Hafísstaðan á miðju sumri

Sumarið er í hámarki á norðurslóðum og hafísinn bráðnar samkvæmt því. Í hafísyfirliti mínu fyrir mánuði nefndi ég að hafísbráðnunin hefði ekki farið neitt óvenjulega hratt af stað í upphafi sumars, allavega ekki miðað við það sem ég sá fyrir mér að gæti gerst eftir einn hlýjasta vetur á norðurslóðum sem mælst hefur og um leið eitt minnsta ísmagn á Norður-Íshafinu sem mælst hefur. Fram til þessa hefur sumarið þó ekki verið neinn eftirbátur annarra mikilla bræðslusumra, samanber línuritið ættuðu frá bandarísku snjó- og ísmiðstöðinni (NSIDC). Dökkblái ferillinn stendur fyrir árið 2017 og til viðmiðunar eru 10 árin þar á undan. Gráa línan er meðaltal áranna 1980-2010 sem sýnir vel hversu mikið ísinn hefur hörfað að sumarlagi miðað við það sem áður var.

Hafíslinurit NSIDC júlí 2017

Eins og sést á dökkbláu 2017-línunni þá útbreiðsla íssins með allra minnsta móti en þó örlítið meiri en hún var metbræðslusumarið 2012 á sama tíma þann 20. júlí. Árið 2011 er reyndar þarna í tímabundinni forystu en átti eftir að missa hana þegar stórir atburðir fóru að gerast í ágústbyrjun 2012 sem skilaði hina mikla lágmarksútbreiðslumeti í september það ár. Annars er þetta nokkuð þétt flækja af línum. Heldur greiðist þó úr henni þegar líður að hinu árlegu haustlágmarki enda skiptir lokahlutinn í bráðnunartímabilinu miklu máli eins og gjarnan gerist í kappleikjum. Þá er bara spurning hvað gerist með 2017. Á sumarið 2017 endasprett inni eða fær það krampa?

Kortin hér að neðan sýna útbreiðslu og þéttleika íssins á sömu dagsetningu sumarið 2012 og 2017. Auk þess teiknaði ég inn lágmarksútbreiðslu íssins á 2012-kortið til vinstri en þá dróst ísbreiðan meira saman en dæmi er um.
Hafis júlí 2012 og 2016
Nokkur munur er á útbreiðslunni milli þessara tveggja sumra. Til dæmis var þarna ennþá landfastur ís norður af Alaska og Austur-Síberíu sumarið 2012 og styttra einnig frá okkur í hafísinn austur af Grænlandi. Hinsvegar er meiri ís núna við Baffinsland, Svalbarða og við miðhluta Síberíustranda. Það sem gæti þó skipt máli upp á framhaldið er að það sem eftir er af ísnum núna er nokkuð hvítt yfirlitum sem þýðir að ísinn núna er nokkuð þéttur - ekki síst á jaðarsvæðum. Stór svæði á 2012-kortinu er hins vegar farin að blána talsvert enda átti ísbreiðan þarna eftir að dragast saman um ríflegan helming áður en lágmarkinu var náð. 2017-kortið ber hinsvegar með sér að ísinn sé nokkuð þéttur og víðfeðm hafíssvæði ekki í bráðri útrýmingarhættu.

Í fyrri hafíspistli nefndi ég að hinn hlýi vetur gæti hafa framkallað meiri snjókomu í norðri en venjulega sem gæti haft sitt að segja varðandi það hversu tiltölulega hægt bráðnunin fór af stað nú í vor. Mikill snjór á ísnum tefur fyrir bráðnun og snjór á aðliggjandi landssvæðum veldur kælingu í heildina. Súluritið hér að neðan fann ég á netinu en veit þó ekki alveg uppruna þess. Samkvæmt því þá var snjóhula í júnímánuði nokkuð meiri en verið hefur hin síðari ár, en reyndar þó "bara" í meðallagi fyrir tímabilið í heild. Árið 2017 sker sig greinilega úr hvað þetta varðar miðað við síðustu ár þótt snjóhulan sé þó mikill eftirbátur þess sem tíðkaðist á fyrri hluta tímabilsins.
Snjóhula norðurhvel
Hvernig bræðslusumarið 2017 mun plumma sig að lokum mun koma í ljós á næstu vikum. Sennilega þarf eitthvað róttækt að gerast ef lágmarkið í ár á að verða eitthvað í líkingu við metlágmarkið 2012. Eftir sem áður er ísinn núna mjög þunnur þótt hann sé þéttur. Þykktar og rúmmálsmælingar benda einmitt til þess. Sjáum til hvað gerist og að venju boða ég aftur stöðuuppfærslu eftir mánuð. Það má líka taka fram að þetta eru allt saman áhugamannspælingar í mér en sjálfsagt er að benda á mánaðarlegt yfirlit Bandarísku snjó- og ísmiðstöðvarinnar eins og ég kalla hana. Sjá: National Snow and Ice Data Center, NSIDC


Um stokka og steina ofan Bústaðavegar

Eins og stundum gerist hér á síðunni skal nú boðið upp á myndaspjall þar sem gengið er um eitthvert svæði borgarinnar og því lýst í máli og myndum sem fyrir auga ber. Að þessu sinni er það svæðið ofan Bústaðavegar sem stundum er kallað Litlahlíð og er einskonar litla systir Öskjuhlíðar. Á þessari litlu hlíð er víðsýni mikið, margt að skoða og líka margt sem hægt er að hafa skoðanir á. Þannig að þótt gönguferðin sé stutt er bloggfærslan frekar löng. Dagurinn er 7. júlí 2017.


Stígur Perla
Upphaf leiðangursins er þessi stígur sem liggur upp hlíðina og þegar litið er um öxl í vesturátt blasir Öskjuhlíðin við. Bústaðavegurinn aðskilur þessar tvær hæðir en Litluhlíð má þó kannski skilgreina sem hæðardrag. Stígurinn er lagður ofaná gamla hitaveitustokkinum sem veitir heita vatninu austan úr sveitum og upp í tankana undir Perlunni. Allt er í mikilli sumargrósku og eins og sést þá hefur lúpínan breitt úr sér sitt hvoru megin stígsins.


Hvalbök
Ekki þarf að ganga langt eftir stígnum þar til þessar sérstöku klappir blasa við. Þetta eru svonefnd hvalbök - menjar ísaldarjökulsins sem hér lá yfir þar til fyrir um 10 þúsund árum. Samkvæmt upplýsingaskilti er þetta um leið einskonar umhverfislistaverk er nefnist Streymi tímans, eignað listakonunni Sólveigu Aðalsteinsdóttur sem ákvað að svipta gróður- og jarðvegshulunni frá klöppunum svo þær fái notið sín. Hér áður stóð myndastytta Ásmundar Sveinssonar, Vatnsberinn, sem var fluttur niðrí bæ sem þótti meira við hæfi enda voru víst ekki margir slíkir hér á ferð á gullöld hinna eiginlegu vatnsbera.


Vatnstankur framhlið
Vatn kemur þó aldeilis hér við sögu því auk heitavatnsleiðslunnar er þarna einnig heilmikill geymir fyrir kalda vatnið - eða kaldavatnstankurinn - sem skartar þessu tilkomumikla súlnaverki á framhlið og gefur byggingunni fallegan klassískan svip.


Vatnstankur þak
Auðvelt er að komast upp á tankinn og þar er víðsýni til allra átta. Sérstakt er að standa ofan á hinu stóra og slétta þaki tanksins sem þakið er grjóti. Hér er horft í austur og sér til Hengils og Vífilsfells. Loftið er óstöðugt. Bólstraskýjað með köflum og úrkoma í fjarska, kannski of langt i burtu til að flokkast sem úrkoma í grennd. Þeir vita það sjálfsagt hjá Veðurstofunni sem þarna er einnig í mynd.


Lúpína Hallgrímskirkja
Stundum er sagt að Reykjavík sé byggð á sjö hæðum eins og Rómaborg og hér er horft af einni hæð til annarrar þar sem helgidómurinn blasir við á Skólavörðuholti. Í forgrunni er lúpínan allsráðandi og af sem áður var. Í hugum margra er lúpínan nánast heilög jurt sem ekki má skerða þrátt fyrir að hún leggi undir sig stór svæði víða um land, gróin sem ógróin, af sívaxandi hraða. Á þéttbýlissvæði eins og þessu er að vísu nægt framboð af öflugum plöntum sem geta blandað sér í baráttuna en því er ekki að heilsa víðast hvar. Sumir vilja meina að með lúpínuvæðingunni séum við að greiða til baka eitthvað sem við skuldum náttúru landsins en sú endurgreiðsla er ekki greidd í sömu mynt því lúpínan er innflutt framandi planta og flokkast sem ágeng jurt í viðkvæmri flóru landsins. Lúpínan er óskajurt hinna óþolinmóðu sem vilja græða landið allt, helst strax í dag með vaxtavöxtum og grilla svo um kvöldið.


Stokkur austur
Spölkorn austar breytir umhverfið um svip með borgaralegri gróðri. Stígurinn er hér raun gamli hitaveitustokkurinn sem upphaflega var lagður alla leið ofan úr Mosfellssveit á árunum kringum 1940. Lengi vel var yfirborð stokksins bogadregið en slétt yfirborðið hentar betur mannaferðum. Íbúðablokkin tilheyrir næsta hverfi og liggur Kringlumýrarbrautin í hvarfi þar á milli.


Hitamælingaskýli
Þá erum við komin að Veðurstofutúni sem er eitt af merkustu túnum landsins. Þann 30. júlí 2008 mældist hér 25,7 stiga hiti á klassískan kvikasilfurmæli í hitamælingaskýli og er það um leið hitamet í Reykjavík við slíkar staðalaðstæður. Samanburður í framtíðinni við hina ýmsu veðurþætti gæti orðið erfiður og þá erum við komin að öðru hitamáli því svo lítur út fyrir að búið sé að ákveða að þetta tún skuli brátt heyra sögunni til vegna stórfelldra byggingaráforma en í þeim felst meðal annars að Veðurstofan þarf að finna sér nýjan stað. Væntanlega þá einhversstaðar í fjarska frekar en í grennd enda ekki mikið eftir af opnum svæðum innan borgarinnar. Eiginlegar veðurathuganir myndu þá í raun leggjast af í Reykjavík sem væri mikill skaði en samfella í veðurathugunum á sama stað er mikils virði. Ekki síst nú á tímum þegar umræður um loftslagsbreytingar eru allsráðandi.


Gíraffi
Hvað sem loftslagsbreytingum líður þá hafa þær ekkert að gera með þennan gíraffa sem teygir sig upp úr einum garðinum í nærliggjandi einbýlishúsi. Hér hafa sjálfsagt verið gerð kostakaup á kjarapöllum.


Veðurstofa gróður
Enn breytir um svip og nú erum við komin að suðaustanverðri hlíðinni sem snýr að Bústaðavegi og horfum í átt að hinu virðulega húsi Veðurstofunnar. Hér er gróðurfarið allt annað en handan hæðarinnar. Upprunalegur gróðurinn í sinni fjölbreyttustu mynd fær hér að njóta sín á milli steina og birkiplantna sem virðast dafna vel í þessum sælureit. Þessi staður gæti einnig verið í bráðri útrýmingarhættu vegna fyrrnefndrar uppbyggingar sem á að slá á húsnæðisvandann. Ekki vil ég gera lítið úr honum. En kannski finnst yfirvöldum lítil eftirsjá í svona villigróðri í miðju borgarlandinu.


Holtasóley
Og auðvitað er svo þarna að finna þjóðarblómið sjálft, Holtasóley, sem stingur upp hvítum kollinum í umferðarniðnum og lætur sér fátt um finnast enda þekkir það ekki örlög sín frekar en aðrir. Fyrir þessu eilífðar smáblómi er hver dagur í það minnsta þúsund ár og þúsund ár varla nema einn dagur.


Hitafar í Reykjavík að loknum fyrri hluta ársins

Árið 2017 er hálfnað og því tilvalið að birta mánaðarhitasúluritið sem dúkkar annars upp hér öðru hvoru og sýnir hvernig meðalhitinn í Reykjavík stendur sig í samanburði við tvö fyrri tímabil. Að venju standa fjólubláu súlurnar fyrir meðalhita þeirra mánaða sem liðnir eru af árinu en til samanburðar eru annars vegar síðustu 10 ár (rauðar súlur) og hinsvegar 30 ára viðmiðunartímabilið (bláar súlur) sem enn er í gildi og uppnefnist hér "kalda meðaltalið" vegna þess hversu kalt það var í raun. Lengst til hægri eru auk þess nokkrar árshitasúlur. Allt eins og áður hefur verið boðið upp á.

Mánaðarhitar Rvik 2017 - 6 mánuðir.

Þótt hitinn núna í júlíbyrjun sé heldur í daprara lagi þá má vel una við það sem liðið er af árinu. Febrúar og maí koma mjög vel út og eru hátt yfir 10 ára meðaltalinu (2007-2016). Enginn mánuður er sérstaklega svalur nema kannski apríl sem rétt nær yfir kalda meðaltalið og bara lítillega hlýrri en febrúar. Um framhaldið vitum við ekki mikið annað en að nokkur skortur gæti orðið á sumarhlýindum næstu daga. Nóg er samt eftir en það má minna á að seinni hluti ársins í fyrra var mjög hlýr og endaði árið 2016 í 6,0 stigum sem er með því hæsta sem gerist, en fátt benti hinsvegar til þess um mitt ár í fyrra.

En brugðið getur til beggja vona eins og frægt er og þá koma árshitasúlurnar hægra megin til sögunnar. Litatónuðu súlurnar tvær segja til um hvar árshitinn getur endað ef seinni hluti ársins verður með hlýrra eða kaldara móti. Ef framhaldið verður í kalda meðaltalinu þá verður árshitinn 5,16 stig, samkvæmt mínum útreikningum, sem þó er ekkert sérlega lélegt enda svipað meðalhitanum í Reykjavík á gömlu hlýju árunum sem margir eldri borgarar dásama. Verði meðalhitinn hinsvegar í hlýja 10 ára meðaltalinu mun árshitinn enda í 5,75 stigum sem er bara mjög gott. Alltaf er síðan möguleiki á eindregnum öfgum í aðra hvora áttina en best er að vera ekki að reikna mikið með því. Hófleg svartsýni á áframhaldandi hlýindi á þessu ári er þó alveg raunhæf og heilbrigð að mínu mati.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband