Þríhnúkagígur heimsóttur

Þríhnúkagígur6

Fyrir nokkrum dögum lagði ég land undir fót til að skoða sérstakt náttúruundur í nágrenni Reykjavíkur sem nefnist Þríhnúkagígur. Það kannast sjálfsagt ýmsir við þennan gíg sem er skammt frá Bláfjöllum en hann er merkilegastur fyrir hvelfinguna miklu sem undir honum er. Hnúkurinn sjálfur er ekki stór en honum má helst líkja við stút á flösku, en sá sem væri svo óheppinn falla niður um stútinn ætti fyrir höndum 120 metra frjálst fall áður en botninum væri náð. Þríhnúkagígur sést á myndinni hér að ofan á bakvið ávölu bunguna en í lengra í burtu sést til Bláfjalla.

Þríhnúkagígur2 Þegar komið er upp að gígbrúninni sem er í um 550 metra hæð yfir sjó, má sjá útskorið skilti í tré þar sem sýnt er þversnið af hvelfingunni undir gígnum. Þótt 120 metrar séu niður á gígbotninn er hægt að fara niður 80 metra til viðbótar eftir sífellt þrengri leið. Ég lét mér þó nægja að virða fyrir mér ginnungagapið ofanfrá.

Á skiltinu hefur eftirfarandi texti verið ritaður:

Gígurinn myndaðist í litlu gosi stuttu eftir landnám. Gosrásin tæmdist að gosi loknu.

120 metrar eru niður á botn gígketilsins sem um tíma var talinn botnlaus.

Fyrst var sigið í gíginn 1974.

- - - -  

Fyrir nokkrum árum komu fram hugmyndir um að gera Þríhnúkagíg að ferðamannastað með því að gera þarna göng og koma fyrir útsýnispalli inni í hvelfingunni sem yrði upplýst þannig allir gætu virt fyrir sér dýrðina. Ég veit ekki hvernig það mál er statt í dag og ekki veit ég heldur hvernig mér lýst á svoleiðis showbisness.

Þríhnúkagígur3 Hér á næstu mynd er horft niður gíginn sem er ekkert nema kolsvart gapandi tóm. Ég freistaðist til að henda steini ofaní gatið og það leið þónokkur stund áður en ég gat greint óljósan skell djúpt í iðrum jarðar - slík og hvílík er dýptin á þessu fyrirbæri. Auðvitað á þó ekkert að vera að henda grjóti þarna niður í mikli magni því það endar bara með því að gígurinn fyllist af grjóti á meðan hnúkurinn minnkar að sama skapi. Það er þó ekkert sem gerist alveg í bráð enda eru ekki margir á ferðinni á þessum slóðum. Allavega ekki þegar ég var þarna því ég átti heiminn þarna þennan góðviðrisdag.

- - - - -

Gosminjar eins og þessar leiða gjarnan hugann að því hvenær náttúran lætur næst til sína taka á þessum slóðum. Ég hef þó ekki heyrt að nokkuð slíkt sé í undirbúningi þrátt fyrir jarðskjálftavirkni á skaganum að undanförnu. Þótt flest gosin sem þarna verða séu frekar lítil yrðu þau auðvitað miklir atburðir sem geta valdið ýmsum óþægindum enda geta hraun náð í sjó fram víða á skaganum. En þetta er bara eitt að því sem gerir það spennandi að búa á landinu og ekki er verra ef þau skilja eftir sig svona undursamleg ummerki eins og Þríhnúkahellir er.

Þríhnúkagígur7

Þríhnúkagígur sést vel frá Höfuðborginni. Þessi mynd var tekin 20. júní. Aðrar myndir eru frá 6. júní. 


17. júní-veðrið síðustu 20 ár

17. júní 1990-2009

Nú þarf enginn að velkjast í vafa um það lengur hvernig þjóðhátíðarveðrið hefur verið í Reykjavík undanfarin ár því ég hef sett hér upp einfalt og umfram allt mjög snyrtilegt yfirlit sem sýnir veðrið á 17. júní í Reykjavík frá árinu 1990.

Þetta er allt byggt á eigin skráningum en ég hef skráð niður veðrið í Reykjavík á svipaðan hátt í fjölda ára og gefið hverjum degi einkunn á skalanum 0-8. Lituðu tölurnar fyrir aftan hitastigið tákna kalda, miðlungs og heita daga. Pílurnar sína vindáttir og vindstyrk, þar sem hlykkjótt píla er hægviðri og tvöföld píla strekkingsvindur.

Veðursælasti 17. júní á þessu tímabili var samkvæmt þessu árið 2005, en þá var sólskin, norðanátt og 16 stiga hiti. Árið 2001 var veðrið einnig mjög gott en þó ekki alveg eins hlýtt og var árið 2005. Lakasta veðrið var árið 2003 með suðaustanátt, rigningu og tvo í einkunn. Kaldast var hinsvegar 8 stiga hiti árið 2001 en framan af þeim júnímánuði voru margir slíkir kuldadagar.

Hvernig 17. júní-veðrið verður að þessu sinni á eftir að koma í ljós en ég mun uppfæra myndina í lok dags. Samkvæmt veðurspá eru þó líkur á breytilegu veðri, sem er auðvitað mjög íslenskt og gott veður.

- - - - -

Viðbót kl. 20.30 

Nú hef ég fært inn 17. júní-veðrið fyrir árið 2009. Niðurstaðan var nokkuð breytilegt veður eins og búast mátti við. Sem betur fer var þó lítil sem engin úrkoma og sólin skein glatt rétt á meðan aðal hátíðarhöldin voru í miðbænum. Hægviðrið um morgunin hélst ekki út daginn því norðvestan gola kældi mannskapinn síðdegis ásamt þyngra skýjafari. Hitinn var 11-13 stig og skráist hér sem 12 stig að meðaltali. Einkunn dagsins er 5 stig.

Eins og sjá má er þetta alveg samskonar veðurskráning og árið 2007. Þann dag hefur þó væntanlega verið betra veður á landinu í heild því þá var ekki lægð upp við landið eins og nú. Norðvestanáttin 17. júní 2007 hefur því sennilega bara verið góðviðrishafgola hér í Reykjavík.


Nú er mælirinn sneisafullur

Ég hef í gegnum minn bloggferil haldið mig á mottunni og látið sem ekkert sé þótt allt sé hér á hverfanda hveli. En ekki lengur því nú er þolinmæðin mín á þrotum og það ekki af einni ástæðu heldur fleirum. Svo maður nefni það fyrsta þá er það auðvitað algerlega ólíðandi þegar maður er að aka inn í hringtorg að ökumenn annarra bifreiða skuli ekki gefa stefnuljós þegar þeir aka út úr hringtorginu. Með þessu háttalagi skapast mikið óvissuástand hjá þeim sem aka inn í hringtorg því auðvitað gerir maður ráð fyrir því að þeir sem ekki gefa stefnuljós ætli að halda áfram inn í hringtorginu en ekki að beygja.
Margir gangandi vegfarendur hafa líka komið sér upp þeim ósið að þegar þeir koma að gangbrautaljósum, ýta þeir umsvifalaust á gangbrautartakkann án þess að athuga hvort nokkur bifreið sé að nálgast. Ef svo er ekki þá arka þeir strax út á götuna löngu áður en græni karlinn birtist á gangbrautaljósunum. Þegar gangandi vegfarandinn er svo kominn yfir götuna þá stöðvast umferðin algerlega af óþörfu. Maður hlýtur því að spyrja: hví var ýtt á takkann ef þess var ekki þörf? Annars hef ég ekkert á móti gangandi vegfarendum og fleiri mættu mín vegna bætast í þann hóp.

En það er fleira. Eins og flestir þá greiði ég oftast fyrir vörur með rafrænum hætti þótt virðulegra þykir mér að greiða með peningum. Þegar greitt er með korti er það nánast orðin regla að maður fái þessa óþolandi spurningu: „Viltu afrit?“ Í rauninni á þetta ekki að vera nein spurning - maður á bara að fá afrit. Svo þegar maður gerir afgreiðslufólkinu þann óleik að vilja afrit þá fær maður tvö! Eitt afrit og svo kvittun. Ég vil bara fá eitt og þarf því að henda öðrum miðanum. Þetta náttúrulega gengur ekki.

Svo er ég líka alveg að gefast upp á sumu útvarpsfólki sem stendur í þeirri trú að útvarpsþátturinn verði skemmtilegri ef það flissar og rekur upp hlátrasköll í tíma og ótíma. Hressileiki finnst mér allavega vera stórlega ofmetinn í útvarpi enda er það margsannað mál að ekki er fer saman að vera hress og skemmtilegur. Útvarpsfólk mætti líka bera meiri virðingu fyrir þeirri tónlist sem það leikur með því að tala ekki ofaní lög og umfram allt á að leika lög til enda og afkynna þau með formlegum hætti. Annað er algerlega óásættanlegt.

Fleiri atriði mætti sjálfsagt nefna sem angra huga minn þessa dagana þó ég muni ekki eftir fleirum í augnablikinu. Ef eitthvað rifjast upp ætla ég samt að láta það liggja á milli hluta en mun snúa mér að veðri í næstu bloggfærslu.


Útlensk fiðrildi suðvestalands

Þistilfiðrildi

Ég hef verið að frétta af óvenjulegum fiðrildum á sveimi hér Suðvestanlands. Þetta munu vera allstór fiðrildi með skrautlega vængi, en aðallega gyllt eða appelsínugul á litinn samkvæmt lýsingu sjónarvotta. Fiðrildið sem er hér á myndinni fannst á leikvelli á Álftanesi fimmtudaginn 4. júní, en það var ein sem ég er að vinna með sem tók myndina og gaf hún mér leyfi til að birta myndina. Í framhaldi af þessu frétti ég að sést hafi töluvert af svona fiðrildum í Keflavík sama dag og að lokum að nokkur svona væru mætt á sjálfan KR-völlinn í dag, þann 5. júní, hér í Vesturbænum. 

Ég er ekkert sérstaklega fiðrildafróður en ég kannaði málið og endaði á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands þar sem segir af óvenjustórum flokki Þistilfiðrilda sem hafa verið að berast í norður frá Suður-Evrópu, en til þeirra sást meðal annars í Færeyjum í lok maí. Þessi fiðrildi hafa oft flækst hingað til lands og jafnvel náð að eignast afkvæmi, en því miður ná þau ekki fótfestu hér vegna kulda á veturna. (Meira er hægt að lesa hér)

Á veðurkorti sem ég náði mér í og gildir á miðnætti 5. júní má sjá að hæðarsvæðið sem við erum í, hefur borið með sér geira af hlýju lofti sem hefur komið upp að landinu Vestanlands. Það er því eðlilegt að draga þá ályktun að þessi loftmassi hafa borið þessi fiðrildi með sér. Veðurlýsingin gæti því verið á þá leið að hann gangi á með fiðrildum.

- - - - - - 

fidrildakort 5.júní

 


Norðurpólsísinn

Nú er komið að því mest spennandi af öllu spennandi en það er að sjálfsögðu ástand hafíssbreiðunnar á norðurhveli. Um þessar mundir má gera ráð fyrir því að sumarbráðnunin hefjist fyrir alvöru á Norður-Íshafinu og mun hún halda áfram þangað til hinu árlega hafíslágmarki verði náð einhvertíma í september. Á myndinni sem hér fylgir má sjá heimskautaísinn eins og hann birtist á síðunni Cryosphere today og sýnir stöðuna þann 2. júní. Myndin er í sem eðlilegustum litum en á áðurnefndri síðu er einnig hægt að kalla fram litríkari kort sem sýna betur mismunandi þéttleika íssins.

Rauðu og bláu línurnar eru viðbót frá mér en þær sýna lágmarksútbreiðslu íssins síðustu tvö ár en þau ár skera sig nokkuð úr fyrri árum hvað lágmarksútbreiðslu varðar og þá sérstaklega árið 2007. Undir myndinni ætla ég aðeins að rýna í stöðuna út frá þessu. 

CT2jun09+min07-08

Heildarútbreiðsla hafíssins er svipuð nú og verið hefur um þetta leiti síðustu ár samkvæmt þeim línuritum sem sýna svoleiðis. (sjá graf neðst). Það hefur því verið talsverð bráðnun í gangi undanfarið því bara fyrir mánuði var útbreiðslan heldur meiri en síðustu ár. Hafísútbreiðslan að vetrinum segir samt ekki alla söguna um ástand heimskautaíssins því þá eru inni í myndinni svæði sem tilheyra ekki Norður-Íshafinu sjálfu eins og t.d. við Nýfundnaland og nyrst í Kyrrahafi. Norður-Íshafið sjálft er alltaf með 100% útbreiðslu yfir veturinn og því er það ekki fyrr en nú sem við getum farið að spá í hvernig hinn eini og sanni heimskautaís mun spjara sig þetta árið.

Þótt útbreiðslan sé svipuð í flatarmáli núna og síðustu ár er útbreiðslumynstrið ekki endilega það sama. Mér sýnist t.d. ísinn við austur-Grænland vera mjög gisinn sem bendir til þess að lítið sé að streyma þangað þangað suður frá meginísnum. Hafísmagnið á þessum slóðum skiptir okkur máli hér á Íslandi því Austur-Grænlandsstraumurinn flytur ísinn til suðurs eftir ströndum Grænlands. Óvenjulítið hefur reyndar verið um hafís nálægt Íslandi síðastliðinn vetur. Kannski eru þetta merki um áframhaldandi hlýindi hér hjá okkur.

Við norðausturhorn Grænlands má líka sjá stórt opið svæði sem hefur verið kallað Norðurvökin*. Þessi vök virðist vera óvenju stór að þessu sinni en ástæðan fyrir myndun hennar eru miklir norðaustlægir vindar eftir þrönga sundinu milli Grænlands og Ellismere-eyjar sem hindra þykka ísmyndun þar yfir veturinn.

Ísinn við Svalbarða er einnig frekar gisinn og stutt í íslaust haf hringinn um eyjarnar. Yfirleitt er þó íslaust vestanmegin við Svalbarða allt árið en hinsvegar er mikill ís yfirleitt austan megin. Ég tók eftir því að hafísinn jókst í Barentshafi núna í vor en þá voru miklar norðanáttir ríkjandi á svæðinu. Það gæti átt þátt í að skýra hvers vegna heildarhafísbreiðan var svona mikil í vor. Ísinn sem þá barst í Barentshafið var fljótur að bráðna þegar hlýna tók í veðri með suðlægari vindum en um leið gæti þessi tilfærsla íssins úr norðri hafa veikt meginísinn á stóru svæði norðaustur af Svalbarða.

Þegar bráðnun kemst á fullt skrið í sumar verður það aðallega svæðið efst á myndinni sem mun bráðna og veitir ekki af ef lágmarki síðustu tveggja ára á að verða náð. Það má sjá að íslausa hafið er að byrja að éta sig inn frá Beringssundi milli Alaska og Síberíu en einnig mun bráðnun út frá ströndunum fara vaxandi eftir því sem meginlöndin hlýna.

Síðan eru það spurning með siglingarleiðirnar: Norðvesturleiðina (norðan Kanada) og Norðausturleiðina (norðan Síberíu). Þessar leiðir opnuðust báðar tímabundið síðasta haust sem þykir óvenjulegt en eins og frægt er þá gera menn sér vonir um glæstar siglingar þarna í gegn í framtíðinni.

En svo er bara eftir að spá einhverju um sumarið. Vitað er að ísinn er yfirleitt ungur núna og viðkvæmur fyrir bráðnun því gamli lífseigi ísinn er að mestu horfinn. Ég gæti trúað að það verði óvenju mikið opið haf á Íshafinu hér Atlantshafsmegin, kannski langleiðina á Norðurpól. Annars er ekki gott að segja, það væri athyglisvert ef lágmarksmetið frá 2007 yrði slegið, en ætli heildarútbreiðslan endi ekki á nokkuð svipuðum nótum og undanfarin tvö ár.

Hafíslínurit 02-09

Hér er svo kortið sem sýnir samanburð á útbreiðslu síðustu ára (rauða línaner 2009). Þarna má sjá hvað vetrarútbreiðslan virðist gefa litlarvísbendingar um lágmarksstöðu íssins að hausti, ef borin eru saman t.d.árin 2006 og 2008. Svo er líka rétt að benda á að á línuritinu verður árlegt hökt uppávið í byrjun júní, en það er bara eitthvað endurstillingaratriði í gögnum.

Meira ætla ég ekki þykjast hafa vit á málum í bili en ég mun taka upp þráðinn seinna í sumar.

* Nánar um Norðurvökuna má finna hér: http://blogg.visir.is/halldor/2007/02/01/er-norðurvokin-að-opnast/ 

- - - - -

Eftir ábendingu í athugasemdum hér að neðan bæti ég við ágætri hreyfimynd sem sýnir á fjórum mínútum hvernig hafísinn hefur hagað sér frá 1979 til 2009. Það er varla hægt að sýna betur hvernig hlutirnir gerast þarna uppfrá. 


 


Sænskar kjötbollur

Ég er sjálfsagt þekktur fyrir ýmislegt annað en að vera mikill matargerðarmaður og þar af leiðandi horfi ég ekki mikið á matreiðsluþætti í sjónvarpi. Þó er einn sjónvarpskokkur sem ég hef alltaf haft mikið dálæti á en það er sænskur náungi sem var talsvert vinsæll fyrir mörgum árum. Í sýnishorninu hér á eftir má sjá hann matreiða sænskar kjötbollur af miklu listfengi. Þessar bollur eru alveg fjaður-magnaðar. Ég mæli með því að hafa hljóðið á. Verði ykkur að góðu.

 

 

Og af því að þetta var frekar stutt þá koma hér gómsætir kleinuhringir sem eftirréttur í boði hússins –  algerlega skotheldir á bragðið.

 

Þetta var sjónvarpsnostalgía mánaðarins, en svoleiðis er alltaf á þessari síðu í lok hvers mánaðar. Að þessu sinni var það auðvitað hinn mikli snillingur: sænski kokkurinn í Prúðu-leikurunum.

 

 


Útsynningur

Veðrið eins og það hefur verið í Reykjavík síðustu tvo daga er það sem kallast útsynningur. Þótt þetta sé nokkuð algeng gerð af veðri á okkar slóðum virðist fólk oft lítið vita hvaðan á sig stendur veðrið við þessar aðstæður. Það er sjálfsagt vegna þess hvernig útsynningurinn lýsir sér, stundum er glaðasólskin og heiðblár himinn en fyrr en varir skellur hann á með hryssingslegum skúradembum öllum að óvörum og þannig gengur þetta fyrir sig á víxl hvað eftir annað. Að auki er svo vindurinn annar fylgifiskur útsynningsins en hann kemur úr sömu átt og sólin enda er þetta jú sunnanátt eins og nafnið bendir til. Þess vegna henta sólarglæturnar ekki vel til sólbaða vilji einhver nýta sér þær á milli regnskúranna. Vindáttin verður þó vestlægari þegar líður á.

Veðurfræðilega séð er auðvitað ekkert skrýtið við útsynning enda er allt rökrétt í náttúrunni og nú ætla ég að gera heiðarlega tilraun til að útskýra fyrirbærið.

skil

Á teikningunum hér að ofan má sjá hvað gerist þegar skilakerfi lægðar gengur yfir landið. Fyrst koma meginskil sem geta ýmist verið svokölluð samskil eða þá hitaskil. Þegar þau eru að nálgast fáum við landsynning sem einkennist af samfelldri rigningu með suðaustanátt. Hlýi geirinn sem er á milli hita- og kuldaskilanna nær ekki alltaf inn á landið og ef hann gerir það ekki förum við beint úr landsynningi í þennan umtalaða útsynning.

Loftmassinn sem berst til okkar með útsynningi er uppruninn úr vestri og gjarnan frá köldum svæðum vestur í Kanada en þegar lægðarmiðjan er á milli Íslands og Grænlands sér hún um að dæla því hingað. Þetta kalda loft berst yfir hlýrra hafið og þá hlýnar neðsta loftlagið en við það skapast óstöðugleiki því hlýtt loft er eðlisléttara en kalda loftið fyrir ofan. Því stígur loftið upp og myndar skúraský sem hellast yfir landið okkar. Á veturna myndast hinsvegar éljaklakkar af sömu ástæðum og útkoman verður hvít jörð á suður- og vesturlandi.

Aðstæður í hlýja geiranum á milli kulda og hitaskilanna er í raun andstæða útsynningsloftsins. Það loft er ættað frá hlýrri svæðum og því myndast þar ekki þessi óstöðugleiki. Einkenni veðursins í hlýja geiranum eru lágský eða súldarloft sem verður til vegna þess að þar kólnar hlýja loftið yfir kaldari sjónum og rakaþéttingin verður nær yfirborðinu. Stundum eru aðstæður þannig að við erum í svoleiðis lofti nokkra daga í senn en við þær aðstæður verða bestu sólskins og hitaveðrin norðanlands.

Að lokum kemur hér splunkuný MODIS-gervitunglamynd frá því í dag, 29. maí, en þar má sjá skúraskýin streyma til landsins úr suðvestri. Ísland er þarna til hægri á myndinni en uppi í vinstra horninu er Grænland í björtu veðri með hvítan hafísinn við strendurnar.

MODIS_utsynningur


Hvar var hún þessi Reykjarvík?

Það er dálítið sérstakt að lögheimili fyrsta landnámsmannsins hafi verið akkúrat á þeim stað þar sem höfuðborg landsins stendur í dag. En hvar var hún þessi Reykjarvík sem sá merki maður á að hafa byggt sér ból? Og þá meina ég Reykjarvík með erri eins og staðurinn er nefndur í Íslendingabók. Ýmist er talið að um sé að ræða víkina sem afmarkast af Örfirisey og Laugarnestanga eða víkina þar sem gamla höfnin er. En kannski er þriðji möguleikinn til staðar?

Á þeim rúmu 1100 árum sem liðin eru síðan Ingólfur Arnarson var og hét hafa orðið miklar breytingar á landsháttum á strandlengjunni hér við sundin blá vegna ágangs sjávar en ekki síður vegna þess að hér suðvestanlands er landið stöðugt að síga vegna nálægðarinnar við gosbelti Reykjanesskagans. Talið er að þetta landsig gæti hafa verið allt að tveimur metrum frá landnámi og strandlengjan því á stórum svæðum allt önnur en hún er í dag, eyjar og sker hafa sokkið í sæ og nes hafa orðið af eyjum. 

Reykjavik 1877

Á ljósmynd Sigfúsar Eymundssonar, sem tekin er frá Skólavörðuholtinu árið 1877, sést hvernig aðstæður voru þarna fyrir 132 árum. Örfirisey er tengd landi með mjóum granda og annar grandi liggur frá honum í sveigju að skerjum sem ná langleiðina að Akurey en í sameiningu má sjá út úr þessu vísi að stórri skeifu. Í dag eru skerin við Akurey ekki nema svipur hjá sjón, eru oftar en ekki í kafi og tengjast ekki landi nema kannski í mestu stórstraumsfjörum. Uppfyllingar hafa svo að sjálfsögðu gerbreytt stöðu Örfiriseyjar sem er í dag ekkert annað en nes, eins og það hefur væntanlega verið fyrr á tímum.

Strandlengjan árin 874

Hér á myndinni að neðan hef ég teiknað upp strandlengjuna eins og hún gæti hugsanlega hafa verið á landnámstíð. Sambærilega mynd útbjó Trausti Valsson í bók sinni Reykjavík Vaxtarbroddar, en þar lét hann strandlengjuna fylgja 2ja metra dýptarlínu miðað við daginn í dag. Kortið sem ég nota í grunninn er frá svipuðum tíma og ljósmynd Sigfúsar hér að ofan.

Reykjarvík

Ef landshættir hafa verið einhvernvegin svona á tímum Ingólfs Arnarsonar, sést að þarna hefur verið allstórt nes eða tangi sem hefur náð alla leið út í Akurey. Þarna hef ég merkt inn bláan punkt sem merkir hverasvæði en nokkuð víst þykir að þarna hafi verið heit laug eða hverasvæði sem í dag er sokkið í sæ. Ysti hluti Örfiriseyjar er reyndar enn í dag kallaður Reykjarnes og þar eru borgarminjar (sbr. síðustu færslu). Sennilega hefur allt þetta nes sem Örfirisey tilheyrir í dag, verið kallað Reykjarnes og miðað við sjávarstöðu nú, er líklegt að lítil vík hafi gengið inn í landið þarna rétt vestur af hverasvæðinu og ef einhver hefur viljað kalla þá vík eitthvað hlýtur nafnið Reykjarvík óneitanlega að koma upp í hugann.

Reykjarvík. Sú hugmynd að nafnið á höfuðborg landsins sé dregið af lítilli vík sem fyrir löngu er sokkin í sæ er ekki endilega minn eigin hugarburður. Mig rámar nefnilega í að hafa lesið um þetta í Lesbókinni fyrir einhverjum árum en hef þó ekki fundið þá grein aftur. Örnefnið eða bæjarnafnið Reykjavík virðist ekki hafa verið verið notað öldum saman því landnámsjörðin var lengst af kölluð „Vík“ á Seltjarnarnesi en það heiti er dregið af Seltjörn við Gróttu sem hefur staðið fyrir opnu hafi frá því Básendaflóðið gekk þar yfir 1799. Það var ekki fyrr en þéttbýli fór að myndast í kvosinni að staðurinn fékk nafnið Reykjavík. Þar hafa fundist elstu mannvistarleifar hér á landi og því kemur einnig vel til greina að Reykjarvík sé einfaldlega bara víkin þar sem gamla höfnin er nú, eins og gjarnan er talað um.

Hugmyndin sem ég minntist á hér fyrr um að Reykjavíkin afmarkist af Örfirisey og Laugarnestanga hefur sennilega orðið til vegna heitu lauganna í Laugardal enda inniheldur sú stóra vík tvö reykjasvæði. Mér finnst þó sú vík vera full víðáttumikil, þar að auki er Laugardalur hvergi sjáanlegur frá kvosinni og í nokkurra kílómetra fjarlægð. Hverasvæðið á Reykjarnesi hefur örugglega þótt alveg nógu merkilegt eitt og sér til að nota í örnefni og ef Reykjarvík hefur verið skrifað með erri hlýtur það að vísa í einn ákveðinn reyk, en ekki fleiri.

Að lokum má svo benda á að þótt örnefnið Örfirisey hafi verið til frá fyrstu tíð, er ekki víst að það nafn hafi alltaf átt við sama stað og í dag. Það er nefnilega vel þekkt að þar sem landshættir eru stöðugt að breytast geta örnefni farið á flakk og aðlagast nýju landslagi eins og gæti verið raunin með Reykjarvíkina.

- - - - -

Til viðbótar við þetta má svo benda á eftirfarandi síður sem ég hef notast við í þessum pælingum:

http://www.maritimemuseum.is/fraedsla/orfirisey/

http://www.ferlir.is/?id=3339


Veggjakrot og steinristur í Örfirisey

Örfirisey 01

Örfirisey er merkilegur staður og þangað lagði ég leið mína í landkönnunarferð einn góðviðrisdaginn núna í mánuðinum. Ég endaði þar á merkilegum slóðum sem ég hafði ekki komið á áður, það er að segja á bakvið olíutankana miklu sem þar eru. Það er þó greinilegt að einhverjir hafa stungið þarna niður fæti á undan mér og skilið eftir sig ummerki. Bæði er þarna mikið veggjakrot á útveggjum olíustöðvarinnar en einnig má finna þarna merkilegar steinristur í óspilltum sjávarklöppunum yst á eynni. Þessar steinristur þykja reyndar það merkilegar að þær eru skráðar sem Borgarminjar og er staðurinn merktur sem slíkur með litlu skilti.

Örfirisey kortÞessi norðvesturendi Örfiriseyjar er þó greinilega fáfarinn í dag, en helst eru það greinilega spreyjarar sem gera sér ferð þangað nú á dögum, en veggurinn meðfram olíubirgðastöðinni er víst einn af fáum stöðum í borginni þar sem listrænt ungviðið fær að iðka sína veggjakrotslist í friði og í fullum rétti. Sjálfsagt myndi mörgum finnast umhverfið þarna vera full harkalegt enda ekki beint rómantískur blær yfir myndmáli veggjakrotsins og ekki er olíustöðin með sínum stóru tönkum og óþef vel til þess fallin að auka mönnum andagift vegna fegurðar náttúrunnar.

Annað hefur verið uppi á teningnum í gamla daga þegar menn ristu stafina sína og tjáðu jafnvel ást sína með því að meitla hana í stein á kvöldgöngutúrum. Frá hernámsárunum má einnig sjá þarna nöfn bandarískra dáta en elstu og merkilegustu steinristurnar er öllu eldri, eða frá þeim tímum er kaupahéðnar stunduðu verslun þarna út í eyju.

Hér koma svo nokkrar myndir úr umræddum leiðangri sem var farinn síðdegis þann 17. maí 2009.

Örfirisey 02

Göngustígur á uppfyllingu endar hér.

Örfirisey 03

Vel merktur hvíldarstaður

Örfirisey 04

Ónafngreindur listamaður að störfum.

Örfirisey 05

Borgarminjar framundan

Örfirisey 06

Tankar og klappir. Þessi ysti oddi Örfiriseyjar heitir Reykjarnes og þar eru umræddar steinristur sem teljast nú til borgarminja.

Örfirisey 07

Elsta og fallegasta áletrunin. Sennilega er hún rituð af Hendrik Handsen sem var verslunarmaður í Örfirisey á dögum Kóngsverslunarinnar. Hendrik þessi hafði áður verið kaupmaður á Básendum en hraktist þaðan eftir sjávarflóðið 1799. (Skv. Árna Óla – Gamla Reykjavík)

 

Örfirisey 08

Ekki veit ég hvaða ástfangna par ritaði þetta né hvenær.

 


Meðalhiti jarðar frá degi til dags

Fyrir þá sem eru áhugasamir um línurit og hitafar jarðar ætla ég að kynna hér vefsíðu eina allgóða sem ég uppgötvaði á hefðbundnu netflakki núna nýlega. Málið snýst um einskonar gagnvirkt línurit þar sem hægt er að bera saman hvernig meðalhiti jarðarinnar þróast daglega samanborið við fyrri ár aftur til ársins 1998, auk þess sem hægt er að bera hitann saman meðaltöl og hámark- og lágmarkshita 20 ára tímabils þar á undan. Og ekki nóg með það, því hægt er að velja um mismunandi mælingarfjarlægð frá jörðu, frá yfirborði og uppí 41km hæð, en um gagnsemi þessi kem ég að hér síðar.

Annar af tveimur skráðum höfundum þessarar síðu eru Dr. Roy Spencer sem sumir þekkja kannski sem efasemdarmann um hnattræna hlýnun af mannavöldum, en hann er annars einn af frumkvöðlum um notkun gervitungla til hitamælinga í lofthjúpnum á vegum NASA. Hitalínuritasíðan sem ég ætla annars að tala um „Daily Earth Temperatures from Satellites“ tengist viðameiri síðu sem heitir DISCOVER sem virðist bæði eiga ættir að rekja til NASA og Háskólans í Huntsville Alabama, þar sem Dr. Roy er núna.

En áfram með smjörið. Hér að neðan er sýnishorn af línuriti þar sem ég hef valið að bera saman hitann í neðsta loftlaginu (1 km. hæð í veðrahvolfi) frá árunum 2000, 2008 og það sem af er árinu 2009. Þarna má sjá að hitinn allt árið 2000 var nokkuð lægri en hann var árið 2008, og svo hefur hitinn árið 2009 yfirleitt verið hærri heldur en árið í fyrra. Þarna má líka sjá að meðalhiti jarðar er mestur þegar sumar er á norðurhveli og skýrist það væntanlega af þeim mikla landmassa sem þar er, sem hitnar á sumrin en kólnar mikið á veturna. 

hitalínurit 00 08 09

Þegar kemur að hitafari jarðar beinist athyglin auðvitað alltaf að margumræddum gróðurhúsáhrifum og hvort þau séu að aukast eða ekki. Hér á seinni myndinni hef ég kallað fram samskonar línurit nema hvað nú er ég kominn upp í 36 kílómetra hæð og þá lítur myndin allt öðru vísi út. Þarna í þessari hæð mælast árin 2008 og  2009 nokkuð kaldari heldur en árið 2000. Sömu sögu er reyndar að segja um önnur ár því eftir því sem tíminn líður þá kólnar í háloftunum þótt það hlýni nær yfirborði jarðar. Þetta er, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, algerlega í samræmi við aukin gróðurhúsaáhrif, því þau virka einhvernvegin þannig að hitinn sem endurkastast frá jörðinni sleppur ekki eins vel í gegn og áður og endurkastast í auknum mæli til baka sem veldur auknum hita í neðri loftlögunum og á yfirborði jarðar. Ef hlýnun undanfarinna ára væri af utanaðkomandi orsökum, eins og t.d. sólinni, ættu hinsvegar efri loftlögin (heiðhvolfið) að hlýna í takt við þau neðri, en ekki að kólna. Nema einhver önnur skýring er til sem ég þekki ekki.

hitalínurit 00 08 09-2

- - - - - - 

Smáa letrið hér að neðan er til nánari útskýringar og er fengið af síðunni „Daily Earth Temperatures from Satellites“ Slóðin er: http://discover.itsc.uah.edu/amsutemps/

Daily averaged temperatures of the Earth are measured by the AMSU flying on the NOAA-15 satellite. The satellite passes over most points on the Earth twice per day, at about 7:30 am and 7:30 pm local time. The AMSU measures the average temperature of the atmosphere in different layers from the surface up to about 135,000 feet or 41 kilometers. During global warming, the atmosphere near the surface is supposed to warm at least as fast as the surface warms, while the upper layers are supposed to cool much faster than the surface warms. 

 


Nýtt Evrópukort frá Dagens Næringsliv

Þar sem Evrópumál eru í deiglunni núna er tilvalið að birta hér Evrópukort eins og það birtist í auglýsingu Dagens Næringsliv hinu norska. Hvernig skyldi söngfugli okkar frá ØKONOMISK KRISE ganga í keppninni á laugardaginn? Munum við gera betur en LEGOLAND eða SAUNA.

Mun ØSTBLOKK kannski rústa þessu eins og venjulega? Ég er ekki viss. Ætli það verði ekki bara, Heia NORGE! í ár.

 

DN_evropukort

(Kortið birtist stærra ef smellt er nógu andskoti oft á það)


Tollhúsið og Geirsgatan

Tollhús

Það hafa verið gerðir margir skipulagsuppdrættir fyrir Reykjavík í gegnum tíðina. Engum þeirra hefur þó verið fylgt eftir til hlýtar, enda þróaðist borgin á tímum mikilla breytinga þar sem fólksfjöldinn jókst miklu hraðar en nokkurn gat órað fyrir og tilkoma einkabílsins gerði eldri skipulagshugmyndir fljótt úreltar.

Einn af þessum skipulagsuppdráttum var kynntur árið 1965 en að honum stóðu danskir skipulagsfræðingar sem fengnir voru til verksins. Í anda þess tíma áttu að rísa stórhýsi í öllum elsta hluta borgarinnar á kostnað gamalla og smærri húsa sem átti að rífa eða að flytja upp í Árbæjarsafn. Hraðbrautarkerfi heilmikið var skipulagt og þarna voru lagðar línurnar að úthverfabyggðinni sem teygði sig upp í holt og hæðir. 

Meðal þeirra húsa sem byggð voru samkvæmt þessu skipulagi var hin metnaðarfulla bygging Tollhúsið sem hafist var handa við árið 1966. Á suðurhlið hússins er hin risastóra mósaíkmynd eftir Gerði Helgadóttur þar sem sjá má lífið við höfnina á fyrri tíð. Á Norðurhlið hússins er minna falleg útbygging sem lögð var undir vörugeymslur en þar er Kolaportsmarkaðurinn í dag. Útbygging þessi var byggð í þeirri framsýni að ofaná henni skyldi liggja fjögurra akreina hraðbraut, Geirsgata, sem var hluti að hraðbrautarskipulaginu danska. Þessi ofanjarðarhraðbraut varð aldrei lengri en þessi stubbur sem þarna er ennþá, en gegndi þó lengi hlutverki bílastæðis á meðan heilmikil trébrú lá þangað upp. Árið 1986 var endanlega hætt við þessi loftbrautaráform og Geirsgatan var síðan lögð meðfram höfninni eins og hún er í dag. Fleiri hraðbrautir átti að leggja um miðbæinn, en þar á meðal var framlenging Suðurgötunnar í gegnum Grjótaþorpið sem átti allt að rífa. Framlengda Suðurgatan átti síðan að tengjast Geirsgötunni þarna aðeins vestar.

Í dag er þetta svæði í kringum Geirsgötuna allt stórlega skaddað að gjaldþrota uppbyggingarhugmyndum síðustu ára en miðbær Reykjavíkur ber þess reyndar merki að sífellt er verið að fara af stað með nýtt skipulag sem á að gefa Reykjavík yfirbragð erlendrar stórborgar. Kannski verður Geirsgatan lögð í neðanjarðarstokk eins og upp eru hugmyndir um, en þannig losnum við vissulega við umferðina sem þarf að fara þarna í gegn. Ég hef hinsvegar ekki mikinn áhuga á að aka neðanjarðar um bæinn. Kannski eru þeir sem fara með skipulagsmálin ennþá fastir í þeirri hugmynd að bílaumferð í miðbæjum þurfi alltaf að ganga óhindruð fyrir sig á fullri ferð, ef ekki ofanjarðar, þá neðanjarðar. Mín vegna mætti leysa Geirsgötuhnútinn með því að fækka bara akreinum úr fjórum í tvær. Umferðin, sem er reyndar ekkert svo mikil þarna, gengi sjálfsagt eitthvað hægar fyrir sig, en ég er ekki viss um að öllum liggi svo mikið á.

- - - - -

Hér kemur svo mynd sem ég bætti við eftir á. Hún er frá Seattle USA, þar sem má sjá hvernig hraðbrautarbrú liggur meðfram hafnarsvæðinu þar. Það var Björn frændi minn Emilsson sem sendi mér myndina, en eins og hann segir í athugasemdum hér að neðan, stendur til að rífa þennan „óskapnað“.

SCENIC_Central_Waterfront_AWV


Það er þetta með sólina

sun6apr09Það er orðin föst venja hjá mér að fara á síðuna SpaceWeather.com til að fylgjast með ástandi sólarinnar en eins og komið hefur fram í fréttum hefur virkni sólarinnar ekki verið minni áratugum saman eða jafnvel í heila öld. „The sun is blank-no sunspots“ eru algengustu fréttirnar af sólinni þessa dagana.

Það sem helst endurspeglar virkni sólarinnar eru sólblettirnir sem eru fleiri eftir því sem sólin er virkari, en reglan er annars sú að virkni sólarinnar sveiflast þannig að sólblettir nánast hverfa á um 11 ára fresti og ná hámarki þess á milli. Það sem er óvenjulegt nú er að sólarlágmarkið með tilheyrandi sólblettafátækt hefur staðið í heil þrjú ár en ekki í rúmlega eitt ár eins og telst eðlilegra. Hver sólarsveifla hefur númer, sú síðasta var númer 23 og var í hámarki um árið 2000 og því er það sveifla númer 24 sem beðið er eftir og ætlar ekki að koma.

(Síðustu fréttir þegar þetta er skrifað eru þó þær að eitthvað sé farið að lifna yfir sólinni og að búast megi við sólbletti eða blettum næstu daga. Sólblettalágmark þarf ekki að þýða algert sólblettaleysi, en sjáum til hvað gerist.)

sólarsveiflur spá2006
Þróunin þvert á spádóma
Eftir því sem þetta sólblettalágmark dregst á langinn aukast líkurnar á mjög veikri sólarsveiflu nr 24 en samkvæmt því sem fróðustu menn höfðu komist að átti sú sveifla einmitt að með öflugra móti og ná hámarki 2010-2012 (sbr. línurit að ofan). Það ætlar greinilega ekki að ganga eftir en af þeim fáu sólblettum sem komið hafa fram nú árið 2009 eru enn einhverjir sem tilheyra liðinni sólarsveiflu nr. 23. Samkvæmt sömu spám var hinsvegar gert ráð fyrir veikri sólarsveiflu nr 25 með lítilfjörlegu hámarki um árið 2024. Hvað ætli verði um þær spár?

sólarsveiflur 400 ár

Langur svefn framundan?
Spurningin er sú hvort þetta sé fyrirboði um langvarandi deyfð í sólinni sem gæti jafnvel staðið í áratugi? Síðustu 60 árin hefur sólin verið mjög virk, en vitað er frá fyrri tíð að sólblettaleysi getur staðið yfir áratugum saman eins og var á hinu svokallaða Maunder minium tímabilinu á 17. öld. Á svipuðum tíma var kuldatímabilið mikla sem nefnt hefur verið Litla ísöldin og því eðlilegt að þeir atburðir séu tengdir saman. Þeir sem fylgjast með sólinni þessa dagana gera lítið annað en að bíða og sjá til hvað gerist en greinilegt er að vísindamenn vita ekki mikið við hverju má búast á næstunni.

Sólin eða gróðurhúsaáhrifin?
Það er vissulega óþægilegt að meta áhrif aukinna gróðurhúsáhrifa á sama tíma og virkni sólarinnar á síðustu öld var meiri en hún hefur verið í yfir 1000 ár eins og haldið er fram. Hinsvegar hefur oft verið bent á að virkni sólarinnar náði hámarki um miðja 20. öld, á meðan hiti jarðarinnar hækkaði mest á seinasta fjórðungi aldarinnar.

Það hefur hinsvegar ekki mikið hlýnað á jörðinni það sem af er þessari öld og árið 2008 var það kaldasta á öldinni. Það ár er þó talið mjög hlýtt í lengra samhengi og það sem af er þessu ári hefur hitinn verið hærri en á sama tíma og í fyrra, þannig að við erum ekki enn komin í neitt kuldaskeið þrátt fyrir ládeyðu í sólinni. Hvað sem síðar verður.

Sjálfur hef ég trú á að áhrif sólvirkni og aukinna gróðurhúsaáhrifa séu hvortveggja mjög mikil og að eitt útiloki ekki annað í þessu. Ef sólvirknin fer í langvarandi lægð þá gætu næstu ár hugsanlega verið erfið fyrir hlýnunarspámenn. Kannski verða menn búnir að gleyma vandanum af auknum gróðurhúsaáhrifum þegar ládeyðunni svo lýkur í sólinni og hitinn rýkur upp úr öllu valdi, af áður óþekktum krafti.

Ég hef annars fulla samúð með þeim vísindamönnum sem reyna að spá í loftslag framtíðarinnar og auðvitað á maður að trúa því sem flestir vísindamenn eru sammála um, a.m.k. þangað til annað kemur í ljós. Ef þeir hinsvegar reynast hafa rangt fyrir sér þá vona ég líka að þeir láti það í ljós. Traust manns á vísindunum byggist nefnilega ekki síður á því.

- - - - -

Heimildir: 

Long Range Solar Forecast. (NASA 10.maí 2006)

Sunspots reaching 1,000-year high  (BBC-news 6.júlí 2004)

The missing sunspots: Is this the big chill?  (The Independent 27.apríl 2009)


Snjódagar í Reykjavík

Svona til að kveðja veturinn endanlega nú á þessum vordögum þá kemur hér mynd sem ég hef útbúið og sýnir hvenær snjór þakti jörð höfuðborgarinnar síðastliðinn vetur og til samanburðar liðna 22 vetur. Samskonar mynd birti ég fyrir ári nema nú er síðasti vetur kominn inn. Þetta er allt byggt á eigin athugunum en ég hef skráð snjóhulu ásamt öðrum veðurþáttum frá árinu 1986. Hver lárétt lína táknar einn vetur og hvítur litur sýnir hvenær jörð hefur verið hvít og fjöldi daga er sýndur til hægri. 

snjór 86-09

Eins og sést á tölunum þá vill svo til að fjöldi hvítra daga er sá sami og í fyrravetur eða 74, sem er aðeins undir meðaltali þessara ára samkvæmt þessu. Þrátt fyrir þennan fjölda hvítra daga er varla hægt að segja að það hafi verið snjóþungt í vetur enda var snjórinn ýmist að koma eða fara og var yfirleitt lítið til vandræða. Ekkert snjóaði í apríl að þessu sinni sem er svo sem ekkert einsdæmi.

Þarna má líka sjá ýmis merkistímabil: Snjóþungu mánuðina janúar-apríl árin 1989 og 1990, en árið 1989 var sérstaklaga snjóþungt í borginni. Svo voru langir og snjóþungir vetur 1994-'95 og 1999-2000. Sá allra snjóléttasti síðastliðin ár er veturinn 2002-2003 með aðeins 32 snjódaga en sá vetur var líka einstaklega hlýr á öllu landinu.

 


Ísland á 10. bestu myndinni frá NASA Earth Observatory

Satúrnus Casini

Ein af mínum uppáhalds síðum á netinu er á vegum NASA þar sem sjá má daglega nýjar gervitunglamyndir af ýmsum fyrirbærum á jörðinni. Vefsíðan, sem nefnist Earth Observatory, fagnaði 10 á afmæli sínu núna þann 29. apríl  og í tilefni af því hafa þeir birt 10 bestu myndirnar sem þar hafa birst að mati heimsækjenda, allt mjög flottar myndir að sjálfsögðu.

Það sem er svo ánægjulegast er að Ísland kemur við sögu í þeirri mynd sem lenti í 10. sæti (sjá hér að neðan) og því er komið ærið tilefni til bloggfærslu hér á síðunni sem aðallega reynir að fjalla um himinn og jörð.

Satúrnus Jörðin Fyrst er þó sjálfsagt að nefna myndina sem lenti í 1. sæti en það er myndin af Satúrnusi hér að ofan, tekin af Cassini geimfari þann 15. september 2006. Á myndinni sjást hringir reikistjörnunnar fallega uppljómaðir vegna þess að sólin er á bakvið Satúrnus frá þessu sjónarhorni og lýsir því hringina aftanfrá. Myndin hefur fengið að vera með í keppninni vegna þess að jörðin er þarna, pínulítil rétt fyrir utan hringina og sést bara þegar myndin er stækkuð upp.

Þær myndir sem lentu í 2.-10. sæti má svo sjá hér að neðan. Meðal mynda þar er t.d. athyglisverð mynd af suðurljósum séð úr geimnum og næturljósamyndin fræga af jörðinni sem hefur birst víða. Ég birti þær bara litlar hér en þær eru allar betur tíundaðar á Earth Observatory síðunni. (sjá hér)

Nasa 10 bestu

 

Landb


Í 8. sæti vekur athygli mína myndaröð frá maí 2006 sem heitirAgricultural Patterns, en ég gerði einmitt sjálfur mjög svipaðamyndaseríu á dögunum sem heitir Landbúnaðarmynstur, en hafði þó ekkiséð þessa.

Svo að lokum skal nefna Íslandsmyndina sem lenti í 10. sæti en það er mynd af tveimur fallegum lægðarsveipum nálægt Íslandi en sú mynd var tekin þann 20. nóvember 2006. Daginn áður en þessi mynd var tekinn gerði mikið hríðarveður í Reykjavík með mikilli ófærð og vandræðagangi sem er frekar óvenjulegt í nóvembermánuði, allavega á nú á seinni árum. Fannfergið var mjög staðbundið hér í borginni og ekkert snjóaði á Suðurlandsundirlendinu og í Borgarfirði. (Nánar um myndina hér).

 

iceland_tmo_2006324

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband