TRAJAN leturgerðin

Trajansúlan

Það stafróf sem við notum hér á vesturlöndum kallast Latneskt stafróf eða latneskt letur og er eins og margt annað, arfleifð frá hinu forna Rómaveldi. Allra frægasta dæmið um notkun Rómverja á latneska letrinu er að finna á undirstöðum Trajan-súlunnar sem kennd er við Trianus Rómarkeisara. Súlan sjálf er frá árinu 113 og er þakin mikilli myndasögu sem segir af velheppnuðum herleiðöngrum keisarans. Letrið sem höggvið er í undirstöðuna hefur orðið einskonar útgangspunktur í klassískri leturgerð til okkar daga. Útfærsla letursins er greinilega þaulhugsað og ber klassískri fagurfræði vitni.

Þarna má t.d. sjá þá nýjung þess tíma að öll lárétt strik eru grennri en þau lóðréttu og allar bogalínur eru misþykkar samkvæmt því. Önnur nýjung sem hefur orðið ódauðleg í gegnum aldirnar er lítið þverstrik á endum strika, en slík letur eru nú almennt kallað fótaletur upp á íslensku eða Serífur, samanber letur eins og Times og Garamond. Ástæðan fyrir því að misþykkar línur og þverstrik komu til er gjarnan talin vera sú að letrið hafi verið málað á steininn með flötum pensli áður en letrið var meitlað. Það var svo ekki fyrr en á síðustu öld sem komu fram hrein og bein letur í nútímastíl án þessara skreytiþátta. Það eru letur eins og Helvetica og Arial, oft kölluð steinskriftir eða Sans Serif letur.

Á tímum Rómverja var ekki um neina lágstafi að ræða en þeir áttu eftir að þróast með tímanum þegar farið var að skrifa handrit í stórum stíl enda hentar þetta letur ekki vel til hraðritunnar, hinsvegar hefur sú hefð lengi verið ríkjandi að nota hástafi í upphafi setninga.

Trajan letur
Nokkrar leturgerðir hafa verið teiknaðar sem líkja eftir letrinu á Trajan súlunni Rómversku. Það þekktasta af þeim var teiknað árið 1989 og ber einfaldlega heitið TRAJAN. Letrið hefur talsvert mikið verið notað þegar á að ná fram klassískum virðuleika og fínlegheitum enda er þetta auðvitað afar fallegt letur.

Stundum er þetta letur kallað bíómyndaletrið því það hefur verið sérlega vinsælt að nota það á kvikmyndatitlum. Einnig mætti líka kalla það bókarkápuletrið miðað við hvað það hefur verið vinsælt til slíks brúks hér á landi og ef einhver er með vegabréfið sitt uppivið þá er Trajan letrið þar allsráðandi. Eins og á tímum Rómverja þá er nútímaútgáfa Trajan letursins aðeins til í hástöfum en það takmarkar auðvitað notkun letursins í löngum textum. Miðað við hvað Trajan letrið hefur verið mikið notað undanfarin ár, er kannski komið því að það þurfi smá hvíld sem aðalletur á bókarkápum og kvikmyndatitlum. Þetta letur mun þó verða notað lengi áfram þegar leitað er eftir klassa eða virðuleik í grafískri hönnun. Frumlegt er það þó ekki enda er klassíkinni ekki ætlað vera frumleg.

Trajan-notkun


Um flekaskil og jarðskjálfta hér og þar

Flekaskil

Eftir jarðskjálftann á Haiti hefur verið fjallað um ákveðinn skyldleika milli þessara staða með tilliti til jarðskjálftavirkni. Ísland og Haiti eiga nefnilega það sameiginlegt að vera á jaðri Norður-Ameríkuflekans sem rekur í vestur. Brotahreyfingin í Haiti-skjálftanum er einnig svipuð því sem gerist í Suðurlandsskjálftum þar sem um er að ræða svokallað sniðgengi sem liggur frá vestri í austur. Norðvesturhluti Íslands sem er á Norður-Ameríkuflekanum rekur í vestur, á meðan Suður- og Austurland er á hinum risastóra Evrasíufleka sem rekur í austur. Haiti hinsvegar liggur á suðurmörkum Norður-Ameríkuflekans og tengist Karíbahafsflekanum sem færist í gagnstæða stefnu í austur. Að vísu er þetta dálítið flóknara á Haití, flekaskilin þar eru tvöföld vegna þess að þarna er örsmár aukafleki sunnan megin-flekamótana og það var í rauninni hliðarhreyfing í honum sem ollu skjálftanum. Ég fer ekki nánar út í það en bendi hinsvegar á það sem eldfjallafræðingurinn Haraldur Sigurðsson skrifaði um skjálftann á sinni bloggsíðu (sjá hér).
Það er ekki hægt að skilgreina jarðskjálftann á Haiti sem risaskjálfta þótt tjónið hafi orðið óskaplegt. Sú tegund húsa sem þar er að finna eru sennilega að verstu sort með tilliti til öflugra jarðskjálfta. Þeir hafa nefnilega byggt sín steinsteypuhús fyrst og fremst til að verjast fellibyljum en ekki hugað að almennilegum járnabindingum og því fór sem fór. Nú er talað um að skjálftinn hafi verið 7 á Righter sem er svipað og mest getur orðið á sniðgengisbeltunum á Íslandi þ.e. á Suðurlandsundirlendinu og úti fyrir Norðurlandi. Stærstu skjálftar á jörðinni verða hins vegar á stöðum þar sem tvær plötur mætast þannig að önnur platan fer undir hina. Skjálftinn sem olli flóðbylgjunni á Indlandshafi var af þeirri gerð og um 9 á Richter sem er eiginlega það mesta sem er í boði, þótt Richterskvarðinn ná upp í 10.

Ísland rekbelti
Skjálftar á Íslandi
Jarðfræðilega hefur Ísland mikla sérstöðu og er eiginlega einstakt fyrirbæri enda eini staðurinn á jörðinni þar sem gliðnun á milli tveggja fleka á sér stað á þurru landi, kannski fyrir utan einhverjar smáeyjar. Á gliðnunarsprungum eru tíðir jarðskjálftar en þeir verða ekki mikið stærri 6 á Righter enda nær mikil spenna ekki að hlaðast þar upp. Öflugasti skjálftinn sem fundist hefur í Reykjavík á síðustu 100 árum náði þó 6,3 stigum. Hann reið yfir árið 1929 og átti upptök sín við Brennisteinsfjöll á Reykjanesskaga.
Ástæðan fyrir sniðgengjunum við suður- og norðurland er sú að inn til landsins hefur rekhryggurinn færst til austur frá meginhryggnum því væntanlega vill hann tengjast heita reitnum sem er undir landinu á slóðum Bárðarbungu. Sá heiti reitur er talinn vera á mjög hægri siglingu lengra í austur miðað við flekaskilinn. Nákvæmara er þó að segja að flekaskilin séu í heildina að færast í vestur því að heiti reiturinn er víst alltaf fastur á sínum stað.

Suðurlandsskjálftarnir árið 2000 og 2008 voru sem betur fer ekki stærri en 6,6 stig og ekki víst að skjálftar verði mikið stærri þar sem þeir áttu upptök sín. Nógu stórir voru þeir nú samt. Ölfusskjálftinn sem var vestast, var um 6,2 stig en skjálftarnir geta orðið stærri eftir því sem austar dregur á sniðgenginu við Suðurland, þar sem jarðskorpan þykknar eftir því sem fjær dregur flekamótunum við Reykjanesskaga, eða vestara gosbeltinu. Það má gera ráð fyrir að síðustu Suðurlandsskjálftar hafi verið af sömu stærðargráðu og Suðurlandskjálftarnir sem urðu seint á 19. öld, nema sá austasti árið 1896 sem er áætlaður 6,9 stig. Hinsvegar kom sá stærsti allnokkrum árum eftir hrinuna á 19. öld eða árið 1912 og átti upptök sín austast á skjálftabeltinu vestur af Heklu. Sá skjálfti var fyrsti Suðurlandskjálftinn sem var mældur á jarðskjálftamæli, mældist 7,0 á Richter. Hann fannst í öllum landshlutum og olli auðvitað miklu tjóni, sérstaklega á bæjum á Rangárvöllum.

Miðað við að í þessari síðustu hrinu á Suðurlandi hefur ekki orðið skjálfti austar en í Holtunum er varla hægt að segja annað en að einn eða fleiri stórskjálftar hljóti að bíða síns tíma austast á Suðurlandsbrotabeltinu. Þeir gætu þá orðið nálægt 7 á Richter, eða svipaðir að stærð og Haitiskjálftinn.

Stórir skjálftar við norðanvert landið virðast ekki ganga yfir í sambærilegum hrinum eins og á Suðurlandi. Brotabeltið er tvöfalt á Norðurlandi og liggur það syðra útfrá Skjálfanda en það nyrðra út frá Öxarfirði. Þarna verða ekkert minni skjálftar en á Suðurlandi. Heilmikið tjón var í Kópaskersskjálftanum árið 1976 sem mældist 6,3 á Ricther og frægur og jafnstór er Dalvíkurskjálftinn sem reið yfir árið 1934. Öllu stærri var skjálftinn árið 1963 sem kenndur er við Skagafjörð. Hann mældist 7,0 á Richter en olli ekki alvarlegu tjóni. Upptök hans voru norður af firðinum. Sama má segja um stærsta skjálftann sem mældur hefur verið við Ísland. Sá reið yfir fyrir 100 árum, þann 22. janúar árið 1910 og mældist 7,1 á Richter. Upptök hans voru út af Axarfirði, en sá skjálfti olli ekki teljandi tjóni.

Læt þetta nægja af skjálftatali að sinni og vona að hér sé nokkuð rétt farið með staðreyndir.

- - - - -
Upplýsingar um helstu skjálfta á Íslandi fékk ég úr samantekt Páls Einarssonar í bókinni Veður á Íslandi í 100 ár og einnig eru ýmsar upplýsingar í þessari grein hér: Jarðskjálftarnir miklu á Suðurlandi 17. og 21. júní, 2000 eftir Ragnar Stefánsson, Gunnar B. Gunnarsson og Pál Halldórsson.


Heimsins hæstu byggingar

Á bloggsíðu þessari er meiningin að fjalla aðallega um himinn og jörð og stundum sitthvað þar á milli. Hvað sem það nú annars þýðir, þá finnst mér alveg við hæfi að skrifa um það sem nær frá jörðu til himins, eins tilfellið er með hæstu og glæsilegustu húsin hér á jörð.

Í byrjun þessa árs var mikið um dýrðir í Arabíska furstadæminu Dubai þar sem langhæsta hús sem byggt hefur verið, var formlega tekið í notkun. Turninn fékk nafnið Burj Khalifa og er um 300 metrum hærri en hæstu byggingar sem þar koma á eftir og er sjálfsagt langt í að annað eins verði byggt. Annars er dálítið athyglisvert að miklir skýjakljúfar eru gjarnan vígðir einmitt í þann mund þegar fjármálakreppur skella á enda er byggingartími skýjakljúfa álíka langur og ein góðærisbóla.

Það er liðin tíð að hæstu byggingar heims sé að finna í Bandaríkjunum því himinháir skýjakljúfar hafa risið hratt síðustu árin í Asíu. Þetta má sjá á myndinni sem ég hef útbúið og sýnir nokkra af frægustu skýjakljúfum heims og ef vel er að gáð sést grilla í hæsta húsið á Íslandi.

Turnar 2010

Af þeim háhýsum sem sjást á myndinni er Empire State byggingin langelst en hún var tekin í notkun árið 1931 skömmu eftir að heimskreppan mikla skall á og skákaði þar með Chrysler byggingunni sem hafði verið hæsta bygging heims í aðeins eitt ár. Empire State byggingin hélt titli sínum allt þar til tvíburaturnarnir World Trade Center voru teknir í gagnið árið 1972.
Willis Tower í Chicago, (betur þekktur sem Sears Tower) var fullbyggður árið 1974 og tók þá við titlinum hæsta bygging í heimi. Þegar hæð byggingarinnar er nefnd eru loftnetin ekki talin með því þau teljast ekki vera hluti af arkitektúr byggingarinnar, að þeim meðtöldum nær byggingin næst mestu heildarhæð allra bygginga í dag.
Eftir að Petronas tvíburaturnarnir í Malasíu voru reistir árið 1998, misstu Bandaríkjamenn að lokum forystuna um hæstu byggingar heims til Asíulanda. Í þessu tilfelli eru turnspírurnar taldar með í hæðinni enda hluti af arkitektúrnum. Hæðirnar eru þó „ekki nema“ 88 talsins á meðan Willis turninn er 108 hæðir.
Árið 2003 var komið að Taiwan, en þar reis 101 hæðar skýjakljúfur Taipei 101 og var þetta hæsta hús heimsins þar til nú í ársbyrjun. Þetta var líka fyrsta byggingin sem samkvæmt hæðarreglum rauf 500 metra múrinn.
Hæsta húsið í Kína og það þriðja hæsta í heiminum í dag er Shanghai World Financial Center sem er 101 hæða bygging og 492 metra há. Við hlið hennar er önnur mjög há bygging uppá 421 metra en þriðja risabyggingin á svæðinu er í smíðum og á að verða um 630 metrar á hæð.
Eftir að smíði Burj Khalifa í Dubai var lokið, er ljóst að sett hefur verið nýtt viðmið í hæð skýjakljúfa enda slagar turninn hátt upp í Esjuna. Það er þó alveg mögulegt að byggja hærri hús ef mikilmennskan heldur áfram og efnahagsástand leyfir. 1000 metra hús er til dæmis sagt alveg tæknilega framkvæmanlegt.

Framkvæmdagleði okkar Íslendinga á undanförnum góðæristímum skilaði af sér allnokkrum háhýsum á okkar mælikvarða. Af þeim er háhýsið við Smáratorg hæst, um tveimur metrum hærra en Hallgrímskirkjuturn. Þriðja hæsta byggingin á Íslandi er síðan 19 hæða turninn við Höfðatorg sem opnaður var í fyrra. Það verður sennilega einhver bið á því að hærri hús rísi á Íslandi því væntanlega verður ekki mikið úr 28 hæða og 100 metra háum turninum sem til stóð að reisa í Kópavogi, enda kannski komið nóg í bili.


Hnattræn hlýnun og íslensk hlýnun

Það getur verið forvitnilegt að bera saman línurit yfir hitaþróun jarðarinnar í heild og hitaþróun á einstökum stað. Á línuritum yfir hitaþróun jarðarinnar frá 1900 til dagsins í dag kemur fram sterk en þó sveiflukennd hlýnun fyrir utan tímabil upp úr miðri síðustu öld þegar hitinn lækkaði lítillega að meðaltali. Allt önnur mynd kemur fram þegar einn staður eins og Reykjavík er sýndur. Síðustu 110 ár hafa hér á landi verið talsverðar sveiflur á milli ára og áratuga og ekki auðvelt að sjá að hiti hafi hækkað að ráði á tímabilinu. Allavega ekki miðað við þróunina sem á sér stað á jörðinni í heild, eins og kemur fram á línuritunum hér að neðan:Hiti HeimurRvík 1
Bæði þessi línurit eru sett fram á nokkuð hefðbundinn hátt. Línuritið til vinstri vann ég úr gögnum frá Nasa-GISS gagnaröðinni um hitaþróun heimsins en í slíkum línuritum er yfirleitt miðað við frávik frá meðalhita (hjá Nasa-GISS er miðað við árin 1951-'80). Línuritið til hægri sýnir meðalhitann í Reykjavík fyrir hvert ár samkvæmt þeim gögnum sem til eru.

Þegar svona línurit eru borin saman þarf að hafa ýmislegt í huga enda má segja að þau séu varla samanburðarhæf. Þegar talað um meðalhitaþróun fyrir allan heiminn er hér átt við bæði höf og lönd, ásamt pólarsvæðunum svo langt sem upplýsingar um það nær og er þetta því allt annar hlutur en hitaþróun á einum stað eins og Reykjavík.

Annað sem skiptir líka máli er að hitaskalarnir á myndunum hér uppi eru ekki í sambærilegum hlutföllum. Til vinstri er verið að sýna hitabreytingar upp á aðeins eina gráðu en til hægri eru hitasveiflur uppá rúmlega þrjár gráður. Til að bæta úr þessu hef ég útbúið sameiginlegt línurit sem sýnir þessa tvo ferla út frá sama hitaskala:

Hiti HeimurRvik 2

Þegar búið er að samræma hitaskalana eins og hér er gert koma hlutirnir í ljós í betra samhengi og hægt að draga ýmsar ályktanir eftir smekk og vilja hvers og eins. Það helsta sem ég sé út úr þessu er þetta:

  1. Sú hnattræna hlýnun sem átt hefur sér stað frá því um 1900 er lítil miðað við þær sveiflur geta orðið á einum stað, enda getur hitamunur milli tveggja ára í Reykjavík verið mun meiri en öll hnattræn hlýnun frá 1900. Að sama skapi geta miklar staðbundnar hitasveiflur átt sér stað á einum stað, eða á tilteknu svæði án þess að það hafi teljandi áhrif á meðalhita jarðar.
  2. Þrátt fyrir að hitaferillinn fyrir Reykjavík liggi ekki eindregið upp á við, þá er hlýnunin hér alls ekki minni en sú hlýnun sem orðið hefur í heiminum – jafnvel meiri. Hinsvegar eru sveiflurnar hér það miklar á milli ára og áratuga, að við getum varla treyst á að ekki komi tímabundið bakslag burt séð frá því sem gerist á heimsvísu.

Spádóma ætla ég þó að láta eiga sig að þessu sinni.

 


Meðalhiti í Reykjavík frá 1901 í kubbamynd

Hér kemur nokkuð litrík mynd sem ég hef útbúið, en hún sýnir árshita hvers árs í Reykjavík frá árinu 1901. Í stað þess að sýna þetta á línuriti eins og venjulega er hér hvert ár sýnt með kubbum sem staðsettir eru eftir hitaskalanum til vinstri og hefur hver áratugur sinn lit til aðgreiningar. Samskonar mynd birti ég fyrir ári, nema að núna er árið 2009 komið inn og eins og sést er það nokkuð ofarlega á blaði, með meðalhitann 5,6 gráður.

Árshiti fra 1901

Samkvæmt yfirliti frá Veðurstofunni, sem birt var skömmu fyrir áramót, kom fram að árið 2009 hafi verið 1,2 gráðum yfir meðallagi og í 10. sæti yfir hlýjustu árin í Reykjavík frá upphafi mælinga. Opinber meðalhiti í Reykjavík er þó ekki nema 4,3 gráður (m.v. árin 1961-1990). Hinsvegar hef ég fengið staðfest að meðalhiti liðins árs, reiknaður með tveimur aukastöfum, hafi verið 5,55 gráður þannig að mér ætti að vera óhætt að segja að meðalhitinn hafi verið 5,6 stig, með einum aukastaf. 

En nóg um það. Ef myndin er skoðuð sést að árið 2009 er þarna í ágætum félagsskap með fjórum öðrum árum en er væntanlega örlítið svalari en þau, ef rétt er að liðið ár hafi verið það 10. hlýjasta. Annars er árið 2003 það hlýjasta í Reykjavík en þar á eftir koma árin 1939 og 1941 í 2.-3. sæti. Þessi þrjú ár eru sögulega séð afar hlý og marka nokkurn veginn hitatoppana tvo sem hafa komið á landinu síðustu 100 árin. Talsvert köld ár komu um og eftir árið 1979, en það ár situr afgerandi á botninum með meðalhitann aðeins 2,9 stig, sem er talsvert kaldara en köldu árin í kringum frostaveturinn mikla 1918. Til að finna kaldara ár en 1979, þarf að fara aftur til ársins 1892. Það er athyglisvert hvað hitasveiflur hafa verið litlar eftir árið 2000 en þau ár eru öll fyrir ofan 5 gráðurnar sem þýðir að meðalhiti þessa áratugar er hærri en hefur verið áður. Á fjórða og fimmta áratugnum komu vissulega mjög hlý ár en meðalhiti þeirra ára var dreginn niður af lakari árum sem komu inn á milli.

Svo er bara spurning hvað gerist á þessu ári. Í fyrra spáði ég því að ýmsum ætti eftir að hitna í hamsi á árinu – sem gekk eftir. Ég veit ekki með þetta ár, eitthvað mun þó verða um hitamál á árinu.


Nokkrar spurningar

Vitum við í raun hvort samningurinn er ásættanlegur eða ekki?
Væri nákvæmlega sami samningur talinn jafn slæmur ef allir stjórnmálaflokkarnir hefðu átt sinn fulltrúa í samninganefndinni?
Er Icesave samkomulagið vont af því að formaður samninganefndarinnar var einu sinni Alþýðubandalagsmaður?
Er samningurinn slæmur af því að við viljum ekki borga skuldir einkafyrirtækis?
Finnst Sjálfstæðismönnum og Framsóknarmönnum samningurinn vera slæmur af því að þeir eru ekki í ríkisstjórn?
Verðum við stærri og stoltari þjóð ef við höfnum samkomulaginu?
Fáum við betri samning ef við höfnum samkomulaginu?
Hvað gerist ef við fáum ekki betri samning eftir að við höfnum samkomulaginu?
Hversu mikið betri þarf samningurinn að vera til að vinna upp það tjón sem höfnun forsetans veldur?
Mun örugglega nást betri niðurstaða ef deilan fer fyrir dóm?
Hvað ef við töpum málaferlum

… og hvað verðum við lengi í ruslinu? 

Ekki veit ég það, svo mikið er víst. 


mbl.is Endurreisnaráætlun í uppnám
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veðrið í Reykjavík 2009

Þessa fyrstu bloggfærslu mína á árinu ætla ég að tileinka veðrinu í Reykjavík á liðnu ári og skoða hvernig veðurgæðum hefur verið háttað fyrir hvern mánuð. Fyrir þá sem ekki vita, þá skrái ég mjög samviskusamlega veðrið fyrir hvern dag í Reykjavík og gef hverjum degi einkunn út frá veðurþáttunum fjórum: sólskini, úrkomu, vindi og hita. Hver dagur getur fengið einkunn á bilinu 0-8 og út frá því reikna ég meðaleinkunn hvers mánaðar sem gjarnan er á bilinu 4 til rúmlega 5. Mánuðir sem fá lægri einkunn en 4 teljast vera slæmir veðurmánuðir en allt fyrir ofan 5 er mjög vel sloppið.

Myndin hér að neðan sýnir veðurfarslega einkunn fyrir hvern mánuð í Reykjavík árið 2009. Til viðmiðunar eru gráu súlurnar sem sýna meðaleinkunn viðkomandi mánaðar öll þau ár sem ég hef skráð veðrið.

Veðurgæði 2009

Veðrið í Reykjavík á árinu var gott í heildina. Júlímánuður sker sig þó úr enda fékk hann hæstu einkunn sem ég hef gefið nokkrum mánuði í þau 23 ár sem ég hef staðið í þessum skráningum. Sumarmánuðirnir júní-ágúst fengu einnig samanlagt bestu einkunn sem ég hef gefið þeim mánuðum, auk þess sem nóvember sló öðrum nóvembermánuðum við í veðurgæðum. Ekki nóg með það því árið í heild dúxaði og fékk einkunnina 4,79 og sló þar með út árið 2006 sem besta árið – samkvæmt þessu einkunnarkerfi. Enginn mánuður telst vera slæmur. September og október fengu lökustu einkunnirnar og kannski heldur verri einkunn en þeir eiga skilið en í þessum mánuðum voru nokkuð slæmir veðurkaflar sem drógu meðaleinkunnina niður.

Hér á eftir kemur veðuryfirlit fyrir eintaka mánuði. Einkunnargjöfin er í sviga:

Janúar (4,5): Hlýtt í upphafi mánaðar en síðan breytilegt hitafar. Snjór var á jörðu seinni hlutann en aldrei mikill. Loftþrýstingur var mjög lágur þrátt fyrir mikinn þrýsting í fólki þarna á dögum búsáhaldarbyltingarinnar.
Febrúar (4,5): Kuldakast í upphafi mánaðar og bjart veður með hvítri jörð. Síðan hlýtt og blautt um miðjan mánuð. Kaldasti dagur vetrarins var 4. febrúar þegar var um 8 stiga frost, en þann 16. var kominn 8 stiga hiti.
Mars (4,8): Gott og bjart veður framan af og snjór á jörðu. Mjög hlýtt um tíma um miðjan mánuð en kólnaði aftur undir lokin með björtu veðri.
Apríl (4,7): Yfirleitt hlýtt í mánuðinum. Bjart og gott um Páskana (12. og 13.) og vikuna þar á undan. Gott veður á kosningadaginn þann 25. en rigningasamt og hvasst vikuna þar á undan.
Maí (4,9): Mjög breytilegt veður fyrri hlutann og hvasst með köflum. Upp úr miðjum mánuðinum gerði mikla sumarblíðu með mjög björtu og hlýju veðri. Skúrasamt undir lokin.
Júní (5,1): Nokkuð gott veður allan mánuðinn þó að hitinn hafi ekki þótt hár. Hlýnaði þó mikið undir lokin í þungskýjuðu hægviðri.
Júlí (5,8): Eindæma góður veðurmánuður í borginni. Mjög sólríkt og þurrasti júlí frá 1889. Hlýtt yfirleitt nema í kuldakastinu sem gekk yfir landið dagana 23.-25. Hitinn komst annars tvisvar í 21 stig.
Ágúst (5,2): Yfirleitt allgott sumarveður. Kærkomnar rigningar öðru hvoru en annars oftast bjart og hlýtt.
September: (4,2): Lengst af frekar milt. Hægviðri framan af en síðan úrkomusamt og hvasst. Það haustaði skart með hvössum útsynningi með slydduéljum þann 26. og snjóaði í fjöll. Sólin lét lítið sjá sig í mánuðinum.
Október (4,1): Mjög kalt framan af og fyrsti snjórinn í borginni féll þann 5. en stóð stutt. Óveður með austan stormi og rigningu gerði þann 9. Eftir það var hlýtt, breytilegt og sólarlítið veður.
Nóvember (5,1): Þægilegar austanáttir ríkjandi. Lengst af vel hlýtt þar til alveg í lokin þegar tók að frysta.
Desember (4,9): Mjög tvískiptur mánuður með hlýindum fyrri hlutann. Rigningar dagana 9.-12. Köld en björt norðanátt dagana fyrir jól en síðar hægari. Snjór á jörðu allra fyrstu og síðustu dagana.

- - - - -

Fyrir veðursama er hér meira um veðurskráningar mínar og sitthvað sem ég hef skrifað um veðrið á árinu:

Veðurskráning fyrir janúar

Útsynningur

Hversu gott var góðviðrið í júlí?

Gæðamat á sumarveðrum 1987-2009, súlurit

Einnig er sjálfsagt að vísa í veðuryfirlit fyrir landið í heild á vef Veðurstofunnar (hér) og á bloggsíðu Einars Sveinbjörnssonar (hér).


Hitt og þetta um tímatalið

Sólarlag 30. desember 2009

Nú þegar þessu ári lýkur eru heil 2009 ár frá upphafspunkti tímatals okkar sem er 1. janúar árið 1. Sú dagsetning markar þó ekki upphaf þeirrar hefðar að byrja hvert ár 1. janúar, því áramót höfðu verið haldin þann dag í Rómaveldi frá því þeir tóku upp sitt júlíanska tímatal árið 153 fyrir krist. Engin breyting varð á því þegar hið gregóríska tímatal okkar daga var tekið upp árið 1582. Árið 1 höfðu spurnir af fæðingu Jesúbarnsins ekki borist víða meðal jarðneskra manna og því voru ýmsar aðrar viðmiðanir í tímatalinu notaðar. Rómverjar miðuðu tímatalið gjarnan við stofnun borgarinnar árið 753 f.Kr. og samkvæmt því er fyrsta ár okkar tímatals það sama og árið 754 að hætti forn-Rómverja. Gyðingar miðuðu hins vegar tímatal sitt við sköpun heimsins sem átti sér stað 3671 f.Kr. samkvæmt fróðustu mönnum þess tíma. Það var þó ekki fyrr en árið 525 sem byrjað var að miða ártalið við fæðingu Krists og var þá miðað við útreikninga talnaspekingsins og munksins Dionysiusar Exiguusar - Anno Domini tímatalið.


Ef við horfum framhjá vangaveltum um það hvort fæðing Jesú sé rétt tímasett og miðum við það tímatal sem við notum í dag, þá er ljóst að Jesú fæddist á jólunum, um viku áður en fyrsta ár tímatals okkar gekk í garð. Fyrsta árið er að sjálfsögðu árið eitt og því fæddist Jesú undir lok ársins eitt fyrir Krist. Hann var því um viku gamall á núllpunkti tímatals okkar og er því 2009 ára og einnar viku gamall nú um áramótin. Árið núll var hinsvegar aldrei til enda þekktu vestrænir menn ekki einu sinni það hugtak á þessum tímum og þótt þeir hefðu gert það breytir það því ekki að núll getur ekki staðið fyrir tímabil eins og ár, sem á sér bæði upphaf og endi.

Það var mikið skrafað um það kringum árið 2000 hvenær halda skyldi upp á aldamót, svo ekki sé talað um árþúsundamót. Minn skilningur á því (sem auðvitað er hinn eini rétti og sanni) er sá að ný öld hefst alltaf í upphafi árs sem er með 01 í endann. Núverandi öld og árþúsund hófst þann 1. janúar 2001 þegar nákvæmlega tvöþúsund ár voru liðin frá upphafspunkti tímatalsins eða viku eftir að Jesú hélt upp á tvöþúsund ára afmæli sitt.

Af þessum fyrsta áratug þessarar aldar er 10. árið eftir, sem einmitt er árið 2010. Þessi skilningur er þó ekki allstaðar hafður uppi, t.d. ekki í Bretlandi þar sem þegar er búið að velja „hitt og þetta“ áratugarins. Til dæmis er búið að útnefna þennan áratug þann heitasta á jörðinni frá upphafi mælinga, svo maður komi því nú að. Þar er átt við árin 2000-2009 og talað um „the first decate of the century“.  Þetta breytir því þó ekki að hinn raunverulegi fyrsti áratugur þessarar aldar verður nánast örugglega sá heitasti á jörðinni frá upphafi mælinga, þó að eitt ár sé eftir. Annars ætlaði ég ekki að fara út í svoleiðis hitamál núna, en á nýju ári mun ég hinsvegar koma með alveg sjóðandi heit veðuruppgjör fyrir liðið ár að hætti hússins. Áratugsuppgjör læt ég hins vegar bíða í eitt ár enn.

Ýtarlegri og örlítið gáfulegri vangaveltur um tímatalið má finna hér á vísindavefnum:
http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=6912

Frosin rauð jól í Reykjavík

24des09

Þannig líta jólin út í Reykjavík í ár. Bjart yfir á meðan sólar nýtur og auð jörð bæði á láglendi og til fjalla. Það er því fátt sem minnir á að það sé hávetur ef ekki væri fyrir frostið sem bitið hefur borgarbúa og aðra landsmenn undanfarið. Snjórinn sem safnast hafði fyrir í Esjunni fyrr í vetur hvarf að mestu í hlýindakaflanum fyrri hluta mánaðarins þegar hitinn náði allt að 10 stigum. Núna undanfarna daga hefur þetta snúist rækilega við og frostið komist niður í 10 stig en á þess að nokkuð hafi náð að snjóa. Vatnsbrunnurinn á norðanverðu Seltjarnarnesi stendur hinsvegar alveg svellkaldur í sínum klakaböndunum.

G L E Ð I L E G   J Ó L


Hitafar heimsins kortlagt

Undanfarið hafa miklir kuldar gengið yfir Evrópu og frést hefur af metsnjókomu í höfuðborg Bandaríkjanna. Þetta er vitanlega ekki góð auglýsing fyrir hlýnun jarðar sem einmitt hefur verið mál málanna undanfarið. En þótt kalt hafi verið víða á norðurhveli, þarf svo ekki að vera allstaðar.

Hér að neðan má sjá afrakstur dálítillar vinnu þar sem ég hef safnað saman mörgum hitakortum og raðað í eitt heimskort, en hvert fyrir sig sýnir frávik frá meðalhita á hverjum stað vikuna 13-19. desember. Kortin fékk ég á vef Bandarísku veðurstofunnar NOAA, þau ná að vísu ekki að dekka allan heiminn, t.d. vantar Íslandið okkar, Grænland og meginhluta Afríku. Þetta gefur þó sæmilega mynd af því hvað er að gerast. (Til að fá kortið stærra er hægt hægt að smella á það nokkrum sinnum)

heimshitakort

Samkvæmt þessu korti var hiti síðustu viku vel undir meðallagi nánast allan hringinn á hinum norðlægari slóðum allt frá Kanada til Evrópu, Síberíu og til norðurhluta Kína. Ég ímynda mér að þetta sé frekar óvenjulegt því yfirleitt ætti hlýtt loft að gera atlögu að norðurslóðum einhverstaðar til mótvægis við kuldana sem streyma úr norðri. En kannski á þetta sér þær eðlilegu skýringar að ísöldin sé að skella á fyrir fullt og allt eða bara næstu hundrað þúsund árin eða svo.

En heimurinn er stór og ekki þarf að hafa áhyggjur af því að íbúar annarra heimshluta séu að krókna úr kulda. Í Bandaríkjunum var hiti mjög breytilegur eftir svæðum, Mið- og Suður-Ameríka er hlýrri en í meðallagi. Hlýtt er yfirleitt í Afríku af þeim svæðum sem sjást, einnig í Miðausturlöndum, suðurhluta Asíu og Ástralíu. Svo verður að hafa í huga að þarna vantar öll hafssvæðin og heimskautin, en það telur drjúgt þegar meðalhiti jarðarinnar er metinn.

Kannski er of mikið sagt að ísöldin sé að skella á. Hitafar jarðar á sér marga útúrdúra. Þessir vetrarkuldar á norðurhveli breyta engu um að árið 2009 verður meðal allra hlýjustu ára sem mælst hafa. Árið verður örugglega hlýrra en árið 2008 og endar nálægt meðalhita þessa áratugar sem er sá hlýjasti sem komið hefur frá upphafi veðurmælinga og miklu lengur en það.

- - - -

Kortin sem ég notaði er hægt að finna á þessari slóð: http://www.cpc.ncep.noaa.gov/products/analysis_monitoring/regional_monitoring/

Hægt að fara í hvern heimshluta og velja viku-, mánaðar- og 3ja mánaða kort. Til að fá frávik frá meðalhita er farið í Temperature Anomaly, en svo er líka hægt að kalla fram aðrar upplýsingar. Kannski mun ég setja saman svona kort saman aftur síðar og birta. Vonandi þó ekki svona kuldalegt.


Um loftslagspólitík, loftslagsvísindi og loftslagstrúarbrögð

Þó ég hafi oft og mörgum sinnum blandað mér í loftslagsumræðuna hér á blogginu þá hef ég eiginlega algerlega látið fram hjá mér fara þessa miklu loftslagsráðstefnu sem fram hefur farið í snjókomunni í Kaupmannahöfn. Ég vil þó ekkert gera lítið úr því sem þar hefur farið fram enda er málefnið stórt og krefst mikilla fórna af íbúum jarðar. Það er kannski bara þessi pólitíska hlið á málinu sem ég nenni ekki að fylgjast með og er því varla viðræðuhæfur um það sem rætt hefur verið um í Köben. Ég held að ég hafi þó séð forseta Frakklands tala um það að menn væru ekki þangað komnir til að ræða um loftslagsmál heldur aðgerðir, sem er sjálfsagt alveg rétt, ráðstefnan var ekki vettvangur til að deila um hvort maðurinn ætti sök á loftslagshlýnun því að loftslagsfræðingar segjast þegar vera búnir að komast að því að svo sé.

Það er auðvitað ekki hlutverk stjórnmálamanna að hrekja vísindin, þeirra hlutverk er að ræða pólitík og aðgerðir í loftslagsmálum eru pólitík. Það eina sem stjórnmálamenn þurfa í raun að vita í þessu máli er að aukin útblástur gróðurhúslofttegunda veldur hlýnun sem hefur slæmar afleiðingar fyrir mannkynið í framtíðinni og því þarf að minnka útblástur með pólitísku samkomulagi. Að komast að því samkomulagi er hins vegar erfitt, því það krefst fórna.

Það eru alls ekki allir vera sannfærðir um að maðurinn hafi áhrif á loftslag jarðar, kalla þetta jafnvel trúarbrögð sem á auðvitað að vera niðrandi og vísar til þess að það sé ekki vísindaleg hugsun að baki afstöðu þeirra sem boða hlýnun jarðar af mannavöldum. Samt er það nú svo að kenningin um hlýnun jarðar af mannavöldum er afrakstur vísindamanna en ekki heimsendaspámanna. Það má kannski deila um ýmsa hluti eins og hvort hlýrra hafi verið fyrir þúsund árum eða ekki og hvort einhverjar hokkýkylfur séu réttar eða ekki, enda er óvissa alltaf á ferðinni í þessum málum. Það getur líka vel verið að einhverjir vísindamenn hafi í auglýsingaskyni freistast til að hagræða einhverjum upplýsingum. Hvað sem því líður eru flestir loftslagsvísindamenn samt gallharðir á því að núverandi hlýnun jarðar sé bara rétt byrjunin á þeirri miklu hlýnun sem framundan er á næstu öldum, nema gripið verði til róttækra aðgerða. Við þurfum ekkert að tala um hvort þetta ár verði hlýrra en það síðasta, og það þarf ekkert að velta sér upp úr því þótt ekkert hlýni á jörðinni í 10-20 ár. Þessi hægfara hlýnun á sér stað í misstórum skrefum með afturkippum inn á milli og hlýnunin er þolinmóð og mun lifa okkur öll. Þó maður lesi endalausar greinar um loftslagsmál skrifaðar af hörðustu efasemdarmönnum eða sannfærðum vísindamönnum, þá get ég sem óbreyttur bloggari og borgari ekkert dæmt um það hvort kenningin sé rétt eða ekki. Ég treysti bara vísindasamfélaginu fyrir þessu. Hverjum ætti maður annars frekar að treysta og trúa í þessum málum? Prestum?

Ef vísindasamfélagið er meira og minna sammála því að hlýnun jarðarinnar sé af mannavöldum, þá er það líka á ábyrgð vísindasamfélagsins að þær fullyrðingar séu réttar. Ef hin vísindalega þekking segir að hér sé allt að fara til fjandans ef ekkert verður að gert, þá er ábyrgðarleysi að hunsa þær viðvaranir. Við getum þó alltaf gert okkur vonir um að með meiri þekkingu komi í ljós að hættan hafi verið stórlega ofmetin. En á meðan svo er ekki, þá er léttvægt að afgreiða tal um hlýnun jarðar sem trúarbrögð. Það er hins vegar alveg spurning hversu auðvelt er að bregðast við hlýnun jarðar. Ég sé reyndar ekki fyrir mér annað en að mannkynið muni næstu eina eða tvær aldir nýta allar vinnanlegar olíubirgðir heimsins sem eftir eru og gengdarlaus kolamokstur mun halda áfram þar sem kol eru að finna, hvað sem öllu samkomulagi líður. Í þessu sambandi má taka dæmi frá borginni Peking þar sem bílum hefur fjölgað um eina milljón á tveimur árum og þá erum við bara að tala um eina borg í Kína eins og kom fram í frétt um daginn. Það hefur því lítið sem ekkert að segja ef allir Íslendingar hætta að aka sínum hundrað þúsund bílum í þessum samanburði. 

Kannski er alveg eins mikilvægt að komast að því hvernig mannkynið geti lifað sem bestu lífi í hlýnandi heimi heldur en að eyða púðri í að reyna að koma í veg fyrir eitthvað sem við getum ekki stöðvað. Kannski eru afleiðingar hlýnunar ekki eins slæmar og af er látið, en kannski er það bara óskhyggja í mér.


mbl.is Ban: Nauðsynlegt fyrsta skref
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef við berum ekki ábyrgð á ICESAVE

Ég hef aldrei ætlað mér að blanda mér inn í ICESAVE umræðuna, en það er ein hlið á þessu máli sem mér finnst að mætti skoða nánar. Segjum að það sé þannig eins og sumir vilja halda fram, að íslenska ríkinu beri engin skylda til að ábyrgjast innstæður á útibúum einkabanka erlendis, má þá ekki líta á svona ICESAVE reikninga sem alveg tilvalda leið fyrir íslenska banka í framtíðinni? Ef íslenskur einkabanki þarf að fjármagna sig með innlánum er miklu sniðugra fyrir okkur að hann leiti til almennings erlendis, því ef bankinn fer yfirum þá þurfum við ekkert að bera neina ábyrgð, jafnvel þótt peningarnir renni beint til Íslands.

Ef skilningur þeirra sem telja okkur ekki bera neina ábyrgð er réttur, þá hefðu íslensku bankarnir kannski átt að vera miklu duglegri við að plata fólk til að leggja sparnaðinn í útibú íslenskra banka og kannski hefði bankakerfið okkar bjargast ef svona ICESAVE reikningar hefðu slegið í gegn í allri Evrópu. Reyndar þótti ICESAVE lengi vera alger snilld þangað til einhverjum datt í hug að við þyrftum að borga aumingjans fólkinu til baka sem var svo vitlaust að treysta íslenskum banka til að ávaxta peningana sína. ICESAVE átti aldrei að vera nein góðgerðastofnun því til þess var fyrst og fremst stofnað til að fjármagna Landsbankann þegar harðna tók í ári, en dugði því miður ekki til.

Í framhaldi af þessu vil ég leggja til að ef svo fer að við berum enga ábyrgð á ICESAVE þá ættum við að einkavæða Landsbankann hið snarasta, skipta kannski um nafn á honum og fá almenning erlendis til að leggja aleigu sína í útibú bankans með loforði um metávöxtun. Ef bankinn fer yfirum þurfum við engar áhyggjur að hafa, því tjónið verður ekki okkar. Við getum kannski ekki leikið sama leikinn aftur í Bretlandi eða Hollandi, en hvað um Bandaríkin? Þar er mikið af fólki sem hægt er að féfletta.

Siðferðislegu hliðin á þessari leið er auðvitað ekki upp á marga fiska en hún virðist vera algert aukatriði þegar peningar eru í spilunum - sérstaklega þegar við erum að tala um að hafa peninga af útlendingum. En ef við viljum aftur á móti vera áfram í hópi siðaðri þjóða er varla um annað að ræða en að gangast við okkar hluta af þeim skaða sem útibú íslenskra banka hafa valdið almenningi erlendis. Þótt það sé ekki réttlátt að íslenskur almenningur þurfi að bera ábyrgð á skuldum einkafyrirtækja, þá stöndum við allavega nær þeim bönkum en almenningur erlendra ríkja   … eða það held ég alla vega.


Nokkur misjafnlega mislæg gatnamót

Þó að Reykjavík sé ekki fjölmenn borg má þar finna mikil umferðarmannvirki. Mislæg gatnamót er til í ýmsum útgáfum og þau geta verið miseinföld eða -flókin. Stundum hafa óvanir ökumenn farið flatt á því að misskilja fráreinarnar eða aðreinarnar og farið norður og niður í staðinn fyrir út og suður. Sem er ekki gott. Hér á eftir koma nokkur dæmi um mislæg gatnamót á höfuðborgarsvæðinu og víðar. 

Arnarneshæð

Einfaldasta gerð mislægra gatnamóta er væntanlega þessi tegund, sem má finna á Arnarneshæð þar sem Arnarnesvegur liggur um brú yfir Hafnarfjarðarveg. Þessi gatnamót taka lítið landrými en við sitt hvorn brúarendann eru umferðarljós, stundum eru þar hringtorg ef pláss leyfir.

- - - - - 

Höfðabakkabrú
Höfðabakkabrúin er öllu stærri um sig enda mikil umferð úr öllum áttum. Almennt er útfærslan á vinstri beygjum helsti munurinn á mislægum gatnamótum. Hér eru vinstri beygjurnar látnar skerast uppi á brúnni og ein allsherjar umferðarljós stjórna umferðinni þar. Umferð um Vesturlandsveg fer óhindruð undir brúna en Höfðabakkaumferðin þarf að hinkra eftir vinstri-beygju-bílunum. Misjafnt er hvort hægri-beygju-bílar þurfi að stoppa á ljósum. Hér er eins gott að fá ekki víðáttubrjálæði uppi á brúnni og týna ekki akreininni sinni.

- - - - -

Réttarholtsvegur

Tveggja slaufu gatnamót þar sem Réttarholtsvegur fer yfir Miklubraut og verður að Skeiðarvogi. Þegar kemur að þessari gerð gatnamóta fara málin að flækjast því þeir sem ætla að beygja til hægri inn á Miklubraut þurfa að stoppa á ljósum og beygja til vinstri inn á slaufu sem leiðir þá inn á Miklubraut áður en þeir koma að brúnni. Þeir sem hinsvegar ætla til vinstri og inn á Miklubraut þurfa ekkert að stoppa á ljósum og fara rakleiðis til hægri inn í slaufuna. Samskonar gatnamót eru þar sem Miklabrautin verður að Hringbraut (áður Miklatorg).

- - - - -

Elliðáarbrú

Niðri við Elliðavog erum við svo með elstu mislægu gatnamótin í Reykjavík og einu fullkomnu fjögurra-slaufu-gatnamót landsins. Hér er ekkert verið að spara landrýmið enda eru slaufurnar feiknastórar. Umferðin rennur hindranalaust í allar áttir því að allar vinstri beygjur fara um slaufurnar og hægri beygjurnar liggja þar utan með. Þetta eru þar með einu mislægu gatnamótin á landinu þar sem hægt er að bruna í gegn ofan brúar sem neðan án hindrunar af umferðarljósum eða hringtorgum.

- - - - -

LA-fjögurra

Hér erum við komin út fyrir landsteinanna og til hinnar miklu bílaborgar Los Angeles. Þar má finna þessa gerð af gatnamótum þar sem öll umferðin gengur hindranalaust fyrir sig en í stað slaufa eru vinstri beygjurnar á sér hæðum þannig að alls eru fjórar hæðir á gatnamótunum. Neðst eru tvær vinstri beygjur, síðan bein hraðbraut, tvær vinstri beygjur þar fyrir ofan og efst er hin hraðbrautin. Með þessu sparast heilmikið landrými miðað við slaufugatnamót en mannvirkið er mikið.

- - - - -

LA flækja

Þessa flækju sem einnig er í Los Angeles ætla ég ekki að reyna að útskýra en hætt er við að einhver utanbæjarmaðurinn fari villur vegar í þessu völundarhúsi. Lífið er ekki alltaf einfalt.

- - - -

Læt þetta duga að sinni en er þó að hugsa um að halda áfram í bílaleik í næstu færslu sem verður þó með allt öðru sniði.

Loftmyndirnar eru fengnar af kortavef ja.is og google maps
 


Staupasteinn

Þá er að líða að lokum þessa veðursæla nóvembermánaðar og komið að hinni sívinsælu sjónvarpsnostalgíu. Staupasteinn hétu þættir sem óþarft er að kynna, eða Cheers eins og þeir hétu uppá amerísku. Þýðingin á heiti þáttana er annars ágætt dæmi um hvernig hægt er að þýða nöfn á erlendu sjónvarpsefni - eða var allavega hægt einu sinni. Hinn eini og sanni Staupasteinn er reyndar sérstæður lítill klettur í Hvalfirði sem líkist steðja í laginu eða staupi og stendur í brekku nálægt Hvammsvík.

CheersEn þá að þáttunum. Ég man ekki nákvæmlega hvenær þeir fóru fyrst í loftið hér á landi en þeir voru framleiddir á árunum 1982-1993. Ég man þó að einhverjum fjölmiðlarýninum þótti ekki mikið til koma eftir sýningu fyrsta þáttarins en svona gamanþáttaseríur eru svo sem ekki hátt skrifaðar sem andlegt fóður. Þeir hefðu allavega ekki verið hátt skrifaðir hjá sálfræðingnum Dr. Fraser Crane sem var einn af fastagestum Staupasteins. Föstustu fastagestir Staupasteins voru hinsvegar tveir menn, hinn alvitri og íhuguli póstburðarmaður Cliff og orðheppni bjórþambandi endurskoðandinn Norm. Hvorugur þeirra átti við mikla lífslukku að stríða frekar en aðrir þarna á staðnum en þeir nutu sín þó hvívetna á Staupasteini og bættu hvorn annan upp.

Í sýnishorninu sem hér fylgir má sjá áðurnefndar þrjár persónur. Þetta myndbrot hefur djúpan undirtón og upp kemur spurningin: Hefur fágaður smekkur menntamannsins hamlandi áhrif á möguleika hans til að njóta þess sem er einfalt og auðskilið og er kjánaskapur eingöngu fyrir kjána sem skilja ekki hina háleitu og vitsmunalegu fegurð?

 


80 ára gömul veðurtíðindi utan úr Evrópu

Nú hefur borist inn á heimili mitt heill innbundinn árgangur ársins 1929 af vikuritinu Fálkanum sem var gefið út allt til ársins 1966. Ég er búinn að fletta í gegnum öll blöðin en þar kennir ýmissa grasa. Auk ýmiss afþreyingarefnis og skrautlegra auglýsinga má finna í blöðunum allskonar fréttir, eins og af kóngafólki og framandi villimönnum, nýjustu framfarir í samgöngum eru tíundaðar, risastórir flugbátar og loftskip keppa um farþegana yfir Atlantshafið, háhýsi þjóta upp í Ameríku sem aldrei fyrr og í Reykjavík á að fara að reisa Þjóðleikhús, sundhöll og glæsihótel við Austurvöll. Þetta var góðæri, 10 ár liðin frá stríðinu mikla, og stórveldin voru að hefja vígbúnað ný með smíðum á ósigrandi herskipum. Flest virtist í lukkunnar velstandi og engin ástæða til að örvænta þótt einhverjir hafi farið flatt á fjármálahruni á Wall Street seint á árinu.

FIMBULVETUR Í EVRÓPU

Það sem helst var kvartað yfir á árinu 1929 voru vetrarhörkur í Evrópu og þær svo miklar að elstu menn mundu vart annað eins, eins og gjarnan er sagt. Forsíða Fálkans frá 9. mars var lögð undir þessi ósköp en þar má sjá skip á siglingu í gegnum þéttan hafís á dönsku sundunum.

Þetta var á sama tíma og einmuna vetrarhlýindi ríktu hér Íslandi og til marks um það þá hefur engin marsmánuður verið hlýrri í Reykjavík en einmitt þessi árið 1929 þegar meðalhitinn mældist 5,9 stig. Aðeins einu sinni er vitað til þess að meðalhitinn í Reykjavík í mars hafi farið yfir 5 stig en það var árið 1964 þegar hann var 5,7 stig.

- - - - - -
Fálkinn Fimbulvetur
Texti fréttarinnar er á þessa leið:

Í heilan mánuð hefir Ísland verið hlýjasta landið í norðanverðri Evrópu. Snjór hefir varla sjest sunnanlands og venjulega hiti um alt land á hverjum degi. En utan úr heimi berast nær daglega frjettir um meiri frosthörkur og bylji, en elstu menn muna. Suður í Grikklandi og Rúmeníu hefir fjöldi manns frosið í hel, sömuleiðis í Póllandi og Þýskalandi, og í Frakklandi og Spáni eru úlfar orðnir svo ágengir vegna harðindanna, að landplága er að. Samgöngur hafa víða tepst og matvælaflutningar til sumra stórborga rjenað svo, að þurð varð og varan stórhækkað í verði, svo að setja varð á hana hámarksverð. – Í Danmörku hafa kuldarnir verið svo miklir, að siglingar um sundin hafa verið háðar hinum mestu örðugleikum. Skipin urðu föst í ísnum og ísbrjótarnir dönsku gátu ekki losað sum þeirra. Eimferjurnar sem flytja járnbrautir yfir Stórabelti voru undir sömu sökina seldar, þær sátu fastar á miðri leið og urðu farþegarnir að yfirgefa þær og ganga á ís til lands. Voru allar samgöngur yfir sundið teptar í þrjá daga og varð þá að flytja allan póst með flugvjelum. Frá Kaupmannahöfn hefir verið reynt að halda opinni leið norður og suður; er skipunum safnað í hópa og ísbrjótur látinn ryðja þeim braut gegnum ísinn. Er myndin hér að ofan frá slíku ferðalagi.
- - - -
Þannig var það nú í den. Þessi misskipting á hita á milli Ísland og Evrópu er svo sem ekkert einsdæmi, en þarna árið 1929 hafa öfgarnar þó verið meira lagi. Væntanlega hefur öflugt hæðarsvæði yfir Bretlandseyjum beint suðlægum vindum til Íslands og fimbulkalt heimskautaloftið streymt suður til Evrópu. Þetta er þá eiginlega alveg öfugt ástand miðað við það sem við búum við þessi dægrin. En það getur hæglega breyst.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband