28.9.2009 | 17:56
Harðindavetur framundan
Í fyrravetur urðu ákveðin umskipti hér á landi sem og víðar sem benda ótvírætt til þess að veturinn sem framundan er verði með alharðasta móti. Við þekkjum úr sögunni lýsingar á alvöru harðindavetrum sem fengið hafa nöfn eins Píningsvetur, Lurkur, Svellavetur og á síðustu öld var það Frostaveturinn mikli. Það á eftir að koma í ljós hvað komandi vetur mun verða kallaður, en mér dettur í hug nöfn eins og Gengisfellingavetur, Fjármagnskostnaðarvetur, Verðbólguvetur, Uppsagnavetur, Gjaldþrotavetur og svo framvegis. Kannski eru þetta þó full óþjál nöfn, kannski mun hann einfaldlega bara heita Þrotavetur eða Þrotaveturinn mikli. Harðindi á vorum dögum eru semsagt ekki lengur bundin við duttlunga náttúrunnar eins og áður því nú er það hið manngerða fjármálakerfi sem ræður afkomu okkar. En ólíkt þeim vanda sem stafar af náttúruöflunum er fjármálavandi eitthvað sem við sem þjóð komum okkur sjálf í með ofmetnaði og hina óbilandi bjartsýni að leiðarljósi.
Það getur verið að einhver kannist við þennan texta sem ég skrifaði kvöldið 28. september í fyrra og lauk við hálftíma eftir miðnætti. Strax morguninn eftir að bloggfærslan birtist gerðust svo þeir atburðir sem mörkuðu upphaf fjármálahrunsins. Það má því segja að þarna hafa ég náð að vara þjóðina við komandi hörmungum, þó kannski hafi sú viðvörun komið helst til of seint. Eins og sést þá beitti ég ísmeygilegri aðferð til að villa um fyrir saklausum lesendum um innihald bloggfærslunnar, en fyrsta athugasemdin kom fljótlega frá Láru Hönnu Einarsdóttur sem sagði: (með leyfi fundarstjóra)
Sjúkkit ég hélt að fyrirsögnin ætti við veðrið! Ætli einhverjir kalli þetta ekki Kreppuveturinn mikla eða Hallærisveturinn hörmulega. En við þreyjum þorrann að venju, trúi ég.
Kannski ekki svo mikið Sjúkkit getum við sagt nú að ári liðnu.
Það gerðu annars flestir sér grein fyrir því í fyrrahaust, að það yrði á brattan að sækja í fjármálalífi landsins þótt fæstir hafi átt von á þeim harðindum sem áttu eftir að skella á eins og hendi væri veifað. Þáverandi Dómsmálaráðherra var til dæmis ekki betur með á nótunum en svo að boðskapur hans helgina fyrir hrun snérist um lögregluembættismál í Reykjanesbæ:
Ég hef annars ekkert að ráði fjallað um kreppuharðindin og allt vesenið þeim tengd. Þar ræður ekki síst ströng ritstjórnarstefna mín sem bannar allt slíkt hér á þessu bloggi. Hins vegar hef ég stöku sinnum farið í kringum mín eigin lög og reglur og fjallað óbeint um ástandið og orsakir þess. Þar á ég við bloggfærslur eins og Íshafið og hinn kaldi veruleiki og Medúsa flekinn þar sem ég leitaði á náðir myndlistarsögunnar. Það sem ég skrifaði um Titanicslysið og jafnvel Britney Spears má líka líta á í þessu ljósi ásamt ýmsu fleiru. Það verður þó að segjast eins og er að ég hef ekki alveg fundið taktinn í þeirri almennu reiðibylgju sem einkennt hefur umræðuna og þrátt fyrir að ég hafi stundum mætt á mótmælafundi á Austurvelli síðasta vetur var hugurinn oft allt annarsstaðar en hann átti að vera.
Ég hef heldur ekki alveg fundið taktinn í þeirri reiðibylgju, sem orðið hefur til þess að margir bloggarar hafa yfirgefið þetta bloggsamkvæmi uppá síðkastið. Ég ætla að halda hér áfram á meðan ég nenni og hef eitthvað að skrifa um og það samkvæmt minni eigin ritstjórnarstefnu. Alltaf finnst mér þó að það sé farið að styttast í þessu hjá mér. Ég mun þó halda áfram að vara þjóðina við komandi hörmungum ef mér finnst ástæða til. Það er kannski vegna þess sem ég kom með þessa endurtekningu - mér finnst nefnilega full ástæða til að vara við komandi efnahagslegum harðindavetri, en hvet í leiðinni alla til að klæða sig vel á næstu dögum.
(Undirstrikuð orð eru tengiliðir á viðkomandi bloggfærslur)
25.9.2009 | 12:09
Á hverfanda hveli
Já, við lifum svo sannarlega á spennandi tímum. Fyrrverandi Seðlabankastjóri búinn að fá vinnu - fögnum því að sjálfsögðu. Ekki gott að menn gangi um atvinnulausir. Stærri atburðir gerast hins vegar á sólinni þar sem sólblettir á stærð við jörðina eru farnir að myndast á ný. Ekki bara einn sólblettur heldur tveir sem þykir vita á gott því annars, segja sumir að ekki komi sumar framar. Skaflinn hvarf hinsvegar loksins úr Esjunni eftir rigninguna síðustu nótt. Icesave er í hnút og verður sennilega áfram í hnút. Hrunið verður senn eins árs. Það er fyrsta stórafmæli hrunsins. Kannski ættum við að miða tímatalið við þá atburði í staðinn fyrir fæðingu manns sem fæstir nenna að trúa á. Það hafa líka margir misst trúna svona yfirleitt. Við slíkar aðstæður held ég þó að trúin komi mörgum vel og best er fyrir friðinn að þjóðin misskilji heiminn á saman hátt. Það vissi Þorgeir á þingi. Gaddafí og Kastró voru báðir að hrósa Óbama og vildu að hann yrði forseti sem allra lengst. Þeir ættu að þekkja það. Hér á landi vill fólk helst alltaf skipta um leiðtoga. Jafnvel þótt þeir hafi kosið þá sjálfir. Það verður heldur ekki á allt kosið. Eigum við að ganga í Evrópusambandið? Allt um það í Mogganum. Er hafísinn á hverfanda hveli? Allt um það á loftslag.is en þar er ég einmitt með pistil.
og Höfði brennur:
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.9.2009 | 17:29
Hæðarmæling á Alaskaösp
Í garðinum þar sem ég bý er stór og myndarleg Alaskaösp eins og víða annarstaðar í borginni. Oft hef ég velt fyrir mér hversu hátt þetta tré er og í framhaldinu hvort hægt sé með einföldum hætti að mæla hæðina á því. Ýmsar hugmyndir hafa komið upp eins og að festa langan bandspotta við helíumblöðru sem yrði látin svífa upp í hæð trésins. Sú mælingaraðferð sem hins vegar varð ofaná er klassísk þríhyrningsmæling gerð með aðstoð gráðuboga, málbands og löngu gleymdra stærðfræðilegra hornajafna sem ég lærði á sínum tíma í menntskóla.
Ég vissi þó að til að leysa þetta verkefni væri nóg að mæla hornið frá athugunarstað skáhalt upp í efstu grein trésins og svo fjarlægðina frá athugunarstað að trénu. Í þessu tilfelli þurfti ég líka að mæla hæð athugunarstaðarins miðað við jörðu þar sem tréð stendur, því að mælingin var gerð á svölum. Úr þessum mælingum fengust eftirfarandi niðurstöður:
Til að finna hæð trésins frá athugunarstað gróf ég upp tangent regluna sem segir að tangent af horninu X er jafnt fjarlægðinni að trénu deilt með hæð þríhyrningsins. Fyrst þurfti þá að finna út hornið uppi (X), en það er: 180° - 37° - 90° = 53°. Samkvæmt þessu eru útreikningarnir svona:
Hæð trésins þegar hæð athugunarstaðar hefur verið bætt við, er þá:
Þar höfum við það. Ef reiknikúnstir mínar eru réttar er Alasköspin samkvæmt þessu: 15,06 metrar, en miðað við dálitla ónákvæmni í mælingum er talan 15 metrar látin standa.
Í sambandi við aldur trésins, þá er ég ekki alveg viss en ég veit þó að tréð er enginn öldungur og er enn að bæta við sig í hæð. Í apríl 1963 gerði mikið og skyndilegt frost á landinu svo að Alaskaösp drapst í miklu mæli sunnan- og vestanlands enda voru trén þegar orðin laufguð eftir mikil hlýindi vikurnar áður. Fyrstu Aspartré sem komu hingað frá Alaska voru aðlöguð meginlandslofti frá fyrri heimkynnum, en eftir áfallið 1963 voru flutt inn tré sem ættuð voru frá svæðum í Alaska sem eru veðurfarslega líkari þeim sem við þekkjum hér. Væntanlega er þetta tré eitt af þeim enda plummar það sig bara vel hérna í Vesturbænum.
Það á kannski eftir að koma í ljós hvað aspartré borgarinnar eiga eftir að verða stór. Stærstu Alaskaaspir landsins eru að finna í Hallormsstaðarskógi og eru nálægt 25 metrum en þær voru gróðursettar árið 1954. Á vef Skógræktarfélags Reykjavíkur má lesa nánar um þetta, en tré síðastliðins marsmánaðar hjá þeim var Alaskaösp ein við Langholtsveg sem gróðursett var árið 1960 og er orðin 18,20 metrar á hæð. Mitt tré er staðráðið í að ná þeirri hæð.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.9.2009 | 00:47
Ís byrjaður að myndast á ný á norðurheimskautinu
Eins og venjulega á þessum árstíma beina hafísáhugamenn athygli sinni að heimskautaísnum á norðurslóðum enda nær hann sínu árlegu lágmarki um þetta leyti. Niðurstaðan að þessu sinni er sú að lágmarksútbreiðslan 2009 er sú þriðja lægsta frá því nákvæmar mælingar hófust árið 1979, sem þýðir aftur á móti að þetta er heldur meiri hafís en á sama tíma í fyrra og nokkuð meiri hafís en haustið 2007 þegar hafísbráðnunin hafði slegið fyrri met svo um munaði.
Eftir metárið 2007 fóru ýmsir að gera að því skóna að allur hafísinn gæti horfið á norðurslóðum að sumarlagi jafnvel á allra næstu árum en ekki bara einhvern tíma á þessari öld eins og varfærnari spádómar höfðu gert ráð fyrir. Nú þegar hafísútbreiðslan hefur aukist aftur síðustu tvö árin gera menn sér væntanlega grein fyrir því að hafíslágmarkið 2007 var sérstakt tilfelli úr takti við langtímaþróun eða kannski bara á undan sinni samtíð. Það þýðir að það ætti ekki að koma mjög á óvart að einhver bati eigi sér stað.
Myndina hér að ofan vann ég upp úr kortum af hafíssíðunni Cryosphere Today sem sýnir útbreiðsluna þann 15. september 2009. Til samanburðar hef ég teiknað inn hafíslágmark áranna 2007 og 2008.
- - - -
Þróun hafíssins 30 ár aftur í tímann sést á línuriti hér að neðan en það er einnig fengið af síðunni Cryosphere Today og sýnir frávik hafíssins frá meðaltali. Þarna sést vel hvað lágmarkið árið 2007 var óvenjulegt. Síðustu tvo vetur náði svo hafísinn sér nokkuð vel á strik auk þess sem vindar síðustu tvö sumur voru hagstæðari hafísnum að því leyti að minna af honum hraktist suður á bóginn meðfram Grænlandsströndum. Samt sem áður er allt of snemmt að segja að orðið hafi einhver alvöru viðsnúningur því að útbreiðslan núna er minni en hún var fyrir árið 2007 auk þess sem hafísinn er þynnri en á árum áður og því viðkvæmari í samræmi við það.
Og eitt að lokum. Það getur verið vandasamt að fjalla um heimskautaísinn á hlutlausan hátt enda eru meint örlög hans eitt af táknmyndum hnattrænnar hlýnunar. Fyrirsögnin á þessum pistli vafðist líka dálítið fyrir mér en ég kaus þó að lokum að segja: Ís byrjaður að myndast á ný á norðurheimskautinu. Akkúrat þessa fyrirsögn kaus Mogginn sjálfur að nota haustið 2007 þegar fréttist að hafíslágmarkinu það árið hafði verið náð. Fyrirsögnin reyndist vera nokkuð villandi enda tóku sumir bloggarar því þannig að allt tal um minnkandi hafís á norðurslóðum væri þar með úr sögunni. Við þennan misskilning fannst mér ekki vera hægt að búa, sem varð til þess að ég skrifaði mína allra fyrstu bloggfærslu þann 22. september 2007 og hef veri meira og minna að síðan. Sjá mbl-fréttina hér: Ís byrjaður að myndast á ný á norðurheimskautinu
Nánari fréttir af hafíslágmarki þessa árs má finna á vefsíðu Bandarísku snjó- og hafísmiðstöðvarinnar: http://nsidc.org/arcticseaicenews/
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.9.2009 | 23:51
Spáð í veðurfréttir
Þar sem ég spái mikið í veður eru veðurfréttir auðvitað eitt af mínu uppáhalds sjónvarpsefni. Sérstaklega er það veðurfréttatíminn á RÚV eftir kvöldfréttir sem ég vil helst ekki missa af en þá má ekki ónáða mig á nokkurn hátt og símhringingar eru illa séðar. Undir þessum sjónvarpslið veitir heldur ekki af allri athygli óskertri því að í einum veðurfréttatíma er farið yfir mörg veðurkort á stuttum tíma og mikið upplýsingamagn sem þarf að innbyrða.
Oft veltir maður fyrir sér framsetningu veðurfrétta, sérstaklega á RÚV. Óneitanlega eru kortin þar áferðafalleg og skýr en samt kemur það fyrir, þrátt fyrir að enginn hafi ónáðað mig, né síminn hringt, að veðrið fari fyrir ofan garð og neðan hjá mér, ólíkt því sem gerðist áður fyrr þegar snúningskassinn með handteiknuðu kortunum var og hét. Kannski er mér bara farið að förlast með aldrinum, en kannski ekki. Hér ætla ég að spá í veðurfréttatíma RÚV sunnudagsins 13. september en þann dag hafði verið spáð miklum hitum á norðausturlandi. Ég tek fram að ég hef ekkert út á veðurfréttakonuna sjálfa að setja, hún kláraði sitt af miklum myndarskap. Hinsvegar er alveg spurning hvort það sé til bóta að hafa veðurfræðinga í mynd. Er kannski betra að hann eða hún víki til hliðar eftir smá inngangsorð og noti síðan bendiprik. Kannski þykir það ekki nógu sjónvarpsvænt, en þegar fólk er í mynd tekur alltaf mestu athyglina til sín.
Fyrstu kortin eru yfirlitskort. Bæði sýna þau þrýstilínur, hæðir og lægðir, úrkomusvæði og hitastig á nokkrum stöðum. Seinna kortið er hitakort og sýnir hitann í ákveðinni hæð. Bæði kortin hreyfast, og sýna þróunina frá hádegi til kvölds daginn eftir. Kannski er bara ruglandi að sýna þetta á tveimur kortum frekar en í einu. Hitakortið er að vísu mjög upplýsandi, en með því að hafa þetta í tvennu lagi er verið að flakka fram og til baka í tíma. Stundum eru veðurskil teiknuð inná upphafskortið en eftir að kortið fer á hreyfingu hverfa þau og sjást ekki meir í veðurfréttatímanum. Skil finnst mér alveg bráðnauðsynleg á veðurkortum, sérstaklega ef maður skilur um hvað þau snúast. Áður fyrr sáust veðurskil alltaf á veðurkortum (hitaskil, kuldaskil og samskil), þau segja til um hverrar tegundar loftmassinn er og hvar einn loftmassinn tekur við af öðrum.
Svo koma Íslandskortin og það allt spákort. Nú spyr maður, hvar er kortið sem sýnir veðrið á landinu í dag? Mikilvægi veðurfregna finnst mér ekki bara felast í veðurspám heldur líka hvernig hefur viðrað. Venjulegir fréttatímar snúast t.d. mest um það sem hefur skeð en ekki bara um það sem á að gerast. Einu upplýsingarnar um veðrið á landinu í dag eru á stóra yfirlitskortinu í upphafi. Þar er að vísu sagt lítillega frá veðri dagsins á landinu en það fer sennilega framhjá flestum því kortið er að sýna allt annað á meðan. Íslandskortin líta þó ágætlega út. Í gamla daga voru notaðar vindörvar með mismörgum strikum eftir því sem hvassara var en þannig fékkst góð tilfinning fyrir vindstyrk án þess að þurfa að lesa tölur. Veðurspákortin áður fyrr voru líka almennt þannig að veðrið var verra eftir því sem fleiri strik voru á kortinu. Hér vantar að sjálfsögðu líka veðurskilin ef þau eru á annað borð yfir landinu, stundum er talað um skil þótt séu ekki sýnd og bent á hvar þau liggja, en einfaldast væri bara að sýna þau.
Síðan koma fleiri veðurspákort hvert á eftir öðru marga daga fram í tíman og þá eru þrýstilínur horfnar. Stundum er dvalið lengi við hvert og eitt þeirra og farið út í meiri smáatriði en efni standa til miðað við ónákvæmni margradaga-spáa. Hér mætti alveg sleppa síðasta kortinu og hafa í staðinn í veðurkort dagsins í upphafi veðurfréttatímans. Langtímaspákortin finnst mér reyndar að mættu vera yfirlitskort eins og er í upphafi veðurfréttanna þar sem hægt er að sjá veðurkerfin í heild sinni og að sjálfsögðu með skilum. Þannig sér maður hvar nýjar lægðir eru að myndast eða hæðir að fikra sig til, sem einmitt ættu að vera aðalatriðin í margradagaspám.
Eftir öllum Íslandskortunum er svo spákort fyrir Evrópu, þar er staldrað mjög stutt við. Enn eru engin skilakerfi eru sýnd. Nokkrir dropar hér og þar ásamt sólum og hitastigstölum. Í blálokin er aftur varpað fram spákorti morgundagsins til upprifjunar, sem er ágætt og eiginlega bjargar málunum eftir alla kortasúpuna.
Kannski eru margir vel sáttir við þessa framsetningu á veðri þótt ég sé með einhverjar athugasemdir. Veðurfréttatíminn er mjög knappur og lítill tími til sérstakra útskýringa sem koma veðurspánni ekki beint við. Ég held þó að veðurfréttir séu það vinsælt sjónvarpsefni að það mætti alveg staldra oftar við ýmis atriði. Það er þó einstöku sinnum gert, t.d. var sýnd gervihnattamynd í upphafi þessa veðurfréttatíma, sem ég náði reyndar ekki á mynd.
- - - - - -
Ég sleppi því núna að minnast á veðurfréttir á Stöð2. Sé þær að vísu sjaldnast því þær falla ekki inní sjónvarpsrútínuna hjá mér, en svona almennt þá finnst mér þær ekki minna ruglingslegar. Siggi Stormur finnst mér þó ágætur að því leyti að hann lætur ýmislegt flakka og getur komið með skemmtilega útúrdúra eins og til dæmis þegar hann birti þessa ljósmynd á sínum tíma og spurði: Hvað er þetta? Ég veit allt um það, enda var það bara ég sjálfur sem tók myndina en hana sendi ég í veðurljósmyndasamkeppni. (Stóðst ekki mátið að koma þessu að)
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
10.9.2009 | 00:35
Sitthvað um Esjuna
Flest fjöll á Íslandi heita nöfnum sem eru auðskilin. Akrafjall er kennt við akra, Keilir er keilulaga, Herðubreið er herðabreið og Tindfjöll eru tindótt. Nafnið Esja hefur hins vegar vafist fyrir mönnum og fleiri en ein skýring virðist til á því heiti enda er orðið Esja ekki til í íslensku máli.
Vinsælast hefur verið að kenna Esjunafnið við konu af Keltneskum uppruna sem átti að hafa búið að Esjubergi eins og kemur fram í Kjalnesingasögu en hún tók við búi af landnámsmanninum Örlygi Hrappssyni hinum Írska. Fjallið Esja var þó ekki nefnt á nafn sem slíkt en bæjarheitið Esjuberg hefur samkvæmt þessu verið til frá upphafi og allt til þessa dags því enn er búið að Esjubergi. Hinsvegar vilja margir fræðingar frekar meina að Esjuheitið sé norrænt að uppruna og standi fyrir eldstæði eða flögusteina sem notaðir eru til slíks brúks (esje í norsku = eldstæði). Einnig getur Esja þýtt lausar aur- eða snjóskriður. Undan vestanverðri Esjunni koma gjarnan hinar ýmsu gerðir af skriðum undan bröttum hlíðunum og því ekki ólíklegt að bæjarheitið Esjuberg hafi upphaflega tengst því. Síðar meir hefur hið umfangsmikla bæjarfjall Reykvíkinga í heild sinni svo verið nefnt eftir bænum og fengið nafnið Esja.
Upprunalegt heiti fjallsins. Frá Reykjavík séð er Esjan mjög aflöng og flöt að ofan en svoleiðis fjöll eru stundum kennd við bátskjöl. Það er allavega ekkert út í hött að hugsa sér að Esjan hafi upphaflega heitið Kjölur og nesið sem gengur út frá henni nefnt Kjalarnes. Það er þekkt að örnefni eiga það til að flakka á milli staða og því getur verið að Kjalarnafnið hafi vikið til hliðar þegar Esjunafnið var eignað fjallinu og færst yfir á hálendið austur af Kjósinni, sem heitir einmitt Kjölur.
Hæsti punktur Esjunnar. Vegna þess hve víðfeðm og flöt að ofan Esjan er þá er ekki gott að sjá hvar hæsti punkturinn liggur. Lengi vel var talið að hæsti punkturinn væri austur af Kistufelli þar sem lítill tindur skagar uppúr og blasir við úr Mosfellsdal. Tindurinn var mældur 909 metrar og þótti sjálfsagt að kalla hann Hátind. Við nákvæmari mælingar síðar, kom í ljós að hábungan ofan Gunnlaugsskarðs væri nokkrum metrum hærri eða 914 metrar og var þá nefnd því frumlega nafni Hábunga. Á Esjunni eru því bæði að finna Hábungu og Hátind.
Kalkvinnsla. Árið 1877 hófst kalknám í Esjuhlíðum við Mógilsá. Námurnar entust ekki lengi og vinnslunni var hætt þegar sífellt erfiðara var að nálgast kalkið. Kalkið var flutt á bátum til Reykjavíkur og brennt í ofni sem stóð nálægt þar sem nú er Seðlabankinn. Gatan þar heitir einmitt Kalkofnsvegur. Eitthvað af kalkbyggðum húsum standa enn í dag, oftast er húsið að Lækjargötu 10 nefnt sem dæmi.
Daginn sem þetta er skrifað mátti enn sjá tvo smáskafla í Esjunni ofan við Gunnlaugsskarð. Þeir ættu nokkuð örugglega að hverfa í mánuðinum, en þegar komið er fram í september eru síðustu snjóskaflarnir ekkert að flýta sér að bráðna. Þeir eru þó ekki sýnilegir á myndinni með færslunni sem ég tók að morgni 8. september, en það er einmitt á sólríkum septembermorgnum sem mér finnst Esjan einna fallegust.
- - - -
Meðal heimilda sem ég notaði hér er Ársrit Útivistar 1984 og einnig vefsíðan: Ferlir.is
7.9.2009 | 18:12
Veðrið klukkan 18
Hér áður fyrr, eða þar til fyrir svona 10 árum, voru á hverjum degi fluttar veðurfregnir á Rás1 klukkan 18.45 beint frá Veðurstofu Íslands. Þetta var hefðbundinn veðurfréttatími sem innihélt bæði veðurlýsingu fyrir einstaka staði á öllu landinu og næsta nágrenni svo sem Angmagssalik og Þórshöfn í Færeyjum auk nokkurra skipa á siglingu. Síðan var greint frá hámarkshita á landinu og í Reykjavík, einnig mesta úrkoma á landinu og úrkomumagn í Reykjavík yfir daginn. Eftir þessari upptalningu fylgdi svo veðurspá fyrir landið og miðin ásamt langtímaspá. Eins og allir geta séð var þetta úrvalsútvarpsefni svona rétt fyrir kvöldfréttir Útvarps sem þá voru klukkan 19.00. Þarna fékk þjóðin helstu staðreyndir um veður dagsins á meðan gert var klárt fyrir kvöldmatinn sem auðvitað var alltaf klukkan sjö á öllum góðum heimilum. Þjóðin gekk svo að snæðingi alveg með það á hreinu hvar á landinu hafði viðrað best eða rignt mest og það sem kannski skipti mestu máli hvort heitara hafi verið á Akureyri eða í Reykjavík.
Veðurfréttatíma eins og þennan má enn heyra á morgnana fyrir 10-fréttir á Rás1 nema þar segir af lágmarkshita og úrkomu næturinnar sem eru ekki eins heitar fréttir og veðrið yfir daginn. Veðurfréttatíminn góði klukkan 18.45 hvarf hins vegar bara sisvona einn daginn þegar kvöldfréttir RÚV voru færðar til klukkan 18.00 og komu aldrei aftur. Þetta var ekki síst missir fyrir mig þar sem ég skráði niður veðrið í Reykjavík og geri enn. Það var fastur liður að koma sér fyrir við viðtækið áður en klukkan varð 18.45 til að missa ekki af veðurlýsingunni fyrir Reykjavík.
Í dag er það þannig að það er eins og Ríkisfjölmiðlarnir vilji helst ekki láta fólk vita hvernig veðrið hefur verið á landinu enda var ekkert gert til að bæta fyrir þessar töpuðu veðurupplýsingar. Í veðurfréttum Ríkissjónvarpsins virðist veður dagsins einnig vera leyndarmál því þar er ekki einu sinni sýnt veðurkort fyrir veður dagsins á landinu nema í mýflugumynd á stóra Atlantshafskortinu. Veðurfegnir í dag byggjast því nær eingöngu á veðurspám og þá gjarnan teknir fyrir svo margir dagar að enginn man í rauninni veðurspána fyrir morgundaginn. Mig langar einhvertíma að rýna betur í sjónvarpsveðurfréttirnar en veðurfréttatímann góða klukkan 18.45 vil ég gjarnan fá aftur. Á RÚV er annars á þeim tíma hinn ágæti Spegilsþáttur, en sá þáttur þarf ekkert að standa lengur en til 18.45 enda er þar eiginlega ekkert annað en krepputal sem er hvorki gott fyrir matarlistina né meltinguna.
4.9.2009 | 00:26
Gæðamat á sumarveðrum 1987-2009, súlurit
Það hljóta flestir að vera sammála því að nýliðið sumar var gott sumar veðurfarslega séð allavega hér á suður og vesturlandi. Við getum þar að auki varla kvartað yfir sumrum síðustu ára sem hafa boðið upp á ýmsar tegundir af góðviðrum svo sem langvarandi sólarköflum, þurrviðrum, hitabylgjum og hægviðrum og stundum öllu þessu í senn. En liðin ár vilja oft renna saman í eitt og erfitt getur verið að muna og meta hvort eitt sumar sé betra en annað.
Sem eindreginn veðuráhugamaður vil ég hafa svona lagað á hreinu enda skrái ég niður veðrið daglega eins og ég hef kominn inn á áður og komið mér upp afskaplega fínu einkunnakerfi til að meta veðurgæði. Það geri ég með því að gefa hverjum degi veðurfarslega einkunn sem byggist á veðurþáttunum fjórum: sólskini, úrkomu, vindi og hita og getur hver dagur samkvæmt því getur fengið einkunn á bilinu 0-8. Þannig get ég gefið hverjum mánuði meðaleinkunn og svo líka hverju sumri einkunn. Þessum veðurskráningum hef ég áður gert skil t.d. sýndi ég og útskýrði hvernig ég skráði sl. janúarmánuð (hér) og svo einnig júlí núna í sumar (hér) sem einmitt fékk hæstu veðureinkunn sem ég hef gefið nokkrum mánuði.
Útfrá þessu veðureinkunnakerfi get ég nú borið saman veðurgæði allra sumra frá árinu 1987 eins og sést á þessu súluriti. Þarna sést að sumarið í sumar fær hæstu einkunn sem ég hef gefið fram að þessu með einkunnina 5,36. Í öðru til þriðja sæti eru svo sumrin 2004 og 2007 með sömu einkunnina 5,13. Lakasta sumar tímabilsins var hinsvegar árið 1989 með 4,23 í einkunn.
Að auki hef tekið hér saman mjög stuttaralega lýsingu á öllum sumrum frá árinu 1987. Þetta er kannski ekki alveg tæmandi lýsing en eins og oft áður hjá mér er hér aðallega miðað við Reykjavík enda er það mitt heimapláss.
Lýsing á sumrum:
1987 Gott sumar en júlí var þó frekar þungbúinn. Ágúst var óvenju sólríkur.
1988 Sumarið byrjaði með mjög umhleypingasömum og sólarlausasta júní frá upphafi mælinga. Júlí stóð sig með ágætum og bauð upp á skemmtilegt þrumuveður í Reykjavík þann 10. júlí
1989 Mjög leiðinlegur júlímánuður eyðilagði sumarið í Reykjavík. Mánuðurinn var sá sólarminnsti frá upphafi mælinga og þar að auki kaldur. Júní og ágúst voru talsvert skárri. Hámarkshiti sumarsins var ekki nema 15,6 gráður.
1990 Sumarið frekar dapurt en þó ágætur kafli seint í júní og fram í júlí.
1991 Júní var sérstaklega sólríkur og á eftir fylgdi heitasti júlímánuður sem komið hefur í Reykjavík og voru slegin hitamet víða um land. Í mikilli hitabylgju náði hitinn 23,2 stigum í borginni þann 9. júlí en sá mánuður er hlýjastur allra mánaða í Reykjavík 13,0 gráður.
1992 Sumarið var ekkert sérstakt og aldrei mjög hlýtt. Eftirminnilegast er kuldakastið um Jónsmessuna í annars mjög köldum júnímánuði, þar snjóaði fyrir norðan og einnig til fjalla sv-lands.
1993 Ágætt tíðarfar en besta veðrið var í júlí. Þá var mjög bjart og þurrt í Reykjavík en kalt fyrir norðan.
1994 Sumarið var sæmilegt með köldum júnímánuði en júlí var frekar hlýr.
1995 Sumarið ekki gott nema hvað júlí var ágætur. Ágúst var mjög þungbúinn.
1996 Fátt eftirminnilegt þetta sumar. Ágúst var mjög dapur í Reykjavík en góður kafli kom um miðjan júlí.
1997 Sumarið var þurrt og bjart framan af en júlí og ágúst ollu vonbrigðum SV-lands.
1998 Sumarið var gott í heildina. Júnímánuður var bjartur og þurr og var ásamt ágúst sá hlýjasti í mörg ár.
1999 Sumarið var frekar blautt þar til í ágúst, en þá var bjart og hlýtt.
2000 Ágætt sumar með köflum en mjög sólríkt og þurrt var fyrir norðan og austan.
2001 Sumarið var ágætt í heildina þó lítið væri um hlýja daga.
2002 Af sumarmánuðunum var júní að þessu sinni sá hlýjasti, hæst komst þá komst hitinn í 22 stig sem er hitamet fyrir júní. Sumarið þótti ekkert sérstakt en var nokkuð milt.
2003 Júní og ágúst voru hlýrri en nokkru sinni í Reykjavík enda var sumarið það hlýjasta sem mælst hefur í borginni sem og víða um land. Þó nokkuð rigndi með köflum.
2004 Sumarið var bæði hlýtt og sólríkt. Í ágúst gerði mikla hitabylgju SV-lands þar sem hitinn fór yfir 20 stig í borginni fjóra daga í röð, nýtt hitamet í Reykjavík var þá slegið í Reykjavík 24,8°.
2005 Sumarið var sæmilegt fyrir utan þungbúinn og svalan kafla í júlí.
2006 Sumarið var þungbúið suðvestanlands framan af en rættist úr því seinni hlutann.
2007 Sumarið var yfirleitt hlýtt og þurrt og mjög gott um mest allt land. Í Reykjavík var júlímánuður sá næst hlýjasti frá upphafi.
2008 Afar sólríkur og þurr júnímanaður en síðan köflóttara, mjög rigningarsamt í lok ágúst. Aftur var slegið hitamet í Reykjavík í hitabylgju undir lok júlí þegar hitinn komst í 25,7 stig.
2009 Mjög gott sumar sunnan og vestanlands og þá sérstaklega júlímánuður sem var sá þurrasti í Reykjavík síðan 1889 og sjálfsagt einn af bestu veðurmánuðum sem komið hafa í Reykjavík.
- - - -
Veður | Breytt s.d. kl. 00:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
1.9.2009 | 17:58
Kaliforníubrunar með augum NASA og Mt. Wilson
Enn brenna eldar í Kaliforníu og engu líkara en að þetta sé að verða árviss viðburður þarna hjá þeim. Miklir hitar, þurrkar, skógi vaxnar fjallshlíðar og óvarkárt mannfólk er góð uppskrift að skógareldum eins og þarna eiga sér stað. Af einskærum hamfaraáhuga blandaðri samúð með þeim sem illa verða úti, reyni ég að fylgjast með því sem að gerast enda er þetta á við gott eldgos hér hjá okkur. Í fréttum sem berast af atburðunum vill oft vanta að maður fái almennilega yfirsýn af vettvangi og því leitaði ég á náðir NASA Earth Observatory síðunnar og fann þessa fínu gervitunglamynd frá 30. ágúst, þar sem eldsvæðið hefur verið merkt inn. Los Angeles borg er þarna skammt suður af eldunum en afstaðan sést betur á kortinu sem ég bætti inná.
Myndina má sjá stærri á slóðinni: http://earthobservatory.nasa.gov/IOTD/view.php?id=40011
Eitt af því sem Kaliforníumenn hafa áhyggjur ef eldurinn breiðist frekar út eru mannvirkin á Mt. Wilson fjalli (1742m). Þar uppi er mikil stjörnuathugunarstöð sem á sér yfir 100 ára sögu og þykir afar merk þótt mikilvægi hennar hafi verið meiri áður fyrr. Einnig eru þarna á fjallinu allskyns bráðnauðsynleg fjarskiptamöstur svona rétt eins og á Skálafelli hjá okkur nema allt bara miklu stærra og meira. Á vefsíðu Mount Wilson Observatory má finna ýmsar upplýsingar um stöðina og þar er einnig vefmyndavél (UCLA Tower cam) sem staðsett í svokölluðum Solar-tower. Þar má fá myndir af því sem er að gerast eins og þessa sem ég náði í um hádegi 1. sept að okkar tíma. Eldurinn hefur ekki náð að sjálfu fjallinu en sjá má reykjarmistrið umlykja fjarskiptamöstrin. Það sem sýnist vera eldur er í raun rafmagnsljós. (Ath myndirnar eru þungar og eru nokkuð lengi að hlaðast inn ef þær koma þá yfirleitt)
Þegar birta tók að degi leit þetta svona út:
Síðustu fréttir þegar þetta er skrifað (kl. 17.40) benda til hagstæðari aðstæðna sem eykur mönnum bjartsýni á að eldurinn nái ekki fjallinu. Óneytanlega hefði þó verið forvitnilegt að sjá þetta fuðra upp í beinni.
- - - -
Nema hvað allt í einu er þetta orðin svona! (Viðbót kl. 18.52)
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 20:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.8.2009 | 06:16
Langskemmtilegasta langstökkskeppni sögunnar
Þann 30. ágúst 1991 var heimsmeistaramótið í frjálsum íþróttum haldið í Tókýó. Hápunktur þess móts var án efa langstökkskeppnin sem stundum er talin vera ein mesta keppni sem nokkru sinni hefur verið háð á frjálsíþróttavelli. Þar áttust við ofurmennið Carl Lewis og hinn minna þekkti Mike Powell, báðir frá Ameríku og endaði keppnin með heimsmeti þess síðarnefnda. Þessu ætla ég að gera skil ásamt myndbandi sem sýnir dramatískasta hluta keppninnar, sem var svo sannarlega dramatísk.Fyrir keppnina í Tókýó var heimsmetið í langstökki 8,90 metrar og orðið 23 ára gamalt og var lengi talið nánast ofurmannlegt að stökkva slíka vegalengd. Metið átti Bob Beamon sem hann setti í þunna loftinu á Ólympíuleikunum í Mexíkó 1968. Með stökkinu bætti hann eldra heimsmet um heila 55 cm og þótti það með slíkum ólíkindum að talað var um stökk inn í næstu öld, þ.e. þá öld sem við lifum á nú.
Þegar Carl Lewis kom fram á sjónarsviðið á 9. áratugnum var farið að gera að því langstökksskóna að heimsmetið frá 1968 gæti verið í hættu enda var Carl Lewis algerlega ósigrandi í langstökki í heil 10 ár og var farinn að höggva nærri heimsmetinu. Þegar kom að heimsmeistaramótinu í Tókýó 1991 var Carl orðinn þrítugur að aldri, þó enn í fantaformi og ætlaði sér hina hina stærstu hluti og heimurinn fylgdist með. En hlutirnir fóru ekki alveg eins og áætlað var því flestum að óvörum var það næst besti langstökkvarinn, Mike Powell, sem stal senunni þrátt fyrir að Carl Lewis hafi átt í það heila, bestu stökkseríu allra tíma í langstökkssögunni.
Hér er langstökkskeppnin rakin en til fróðleiks og samanburðar má nefna að Íslandsmet Jóns Arnar Magnússonar er 8,0 metrar.
1. umferð: Mike Powell á misheppnað stökk, 7,85 metra. Það hefði þó dugað til sigurs á flestum Ungmennafélagsmótum á Íslandi. Carl Lewis hittir vel á það og stekkur 8.68 metra sem þá var mótsmet og myndi duga til sigurs á flestum alþjóðlegum mótum enn í dag.
2. umferð: Mike Powell nær sér á strik og stekkur 8,54 eða jafn langt og sigurstökk nýliðins heimsmeistaramóts. Carl Lewis gerir illilega ógilt.
3. umferð: Adrennan í vandræðum hjá Mike Powell sem stekkur 8,29 metra. Carl Lewis nær fyrsta risastökki keppninnar uppá 8,83 metra. Hans besta stökk á ferlinum fram að þessu.
4. umferð: Mike Powell nær gríðarlöngu stökki en gerir hárfínt ógilt og er afar ósáttur með dómara keppninnar. Carl Lewis svarar með lengsta stökki sögunnar 8,91 metrar en vegna meðvinds er það ekki skráð sem heimsmet. Hann fagnar þó vel og ekki að ástæðulausu.
5. umferð: Mike Powell sem nú var orðið mjög heitt í hamsi nær hinu fullkomna stökki 8.95 metrar og slær heimsmetið frá 1968 á óvefengjanlegan hátt við mikin fögnuð. Carl Lewis var ekkert á því að gefast upp og á enn eitt risastökkið, 8,87 metra sem dugar þó ekki til. Þetta stökk er skráð sem hans besta stökk á ferlinum enda meðvindur innan löglegra marka.
6. umferð: Mike Powell er hættur og horfir á Carl Lewis stökkva sitt síðasta risastökk upp á 8,84 metra og keppninni lýkur þar. Mike Powell fær gullið og heimsmet hans 8,95 metrar er staðfest og stendur enn óhaggað.
Þannig fór það. Sálfsagt er að minnast á þann sem vann bronsið í þessari keppni en það var enn einn Bandaríkjamaðurinn Larry Myricks, sem stökk aðeins 8,42 metra.
- - - - - -
Myndbandið sem hér fylgir er tæpar 8 mínútur en við komum til leiks í fjórðu umferð og fylgjumst með hápunkti keppninnar. Þulurinn er bandarískur og talar því í fetum og tommum. Þessa langstökkskeppni mátti sjá beinni útsendingu í sjónvarpinu á sínum tíma og vitanlega fylgdist ég spenntur með og það er því við hæfi að gera þetta að sjónvarpsnostalgíu mánaðarins á þessari síðu.
Ath! Youtube leyfir ekki að myndbandið sé skoðað inn á bloggsíðum, þannig að smella verður á link á myndinni til að sjá það. (Ég mæli hins vegar með því, ásamt því að fara út í garð og reyna að stökkva 8,95 metra)
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.8.2009 | 23:29
Tónlistarhúsið 2006-2009
Síðustu fjögur ár hef ég komið mér fyrir upp á Arnarhóli einhvern góðviðrisdaginn um þetta leyti árs og beint myndavélinni þangað sem tónlistarhúsið rís. Í lok ágúst 2006 þegar fyrsta myndin var tekin stóð Faxaskálinn óhreyfður og Akrafjall og Skarðsheiði blöstu við í fjarska. Vinnuvélar voru þó mættar á svæðið og brátt fóru að hefjast framkvæmdir við dýrustu og metnaðarfyllstu byggingarframkvæmdir Íslandsögunnar til heiðurs tónlistargyðjunni. Allt var í lukkunnar velstandi á þessum tímum enda þótti ekkert tiltökumál þótt kostnaðaráætlanir samkvæmt verðlaunatillögu Ólafs Elíassonar væru langt umfram það sem áður hafði verið ákveðið. Því flottara því dýrara og því dýrara því flottara.
Ef allt hefði farið eins og stefnt var að og ekkert ólukkans fjármálahrun skollið á, væri Tónlistarhúsið langt komið í dag enda gerðu bjartsýnir menn sér vonir um að opna húsið með pomp og prakt og lúðrablæstri fyrir lok þessa árs. Nú gera hinsvegar áætlanir ráð fyrir að herlegheitin verði kláruð vorið 2011. Eitthvað er byrjað á að setja upp glugga, en vinna við glerhjúpinn sjálfan er í undirbúningi, það mun vera hin mesta gestaþraut sem kínverskir fulltrúar glerframleiðandans munu sinna.
Hvað sem má annars segja um þetta ævintýri, þá sé ég ekkert annað í stöðunni en að klára húsið eins og stefnt er að því auðvitað verður þetta hið glæsilegasta hús. Svo væri þjóðráð að hleypa sjónum ofaní stóru gryfjuna þar sem fjármálamiðstöðin átti að rýsa og hafa þar smábátahöfn eða öllu heldur fína snekkjuhöfn.
Hér koma myndirnar:
23.8.2009 | 22:09
Sjórinn og hitasveiflur á jörðinni
VARÚÐ, þetta er nokkuð löng færsla sem einungis hinir alhörðustu loftslagsáhugamann hafa hugsanlega gaman af. En nú er það svo að fæstir deila um að mikið hafi hlýnað á jörðinni síðustu 100 árin. Hinsvegar hefur hlýnunin ekki verið jöfn og jafnvel hafa komið heilu áratugirnir þar sem hitinn hefur staðið í stað eða jafnvel lækkað. Í síðustu færslu skrifaði ég um hitaþróunina samkvæmt þeim gögnum sem Nasa/GISS hefur tekið saman og birti þetta línurit hér að ofan nema að nú hef ég skipt myndinni niður í fjögur tímabil. Það er nefnilega nokkuð greinilegt samkvæmt hitaferlinum að skipst hafa á tímabil þar sem annaðhvort hefur hlýnað nokkuð ákveðið eða þá að lítilsháttar kólnun hefur átt sér stað. Þessar sveiflur skýrast ekki af aukningu gróðurhúsalofttegunda því sú aukning er jöfn og stöðug og því nokkuð ljóst að náttúrulegir kraftar eru þarna að verki sem ýmist gætu verið að draga úr eða magna upp undirliggjandi hlýnun.
Áður en ég kem nánar að því ætla ég að snúa mér að næstu mynd sem ég útbjó í fyrra útfrá áreiðanlegum gögnum. Þarna má sjá hitaferil jarðar frá 1950-2007 sem liggur ofan á mynd sem sýnir hvenær hinir heitu El Nino straumar og hinir köldu La Nina straumar hafa verið ríkjandi á Kyrrahafinu. Eins og sést þá svindlaði ég með hitaferilinn og lækkaði hann niður eftir árið 1977 svo betra sé að bera saman og er ekki annað að sjá að talverð fylgni sé á milli skammtíma hitasveiflna jarðar og El Nino/La Nina fyrirbæranna. Tvö eldgos merkti ég inn, en stærsta frávikið á milli ferlanna má skrifa á Pinatubo-gosið 1991.
Það sem er hinsvegar merkilegt í þessu er að fyrir árið 1977 voru hinir köldu La Nina straumar ríkjandi í Kyrrahafinu en eftir 1977 snérist það við og heitu El Nino straumarnir urðu ríkjandi. Um það leiti urðu einmitt umskipti í hitaferlinum sem sést á fyrstu myndinni, þannig að auðvelt er að líta svo á að hlýnun síðustu áratuga hafi verið mögnuð upp að ríkjandi El Nino áhrifum á sama tíma.
Þá kem ég að næstu mynd og ekki síður merkilegri sem er mánaðarlegt gildi á hinni svokallaðri Pacific Decatal Oscillation (PDO) sem ég hef stundum minnst á áður. PDO er stór hitasveifla á Norðanverðu Kyrrahafi sem skiptir um ham á nokkurra áratuga fresti af því er virðist, en þó með ýmsum útúrdúrum. Negatíva ástandið veldur köldum sjó við vestanverða Norður-Ameríku og hlýrri sjó Asíumegin á Kyrrahafi. Þessi sveifla hefur líka mikil áhrif á hitaþróun í Norður-Ameríku og jafnvel víðar. Það eru síðan hugmyndir uppi um að þessi PDO hafi áhrif á hvort El Nino eða La Nina aðstæður séu ríkjandi hverju sinni, en afgerandi fasaskipti urðu á PDO árið 1977 á sama tíma og El Nino fyrirbærin urðu ríkjandi í stað El Nino. Og eins og sést þá skipti PDO einnig um ham kringum árið 1945 á sama tíma og umskipti urðu á hitaþróun jarðar, í það sinn úr mikilli hlýnun í smá kólnun.
Semsagt, ef þetta er svona einfalt, þá ætti að vera nóg að fylgjast með ástandi PDO á Kyrrahafinu til að finna út hvort jörðin sé stödd í hlýnandi ferli eða stöðugu. Það gæti annað hvort verið vegna beinna áhrifa eða vegna þeirra áhrifa sem PDO hefur á tíðni El Nino og La Nina. Eins og sjá má á myndinni er PDO einmitt að taka dýfu þar sem myndin endar. Hvort það ástand eigi eftir eftir að vara lengi er ómögulegt að segja, en ef þetta neikvæða ástand verður eitthvað svipað 1945-1977 tímabilinu þá getum við átt von á minni hnattrænni hlýnun heldur en árin 1978 til ca. 2000 eða smá kólnun.
Það eru auðvitað fleiri þættir sem hafa áhrif á hitasveiflur, en hingað til hefur ekki mikið verið fjallað um þessi stóru fasaskipti í hafinu sem virðast eiga sér stað og hafa mikil áhrif. Þetta hefur reyndar ekki verið þekkt lengi og þessi PDO sveifla uppgötvaðist ekki fyrr en um 1999 þegar reynt var að finna skýringar á snöggum breytingum á laxagengt við Kyrrahafsströnd Norður Ameríku. Til eru fleiri svona svipuð fyrirbæri sem valda áratugasveiflum í hafinu eins og hér hjá okkur í Norður-Atlantshafi en þar er talað um Atlantic Multidecatal Oscillation (AMO) og ræður miklu um hitann t.d. í kringum Ísland. Það fyrirbæri hefur verið í jákvæðum fasa eftir 1995 og er það enn.
Þrátt fyrir neikvæðan PDO, er hlýja El Nino fyrirbærið að ná sér vel á strik um þessar mundir og höfin hafa aldrei verið hlýrri en núna í júlí, þannig að kannski er þetta allt ekki alveg svona einfalt og þótt þessi PDO áhrif hafi verið svona afgerandi á 20. öldinni er ekki þar með sagt að svo verði áfram.
- - - - - -
Núna nýlega mátti lesa um það að menn eru farnir að taka þessum áratugasveiflum af meiri alvöru en áður, en stóru fasaskiptin í hafinu virðast hafa vantað í þau loftslagslíkön sem spár um hitaþróun jarðar eru gerðar eftir. Sjá nánar um það hér í frétt á Science daily vefnum 17. ágúst 2009: Changes In Net Flow Of Ocean Heat Correlate With Past Climate Anomalies:
Einnig má lesa meira um þetta hér: Larger Pacific Climate Event Helps Current La Nina Linger
Mánaðarleg gildi fyrir PDO má sjá hér og nær alla leið aftur til 1900.
- - - - - -
Að svo búnu er kominn tími til að snúa sér að öðru en loftslagsmálum, en næsta færsla mun fjalla um byggingu.
Vísindi og fræði | Breytt 24.8.2009 kl. 12:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.8.2009 | 01:16
Um hitamælingar á jörðu á vegum NASA / GISS
Eitt af grundvallaratriðum í allri umræðu um loftslagsmál eru vitanlega hitamælingarnar á jörðu í fortíð og nútíð. Það er þó ekkert einfalt mál að segja til um hvert sé hitastig jarðar frá degi til dags og enn meiri vandi kemur upp þegar meta á þróun hitastigs marga áratugi eða heila öld aftur í tímann. Á stórum svæðum í hinum vanþróaðri löndum var t.d. lítið um hitamælingar á fyrri hluta síðustu aldar auk þess sem sífellt er verið að leggja niður athugunarstöðvar víða um heiminn og stofna nýjar. Þar við bætast svo óvissa í mælingum t.d. vegna þéttbýlisáhrifa í stækkandi borgum heimsins (urban warming).
Meðal þeirra aðila sem hafa ráðist í að koma upplýsingum um hitaþróun jarðar í skikkanlegt samhengi er Bandaríski rannsóknarhópurinn Goddard Institute for Space Studies (GISS) sem gefur út í samvinnu við NASA samnefnda gagnaröð sem nær aftur til ársins 1880. Það eiga sér oft stað heitar umræður um áreiðanleika NASA/GISS hitamælinganna, ekki síst vegna þess að aðalmaðurinn þar á bakvið er Jim Hansen sem er einn fremstur í flokki þeirra sem vara við hættunni af hnattrænni hlýnun af mannavöldum, auk þess sem hann er helsti lærifaðir Al Gores í loftslagsfræðum. Sú hitaþróun sem NASA/GISS birtir er þó á sömu nótum og aðrir aðilar hafa komist að, en þó má sjá þar örlítið meiri hitastigshækkun hin síðari ár en til dæmis hjá hinni bresku HadCRUT gagnaröð sem einnig byggist á hefðbundnum athugunum á jörðu.
Hitaþróun jarðar 1880-2008 samkvæmt Nasa/GISS
Ef þessi hitaferill er réttur í aðalatriðum þarf ekkert að efast um að jörðin hafi hlýnað mikið þótt sú hlýnun hafi ekki verið jöfn og stöðug. Á árunum 1945-1977 kólnaði til dæmis lítillega. En það er sérstaklega hlýnunin eftir 1980 sem bendir til þess að eitthvað merkilegt er að gerast sem erfitt er að skýra út sem náttúrulega uppsveiflu. Á því tímabili er einnig hægt að styðjast við gögn frá gervitunglum sem einnig sýna talsverða hlýnun á eftir 1980. Gervitunglamælingar sýna þó aðeins minni hlýnun og reyndar stöðnun síðustu 10 ár og árið 1998 er þar afgerandi hlýjast en ekki árið 2005 eins og hjá Nasa/GISS. Þess má geta að gervitungl miða við hita í 4,4 km hæð en samkvæmt fræðunum ætti hlýnun vegna gróðurhúsaáhrifa að vera aðeins meiri í þeirri hæð en við yfirborð jarðar. Þetta misræmi þykir ekki alltaf vera meðmæli fyrir Nasa/GISS mælingarnar.
(Samanburð á yfirborðshitamælingum samkvæmt Nasa/GISS og gervihnattamælingum frá 1978-2009 má sjá hér.)
Gagnleg heimasíða Nasa/GISS
Á heimasíðu Nasa/GISS er hægt að komast í og kalla fram ýmsar upplýsingar. Hægt er að sjálfsögðu að ná í tölulegar upplýsingar fyrir hvern mánuð allt aftur til ársins 1880, (sjá hér) en tölurnar miða við frávik frá meðaltali áranna 1951-1980.
Þarna er líka hægt að kalla fram heimskort eftir eigin forskrift eins og þetta hér, þar sem ég valdi að bera saman hita ársins 2008 við árshitann 1942 en það ár valdi ég sem fulltrúa hlýja tímabilsins um miðja 20. öld. Rauður litur táknar að hlýnun og blár kólnun.
Ef maður skoðar þessa mynd sést að það er ekki algilt að það hafi verið hlýrra á síðasta ári en árið 1942, þ.e.a.s. þar sem gögn eru á annað borð til staðar. Til dæmis var víða kaldara í Norður-Ameríku árið 2008 og hér á Íslandi táknar hvíti liturinn nánast sama hitastig og var árið 1942. Hinsvegar var síðasta ár miklu hlýrra í vesturhluta Rússlands en árið 1942, enda fékk innrásarher Þjóðverja þá illilega að kenna frosthörkunum sem þar ríktu og gerðu sennilega út um stórveldisdrauma Hitlers.
Síðan kemur hér að neðan önnur mynd sem sýnir mismun á meðalhita áranna 1940-1945 og ársins 2008. Hér er einnig hitastig sjávar tekið inn og hver athugunarpunktur útvíkkaður þannig að þekjan er orðin allt önnur en í fyrra kortinu. Með þessum viðbótum sést miklu betur hversu núverandi hlýindatímabil er almennt hlýrra en aðalhlýindatímabil síðustu aldar, jafnvel þótt árið árið 2008 hafi verið kaldasta árið það sem af er þessari öld, enda réð hinn kaldi La Ninja straumur þá ríkjum í Kyrrahafinu.
- - - - -
Og svona í lokin þá má líka benda á að það er hægt að kalla fram línurit fyrir þá staði í heiminum sem notaðir eru í gagnaröðinni (hér), eins og þetta frá Reykjavík sem sýnir hitann frá 1900-2009
Þegar skoðuð eru línurit frá athugunarstöðvum víðsvegar um heiminn á þessum sést fljótlega að það er alveg upp og ofan hvort hitaþróun er upp- eða niðurávið. Eins og sést á myndinni fyrir Reykjavík þá er hér í raun ekki mikið hlýrra nú en var á árunum kringum 1940. En í heildina þegar öll gögn hafa verið tekin saman sem víðast úr heiminum verður maður að trúa því að Jim Hansen og félagar hafi unnið sitt verk af kostgæfni og NASA/GISS verkefnið sýni nokkuð raunsanna mynd af því sem er að gerast.
Hvað þetta segir svo um framtíðina verður sjálfsagt áfram deilt um. Mun hlýnunin halda áfram eins og spáð er, erum við á leið í stöðnunartímabil svipað og gerðist eftir 1945 eða er alvöru bakslag framundan eins og sumir eru að spá vegna sólardeyfðar? Ekki veit ég það en stundum trúi ég hverju sem er í þeim efnum.
15.8.2009 | 16:31
Ritstjórnarstefna mín
Þannig er ritstjórnarstefna mín:
- Ég skrifa fyrst og fremst um það sem ég hef áhuga á að skrifa um. Ekki það sem ég held að aðrir hafa áhuga á að lesa.
- Markmiðið með skrifunum er að skilgreina frekar en að gagnrýna.
- Viðfangsefni bloggsíðunnar er fyrst og fremst náttúran, umhverfið vítt og breitt með sérstakri áherslu á veður, sjónmenntir koma einnig stundum við sögu.
- Ég skrifa ekki um stjórnmál og nefni aldrei stjórnmálamenn á nafn.
- Ég nefni sjaldan nokkurn á nafn nema þá sem tengjast vísindum, listum eða dægurmenningu.
- Ég kalla aldrei neinn illum nöfnum. (3 dæmi: enginn er kallaður glæpamaður nema sá hafi verið dæmdur sem slíkur. Enginn er kallaður vitleysingur nema hafa verið úrskurðaður sem slíkur af heilbrigðisyfirvöldum. Enginn er kallaður asni nema um sé að ræða viðkomandi dýrategund. Aldrei hef ég þó notað þessi orð)
- Í lok hvers mánaðar er menningarleg upprifjun með aðstoð youtube. Á þessu ári tengist það sjónvarpi.
- Ég linka ekki á fréttir nema einstaka sinnum.
- Ég skrifa ekki oftar en þrisvar í viku, yfirleitt tvisvar.
- Allar bloggfærslur eiga að vera snyrtilegar í útliti og gjarnan myndskreyttar.
- Ég reyni að vanda skrifin sem eiga að vera auðskilin og upplýsandi.
- Ég reyni að svara öllum athugasemdum sem eru í spurningarformi.
- Ég geri helst ekkert til að auka vinsældir bloggsíðu minnar.
- Undantekningar má gera á ritstjórnarstefnunni.
- Allri alvöru fylgir líka gaman.
Ritsjórnarstefna þessi hefur verið samþykkt án nokkurra fyrirvara.
Eins og við má búast hefur þessi stranga ritstjórnarstefna skilað sér frekar illa í vinsældum án þess að ég sé að kvarta yfir því. Hæst hef ég komist í 97. sæti á vinsældarlista Mbl-bloggsins en yfirleitt er ég í 200-400. sæti. Stundum kemst ég ekki inná top-400 listann og það þrátt fyrir að vera svokallaður forsíðubloggari og ég er ekki enn orðinn svo frægur að ókunnugt fólk víki sér að mér og spyrji hvort ég sé þessi Emil á moggablogginu. Stundum velti ég því fyrir mér hversu lengi ég mun halda áfram þessari iðju en ég get þó sagt að bloggskrifin munu halda áfram svo lengi sem ég nenni að skrifa eða hef eitthvað að skrifa um. Allt getur gerst í þeim efnum enda lifum við á hinum mestu óvissutímum.
Bloggar | Breytt 19.8.2009 kl. 10:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
12.8.2009 | 00:01
Tvær veðurmyndir og einn staur
Það hefur verið fjölbreytilegt skýjafar í nágrenni Reykjavíkur undanfarið þótt sólin hafi líka skinið glatt. Bólstraskýin hafa fengið að bólgna út í friði í hægviðrinu þegar sólin segir til sín og greinilega er nægur raki í lofti til að framkalla hressilegar skúradembur inn til landsins. Svo hefur sjávarþokan einnig látið á sér kræla en hún er þó fljót að hverfa þegar sólin hækkar á lofti. Allt getur þetta verið ákaflega myndrænt.
Fyrsta myndin er tekin í hádeginu þriðjudaginn 11. ágúst og er horft frá Seltjarnarnesi yfir á Eiðsgrandann. Mikil rakaþétting greinilega í fullum gangi niðri við sjávarmál en hæstu húsin standa uppúr. Í fjarska hafa bólstraskýin stigið upp. Það er ekki oft sem maður sér svona blöndu og ekki stóð þetta lengi því þokan var horfin skömmu síðar.
Kvöldið áður þann 10. ágúst mátti sjá þetta myndarlega skúraský inn til landsins en það er Nesstofan sem er í forgrunni. Uppstreymið sem myndaði þetta skúraský var þó að syngja sitt síðasta enda sólin óðum að setjast. Skýið var því ekki nema svipur hjá sjón þegar á leið.
Á sama tíma þarna úti á Nesi mátti sjá þennan gamla staur umflotinn sjó í kvöldflóðinu. Áður fyrr hefur hann sjálfsagt haldið upp raflínu út í Gróttuvita. Í dag er hann eiginlega bara staurblankur.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)