10.8.2009 | 00:18
Um snjóskafla í Esjunni
Bráðnandi ís af öllu tagi virðist vera mér ofarlega í huga enda er þetta þriðja færslan í röð sem fjallar um eitthvað því tengt og kannski ekki svo óviðeigandi þegar allt kemur til alls. Að þessu sinni eru það bráðnandi Esjuskaflar sem koma við sögu. Að vísu engar stórfréttir á ferðinni heldur frekar svona stöðutaka með skírskotun til fortíðar. Það eru margir sem fylgjast með snjósköflunum í Esjunni þegar líða tekur á sumar og velta fyrir sér hvort þeir lifi af sumarið. Það hef ég líka lengi gert enda hef ég alltaf haft gott útsýni til Esjunnar annaðhvort frá heimili eða vinnustað og ekki að ástæðulausu að Esjan skipar sérstakan heiðursess á þessari bloggsíðu.
Árið 1993 þann 10. ágúst tók ég mig til og rissaði upp Esjuna, í skrásetningaráráttu minni teiknaði ég svo inná alla snjóskafla sem þá voru sýnilegir frá borginni og í framhaldi af því merkti ég við hvenær hver skafl bráðnaði. Þetta er eina árið sem ég hef gert þetta en myndina má sjá hér að neðan ásamt nánari útlistun. (Myndin birtist stærri ef smellt er tvisvar)
Á myndina merkti ég inn alls 15 skafla. Vestast var lífseigi skaflinn undir Kerhólakambi ásamt litlum systurskafli sem þarna átti stutt eftir. Fjórir skaflar voru vestur af Þverfellshorni og þrír litlir þar fyrir austan, en skaflvænsta svæðið var eins og venjulega í og við Gunnlaugsskarð. Þegar skoðað er hvenær þessir skaflar hverfa kemur í ljós að aðeins tveir þeirra hurfu þennan ágústmánuð. Fimm skaflanna hurfu svo í september og tveir seint í október. Ekkert var merkt við sex þessara skafla sem þýðir að þeir lifðu af sumarið. Þar var um að ræða vestasta skaflinn við Kerhólakamp og svo skaflana í Gunnlaugsskarði.
Þetta eru auðvitað miklu lífseigari skaflar heldur en nú til dags enda hafa þeir horfið öll ár þessarar aldar. Hinsvegar varð Esjan aldrei snjólaus árin 1970-1997 og jafnvel lengur því óvissa virðist vera um árið 1969. Þetta er líka í góðu samræmi við hitaþróunina en árið 1993 var meðalhitinn í Reykjavík 4,4 stig sem er nálægt opinberum meðalhita áranna 1960-1990 (4,3°C). Hinsvegar hafa öll ár þessarar aldar náð árshita á bilinu 5,1 - 6,1 stig. Á árunum 1930-1969 hurfu Esjuskaflar af og til en lengsta snjólausa tímabilið á 20. öldinni var árin 1932-1936.
Fljótt á litið tel ég að ársmeðalhiti um 5 stig skilji á milli þess hvort snjór lifi af sumarið eða ekki, en vetrarákoman skiptir auðvitað líka máli. Dæmi eru um að skaflar hverfi um hásumar eins og gerðist árið 2003 þegar allt var bráðnað 30. júlí. Ekki furða, því meðalhiti 12 mánaðanna þar á undan var heilar 6,4 gráður. Skaflarnir munu þó hafa horfið enn fyrr árin 1936, 1939 og 1941, öll eftir mjög snjólétta vetur og sumarhlýindi.
En þá er það staðan nú árið 2009. Myndin hér að neðan er tekin 9. ágúst og sýnir að vísu bara austurhluta Esjunnar en allir skaflar utan þess svæðis eru horfnir. Skaflarnir efst hafa samkvæmt teikningunni frá '93 þá verið einn og sami skaflin. Enn er smá snjór í giljunum þar fyrir neðan og svo er einn stakur til vinstri. Þetta er allt á góðri leið með að hverfa á næstu vikum en meðalhitinn síðustu 12 mánuði reiknast mér til að sé 5,46°C.
Austurhluti Esjunnar. Mynd tekin frá Laugarnesi 9. ágúst 2009
- - - -
Heimildir eru héðan og þaðan, t.d. frá þessari bloggfærslu hér: http://esv.blog.is/blog/esv/entry/612466/
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
7.8.2009 | 00:33
Af bráðnum Norðurpólsíssins
Nú þegar síga fer á seinni part sumars fara línur fljótlega að skýrast hvernig ísbreiðunni á norðurslóðum reiðir af þetta árið. Afkoma Norðurpólsíssins er auðvitað ein af táknmyndum hnattrænnar hlýnunar af mannavöldum en mismunandi viðhorf manna til þeirrar meintrar ógnar, endurspeglast óhjákvæmilega í mismunandi væntingum til komandi hafísslágmarks núna í september. Á meðan sumir mega vart til þess hugsa að hafísútbreiðslan nái nýjum lægðum í haust, vona aðrir heitt og innilega að ísinn bráðni sem mest, málstað sínum til framdráttar. Sjálfur verð ég að viðurkenna að ég er heldur spenntari fyrir meiri bráðnun en minni en ætla þó að reyna að hafa þessa umfjöllun sem hlutlausasta.
Á myndinni sem hér fylgir má sjá heimskautaísinn eins og hann birtist á síðunni Cryosphere Today og sýnir stöðuna þann 5. ágúst. Myndin er í sem eðlilegustum litum en á áðurnefndri síðu er einnig hægt að kalla fram litríkari kort sem sýna betur mismunandi þéttleika íssins. Í þessari litaútgáfu (low) er reyndar hætt við að gisnustu svæðin skili sér ekki nægilega og komi út sem opið haf, samanber kvarðann niðri. Rauðu og bláu línurnar eru viðbót frá mér og sýna lágmarksútbreiðslu íssins síðustu tvö ár en þau skera sig nokkuð úr fyrri árum hvað lágmarksútbreiðslu varðar og þá sérstaklega árið 2007.
Miðað við að það er bara um mánuður eftir af aðal bráðnunartímabilinu er frekar ólíklegt að lágmarksmetið frá 2007 endurtaki sig í ár, enda má kannski líta svo á að hafíslágmark þess árs hafi verið dálítið á undan sinni samtíð. Lágmark eitthvað svipað því sem var 2008 er hinsvegar líklegra enda er útbreiðslan nú álíka mikil og á sama tíma í fyrra.
Það vantar lítið uppá að norðaustur-siglingaleiðin sé opin, enda mun minni ís þar en á sama tíma og undanfarin ár. Hinsvegar er spurning hvort norðvesturleiðin opnist en hún liggur um Kanadísku eyjarnar þar sem enn er talsverður ís samkvæmt gervitunglamyndum.
Línurit eins og hér að neðan eru ágæt til að átta sig á samanburði við fyrri ár (rauða línan er 2009). Þarna sést vel hve krítískur tími er framundan, eitthvað hefur hægt á bráðnuninni síðustu daga og því ekki hægt að fullyrða að lágmarkið fari mikið neðar ef miðað er við árin 2002-2006. Hinsvegar er ísinn það þunnur í dag að áframhaldandi bráðnun mun að öllum líkindum hafa talsverð áhrif á útbreiðsluna. Segi ég að minnsta kosti.
- - - - -
Til frekari fróðleiks er hér nýlegt yfirlit frá Bandarísku hafísstofnuninni: http://nsidc.org/arcticseaicenews/
og frá sjónarhorni efasemdarmanna má eins og oft áður benda á bloggsíðuna: Watts Up With That
4.8.2009 | 12:29
Hopandi skriðjöklar, stækkandi lón og horfnar jökulár
Ég var á ferðinni á dögunum í Öræfasveitinni og var þá auðvitað mjög upptekinn að þeim breytingum á jökla- og vatnabúskap sem þar eiga sér stað, en síðustu fréttir þaðan voru þær að Skeiðará hafi bara horfið sisvona einn daginn.
Hvarf Skeiðarár er bara einn liður í þeirri þróun sem hefur átt sér stað síðustu 100 árin eða svo. Skriðjöklarnir sem æddu fram á litlu ísöldinni eru óðum að hverfa af láglendi og munu halda því áfram enda er loftslag í dag of hlýtt til að viðhalda þeirri stærð sem jöklarnir eru í núna. Það má kannski líta svo á að landshættir séu á leiðinni þangað sem þeir voru á landnámstíð þegar loftslag var einnig mjög hlýtt og jöklarnir miklu minni. Það má gera ráð fyrir að sandarnir sunnanlands hafi fyrir 1000 árum að mestu verið grónir fyrir utan þau svæði sem jökulhlaupin fóru um. Öræfasveitin hét t.d. áður Litla-Hérað og stórbýlið Skaftafell var staðsett á sléttlendinu en vegna ágangs jökulánna og stækkandi jökla á 19. öld þurfti að flytja búskapinn upp í hæðirnar.
Að einu leiti verða landshættir seint þeir sömu og á landnámstíð. Skriðjöklar litlu ísaldarinnar grófu sig nefnilega niður í sandinn og skilja því eftir sig sístækkandi jökullón við sporðanna. Þangað ofaní fer framburður jökulánna sem aftur þýðir að framburðurinn leitar ekki í sama mæli til sjávar. Með minnkandi skriðjöklum og lónamyndun fækkar einnig jökulánum þannig að dýrindis brúarmannvirki standa á þurru eins og dæmi eru um.
Svo tók ég auðvitað myndir sem sýna það allra nýjasta:
Mynd 1. Hér er horft til Skeiðarárjökuls af hæðunum ofan við Skaftafell. Meginupptök Skeiðarár hafa færst vestar, þau voru áður austast í jöklinum svo nú rennur engin jökulá þarna um sandinn. Kannski verður ræktað korn og kartöflur niðri á söndunum þegar fram líða stundir.
Mynd 2. Hér er það sem eftir er af því jökulvatni sem rennur undir Skeiðarárbrú við þjóðveginn. Þetta vatn kemur ekki úr Skeiðarárjökli heldur úr Morsárjökli og því ætti langa brúin í raun að heita Morsárbrú framvegis en ekki Skeiðarárbrú. Lengra í burtu sést til Skaftafellsjökuls og Svínafellsjökuls.
Mynd 3. Gígjukvísl er orðin að vatnsmiklu stórfljóti enda hefur hún nú tekið við því vatni sem áður rann austur um sanda og undir Skeiðarárbrú. Þetta er því hin eiginlega Skeiðarárbrú í dag. Brúin, sem er miðbrúin á sandinum, er nýleg og traustbyggð og á að standa af sér stór jökulhlaup, en gamla brúin fór í flóðinu mikla í nóvember 1996. Þriðja og vestasta brúin á Skeiðarársandi er svo yfir Súlu sem er önnur jökulkvísl úr Skeiðarárjökli, þar undir rennur jökulvatn með sama hætti og áður.
Mynd 4. Ofan af Sjónarnípu ofan Skaftafells sést vel yfir sporð Skaftafellsjökuls. Svínafellsjökull gægist undan Hafrafellinu í fjarska en sporðar þessara tveggja skriðjökla náðu saman fram undir 1940. Þarna er sístækkandi lón eins og við marga aðra skriðjökla en greinilegt er að þessi skriðjökull er í mikilli afturför og er ekki að skríða fram. Um 1980 var ekkert lón þarna enda náði skriðjökullin þá að sandöldunum lengst til hægri á myndinni.
Mynd 5. Að lokum er það hið heimsfræga Jökulsárlón á Breiðamerkursandi en það er um þessar mundir sneisafullt af ís eftir framhlaup eða hrun jökulsins við sporðinn. Við það stækkaði lónið enn meir inn til landsins og mælist nú vera dýpsta vatn landsins. Þarna hafa aldeilis orðið breytingar frá því um 1900 þegar jökullinn fyllti lónið og átti stutta leið eftir til sjávar.
- - - - -
Til viðbótar: Þann 20.7. var dálítil umfjöllun á mbl.is um atburðina á Skeiðarársandi, þar sem vitnað er í Odd Sigurðsson jarðfræðing. Þar kemur m.a. fram um Skeiðarrá: Áin er búin að vera einn mesti farartálmi landsins og þá sér í lagi hlaupin. Nú munu þau flytjast yfir í Gigjukvíslarfarveginn og brúin standa tóm framvegis. Hann segist ekki hafa trú á því að áin komi aftur, ekki einu sinni í hlaupum. Þau þyrftu að vera mjög stór svo það gerðist.
1.8.2009 | 13:47
Hversu gott var góðviðrið í júlí?
Eins og ég hef stundum minnst á, þá hef ég skráð veður í mörg ár og gefið hverjum degi veðurfarslega einkunn samkvæmt kerfi sem byggist á veðurþáttunum fjórum: sólskini, úrkomu, vindi og hita og getur hver dagur getur fengið einkunn á bilinu 0-8. Einnig gef ég hverjum mánuði einkunn útfrá meðaltali allra daga mánaðarins. Samkvæmt þessu einkunnakerfi fékk nýliðinn júlímánuður einkunnina 5,8 sem segir kannski ekki mikið, nema hvað að þetta er hæsta einkunn sem ég hef gefið nokkrum mánuði frá því ég hóf skráningar sumarið 1986. Með þessu slær mánuðurinn út júlí 2007 í veðurgæðum sem var með einkunnina 5,5 en allt fyrir ofan 5 telst annars vera mjög gott á þessum mælikvarða.
Nánar um nýliðinn júlímánuð
Hér til hliðar er veðurskráningin fyrir júlí 2009. Myndin birtist stærri ef smellt er á hana.
Veðurgæðum var eins og oft áður nokkuð misskipt á milli landshluta og að þessu sinni hafði suðvesturhelmingur landsins ótvírætt vinninginn enda norðaustlægar áttir ríkjandi. Það hefur aldrei verið minni úrkoma í Reykjavík frá upphafi mælinga, meðalhitinn hefur sjaldan verið hærri og sólskinsstundir langt yfir meðallagi. Í mínum skráningum kom þetta út sem 11 almennilegir sólskinsdagar og aðrir 11 þar sem sólin skein til hálfs. Einnig skiptir máli að enginn slæmur veðurdagur varð í mánuðinum og aðeins tveir minniháttar úrkomudagar, þann 5. og þann 26. Hitaþróunin var nokkuð merkileg því að lengi vel stefndi í að meðalhitamet júlímánaðar yrði slegið en kuldakastið 23.-25 gerði út um allt slíkt. Þótt ekki hafi gert eiginlega hitabylgju fór hitinn tvisvar upp í 21,1 stig. Opinber meðalhiti þessa júlímánaðar er 12,8 stig en eins og ég skrái hitann er meðalhitinn 14,8 stig en sá munur er á að ég skrái hita og veður útfrá einskonar meðalveðri yfir daginn og sleppi þar með næturveðri (því miður fyrir næturverði).
Nokkrir gæðamánuðir fyrri ára til samanburðar
Júlí 2007 Einkunn 5,5. Þessi mánuður er í öðru sæti yfir bestu mánuðina frá 1986 og hefur allt sem prýða má almennilegan góðviðrismánuð, sólríkur, þurr, hlýr og hægviðrasamur. Meðalhitinn hér var einnig 12,8°C og hámarkshitinn um 21 stig. Sólin skein af miklum móð fyrstu 17 dagana en eftir það varð aðeins köflóttara veður með nokkrum kærkomnum úrkomudögum, en óvenjumiklir þurrkar höfðu staðið yfir frá því fyrri hlutann í júní.
Júní 1991 Einkunn 5,4. Þessi mánuður var einnig mjög eftirminnilegur góðviðrismánuður og einn af sólríkustu og þurrustu júnímánuðum sem komið hafa. Það gerist t.d. ekki oft hér í borginni að við fáum 9 léttskýjaða eða heiðskýra sumardaga í röð eins og varð dagana 13-21. júní. Hitinn í mánuðinum var hinsvegar bara í góðu meðallagi og því vermir hann 3. sætið hér. Í kjölfarið kom svo hitametsmánuðurinn Júlí 1991 þegar opinber meðalhiti fór í 13 stig, en ýmis hitamet voru sett víða um land þegar gerði mikla hitabylgju dagana 6.-9. júlí. Sá júlímánuður fékk hjá mér einkunnina 5,1.
Ágúst 2004 Einkunn 5,3. Fyrir utan almennt góðviðri er þessi mánuður frægastur fyrir hitabylgjuna miklu sem gerði daganna 8.-12. ágúst. Hitamet var sett í Reykjavík, 24,8°C þann 11. ágúst. Það hitamet var svo slegið í fyrra: 25,7°C þann 30. júlí 2008 en sá mánuður fékk 4,9 í einkunn.
Besti mánaðarkaflinn.
Fyrir utan almanaksmánuði er besti mánaðarlangi veðurkaflinn sem ég hef skráð 21. júní - 21. júlí í góðærinu 2007 með einkunnina 6,1. Júlímánuður 2007 var einmitt nefndur hér að ofan sem næst besti mánuðurinn, en með því að hliðra til um nokkra daga fæst öllu hærri einkunn því aðal góðviðriskaflinn hófst seinni partinn í júní. Þá einmunablíðu sem þarna ríkti slær ekkert út frá árinu 1986 þegar ég hóf skráningar og örugglega þarf að fara mun lengra aftur í tímann. Næstbesti mánaðarkaflinn er þá nýliðinn kreppumánuður júlí 2009 sem er í 2. sæti með sín 5,8 stig en sú einkunn hækkar ekki þótt dagahliðrunum sé beitt.
Segjum þetta þá gott af blíðskaparveðrum enda nóg komið af upptalningum. Svo er bara að vona að sem flestir mánuðir bætist í þennan úrvalshóp á komandi árum.
27.7.2009 | 12:41
1 á móti 35 þúsund að það verði öflugur skjálfti
Það getur vel verið að þessi spákona hafi grísað á að spá fyrir um einn af Suðurlandsskjálftanum enda spáir fólk mikið í svoleiðs. Eftir að sú spá gekk nokkurn veginn eftir hefur aumingja konan fengið þá flugu í höfuðið að hún geti sagt fyrir um jarðskjálfta af meiri nákvæmni en færustu vísindamenn. Svoleiðis spámenn enda oftast sinn feril þegar þeir ofmetnast og gefa út áframhaldandi hamfaraspár sem ekki ganga eftir.
Spákonan virðist þó ekki þekkja jarðfræðina nógu vel því á Reykjanesskaga verða ekkert sérstaklega stórir jarðskjálftar vegna þess að jarðskorpan þar er frekar þunn enda er þetta eldvirkt svæði. Þess vegna hleðst ekki upp sama spenna á Reykjanesskaganum eins og gerist á Suðurlandsbrotabeltinu þar sem allt aðrar aðstæður eru. Það er mikill munur á jarðskjálftum upp á 6 eins og dæmi um á Reykjanesskaga eða á skjalftum yfir 7 eins og geta komið á Suðurlandi og upptökin verða tæpast yfir byggð.
En sjáum til. Ég segi 1 á móti 35 þúsund að spáin rætist. Skjálftar undir 5,5 stigum eru ekki taldir með enda teljast þeir ekki vera neitt til að hafa áhyggjur af.
![]() |
Spurt um jarðskjálftaspádóm |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.7.2009 | 01:20
Kúbuhatturinn 20 ára
Á þessum degi 26. júlí er við hæfi að rekja tilurð hattsins sem ég er með á smámyndinni. Þetta er nefnilega ekki hvaða hattur sem er því hann tengist sjálfum Fidel Castro fyrrverandi Kúbuleiðtoga traustum böndum og er ennþá sem nýr þó ég hafi átt hann í 20 ár. Þó ég sé ekki með hattinn svona dags daglega, þá nýtist hann mér oft vel, ekki síst þegar sólin skín beint á mig er ég sit við tölvuna á sumarkvöldum.
En það var annars þannig að í júlímánuði árið 1989 fór ég ásamt nokkrum Íslendingum og fjölda annarra Norðurlandabúa í vinnuferð til Kúbu til að leggja hönd á plóg til að stuðla að framgangi byltingarinnar og fá í staðinn ýmsa fræðslu um land og þjóð með smá rommi saman við. Á myndinni hér til hliðar má einmitt sjá mig í átökum við kúbanskan jarðveg í mikilli hitasvækju, sem sést þó ekki á myndinni.
Það var svo í fjórðu viku ferðarinnar, eða þann 26. júlí, sem öllum hópnum var boðið á stóran útifund þar sem leiðtoginn Fidel Castró hélt eina af sínum miklu ræðum. Þar kemur einmitt hatturinn við sögu því þá fengum við í hópnum þessa fínu stráhatta gefins til að vera með á fundinum. Á hattinum stendur SIEMPRE EN 26 Ciego de Avila, eða: ÁVALLT ÞANN 26. Ciego de Avila (sem er bærinn þar sem fundurinn var haldinn). Í ræðu sinni (sem ég hlustaði á með aðstoð túlkunartækis) rakti Fidel allt það sem hafði áunnist á þeim 30 árum sem sem liðin voru frá dögum byltingarinnar. Var það auðvitað löng upptalning og þarf varla að taka fram að undirtektir tugþúsunda innfæddra voru á afar jákvæðum nótum, þótt þeir hafi ekki fengið hatta eins og við Norðurlandabúarnir í hinni svokölluðu Brigada Nordica sjálfboðaliðasveit.
Þessi dagur, 26. júlí er að vísu ekki byltingardagurinn á Kúbu. Hinsvegar markar hann eiginlegt upphaf byltingarhreyfingar þeirra Castró og félaga þegar þeir gerðu misheppnaða árás á herbækistöð þann 26. júlí árið 1952. Í kjölfarið voru þeir handteknir, stungið í steininn og síðan sendir í útlegð í Mexíkó. Þar kynntust þeir Che Guevara og upphugsað var nýtt byltingarplan sem endaði með falli einræðisherrans Batista í ársbyrjun 1959. Það þýðir að Kúbanska byltingin er orðin 50 ára. Hatturinn er hinsvegar 20 ára í dag og Castró og byltingin enn á lífi, þótt heilsunni sé eitthvað farið að hraka. Þannig var nú það.
22.7.2009 | 16:32
Grösin okkar, stór og smá
Nú er hásumar og grösin gróa. Hér í Reykjavík hefur veðrið verið með þvílíkum eindæmum að miðaldra menn hljóta vart að muna annað eins. Það er þó hætt við því að gróðurinn sé ekkert sérstaklega hamingjusamur yfir þurrkatíðinni í borginni enda hefur varla rignt að nokkru ráði vikum saman. Þessi pistill fjallar annars um grös og grastegundir þær sem eru algengastar í umhverfi okkar. Ég fór nefnilega í grasaleiðangur einn sólskinsdaginn þar sem ég tók myndir af nokkrum grastegundunum og setti svo saman smá lesefni um hverja tegund fyrir sig. Á sínum tíma kynntist ég nefnilega grösum nokkuð og áttaði mig á að þar kennir ýmissa grasa og þegar grösin fá að spretta óslegin kemur í ljós úr hverju þau eru gerð.
Fyrst skal nefna Háliðagras en ég tek það fyrir fyrst vegna þess að það þroskast snemma sumars á undan flestum öðrum tegundum. Þetta er hátt gras með þéttan axarpunt á löngum stilkum sem ná oftast vel upp fyrir aðrar grastegundir. Flestir ættu að kannast við að hafa rennt fingrunum eftir stilkunum og um smáaxið sem reitist mjög auðveldlega af. Þetta er innflutt ræktunartegund sem hefur dreifst sér mikið og vex víða sem villt tegund í bæjum og sveitum, ekki síst á óræktuðu svæðum.
Vallarfoxgras er einnig innflutt tegund og er svipað háliðagrasi en ekki eins hávaxið og þroskast seinna. Þetta er mjög uppskerumikil grastegund og er uppistaðan í túnræktun til sveita og er sennilega aðalnytjaplantan á Íslandi. Þótt sjá megi vallarfoxgras víða er það ekki mjög áberandi á óræktuðum svæðum því það þarf næringarríkan jarðveg. Axið er vel fast við stöngulinn og því ekki hægt að renna því af eins og á háliðagrasi.
Snarrótarpuntur er mjög öflug grastegund sem vex víða villt og getur myndað háar og þéttar breiður og er punturinn stór og fyrirferðamikill. Þetta er ágætis landgræðsluplanta enda mjög harðger en er ekki góð túnplanta því hún myndar smáþúfur sem þykir ekki fínt í góðum grasflötum. Blöð snarrótarpuntsins þekkjast á því að þau eru hrjúf viðkomu að neðanverðu.
Sveifgras finnst um allt land bæði sem villt planta og sem túngras, enda er hún harðger og myndar þéttan og góðan grassvörð. Sveifgras finnst því bæði í túninu heima sem og hátt uppi í fjöllum ef næring er til staðar. Blöðin eru frekar mjó og þekkjast á því að endinn á þeim er með nokkurskonar bátslagi. Ýmsar tegundir eru til af sveifgrösum og af þeim er vallarsveifgras frægast og algengast hér á landi.
Ýmsar fíngerðar grastegundir má svo víða finna eins þetta língresi, en þegar kemur að þessum smærri grösum fer að vandast málið með flokkunina enda tegundir margar. Hálíngresi er til dæmis algengt í grasflötum ásamt túnvingli sem er einmitt á síðustu myndinni hér. Túnvingull er mjög algeng tegund allstaðar á landinu á láglendi sem og hálendi þótt ekki fari mikið fyrir henni enda er þetta er frekar mjóslegin planta með afar grönnum blöðum.
Það má nefna í lokin að þegar þetta er skrifað, er ég enn að jafna eftir frjókornaárásina sem ég varð fyrir í myndaöfluninni, sérstaklega þegar ég var innanum snarrótarpuntinn. Læt ég þetta því nægja af grösum.
Flestar myndirnar voru teknar í Reykjavík þriðjudaginn 21. júlí. Myndin af háliðagrasinu var tekin í júní, en myndin af túnvinglinum er fengin að láni á netinu. Mér til halds og traust leitaði ég svo nokkurra upplýsinga á vefnum: http://www.floraislands.is/
17.7.2009 | 23:29
Meðalhiti jarðar í hæstu hæðum
Um þetta leiti ársins þegar sumarsólin vermir stóru meginlöndin á norðurhveli er hiti jarðar að öllu jöfnu í hámarki. En núna bregður svo við að hitahámarkið er það öflugt að það hefur varla farið hærra í a.m.k. 10 ár. Þetta má sjá hér á myndinni sem sýnir hvernig hiti jarðar hefur þróast frá miðju ári 1998, en hver litur táknar hita hvers árs fyrir sig. Hvíti raminn sýnir hvar við erum í dag. Gögnin eru fengin með því að skanna hnöttinn með gervihnattamælingum í 4,4 km hæð en það er sú hæð sem gervihnattmælingar á hitastigi jarðar miða oftast við.
Hægt er að framkalla svona myndir á vefnum: http://discover.itsc.uah.edu/amsutemps/
Ég geri mér alveg grein fyrir því að svokölluð hlýnun jarðar eldfimt málefni sem ekki allir eru sammála um. Það sést vel á myndinni að miklar sveiflur eru á hitanum og því gæti þessi hitatoppur allt eins verið tímabundið upphlaup, en fram að þessu hefur núverandi ár ekkert verið sérlega hlýtt miðað við síðustu 10 ár. Óneitanlega er þetta þó talsvert mikil hækkun.
Hvað með hitamælingar á jörðu niðri?
Það er ekki ennþá hægt að fá svona fínar og flottar rauntímamælingar á hita jarðar eftir hefðbundnum athugunum á jörðu niðri og því eru þær gefnar út mánaðarlega þegar búið er að safna öllu saman, t.d. á vegum NASA sem gefur út GISS hitamælingarnar. Það getur oft verið talsverður munur á hitamælingum á jörðu niðri og gervihnattamælingum. Þessi munur var sérlega áberandi núna í júní því á sama tíma og gervihnattamælingar sýndu tiltölulega kaldan júní á jörðinni sýndu mælingar á jörðu niðri að júní hafi verið í öðru sæti yfir hlýjustu júnímánuði frá upphafi. Aðeins júní 1998 var hlýrri.
Eru El Niño áhrifin að koma fram?
Eins og komið hefur fram hefur hinn hlýi El Niño Kyrrahafsstraumur verið að sækja í sig veðrið undanfarið og vitað er hann hefur áhrif til hlýnunar á jörðinni í heild. Svona snögg hitastigshækkun hefur allavega ekkert með gróðurhúsaáhrif að gera því þau koma fram á miklu lengri tímaskala. Hinn hái hiti sem mældist á jörðinni í júní gæti líka bent til þess jörðin hafi verið að hitna við yfirborð í síðasta mánuði en sú hlýnun hafi hins vegar ekki skilað sér uppí þá hæð sem gervihnattamælingar eru gerðar í, fyrr en nú. Hitinn hefur einnig verið talsverður við suðurskautslandið en það er helst við pólana sem gervihnattamælingar eru ónákvæmar.
Þessa speki hef ég reyndar úr umræðum um nýjustu hitamælingar á jörðu, á vefnum WhattsUpWithThat sbr. hér:
Flanagan (23:35:32) :
I think there could be some reason for this:
- Satellites dont cover the poles very much, and the anomaly over the southern pole has been fairly large
http://www.climat-evolution.com/article-33431441.html
- another possibility to explain this could refer to the mixing time of the lower troposphere. GISS is actually measuring surface temperatures, with stations on the ground. RSS and UAH measure lower troposphere temperatures (indirectly) at 4.4 km high (at least for UAH). It would not be surprising then to have some delay between the two if the surface heats (the air must go up). And were actually observing rightnow with UAH a strong increase in the anomaly
http://discover.itsc.uah.edu/amsutemps/execute.csh?amsutemps+002
So I dont think we should see any obvious error or conspiracy behind this result
Just the consequence of having a pacific with a slightly positive Nino index.
Sjá: http://wattsupwiththat.com/2009/07/14/giss-for-june-way-out-there/
- - - - - -
Hitaspá fyrir næstu þrjá mánuði á jörðinni.
Svo kemur hér að lokum hitaspá fyrir jörðina frá bresku veðurstofunni sem gildir út september. Ekki er annað að sjá en að talsverð hlýindi séu framundan ef eitthvað er að marka þetta og meiri hlýindi en sést hafa lengi. Mest eru hlýindin allra syðst og við miðbaug. Við hér á Íslandi getum síðan mjög vel við unað og sleppum við þá kuldabletti sem eru þó nokkrir á norðurhveli.
14.7.2009 | 20:40
Valhöll að fornu og nýju
Valhöll á Þingvöllum er fallin í valinn, varð grillinu að bráð. Eins og brunavarnarmenn voru búnir að vara við varð bruninn skjótur og breiddist út eins og eldur í sinu. Það höfðu ýmsir haft horn í síðu Valhallar og töldu hana lítt merkilegt samansafn af misgömlum byggingum sem varla hæfðu þessum heilaga stað. Hugmyndir voru því uppi um að rífa þetta hreysi og byggja þess í stað virðulega nútímabyggingu sem þing lýðveldisins hefði til afnota á tyllidögum. Hótelrekstur og kaffisala fyrir almenning þótti að sama skapi ekki viðeigandi á þessum helgistað sem er á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Óbreyttir gestir voru samkvæmt þessu betur komnir á útjaðri svæðisins vildu þeir þiggja veitingar, þótt almenningur geti auðvitað alltaf étið sitt nesti á brúnum Almannagjár.
Valhöll var, hvað sem hver segir, fallegt og reisulegt hús, byggt í hinum þjóðlega burstabæjarstíl en sá stíll var tilraun á sínum tíma til að koma á fót íslenskum húsagerðarstíl með hinn íslenska torfbæ sem fyrirmynd. Það var ekki nóg með að fegurð umhverfisins gerði húsið fallegra heldur gerði fegurð hússins Þingvelli líka fallegri en þannig er einmitt háttað með hús sem standa í góðri sátt við umhverfi sitt. Kannski verður ekkert byggt þarna aftur í nánustu framtíð. Ef hinsvegar verður byggt þarna er auðvitað ekki sama hvernig það hús mun líta út. Nærtækast er að endurbyggja Valhöll í sinni gömlu þjóðlegu mynd allavega hvað framhliðina varðar en þó þannig að öllum nútímabyggingastöðlum sé framfylgt.
Nýtímabyggingar geta auðvitað líka verið fallegar en það er samt allur gangur á því. Ný Valhöll getur haft skírskotar til hinnar upprunalegu Valhallar sem samkvæmt Ásatrúnni var bústaður Óðins. Þar bjuggu einnig þeir sem fallið höfðu í valinn og gátu haldið þar áfram sinni uppáhaldsiðju sem var að berjast á daginn og drekka á kvöldin. Seinni tíma Valhallarmenn voru hins vegar þekktir fyrir að græða á daginn og grilla á kvöldin. Sá gróði fór hins vegar aðeins úr böndunum rétt eins og eldurinn í Valhallargrillinu á Þingvöllum.
10.7.2009 | 23:19
Grænblár Faxaflói
Ég hef tekið eftir því undanfarna daga að sjórinn hér úti fyrir borginni hefur verið óvenjulega grænleitur eða grænblár að lit. Sérstaklega finnst mér þetta hafa verið áberandi eftir að hlýna tók hér almennilega í veðri en það hefur vakið grunsemdir mínar um að hér sé um einhverskonar þörungablóma að ræða, þótt ég sé ekkert sérstaklega vel að mér um svoleiðis. Það var svona núna á fimmtudaginn 9. júlí sem ég tók þessa mynd sem hér fylgir en á henni kemur þessi litatónn ágætlega fram, (ef myndin prentast vel).
Grunsemdir mínar um þörungablóma hafa styrkst eftir að tveir miklir veðurbloggarar tóku að birta gervitunglamyndir af landinu. Fyrst var það Einar Sveinbjörnsson sem birti tunglmynd tekna 8. júlí yfir landinu þar sem hann minnist meðal annars á kalkþörunga sem lita sjóinn á Faxaflóa og Breiðafirði. Á þeirri mynd var reyndar skýjahula yfir sunnanverðum Faxaflóa.
Svo var það Sigurður Þór Guðjónsson sem birti tunglmynd tekna í góðri heiðríkju í dag föstudaginn 10. júlí, en úr þeirri mynd er þessi bútur sem hér birtist og eins og sjá má er hér allt í grænum sjó.
Svona þörungablómi mun víst vera nokkuð algengur fyrri part sumars í hlýsjónum sunnan og vestanlands, sérstaklega þegar hlýtt og bjart hefur verið í veðri. Nú er ég ekki viss, en kannski er hér á ferðinni kalksvifþörungurinn sem heitir því virðulega nafni Emiliania Huxleyi sem má t.d. lesa um í bók áðurnefnds Einars og Ingibjargar Jónsdóttur, ÍSLAND UTAN ÚR GEIMNUM. Þar kemur fram að þörungar af þeirri tegund binda gríðarlegt magn af kalki um leið og mikill koltvísýringur losnar úr læðingi en það er einmitt gróðurhúsalofttegundin sem mest er í umræðunni. Fyrir utan þau áhrif er þörungurinn talinn skaðlaus með öllu.
En hvað svo sem þetta annars er, þá hefur allavega ekki verið viðeigandi að tala um Sundin blá undanfarna daga. Sundin grænblá er kannski meira við hæfi.
8.7.2009 | 10:22
Að smækka heiminn með fókusbrellu
Þótt ljósmyndir segja oftast sannleikann geta þær stundum afvegaleitt áhorfandann og jafnvel ruglað hann í rýminu ekki síst ef smá brellum er beitt. Eitt skondið dæmi um slíkt má finna í blaðaauglýsingum fyrir Land-Rover jeppa sem nýlega unnu til verðlauna í Cannes auglýsingahátíðinni. Á auglýsingunni sem hér fylgir er ekki annað að sjá í fyrstu að þarna sé lítill leikfangabíll og vinnuvélar ásamt litlum körlum í einhverju míníatúr umhverfi, svona einskonar og Putar í Putalandi. En það sem er hér á ferðinni er ósköp venjulegt umhverfi í réttri stærð, myndin hefur hins vegar verið tekin þannig, eða breitt eftirá, að skarpur fókus er einungis á miðfleti myndarinnar en það sem er efst og neðst er hinsvegar úr fókus.
Með þessu er verið að blekkja augað með því að fikta í dýptarskerpunni. Við erum vön því að myndir sem teknar eru af litlum hlutum, í nokkurra sentímetra fjarlægð frá linsunni, eru bara í fókus á mjög þröngu fjarlægðarsviði. Víðáttumeiri myndir þar sem fjarlægðin er í tugum metra og upp í óendalegt eru hinsvegar í fókus á mestöllu eða öllu fjarlægðarsviðinu. Þetta gildir reyndar líka um okkar eigin sjón.
En af því að þetta eru jeppaauglýsingar og Land Rover hefur verið tilvalinn góðærisbíll svo ekki sé talað um Range Rover, má kannski velta því fyrir sér hvort þetta sé meira svona 2009 týpan því nú þegar heldur hefur harðnað á dalnum getum við aðallega látið bíladrauma okkar rætast í formi lítilla leikfangabíla.
- - - - -
Hér kemur svo smá tilraun bloggarans með þennan tilt-shift miniature faking eins og hann kallast á ensku. Myndin er af orlofshúsi í Svíþjóð sumarið 2007. (Mæli með því að smella nokkrum sinnum á myndina)
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.7.2009 | 18:49
Hitamál
Nú þegar árið er hálfnað og veðuruppgjör júnímánaðar liggur fyrir er kominn tími á smá pælingar í sambandi við meðalhita og hvert árshitinn stefnir hér í Reykjavík.
Meðalhiti nýliðins júnímánaðar í Reykjavík var 10,1 stig sem er 1,1 stigi fyrir ofan meðallag eins og kemur fram í yfirliti veðurstofunnar. Meðalhitinn það sem af er þessu ári hefur einnig verið vel fyrir ofan meðallag og með sama áframhaldi ætti meðalhiti ársins að vera um 5,4°C eða rúmri gráðu yfir meðalhitanum hér í Reykjavík, sem er reyndar ekki nema 4,3°C og er þá miðað við árin 1961-1990 eins og venjulega. Þetta er hinsvegar í góðu samræmi við hitann síðustu 10 ár sem hafa verið mjög hlý.
Svo vill reyndar til að núverandi viðmiðunartímabil skarast nokkurn veginn við kalda tímabilið 1965-1995 sem þýðir að meðalhitatölur hér á landi eru nokkuð lágar, sama gildir reyndar líka víðar um heiminn. 30 ára viðmiðunartímabilið þar á undan var hinsvegar frekar hlýtt en langar áratugasveiflur virðast einmitt einkenna hitafar hér á jörð. Þetta þýðir það að viðmiðanir við meðalhita segja í rauninni lítið nema viðmiðunartímabilið sé tekið fram. Það flækir þó kannski rannsóknarvinnu og bókhald að vera sífellt að uppfæra meðalhitatölur á hverju ári og því láta menn sér því sjálfsagt nægja 30 ára meðaltöl sem eru uppfærð á 30 ára fresti.
Það má hugsa sér aðrar leiðir til að finna út meðalhita þó ég sé ekkert endilega að leggja til að þessu 30 ára kerfi verði breytt. En með þessum samanburði sem ég sýni hér að neðan er greinilegt meðalhiti í Reykjavík er mjög mismunandi eftir því hvaða tímabil er haft til viðmiðunnar.
4,3°C 1961-1990 núgildandi viðmiðunartímabil
4,9°C 1931-1960 eldra viðmiðunartímabil
4,6°C 1931-1990 tvö síðustu viðmiðunartímabil
4,9°C 1991-2008 það sem af er næsta viðmiðunartímabili
5,3°C 1999-2008 síðustu 10 ár
5,4°C 2001-2008 það sem af er þessari öld
4,7°C 1931-2008 öll þessi ár
Síðasta talan þarna 4,7°C er endurspeglar kannski raunhæfasta meðalhitann í dag enda inniheldur hún flest viðmiðunarár, ekki síst hin allra síðustu og svo tiltölulega kalt og hlýtt tímabil síðustu aldar. Meðalhitinn það sem af er þessari öld er greinilega mjög hár og spurning hversu langt aftur þarf að fara til að finna annað eins tímabil. Á hlýja tímabilinu á síðustu öld komst meðalhitinn þó í 5,2 stig á átta ára tímabilinu1939-1946.
Og til heiðurs júnímánuði má gera það sama til að bera saman meðalhita hans í Reykjavík:
9,0°C 1961-1990 núgildandi viðmiðunartímabil
9,6°C 1931-1960 eldra viðmiðunartímabil
9,3°C 1931-1990 tvö síðustu viðmiðunartímabil
9,6°C 1991-2009 það sem af er næsta viðmiðunartímabili
10,2°C 2000-2009 síðustu 10 ár
9,4°C 1931-2009 öll þessi ár
Ath. Þessar tölur er settar fram með fyrirvara um rétta útreikninga sem ég gerði út frá gögnum veðurstofunnar.
Svo er bara að þakka þeim sem nenntu að lesa.
![]() |
Hærri hiti og minni úrkoma í júní |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.6.2009 | 17:22
Sundskýlan í Feneyjum
Það hafa verið nokkrar umræður um framlag Íslands til Feneyjartvíæringsins í ár ekki síst eftir að listamaðurinn Þórður Grímsson steig fram og líkti þessu sjónarspili við nýju fötin keisarans, nú síðast í laugardagsblaði Moggans. Einnig kemur fram gagnrýni á kostnaðinn við þetta sýningarhald. Það þykir allavega mörgum frekar kyndugt að halda uppi listamanni í sex mánuði suður í Feneyjum þar sem hann málar reykjandi og drekkandi félaga sinn á speedo-sundskýlu og að vegsama þetta allt að auki sem einhverja ógurlega snilld.
Ég hef reyndar haft mínar efasemdir um ágæti Ragnars Kjartanssonar sem myndlistarmanns en miðað framlag hans til æðri lista er auðvelt að fá á tilfinninguna að hann sé annaðhvort ofmetinn kjáni eða gegnheill snillingur. Eftir að hafa velt þessu aðeins fyrir mér er ég hinsvegar búinn að átta mig á því að hann er nær því að vera en sannur snillingur heldur en hitt.
Í Lesbókargein fyrir nokkrum vikum var t.d. haft eftir Ragnari að við Íslendingar værum bestir þegar við erum amatörar og við hefðum oft náð langt á þeim forsendum, þetta kæmi sér hinsvegar illa þegar um bankastarfsemi er að ræða. En það er eitthvað við þennan hæfileikasnauða amatörisma sem höfðar til mín. Ef Ragnar væri snilldarmálari þá gengi verkið ekki upp þarna í Feneyjum. Nýju fötin keisarans er kannski rétt skilgreining en ekki í neikvæðum skilningi því verkið er einmitt nýju fötin keisarans og á að vera það. Ég lít því á þennan gjörning í heild sinni sem upphafningu á hinu harmræna hæfileikaleysi þar sem ekkert nema ósigur í rómantískur anda mun blasa við í lokin. Staður og stund skipta þarna líka máli enda eiga Feneyjar sér mikla menningarsögu, þeir lögðu sin skerf til endurreisnarinnar með Feneyjarmálurunum og þarna er listamaðurinn staddur í 600 ára gömlum salarkynnum innan um alla myndlistarhefðina og málar eina mynd á dag með How to Paint bókina við höndina.
Með sundskýlugjörningnum í Feneyjum vaknar líka sú sígilda spurning hvað sé list og hvar eru mörkin á milli listar og hreinnar vitleysu. Mér finnst þetta óþarfa vangaveltur því það sem gert er í listrænum tilgangi hlýtur alltaf að vera list, sama hversu vitleysan virðist mikil. Það er heldur ekkert sem bannar hæfilega gamansemi í myndlist. List má vera alvarleg með háfleygum boðskap, en það er þó ekkert sem segir að svo eigi alltaf að vera. Fólk má auðvitað hafa sína persónulegu skoðun á því hversu merkilegt því finnist viðkomandi listaverk vera en bæði hin sterku neikvæðu og jákvæðu viðbrögð við sundskýlugjörningnum í Feneyjum ýtir undir þá skoðun mína að hér hafi vel tekist til.
- - -
In THE END langar mig að bæta við hádramatískum endi kvikmyndarinnar Dauðinn í Feneyjum, sem gerð var eftir skáldsögu Thomas Mann, tónlistin er úr 5. sinfóníu Gustaf Mahler.
Myndirnar með pistlinum eru úr grein Ragnar í New York Times:
http://www.nytimes.com/2009/06/04/arts/design/04icel.html
Menning og listir | Breytt 1.7.2009 kl. 09:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.6.2009 | 20:49
Smart spæjari
Það er talað um það í dag að nú þurfi að rannsaka eitt og annað, elta uppi harðsnúna fjárglæframenn og ekki síst að finna falda fjársóði en til þess þarf menn sem eru snarir í snúningum og þekkja hina leyndustu afkima kerfisins. Einn er sá maður sem gefur okkar sérstaka saksóknar lítið eftir í snaggaralegheitum en það er hinn úrræðagóði Maxvell Smart Agent 99 frá hinni háleynilegu spæjaraþjónustu Bandaríkjanna. Við sem eru nógu gömul til að muna eftir Vestmannaeyjagosinu þekkjum þennan mann undir gælunafninu Smart spæjari, þar sem hann birtist okkur í samnefndum sjónvarpsþáttum á árunum uppúr 1970.
Þættirnir voru annars framleiddir á árunum 1965-1969 undir nafninu GET SMART og voru úr smiðju þeirra Mel Brooks og Buck Henry en það var Don Adams sem fór með hlutverk spæjarans. Þættirnir voru endurvaktir tímabundið árið 1995 og sýndir hér, en árið 2008 kom út bíómynd með kappanum þar sem Steve Carrell með aðalhlutverkið.
Það sem er eftirminnilegast við þættina um Smart spæjara er annarsvegar hinn hátæknilegi skósími og svo byrjunaratriðið sem er mjög smart. Þetta byrjunaratriði má sjá hér í boði ÞúTúpu en Smart spæjari er eins og einhvern er kannski farinn að gruna, sjónvarpsnostalgía mánaðarins á þessari síðu og fer eins og aðrar slíkar í flokkinn sjónvarp á þessari háalvarlegu bloggsíðu.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.6.2009 | 23:12
Vestast í Vesturbænum
Á sólríkum eftirmiðdegi miðvikudaginn 24. júní fór ég í smá vettvangsskoðun á leið heim úr vinnu til að skoða borgarumhverfið við sjávarsíðuna vestast í Vesturbænum. Þarna kennir ýmissa grasa þar sem gamli tíminn mætir þeim nýja. Stundum er þó ekki alveg ljóst hvert leiðinn liggur í uppbyggingu svæðisins eða hvort um sé að ræða uppbyggingu yfirleitt. Hér koma nokkrar myndir.
Hlésgata er splunkuný gata sem liggur niður að uppfyllingum þar sem áður var Daníelslippur. Ekki er þó traffíkinni fyrir að fara á þessu einskinsmannslandi.
Við Mýragötuna hefur þessi gamli steinbær staðið tímans tönn með miklum sóma. Ef öll uppbyggingaráform svæðisins ganga eftir er hætt við að húsið verði ofurliði borið af nútímalegum stórhýsum. Þau áform virðast þó hafa siglt í strand í bili. Húsið sem í byggingu þarna á bakvið er reist á grunni gömlu Hraðfrystistöðvarinnar og þar var bloggarinninn við störf í þrjú sumur á menntaskólaárunum.
Héðinshúsið gamla og umhverfi þess í vestur er afar frjálslegt. Þetta er líka eitt myndskreyttasta hús landsins en svo virðist sem fegrunarnefnd borgarinnar hafi hafið gagnsókn því búið er að mála hluta hússins í grænum litatón. Græna byltingin er kannski hafin og kannski munu þeir mála malbikið grænt í framhaldinu.
Meira af Grænu byltingunni.
Talandi um skrautleg hús þá er þetta ef til vill toppurinn í húsagerðarlist borgarinnar en þetta tvíbýlishús er vel falið í stóru húsaporti við Holtsgötu. Að grunni til er þetta steinbærinn Stóra-Sel sem var byggður árið 1884. Lögbýlið Sel á sér þarna langa sögu eða allt aftur til 14. aldar en við bæinn er kennd Selsvör þaðan sem menn réru til fiskjar í gamla daga.
Hvaðan skyldu þessu fákar hafa komið? Er þetta ef til það eina sem eftir er af gamla Tívolíinu í Vatnsmýrinni? Spyr sá sem ekki veit.
Við ströndina hjá Eiðsgranda er umhverfið allt hið snyrtilegasta. Merkilegt líka að einhver best heppnaði arkitektúr borgarinnar skuli þjóna virðulegu hlutverki skólpdælustöðva.
Að lokum kemur hér steyptur göngustígur við nýleg fjölbýlishús yst við Eiðsgranda. Stígurinn liggur eiginlega ekki neitt nema að skilti þar sem stendur: ALLUR AKSTUR VÉLKNÚINNA ÖKUTÆKJA BANNAÐUR Á LÓÐINNI. Öllu vestar en þetta nær Vesturbærinn ekki.
Byggingar | Breytt 25.6.2009 kl. 10:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)