Hlýi geirinn í öllu sínu veldi

Fyrir veðuráhugamann eins og mig þá eru stórviðri af öllu tagi hin mesta skemmtun svo lengi sem húsið heldur vatni og vindum. En þá er að hella sér út í veðrið. Lægðin sem olli óveðrinu núna á föstudaginn var óvenjuleg miðað við aðrar lægðir í vetur af því leyti að nú fengum við stóran skammt af hlýju lofti og vorum í þessu hlýja lofti í 9 klukkustundir, eða frá kl. 15 og alveg til miðnættis, allavega hér í Reykjavík. Þetta hlýja loft sem fylgir öllum lægðum og knýr þær áfram er oft kallað "hlýi geirinn" og það er að finna á milli hitaskila lægðarinnar og kuldaskilanna sem fylgja á eftir. Hlýi geirinn sem heimsótti okkur að þessu sinni var vel opinn á okkar slóðum en ekki  þröngur eins og oft áður sem hafði sitt að segja. Almennt þá hreyfast kuldaskilin að baki hlýja geirans hraðar heldur en hitaskilin og því þrengist um hlýja loftið við yfirborð eftir því sem lægðin þróast. Þar sem kuldaskilin hafa náð að elta hitaskilin uppi missir hlýja loftið jarðsamband og myndast þá samskil sem oftast eru lituð fjólublá á skilakortum eins og því hér að neðan frá Bresku veðurstofunni. Skilasameiningin gerist fyrst næst lægðarmiðjunni og þróast síðan áfram. Kortið gildir á miðnætti að loknum föstudeginum þegar kuldaskilin voru komin upp að landinu.

MetOffice 23. febrúar 2018

Loftið í hlýja geiranum er oftast talið vera stöðugt enda er þar á ferðinni hlýtt loft sem berst yfir kaldari svæði, öfugt við til dæmis éljaloftið sem á uppruna sinn af kaldari svæðum. Veðrið sjálft í hlýja geiranum er líka gjarnan stöðugt og eindregið. Það er í fyrsta lagi hlýtt og rakt og fer yfir með jöfnum vindi sem getur verið sterkur eins og núna á föstudaginn. Einkenni hlýja geirans komu mjög vel fram á línuritum hér að neðan, sem ég fékk á vef Veðurstofunnar. Þar sést vel hvernig veðrið breytist fyrst þegar hitaskilin ganga yfir um kl. 15 (rautt strik) og síðan þegar kuldaskilin komu um miðnætti (blátt strik) en strikin eru viðbót frá mér. Tímabilið milli skilanna litaði ég bleikt en það er einmitt þá sem við erum í hlýja geiranum. Eins og sést þá er hitinn allan tímann á bilinu 7-8 stig í hlýja loftinu, úrkoman er talsverð allan tímann og raunar óvenju mikil, vindhraðinn heldur sér í um 16 m/sek og er meiri í hviðum. Vindáttin er stöðug af suðaustri allan tímann.

Hlýi geirinn 23. feb línurit VÍ

Það sem sennilega var óvenjulegt við þennan hlýja skammt af lofti var úrkomumagnið en oftast er úrkoman í hlýja geiranum meira í formi súldar sem myndast þegar hlýtt og rakt loftið þéttist þegar það kemst í kynni við kaldara yfirborð sjávar. En þetta var líka mjög djúp lægð enda vindurinn samkvæmt því.

Best er annars að fara varlega í skýringar á þessu enda er ég bara sjálfmenntaður heimilisveðurfræðingur. Ég þykist þó vita að þetta hlýja loft muni halda áfram lengra í norður og leggja sitt af mörkum til að viðhalda þeim miklu hlýindum sem ríkja núna við Norður-Íshafið alveg upp að Norðurpól. Í viðleitni til að viðhalda einhverju jafnvægi í veröldinni mun hæðin í austri senda kalt loft undir sig til að hrella Evrópubúa á meginlandinu. Hér hjá okkur er von á endurkomu á hlýju lofti og verður það enginn hlýr geiri heldur stór hæðarknúin hlýindaframsókn sem gæti síðar snúist í andhverfu sína. Já, það er nóg að gera í þessu. Sýni hér að lokum hitafar á norðurslóðum þar sem sýnd eru hlýindi og kuldar sem frávik frá meðalhita. Ansi miklir öfgar og óvenjulegheit í þessu.

Hiti norðurslóðir 24. feb 2018

- - - -

Veðurkort MetOffice: https://www.metoffice.gov.uk/public/weather/surface-pressure

Línuritin frá Veðurstofunni: http://www.vedur.is/vedur/athuganir/kort/faxafloi/#group=11&station=1

Neðsta myndin: http://cci-reanalyzer.org/wx/DailySummary


Fleksnes og Halló Hafnarfjörður

FleksnesÞeir sem komnir eru til vits og ára og muna tímana tvenna hljóta einnig að muna eftir Norsku gamanþáttunum um Fleksnes sem sýndir voru í sjónvarpinu á áttunda áratugnum. Fleksnes þessi gerði sér ýmislegt til dundurs en tókst misvel upp í sínu lífi eins og gengur og gerist, ekki síst þegar samborgararnir ganga ekki alveg í sama takti. Eftirminnilegasti þátturinn um Fleksnes er þegar við fáum innsýn í það áhugamál hans spjalla í talstöð sem svokallaður radíóamatör. Slíkt var vinsælt hjá sumum á sínum tíma, einkum á meðal græjufíkinna karlmanna, en þetta var auðvitað löngu fyrir daga nútíma samfélagsmiðla. Þetta var kærkomið áhugamál fyrir Fleksnes sem gaf lífinu gildi enda átti hann með aðstoð tækninnar, vini út um allan heim - að vísu engan í Noregi. Og þarna kemur Hafnarfjörður við sögu því auðvitað á Fleksnes radíóvin í Hafnarfirði.

Þegar þátturinn var sýndur á sínum tíma hér á landi vakti hann auðvitað athygli því það var ekki á hverjum segi sem Ísland kom við sögu í útlenskum þáttum. Hvað þá Hafnarfjörður? Síðan þá hefur orðatiltækið "Halló Hafnarfjörður" gjarnan verið notað þegar sá kaupstaður ber á góma. Mig grunar að fæstir viti eða muni hvaðan þessi kveðja er komin, nema auðvitað einhverjir af þeim sem virkilega eru komnir til vits og ára. Ætli ég hafi ekki verið að horfa á Útsvarið í Sjónvarpinu þegar mér datt í hug hvort ekki væri hægt að finna þennan umrædda þátt með Fleksnes. Það reyndist vera lítið mál. Þátturinn er frá árinu 1972 og er 1. og 2. hluti af þremur hér á you-túpunni. Hafnarfjarðaratriðið hefst á 8:30 í fyrri hlutanum en heldur áfram í upphafi 2. hluta.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband