSölvi þráði heitt að verða mikilsvirtur vísinda- og listamaður og taldi sjálfan sig bera af í gáfum og andagift. Hans ógæfa var hinsvegar sú hvað hann var erfiður í skapi og hraðlyginn og fékk því flesta á móti sér hvar sem hann kom sér fyrir og varð að lokum alræmdur um allt land. Þegar hann flakkaði um landið í sjálfskipaðri útlegð sinni naut hann sín best þegar hann gat villt á sér heimildir, enda þekktu fæstir þennan flökkumann í sjón. Ég ætla að leyfa mér að birta hér smákafla úr bókinni þar sem Sölvi hefur gert sig heimakominn á bæ einum á Möðrudalsöræfum og fer mikinn um eðli vísinda og meint afrek sín á sviði plöntu- og loftslagsfræða:

Bóndi mælti: Tók ég ekki rétt eftir því áðan, að þú hefðir verið við ýmsar athuganir á leiðinni?
Rétt er það sagði Sölvi með mestu ró. Vísindalegar rannsóknir. … Það er ekki mikið um æðri blómjurtir á sandinum, en vísindin leggja ekki síður rækt við lægri gróðurinn, jafnvel þann sem almenningur sér ekki með berum augum. Flestum sýnast öræfin gróðurlaus sandauðn, en við nákvæma rannsókn hef ég komist að öðru. Ég hef fundið þar örsmá strá og blóm, sem áður voru ókunn hér á landi og álitið var, að yxu hvergi nema suður á Afríkumelum.
O, hvern andskotann eru menn svo bættari? sagði bóndi.
Af því má leiða ýmsar tilgátur, af tilgátum sannanir, en af þeim skapast staðreyndirnar. Ég hef fært vísindaleg rök að því í erlendu fræðiriti, að hér á Íslandi var einu sinni jafn heitt og í Afríku. Þá uxu hér pálmar og rúsínutré.
Andskota ögnina, sagði bóndi og spýtti. Börnin störðu hugfanginn á gestinn.
Nú, vísindamaður verður auðvitað að rannsaka fleira en gróðurinn, þó að hann sé mikilsverður. Ég verð að athuga jarðveginn, sér í lagi jarðlögin; þar les ég sköpunarsögu jarðar og þroskasögu mannkynsins. Oft verð ég að klífa þrítuga hamra, stundum hef ég sigið niður í jökulsprungur og botnlausar gjár. Vísindamaðurinn verður að hætta lífi sínu í þarfir sannleikans og spekinnar.
En að hvaða gagni kemur svo þetta vísindapuð ykkar?
Fyrst þarf að rannsaka og mæla, svo að teikna og mála og reikna út. … Nú er það sannað, að hér var eitt sinn sama loftslag og í Afríku.
Hérna á fjöllunum?
Á öllu Íslandi. En þá er spurningin: hvers vegna er það ekki eins núna, eða að minnsta kosti hlýrra en það er? Fyrir þann sannleika má grafast fyrir með allskonar mælingum á ljósi og hita og ekki síst straummælingum, bæði hafstrauma, loftstrauma, ljósstrauma og ýmissa duldra flugstrauma, sem við lærðir menn nefnum flumina spiritualibus. Nú, þegar staðreyndin er fundin, þá er grundvöllurinn fundinn. Þá liggur næst fyrir að athuga: er ekki hægt að breyta loftslaginu, hita andrúmsloftið að nýju? Til þess þarf nákvæma rannsókn á höfuðskepnunum, sólkerfinu og vetrarbrautinni, en þar kemur reikningsgáfan að góðu haldi. Eitt dæmi getur tekið hálærðan reiknimeistara tvö til þrjú ár. … Þetta nefnum við vísindi. – Með næstu skipum á ég von á fullkomnum stjörnukíki frá París – og þá vona ég að mér takist að leysa gátuna.
Hita andrúmsloftið? sagði bóndinn háðslega.
Já og bræða jöklana –
Hættu nú hreint.

Árlegt hafíshámark á norðurhveli

Eins og venjulega um þetta leyti árs má gera ráð fyrir að því að hafísútbreiðsla vetrarins á Norðurhveli hafi náð sínu hámarki og því kominn tími á að rýna aðeins í stöðu mála enda stöðug hafísvöktun hér í gangi. Í stuttu máli má segja að hámarkshafísmagnið á norðurhveli jarðar hafi verið mjög nálægt hámörkum síðustu tveggja vetra, nokkru meira en veturna þrjá þar á undan en samt vel undir meðallagi frá þeim tíma er nákvæmar útbreiðslumælingar hófust árið 1979.

Norðurskautsís línurit

Útbreiðslumynstur hafíssins frá ári til árs getur verið nokkuð misjafnt þótt umfangið sé svipað. Það má meðal annars sjá á þessum myndum hér að neðan. Til vinstri sést hámarksútbreiðslan í byrjun mars 2009 en til hægri er hafísútbreiðslan 9. mars 2010 borin saman við meðallag áranna 1979-2000.

hafís 2009-2010

Hér sést t.d. að mjög lítið hefur verið um hafís í kringum Nýfundnaland og eins og undanfarin ár hefur ís verið í minna lagi á Barentshafinu sem þýðir að vetrarhörkur þessa vetrar hafa ekki náð til þessara svæða. Við Austur-Grænland og á okkar svæði er ekkert óvenjulegt að gerast en nokkuð mikill ís er hinsvegar inn af Eystrasalti þar sem langvarandi kuldar hafa verið ríkjandi, einnig er ísinn yfir meðallagi Kyrrahafsmegin suður af Beringssundi. Norður-Íshafið sjálft er svo auðvitað frosið stranda á milli eins og venjulega um veturinn ásamt hafsvæðunum við Norður-Kanada en það eru síðan þessi svæði sem skipta máli þegar kemur að því að skoða hvað bráðnar yfir sumartímann því allt annað hverfur hratt og örugglega þegar kemur fram á vorið, nema kannski ísinn við Austur-Grænland.

Ástand og horfur
Veðurfar þessa vetrar á norðurhveli hefur verið nokkuð óvenjulegt og eindregið, því mjög kalt hefur verið víða í Evrópu og Bandaríkjunum. Á Norður-Íshafinu hefur hiti þó verið yfir meðallagi en sérstaklega hefur verið hlýtt á heimskautasvæðum Kanada og vestanverðu Grænlandi. Svokölluð heimskautahringrás (Arctic Oscillation) hefur verið í óvenjusterkum neikvæðum fasa sem lýsir sér meðal annars í háum loftþrýstingi og því litlum lægðargangi yfir heimskautaísnum. Þetta er talið valda því að ísinn hafi fengið góðan frið til að styrkjast í vetur í stað þess að brotna upp og hrekjast með vindum út úr pólasvæðinu. Af þessum ástæðum hefur Bandaríska hafísrannsóknastofnunin NSIDC gefið það út að heimskautaísinn gæti orðið lífseigari í sumar en annars og því ólíklegt að dramatísk bráðnun muni eiga sér stað svipað og átti sér stað sumarið 2007. Við sjáum þó til með það, veður og vindar fram á sumarið munu skera úr um þetta. Ég gæti þó haldið að ísinn við Kanada, Norður-Ameríkumegin, sé nokkuð veikburða eftir mikil vetrarhlýindi þar.

Annars er kannski best að vitna beint í Bandarísku hafísspekingana:
„ … the AO has a strong effect on Arctic sea ice motion. The pattern of winds associated with a strongly negative AO tends to reduce export of ice out of the Arctic through the Fram Strait. This helps keep more of the older, thicker ice within the Arctic. While little old ice remains, sequestering what is left may help keep the September extent from dropping as low as it did in the last few years. Much will depend on the weather patterns that set up this spring and summer.“ (http://nsidc.org/arcticseaicenews/)


Daninn sem svaf af sér jökulhlaup á Sólheimasandi

Þegar þetta er skrifað er skjálftavirknin sem verið hefur undir Eyjafjallajökli í rénun en viðbúnaðarstigi almannavarna hefur þó ekki verið aflétt. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem óróa hefur orðið vart í eldstöðvunum undir Eyjafjallajökli og Mýrdalsjökli á undanförnum 10-15 árum og því ekki í fyrsta sinn sem talið sé að eldsumbrot gætu verið yfirvofandi með tilheyrandi jökulhlaupum og öðru veseni sem slíku fylgir.

Sumarið 1999 var ég á ferðalagi með fjölskyldunni og þurfti að fara yfir Sólheimasand þar sem ferðinni var heitið eitthvað austur á land. Stuttu áður, eða aðfaranótt 19. júlí, höfðu þeir atburðir átt sér stað að óvænt og snöggt jökulhlaup braust fram undan Sólheimajökli og fylgdi því talsverður klakaburður sem enn mátti sjá leifar af, er ég var þarna á ferð. Talið er þá hafi hugsanlega orðið lítið smágos undir Mýrdalsjökli eða að aukin jarðhitavirkni hafi komið hlaupinu af stað. Eins og nú, þótti ástæða til að lýsa yfir viðbúnaðarstigi vegna hugsanlegra eldsumbrota í Kötlu og átti ég því allt eins von á að þurfa að fara Norðurlandsleiðina til baka úr fríinu. Ekkert varð úr gosi þarna og hefur ekki orðið enn.

Sumarið eftir var ég svo aftur á ferðalagi og að þessu sinni kominn austur á Vopnafjörð. Á tjaldstæðinu þar var ungur Dani einsamall sem ég gaf mig á tal við og barst talið meðal annars að náttúruhamförum. Þá kom upp úr dúrnum að þetta væri annað sumarið í röð sem hann ferðaðist um Ísland en í fyrri ferðinni hefði hann örlítið fengið að kynnast því sem íslensk náttúra getur boðið upp á. Hann hafði nefnilega tjaldað eitt júlíkvöld við sakleysislegt smáfljót á Suðurlandi en verið vakin upp um morguninn af einhverjum mönnum sem sögðu honum að koma sér í burtu hið snarasta. Rétt hjá tjaldinu meðfram ánni hafði eitthvað mikið gengið á um nóttina, án þess að hann hafi orðið þess var og sjá mátti myndarlega jökulklaka á víð og dreif meðfram ánni. Í rauninni hafði hann verið heppinn að hafa ekki skolast á haf út um nóttina þegar hlaupvatnið undan Sólheimajökli ruddist fram breiddi úr sér á sandinum. Ég kannaðist auðvitað vel við þennan atburð frá sumrinu áður.
Þessi Dani sagði síðan að móðir hans væri ákaflega áhyggjufull þegar hann væri að þvælast þetta um á Íslandi. Kannski ekki að ástæðulausu því sjálfsagt vissi hún vel hvað landið er stórhættulegt.

 

Sólheimasandur júlí 1999

Viðgerðarflokkur að störfum eftir hlaupið á Sólheimasandi í júlí 1999. Ljósm. EHV.


Mikið og lítið um ís á Suðurhveli

Eins og venjulega á þessum árstíma er hafísinn í lágmarki við Suðurskautslandið og á næstu vikum mun hafísinn fara að aukast á ný eftir því sem sólin lækkar þar á lofti. Þegar vetur gengur í garð á suðurhveli vex ísinn hratt og örugglega í allar áttir án þess að meginlönd nái að hefta útbreiðsluna. Á suðurhvelinu er annars gríðarlega mikill munur á hafís eftir árstíðum, miklu meiri munur en á norðurhveli. Mestur hluti íssins þarna suðurfrá bráðnar á sumrin fyrir utan einstaka hafísbreiður meðfram ströndinni en það er aðallega austan við Antarktíkuskagann sem ísinn heldur almennilega velli enda er hann þar í góðu skjóli fyrir ríkjandi vestanáttum á svæðinu.

Þróunin á útbreiðslu á suðurhveli hefur ekki verið eins dramatísk og hér í norðri og ef eitthvað er hefur hafísinn suðurfrá aukist án þess þó að hægt sé að tala um einhverja róttæka þróun í þá átt. Reyndar má segja að útbreiðsla hafíssins á Norðurhveli hafi verið að líkjast meir því sem gerist á Suðurhveli því að á Norður-Íshafi hefur bráðnun aukist mjög á sumrin á meðan vetrarútbreiðslan hefur breyst minna. Andstæður milli árstíða hafa því farið farið vaxandi á norðurhveli og hlutfall fyrstaárs-íss aukist á kostnað eldri og lífseigari hafíss.

Á myndinni hér að neðan sést vel munur á útbreiðslu hafíssins á suðurhveli milli árstíða, til vinstri er útbreiðslan í febrúar 2010 en til hægri sýnir september 2009. (Mynd frá NSIDC)

Suðurskautsís 2009-2010

Suðurskautsís línurit

Sé litið lengra aftur í tímann sjást vel hinar miklu árstíðabundnu sveiflur í hafísnum á Suðurhveli en myndin er frá því núna um mánaðarmótin. Þetta árvar hafíslágmarkið um 2 milljónir ferkílómetra svipað og venjulega en munmargfaldast upp í 15-16 milljón km2 þegar líður á árið. Sambærilegartölur fyrir norðurhvel hin síðustu ár eru um 3-4 milljón km2 á sumrinen 13-14 milljón km2 á veturna samkvæmt því sem má lesa úr línuritum ásíðunni: Cryosphere Today

Íshellur og jöklar. Þegar talað er um ísinn á suðurhveli og framlag hans til hugsanlegrar hækkunar sjávarmáls er ekki verið að tala um hafísinn sjálfan enda hefur bráðnun hans og nýmyndun ekki áhrif á sjávarstöðu. Það eru hinsvegar hinn risastóri ísmassi uppi á landi sem skiptir máli, sjálfur Suðurskautsjökullin. Ísinn þar er um 90% af öllum ís jarðar og gæti hækkað yfirborð heimshafanna um sirka 61 metra ef hann bráðnaði allur. Það er þó enginn ástæða til að óttast slíkt jafnvel þótt eitthvað hlýni á jörðinni. Áhyggjur áhyggjusamra beinast hinsvegar einkum að vesturhluta suðurskautslandsins enda mun jökullinn þar ekki vera eins lífseigur og hinn stærri austurhluti.

Antarktíka

Einn veikasti hlekkurinn á Suðurskautslandinu er gjarnan talin vera hin mikla Ross-íshella sem hefur haldið velli eftir að hún myndaðist síðast fyrir um 3 milljónum ára. Íshellan, sem er nokkur hundruð metra þykk, nær ekki til botns og því getur hlýnandi sjór leikið um hana að neðanverðu og unnið á henni þaðan, jafnvel þótt fimbulkuldi haldist í lofti. Ef íshellan gefur sig, eins og smærri íshellur hafa reyndar verið að gera þarna, þá hverfur hluti af þeirri mótstöðu sem varnar því að jökulbreiður vesturhlutans flæði í sjó fram. Þótt vesturhlutinn virðist ekki stór er jökulmagnið svipað og á Grænlandsjökli og gæti hækkað sjávarborð um 6 metra. Þetta jökulhrun gæti gerst á næstu öldum ef heldur áfram að hlýna - þó er ekki alveg hægt að treysta á það frekar en svo margt annað.

Kortið hér að ofan með íshellunum hefur birst víða á netinu, t.d. á Loftslag.is þar sem sjálfsagt er að benda á umfjöllunina: Íshellur Suðurskautsins brotna upp.


Öfug snælína í Esjunni

Kjalarnes snælína

Í bjartviðrinu núna á mánudaginn mátti sjá fyrirbæri sem ég hef stundum tekið eftir og þá sérstaklega í bröttum hlíðum Esjunnar fyrir ofan Kjalarnes. Ég kýs að kalla þetta öfuga snælínu en hugsanlega er til eitthvað fræðilegt orð yfir þetta, en ólíkt venjulegum snælínum í fjöllum er mestur snjórinn þarna neðan snælínunnar. Í síðustu viku féll talsverður snjór hér á höfuðborgarsvæðinu sem og á Esjuna en þegar vindarnir tóku að blása í kjölfarið, feyktist snjórinn á brott þarna í hlíðunum sem nefnist Lág Esja. Hinsvegar hafði hlýnað upp fyrir frostmark á láglendi og blotnað í snjónum upp undir miðjar hlíðar. Þessi öfuga snælína myndast því þar sem frostmarklínan liggur því vindurinn nær ekki að feykja burt blauta snjónum í neðri hlíðunum. Kjalarnes er auðvitað einn af vindasömustu stöðum landsins og það ásamt því hvernig fjallshlíðin liggur á snjórinn þarna oft erfitt uppdráttar en í þessu tilfelli er það þó hiti yfir frostmarki sem verndar snjóinn neðan snælínu. Þetta er auðvitað hið merkasta fyrirbæri sem enginn höfuðborgarbúi ætti að láta fram hjá sér fara.


Plötukynning - Communique með Dire Straits

Það er allur gangur á því hvernig maður kynnist nýjum hljómsveitum. Stundum er maður lengi að taka við sér og sumar hljómsveitir þekkir maður alveg ágætlega hvort sem manni líkar þær vel eða illa. Tilfellið með hina víðfrægu hljómsveit Dire Straits var hinsvegar það að þá hljómsveit uppgötvaði ég, að ég tel sjálfur, upp á mitt eigið einsdæmi en þó án þess að vita nokkurn skapaðan hlut um hljómsveitina, enda var þetta nokkuð áður en tónlist þeirra tók að hljóma í útvörpum, allavega þannig að ég yrði þess var. Það átti þó eftir að breytast því Dire Straits (eða þröng sund eða kröpp kjör) átti eftir að vera ein af vinsælustu og dáðustu hljómsveitum heimsins á fyrri hluta níunda áratugarins áður en hún datt eiginlega upp fyrir vegna of mikilla og skjótra vinsælda, en kannski ekki síður vegna þess að hún var hún orðin hálfgerð tímaskekkja innan um allt „eighties“ glysrokkið.

CommuniqueEn það sem ég ætlaði að segja var að þegar ég var nýskriðin upp úr fermingu árið 1979, uppgötvaði ég plötu sem stóra systir hafði keypt í útlöndum. Platan hét Communique og var umslagið bláleitt með óræðri mynd af manni á strandgöngu í umslagi, mjög huggulegt. Nafnið á hljómsveitinni Dire Straits sagði mér ekkert og nöfnin á hljómsveitar- meðlimum því síður. Þarna voru tveir sem hétu Knobfler og þeir gátu allt eins verið Hollendingar. Þetta virtist allt vera frekar góðir gæjar, lausir vil prjál og stjörnustæla samkvæmd myndunum af þeim sem fylgdi. En tónlistin sem þarna leyndist að baki var ekki bara hvað sem er. Ég var að vísu ekki mjög veraldarvanur í tónlist á þessum tímum, en fyrir þessari músik féll ég algerlega og því meir sem oftar var hlustað. Þarna var á ferðinni einhver snilld sem ég hafði ekki kynnst áður. Dálítið seiðandi og hægvirkt rokk með svakalega fínu gítarspili og góðum melódíum. Söngvarinn frekar hrjúfur í röddinni og letilegur. Lítið spáði ég þó í textana enda skiptu þeir eiginlega engu máli. Í þessu tilfelli var það tónlistin sem átti orðið – ekki bara gítarleikurinn heldur hljómurinn í hljómsveitinni í heild og takturinn svona almennt séð.

DS_medlimirÓhjákvæmilega átti ég svo eftir að að kynnast þessu fyrirbæri Dire Straits miklu betur. Knobflerarnir tveir voru bræður og var annar þeirra aðalsprauta hljómsveitarinnar og eitt af séníum tónlistarsögunnar. Hinn bróðirinn, ritmagítaleikarinn David (lengst til hægri á myndinni) yfirgaf hljómsveitina áður en næsta plata kom út, til að hefja sólóferill. Síðan hefur ekkert til hans spurst. Platan Communique var önnur plata Dire Straits og kom út skömmu eftir að hið frábæra lag Sultans of Swing af fyrstu plötunni sló loksins í gegn utan Bretlands. Þessar tvær fyrstu Dire Straits plötur eru báðar í miklu uppáhaldi hjá mér enn í dag, en þar sem ég kynntist Communique á undan á ég erfitt með að viðurkenna það sem almennt er álitið að frumburðurinn standi Communique heldur framar. Á næstu plötum Dire Straits var lagt út í metnaðarfullar tilraunir til að stækka lögin og lengja. Vinsældir og hróður hljómsveitarinnar jókst sífellt og náði algeru klímaxi með plötunni Brothers in Arms árið 1985. Þegar þar var komið við sögu fannst mér ég eiga lítið í þessari hljómsveit sjálfur, hún var orðin almannaeign og of vinsæl fyrir minn smekk. Platan Communique er hinsvegar alltaf Dire Straits platan mín. Þar var einhver ómengaður frumkraftur enn til staðar og þetta er enn í dag meðal allra áheyrilegustu hljómplatna sem ég hef kynnst.

Hér má sjá Dire Straits á litlum sjónarpskammertónleikum árið 1979. Lagið er Single-Handed Sailor af Communique sem er nánast óþekkt Dire Straits-lag, en feikna gott engu að síður og með löngu gítarsólói í lokin.

Lagalisti Communique: Framhlið: 1.Once Upon a Time in the West, 2.News, 3.Where Do You Think You're Going?, 4.Communiqué. Bakhlið: 1.Lady Writer, 2.Angel of Mercy, 3.Portobello Belle, 4.Single-Handed Sailor, 5.Follow Me Home. 


Hið forneskjulega Únsíal letur

uncial

Það vestræna letur sem við notum nú á dögum skiptist í HÁSTAFLETUR  og lágstafaletur þar sem meginreglan er sú að nota lágstafina í öllu meginmáli en hástafina í upphafi setninga og í sérnöfnum. Þessa gömlu hefð má rekja aftur til skrifara sem uppi voru á dögum Karlamagnúsar um árið 800 eða jafnvel fyrr. Á dögum Rómverja var einungis notast við hástafaletur enda var þá ekki um neitt lágstafaletur að ræða. Þegar farið var að skrifa upp guðsorð í stórum stíl á fyrstu öldum kristninnar þróaðist þetta hástafaletur í átt til léttari skriftar sem einkenndist af meiri bogalínum en verið hafði áður þannig að fljótlegra varð að skrifa. Þessi þróun varð til þess að lágstafirnir urðu til, menn höfðu þó ekki gleymt hástöfunum sem þóttu hátíðlegri og voru því áfram notaðir í fyrirsagnir og önnur virðulegheit eða bara eins og við notum þá í dag.

Trajan/Omnia

Sú leturgerð sem var allsráðandi í Evrópu á tímabilinu 400-800 hefur verið kölluð Únsíal letur og ber það öll einkenni þess að vera einskonar millistig hástafa og lágstafa. Ólíkt hinu rómverka letri er hringformið þarna áberandi en hugsanlega má rekja það til fornrar gotneskrar skreytilistar sem byggði mjög á bogdregnum línum og fléttum. Til eru nokkrar nútímaútgáfur af Únsíölum (Uncial letters) og ber ein sú dæmigerðasta nafnið Omnia og er það sýnt hér ásamt hinu Rómverska hástafaletri. Sumir bókstafirnir hafa ekki breyst mikið en mesta þróunin hefur orðið á stöfum á borð við A, D, M og H. Annað sem hefur breyst er að sumir stafir teygja sig upp fyrir leturhæðina og aðrir ná niður fyrir og er það einmitt eitt einkenni lágstafana okkar í dag. Þetta letur er eins og aðrir Únsíalar einingis til sem hástafaletur, eða lágstafaletur eftir því hvernig á að skilgreina það.

BookOfKellsÚnsíal letur datt að mestu uppfyrir á 9. öld þegar nútímalegri Karlungaletur komu fram og síðar hin skrautlegu og köntuðu gotnesku letur sem enn má t.d. sjá á mörgum blaðahausum eins og á Morgunblaðinu. Únsíal letur héldu þó lengst velli á Írlandi enda er það einskonar þjóðarletur þeirra og nota Írar það óspart þegar þeir vilja minna á sinn forna menningararf.Irish

Á Írlandi var einmitt Book of Kells skrifuð en hún er talin meðal fegurstu bóka sem ritaðar hafa verið. Myndin hér til vinstri er úr þeirri bók en letrið þar flokkast sem hálf-únsíall sem er afbrigði af þessu letri. Þessi írska útgáfa er líka stundum kölluð eyjaskrift (insular script).

Það er ekki algengt að rekast á únsíal letur á prenti eða í umhverfi okkar í dag. Það er þó athyglisvert að í nútímalegu glerhýsunum við Höfðatorg er veitingastaður sem ber hið forneskjulega nafn Eldhrímnir. Leturgerðin á skiltinu er einmitt hreinræktaður únsíall sem þykir sjálfsagt vel við hæfi.

eldhrimnir


Straumar og stefnur í hafísnum

Að þessu sinni ætla ég að þykjast vita heilmikið um hafsstrauma og hafísa. Ég læt þó bara yfirborðsþekkingu mína duga enda verður hér ekki kafað mjög djúpt, einungis hugað að yfirborðinu. Á veturna er alltaf stutt í hafísinn sem flýtur um á hafinu norðvestur af landinu og af og til minnir hann á sig með nærveru sinni eins og gerðist núna í janúar. Við sem búum hér á mörkum hins byggilega heims eigum nefnilega allt okkar undir því að hlýir vindar og hafstraumar úr suðri haldi kaldari sjónum í skefjum og þar með hafísnum.

Hafstraumarnir sjálfir eru reyndar nokkuð stöðugt fyrirbæri, einskonar brautir í hafinu sem sjórinn streymir um án mikilla tilbrigða. Vindarnir sem blása á yfirborðinu eru hinsvegar öllu óstýrilátari og geta orsakað allskonar afbrigðilegheit í veðri langtímum saman. Hér við land geta vindarnir síðan haft örlagarík áhrif á hafísinn og beint honum frá sinni hefðbundnu leið og í framhaldinu hlaðist upp norður af landinu og komist í straumana sem hringa sig um landið.

Hafsstraumar_NA
Myndin er að grunni til fengin af vefnum Cryosphere Today og sýnir útbreiðslu hafíssins þann 16. febrúar. Ofan á myndina hef ég bætt við pílum sem sýna á nokkuð einfaldaðan hátt hvernig hlýir og kaldir hafstraumar leika um hafsvæðið. Hlýsjórinn úr suðri er ættaður úr Golfstraumnum og sést vel hversu áhrifaríkur þessi suðlægi straumur er til að halda hafinu íslausu allt norður fyrir Svalbarða og lengst inn í Barentshaf. Greinilegt er samt að það er sögulega séð mjög lítið hafísmagn núna á svæðinu almennt og lítil hætta á að meiriháttar hafísár sé í vændum hér á landi.

Ef skoðað er hvernig samspili kaldra og heitra strauma er háttað hér í norðurhöfum, er greinilegt að það er nokkurskonar hægri umferð í gangi. Heiti meginstraumurinn liggur norður með Noregsströndum en kaldi pólstraumurinn úr Norður-íshafinu rennur suður með austurströnd Grænlands. Þar á milli blandast þessir straumar með rangsælis snúningum á opnu hafinu eins og á hringtorgum, einkum milli Íslands og Svalbarða. Hinsvegar er það svo að í kringum eyjar og meðfram landssvæðum virðist það vera reglan að heitu straumarnir fara vestur fyrir og streymi norður með vesturströndum á meðan köldu straumarnir fara austur fyrir.

Á Íslandi er vesturströndin nánast alltaf laus við hafís ef undan er skilinn Vestfjarðakjálkinn. Hafísinn kemur hér helst upp að landinu ef suðvestlægir vindar hrekja hafís úr Austur-Grænlandsstraumnum þannig að hann safnast fyrir norður- eða norðvestur af landinu. Í mestu hafísárunum kemur hann þó gjarnan úr norðri ef ísframboð þaðan er nægilegt. Í framhaldinu getur hann borist með strandstraumnum austur með landinu og jafnvel vestur eftir suðurströndinni í hinum allra verstu árum. Það þarf síðan hálfgert ísaldarástand til að hafísinn nái inn í Faxaflóa. Það gerðist þó árið 1695 og þótti með ólíkindum.

Sambærilegt ástand er við Svalbarða. Hlýr suðlægur straumur heldur hafinu vestur af Svalbarða oftast íslausu jafnvel um hávetur. Köldu straumarnir bera hafísinn upp að austurströndunum og þaðan getur hann borist suður fyrir eyjar og norður eftir vesturströndinni með strandstraumum. Á Grænlandi er það einnig austurströndin sem fær að kenna á hafísnum enda er þar mjög hrjóstrugt. Ísinn nær sífellt lengra til suðurs eftir því sem líður á veturinn en það er ekki fyrr en um vorið sem hann kemst almennilega suður fyrir Hvarf og eitthvað norðureftir vesturströndinni þar sem byggðin á Grænlandi er blómlegust.

Ef jörðin snerist í hina áttina

Straumar og stefnur lofti og sjó ráðast mikið af snúningi jarðar. Það má því velta fyrir sér hvernig ástandið væri hér á Norður-Atlantshafi ef jörðin snerist öfugan hring um sjálfa sig miðað við það sem eðlilegt er. Suðlægu hafstraumarnir myndu þá sennilegas leika um strendur Grænlands þar sem væru barrskógar og blómlegar byggðir á meðan köldu hafstraumarnir norður úr íshafinu kæmu upp að Noregsströndum með þeim afleiðingum að Skandinavía væri hugsanlega hulin jökli og harðneskju - sem reyndar er ekkert ólíkt því ástandi sem verið hefur þar undanfarnar vikur.

Grænland Suðuroddi

Hér er suðuroddi Grænlands í dag fimmtudaginn 18. október. Þarna sést hvernig hafísinn á austurströndinni er rétt farinn að gægjast vestur fyrir hornið. Einnig sést þarna hversu snjólétt er á Vestur-Grænlandi um þessar mundir. Terra/MODIS gervitunglamynd


Heklugos á þessu ári?

Á þessu ári eru 10 ár liðin frá síðasta Heklugosi sem þýðir að það ættu að vera góðar líkur á eldgosi núna í ár miðað við að Hekla hefur gosið nánast á 10 ára fresti frá 1970. Heklugos gera lítil boð á undan sér nema kannski 1-2 klukkutíma fyrir gos en talað hefur verið um að þrýstingur í kvikuhólfinu hafi allavega fyrir ári síðan verið kominn í það sem var skömmu fyrir síðasta gos. En náttúran er ekki alltaf mikið fyrir reglusemi, sérstaklega ekki eldfjöll og því er varla hægt að stóla algerlega á þessa tíu ára reglu. Kannski mun Hekla ekkert gjósa næstu 50 árin og fara aftur í þann takt sem hún hélt lengst af frá landnámi þegar hún gaus einu sinni til tvisvar á öld.

Þessi gos á um 10 ára fresti frá 1970 hljóta að vera óvenju reglubundinn, það var bara árið 1991 sem hún gaus ekki á ártali sem endar á núlli, en frávikið frá þeirri reglu var að vísu bara 17 dagar. Smágos árið 1981 var eiginlega bara smápúst eftir 1980 gosið.

 Heklugos 1991

Heklugos 1991 

Það er alltaf heilmikið fár í kringum Heklugos og þessi síðustu gos eru í rauninni það lítil að þau eru fólki frekar skemmtunar en til tjóns, en til að fá alvöru Heklugos af fullum styrk þarf eldstöðin þó nokkra áratugi til að hlaða sig almennilega. Nema svo ólíklega vilji til að Hekla taki upp á því að hrynja saman með látum ofan í kvikuhólfið og mynda öskju. Það er af sumum talið að hafi gerst fyrir um 4 þúsund árum og í framhaldi af því hafi liðið dágóður tími uns fjallið fór að byggjast upp aftur, enda þurfti mörg eldgos til að fylla upp í öskjuna. Ef þetta er rétt þá hefur Hekla verið mun lítilfjörlegri við landnám en hún er í dag. Við hvert gos hleðst utan á fjallið sem fær sífellt meiri lögun eldkeilu með tímanum. Annars er Hekla stundum talin vera eldhryggur, en samkvæmt því sem Ari Trausti segir í bókinni Íslandseldar þá hefur Hekla verið að þróast í átt til eldkeilu frá því að vera eldhryggur, eins og í árdaga eldstöðvarinnar fyrir um 7 þúsund árum, og þá kannski með millibilsástandi sem askja.

 

Hekla 10 ára gos

Hér á eftir er stutt yfirlit yfir 10 ára gosin í Heklu og ýmist þeim tengd:

1970. Fyrsta áratugagosið í Heklu hófst þann 5. maí með öflugu gosi í Heklugjánni samkvæmt venju og einnig í Skjólkvíum norðan fjallsins. Gosið stóð ekki lengi í fjallinu en hélt áfram í Skjólkvíum í um tvo mánuði og fylgdi því nokkurt hraunrennsli. Þetta gos er því stundum nefnt Skjólkvíagosið og var mjög aðgengilegt til skoðunar. Þetta er líka fyrsta eldgosið á Íslandi sem ég man eitthvað eftir sjálfur, aðallega þó vegna þess að pabbi fór austur á gosstöðvarnar og kom heim með myndarlegan hraunmola sem mér þótti merkilegur.

1980. Það átti enginn von á því að Hekla skyldi taka upp á því að gjósa þetta ár eftir aðeins tíu ára hvíld. Gosið hófst á fallegum sumardegi þann 17. ágúst og náðust myndir af upphafsstigum gossins þegar verið var að kvikmynda hestamannmót á Hellu, (frekar en á Hvolsvelli?). Eins og venjulega varð mikil traffík austur að gosstöðvunum og var ég þar á meðal, þó ég hafi ekki séð gosið nema úr nokkurri fjarlægð í kvöldrökkri. Gosið 1980 fjaraði mjög fljótt út og lauk aðeins fjórum dögum síðar. Talað var um að það gæti tekið sig upp á ný. Það gerðist þó ekki fyrr en í apríl árið eftir, með smávægilegum eldsumbrotum og hraunrennsli í fjallinu sjálfu.

1991. Þann 17. janúar stóð heimurinn á öndinni vegna margboðaðs Persaflóastríðs. Hér á landi stal Hekla þá óvænt senunni með sínu þriðja 10-ára gosi. Þetta var einn fréttaþrungnasti dagurinn á seinni tímum, en sama dag andaðist Ólafur Noregskonungur 87 ára að aldri. Heklugos þetta stóð alveg fram til 17. mars. Það var hefðbundið í fyrstu en var síðan lífseigast í einum gíg í austurhlíð fjallsins. Að þessu sinni fór ég í útsýnisflug yfir gosstöðvarnar og er myndin sem fylgir úr þeirri ferð. Sumarið áður fór ég hinsvegar í mína fyrstu og einu Heklugöngu, allsendis grunlaus um að stutt væri í Heklugos. Það var ekki fyrr en eftir gosið 1991 að menn áttuðu sig á þessari nýju goshegðun farið var að tala um Heklugos á um 10 ára fresti.

2000. Fjórða 10-ára gosið hófst þann 26. febrúar með hefðbundnum krafti í eldhrygg Heklu. Frægast við þetta gos er tilkynningin sem lesin var upp í útvarpi um hálftíma áður en gosið hófst. Þá var liðinn annar hálftími frá því öruggar vísbendingar sáust um yfirvofandi Heklugos. Einu vandræðin sem tengdust þessu gosi urðu þegar forvitnir ferðalangar urðu strandaglópar í Þrengslunum vegna stórhríðar sem skall á síðdegis daginn eftir að gosið hófst. Annars var þetta gos nokkuð svipuð hinum fyrri, eldurinn var einungis upp í fjallinu sjálfu og fjaraði smám saman út á 11 dögum.

- - - -
Að lokum má minnast á að í hinni árlegu og algerlega óábyrgu spá minni frá síðasta hausti, mat ég það svo að 37% líkur væru á því að næsta gos hér á landi yrði í Heklu. Þar á eftir komu Grímsvötn með 20% og Katla með 13%. Sjá: Hvar verður næsta eldgos á íslandi?


Hitinn á jörðinni í janúar

Það hljómaði dálítið sérkennilega þegar fréttir bárust af því að nýliðinn janúarmánuður hafi verið sá heitasti sem mælst hefur á jörðinni, ekki síst vegna óvenjumikilla vetrarkulda beggja vegna Atlantshafsins á sama tíma. Þær upplýsingar sem núna liggja fyrir um meðalhitann í janúar eru fengnar með gervihnattamælingum á hita lofthjúpsins. Það verður svo í seinni hluta mánaðarins sem fréttir munu berast af hita jarðarinnar þar sem stuðst er við hefðbundnar veðurathuganir á jörðu. Væntanlega verður ekki mikill munur á niðurstöðunum en þó er tæplega hægt að lofa fyrirfram hitameti samkvæmt þeim gögnum.

RSS_jan2010

Myndin hér að ofan sýnir hvað var að gerast í hitafari jarðar í janúar samkvæmt gervihnattamælingum frá RSS (Remote Sensing System) og er engu líkara en jörðin sé alveg rauðglóandi á köflum. Annars sýna litirnir frávik frá meðalhita og koma þarna vel fram þær hitafarslegu öfgar sem áttu sér stað janúar. Kalt belti hringar sig nánast um norðurhvelið í gegnum Bandaríkin og Evrópu og áfram til Síberíu þar sem kuldarnir virðast hafa verið mestir. Mesta jákvæða hitafrávikið er við Kanada og Grænland og njótum við góðs að því hér á landi. Mjög hlýtt svæði er einnig í Norður-Afríku og áfram inn í Asíu. Við miðbaug og á suðurhveli eru öfgarnar minni en þó yfirleitt hlýtt. 

Hitafrávik þessa mánaðar frá janúar-meðaltali áranna 1979-1998 mældist +0,64 °C, samkvæmt RSS og hefur ekki mælst meira í janúar frá upphafi gervitunglaathuganna árið 1979. Fyrra metið var frá 1998, sem er eitt heitasta árið sem mælst hefur og gefur þetta því vísbendingar um að árið 2010 geti mögulega orðið enn heitara. Eins og gerðist árið 1998 er það aðallega hinn hlýji El Nino straumur í Kyrrahafi sem er talinn bera ábyrgðina á þessu hitafari, að viðbættri þeirri hægfara undirliggjandi hlýnun sem á sér stað vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa. Sá El Nino sem nú veður uppi er þó ekki enn talinn eins öflugur og varð árið 1998 en sá hefur stundum hefur verið kallaður Super-El Nino.

Það sem kemur kannski á óvart, er að norðurhvelið hefur lagt meira af mörkunum til þessa óvenjulegu hita á jörðinni, en þrátt fyrir frost og snjókomur í mörgum af fínustu höfuðborgum vesturlanda var hitinn á norðurhveli nefnilega 0,80 °C yfir meðallagi, á meðan hitinn á suðurhveli var „ekki nema“ 0,47°C yfir meðallaginu. Grænlendingum ætti þó ekki að koma þetta á óvart þar sem hitinn hefur sumstaðar verið 4-5 gráðum ofan meðallags og ekki er menn hressir í rigningunni í Vancouver þar sem á að halda vetrarólympíuleika. Við hér í Reykjavík sættum okkur hinsvegar alveg við þær 2,9 gráður sem voru umfram meðalhita áranna 1961-90, nema kannski einstaka skíðamaður. 
- - - - -

Myndin sem fylgir er fenginn af heimasíðu Remote Sensing System: http://www.remss.com/msu/msu_data_monthly.html?channel=tlt
Velja þarf Anomaly á viðeigandi stað til að fá þessa mynd upp.


Af snjóalögum á Setri

Í byrjun vetrar birti ég línurit sem ég hef útbúið og sýnir snjódýpt uppi á hálendinu fyrir sunnan Hofsjökul, nánar tiltekið við Setur þar sem skáli ferðaklúbbsins 4x4 staðsettur. Ég hef fylgst með snjódýptinni þarna í nokkur ár í gegnum eldri vef Veðurstofunnar en upplýsingar af snjódýptarmælinum og öðrum sjálfvirkum veðurathugunum birtast á vefnum.
Setur er í 693 metra hæð yfir sjávarmáli. Þar er hvít jörð allan veturinn og snjódýptin oft vel á annan metra. Veturinn að þessu sinni hefur hinsvegar vegar nokkuð sérstakur og í samræmi við tíðarfarið hér á landi hefur snjódýptin á Setri ekki verið nema svipur hjá sjón, þrátt fyrir bratta byrjun í haust. Lengst af hafa hlýir og rakir vindar ráðið ríkjum eða að komið hafa talsverðir frostakaflar sem ekki hafa skilað af sér neinni úrkomu sunnan jökla. Af þessum sökum hefur snjódýptin rétt náð yfir 20 cm núna í janúar, en ekki 70-130 cm eins og venjan hefur verið síðustu ár.


Snjódýpt SETUR jan 2010

En viti menn. Núna um mánaðarmótin þegar ég gerði mína hálfsmánaðarlegu uppfærslu á línuritinu tók ég eftir því að snjódýptin hafði rokið upp úr öllu valdi að kvöldi hins 30. janúar og var skyndilega komin í 110 cm. Úrkomumælirinn sýndi 25 mm úrkomu og virðist þetta hafa fallið bara á nokkrum mínútum. Hinsvegar var veðrið þennan dag mjög gott um allt land og ekkert tilefni til svona skyndilegs fannfergis. Það sem skyggði þó á annars ágætis helgi var hið hörmulega slys áLangjökli en atburðirnir þar tengjast reyndar að hluta snjóleysinu áhálendinu.

Setur_30janSnjódýptarmælirinn, sem er staðsettur nokkuð frá Skálanum sjálfum, hefur að vísu átt það til að bila eða tekið upp hjá sjálfum sér að sýna skyndilega mjög hátt gildi og haldast þannig langtímum saman og kemur eitthvað slíkt alveg til greina. Hinsvegar finnst mér sérstakt ef þetta er bilun að á sama tíma hafi úrkomumælirinn rokið upp. Skyndilegur skafrenningur kemur þó varla til greina því vindmælirinn sýnir ekkert óvenjulegt. Semsagt, þessi 90 cm aukna snjódýpt á Setri er eitthvað sem ég á erfitt með að samþykkja.

Hitt er svo annað mál að samkvæmt heimasíðu ferðaklúbbsins 4x4 var hið árlega þorrablót félagsins haldið einmitt um þessa helgi og allt gott um það að segja, sennilega var það hið eina sem raskaði ró hálendisins þarna á þessum annars fáförnu slóðum. Hvort sú samkoma hafi haft einhver áhrif á snjómælinguna þarna, veit ég hinsvegar ekkert um.


Plötukynning - Brottför kl. 8 með Mannakornum

Brottfor kl.8Árið 1979, þegar gekk á með gengis- fellingum, óðaverðbólgu og landlægri kuldatíð, keypti ég mér hljómplötu í fyrsta skipti á ævinni, þá á fjórtánda ári. Sú sem varð fyrir valinu var þriðja skífa hljómsveitarinnar Mannakorna og hét Brottför kl. 8. Ég hef aldrei verið stór í sniðum þegar kemur að plötukaupum og fjárfesti ekki í svoleiðis nema að vel ígrunduðu máli og eins var það auðvitað í þessu tilfelli. Þetta voru vel heppnuð plötukaup enda ekki við öðru að búast þegar Mannakorn eru annarsvegar, sérstaklega á þessum fyrstu árum hljómsveitarinnar.

Brottför kl. 8 fylgdi á eftir hljómplötunni, Í gegnum tíðina, sem er oft talin meðal bestu platna íslensku popptónlistarsögunnar þar sem finna má lög eins og Sölva Helgason, og auðvitað lagið, Í gegnum tíðina. Þessi plata er hinsvegar sjaldnar nefnd og kemst t.d. ekki inn á TOP 100 bókina yfir bestu íslensku plöturnar, fellur sennilega í skuggan af hinni fyrri. Í Brottför kl. 8 er dálítið farið úr einu í annað í tónlistarstíl en nýjabrum þess tíma eins og pönk og diskó er þó víðsfjarri. Þeir Magnús Eiríksson og Pálmi Gunnarson voru meira fyrir blúsinn eins og heyrist en einnig má finna þarna kántrý, jass ásamt hreinni og beinni dægurtónlist.

Það lag sem varð vinsælast á plötunni og er orðin sígild perla er Einhverstaðar einhvertíma aftur, sungið af óþekktri 17 ára söngkonu, Ellen Kristjánsdóttur þeirri sömu Ellen Kristjáns og allir þekkja í dag. Annað lag sem heyrðist talsvert var Gamli skólinn, sungið af Pálma en það virðist þó vera gleymt í dag. Þau lög sem höfðuðu eiginlega mest til mín eru reyndar þau sem búa yfir dálítilli dulmögnun eins og lagið Ferjumaðurinn sem Ellen söng, einnig Álfarnir þar sem Magnús syngur um þegar hann villtist í þoku á heiðinni og var ginntur af Álfkonu. Kántrýlagið Graði Rauður, eina erlenda lagið á plötunni, fannst mér ekki alveg gera sig en er þó kannski ágætt fyrir sveita- eða hestamenn. Lokalag plötunnar er magnaður Guðsblús, sunginn af Pálma Gunn en það er eins og venjulega Magnús Eiríksson sem á heiðurinn af lagi og texta.

Þeir sem standa að spilverkinu á plötunni eru auk Magnúsar og Pálma: Baldur Már Arngrímsson, Jón Kristinn Cortes, Björn Björnsson, Eyþór Gunnarsson, Halldór Pálsson, Karl Sighvatsson og Úlfar Sigmarsson. Það var svo Leifur Breiðfjörð sem hannaði plötuumslagið en þarna má alveg þekkja teiknistílinn frá glerlistaverkunum sem hann er annars þekktastur fyrir. 

Hér er textinn við GUÐSBLÚSINN – fínn sálmur þó að innihaldið eigi ekkert sérstaklega við mig.

Þú veist að djúpt í þínu hjarta er ennþá einn örlítill guð.
Og þú veist að hann er því bjarta,
Ef þú syndgar þá heyrirðu suð.
Þá samviskan þín er að syngja við sofandi innri mann óð.
Við guð minn nú glösum skal klingja,
og kveða hans ljúfustu ljóð.

Ég held oft að guð sé í öllu sem lifir og lífsanda fær.
Í sigurverki svo snjöllu,
Að allt sem hann lífgar það grær
En líf sprettur aðeins af lífi og lífgeislinn fljúgandi fer
Ég trúi að hann fagnand svífi
Að lokum úr búknum á mér.

Ó guð minn hve oft var ég illur og ónýtur í þessum heim.
Eftir þokur og villur,
og eftir endalaust geim.
Get ég nú setið í friði og hlustað á hjartað mitt slá.
Ég býst við að enginn því tryði,
hve ágætan guð ég á.

- - - - - 

Þessi bloggfærsla er hugsuð sem sú fyrsta af mánaðarlegum plötukynningum. Svipað má reyndar segja um síðustu færslu um letrið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband