Goslok á Hawaii

Nú virðist sem gosinu á Hawaii sem hófst snemma í maí og kennt hefur verið Kilauea eldstöðina sé lokið. Ekki er þó þar með sagt að allt sé yfirstaðið þarna því eldvirkni á þessari austustu eyju eyjaklasans er eiginlega sagan endalausa. Þetta gos hefur fyrst og fremst verið hraungos og minna aðstæður á margt sem á sér stað hér á landi, en Hawaii-eyjar eru annars sá staður þar sem hraunframleiðsla er mest hér á jörðu, fyrir utan Ísland að sjálfsögðu. Þarna á austustu eyjunni, sem oft er kölluð Big Island en heitir í raun Island of Hawaii, er kvikuuppstreymi tengt möttulstrók eins og hér. Kilauea er eldstöð sem á framtíðina fyrir sér og er sennilega að taka við aðalhlutverkinu af gömlu Mauna Loa risadyngjunni sem gnæfir þar yfir. 

Hawaii 6. juni

Eins og ég hef sagt í fyrri pislum um þessa atburði þá er hefur hið eiginlega eldgos ekki verið í Kilauea því eins og í Bárðarbungu hefur kvikan leitað út úr eldstöðinni eftir sprungurein neðanjarðar í austur og norðaustur og náð yfirborði víðsfjarri sjálfri kvikuuppsprettunni. Með brotthlaupi kvikunnar frá Kilauea hefur þar orðið heilmikið öskjusig - eins og í Bárðarbungu, nema þarna er enginn jökull yfir. Um 40 kílómetrum austur af Kilauea gígnum náði kvikan svo yfirborði á byggðu svæði. Fyrst með mislanglífum smáslettum sem röðuðu sér í beinni línu innan og utan byggðar. Eftir að krafturinn tók að aukast rann hraunið stystu leið til sjávar um strjálbýlt svæði til að byrja með. Fasaskipti urðu svo á gosinu þegar kvikuupstreymið ákvað að takmarka sig við eina stutta gossprungu, eða þá áttundu sem hafði upphaflega opnast á fyrstu dögunum. 

Með enduruppvakningu gossprungu nr. 8 færðist enn meiri kraftur í gosið og nú fór hraunið að renna norður fyrir fyrri sprungur, áfram í norðaustur og leitaði loks til sjávar við austurenda eyjarinnar og kaffærði þar á stuttum tíma heilmikilli byggð er nefnist Vacaitonland sem stóð við fallega vík. Hraunútrásin til sjávar færðist þaðan til suðurs og bætti við strandlengjuna á löngum kafla.

Hraunrennsli Hawaii águst 2018

Nú þegar öllu er lokið, í bili að minnsta kosti, er heildarflatarmál nýrra hrauna 35.5 ferkílómetrar sem er svo til jafn mikið og flatarmál þess sem kom upp í Kröflueldum á árunum 1975-1984, þannig að þetta er talsvert hraun. Flatarmál Holuhrauns hins nýja er hinsvegar 85 ferkílómetrar enda mesta hraungos á Íslandi frá Skaftáreldum. Kortið er frá USGS (U.S. Geological Survey) með smá viðbótum frá mér.

Hawaii gosgígur nr8

Myndin hér að ofan frá USGS sýnir hvernig umrædd gossprunga nr. 8 lítur út eftir hamfarirnar. Kominn er hinn sæmilegasti gígur með hrauntröð út frá gígopinu. Nokkuð kunnuglegt fyrir okkur hér á landi. Rétt ofan við gíginn sér í íbúabyggð sem sloppið hefur með skrekkinn en alls munu eitthvað um 700 heimili hafa horfið undir hraun.

Kilauea águst 2018

Svo er það sjálf Kilauea dyngjan með sinni miklu öskju sem sigið hefur hefur heilmikið frá því í maí í vor eins og hringsprungurnar bera með sér. Í miðju öskjunnar var þarna stutt í kviku og áður en hún hljópst á brott var þarna rauðglóandi kvikutjörn eftir væna innspýtingu að neðan. Ekki var þó um eldgos að ræða þarna en gufusprengingar voru í gígnum í sumar eftir því sem hann féll meira niður. Allt hefur þó verið með kyrrum kjörum þarna síðustu daga og frekara sig ekki átt sér stað.

- - - -

Heimildir og myndir: https://volcanoes.usgs.gov/volcanoes/kilauea/multimedia_chronology.html

Fyrri pistlar um sömu atburði:

6. maí. Aðstæður skoðaðar á Hawaii með hjálp korta

12. maí. Freatoplínískt þeytigos yfirvofandi á Hawaii

19. maí. Meira af Hawaiieldum

6. júní. Víkurbyggð á Hawaii hverfur undir hraun


Sjálfvirka þulan og Hrafninn flýgur

Yfir mörgu má kvarta svona almennt og vissulega eru umkvörtunarefni misalvarleg. Eitt er það atriði sem hefur hvað eftir annað valdið pirringi hjá undirrituðum en það er það sem ég kalla sjálfvirka þulan í Sjónvarpi allra landsmanna og þá sérstaklega hvernig hún kemur inn í lok dramatískra kvikmynda og kynnir næsta dagskrárlið af mikilli ákveðni. Reglan virðist vera sú að skella á sjálfvirku þulunni eftir að síðasta setningin hefur verið sögð í myndinni og rétt áður en kreditlistinn birtist. Akkúrat sú stund í kvikmyndum er oft ákaflega mikilvægt og viðkvæmt augnablik fyrir upplifunina enda vandlega úthugsað að hálfu leikstjóra og annarra sem sjá um lokafrágang kvikmyndanna og spilar tónlistin þar oft stórt hlutverk.

Síðasta dæmi um þetta og alveg dæmigert var núna sl. sunnudagskvöld þegar Sjónvarpið sýndi Hrafninn flýgur eftir Hrafn Gunnlaugsson. Þá ágætu kvikmynd hefur maður reyndar séð alloft en hún vakti athygli á sínum tíma út fyrir landsteinanna og varð til þess Hrafn hélt áfram að gera myndir í sama stíl - reyndar með misgóðum árangri. Kvikmyndin Hrafninn flýgur er kannski full langdregin og einhæf á köflum en málið er þó að sagan er einföld og segir með sterku lokaatriði hvernig hefndin heldur áfram milli kynslóða. HrafninnGestur (Jakob Einarsson), hefnir föður síns sem veginn var á sínum tíma af tveimur fóstbræðrum leiknum af Flosa Ólafssyni og Helga Skúlasyni. Þegar Gestur hafði með kænsku sinni att fóstbræðrunum saman þannig að liðsmenn lágu í valnum hver af öðrum var komið að lokauppgjörinu þegar Gestur fellir aðalskúrkinn (Helga Skúla) sem hafði einmitt rænt systur Gests (Eddu Björgvins) eftir að föðurmorðið átti sér stað á sínum tíma, tekið hana sem eiginkonu og átti þarna með henni son á barnsaldri. Að öllum vígaferlum loknum segir Gestur að hér eftir muni penninn taka við af sverðinu og gróf vopnin í jörðu við túnfót hins fallna föðurmorðingja og hélt síðan á brott. Systirinn vildi ekki fylgja bróður sínum á brott en stóð nú uppi með son sinn sem nú syrgði sinn föður sárt. Myndin hefði getað endað þannig en allra síðasta atriðið gerði þó gæfumuninn og kvikmyndina að því sem hún var. Litli strákurinn var ekki nógu ungur til að gleyma. Hann gekk rakleitt að þeim stað sem vopnin voru falin, gróf þau upp og horfði á eftir Gesti með hefnd í huga. Nærmyndin af stráknum með vopnin í höndum var lokaandartak og grundvallaratriði myndarinnar, dramatíkin í hámarki með tilheyrandi tónlist - eitt áhrifamesta lokamóment í íslenskri vil ég meina, sem ég ætlaði að njóta enn einu sinni til botns þetta sunnudagskvöld. En hvað gerist? Jú, kemur þá ekki sjálfvirka þulan á viðkvæmasta mómentinu og tilkynnir næsta dagskrárlið hátt og snjallt: “TIL HEIÐURS BEE GEES” og svo einhver heilmikil romsa um það á meðan hljóðið í myndinni er lækkað á þessu grundvallaraugnabliki.

Hrafninn flýgur er annars ekki aðalatriði þessarar bloggfærslu, heldur hin sjálfvirka þula sem á sínum tíma kom í stað sjónvarpsþulanna góðkunnu sem birtust á milli dagskrárliða og kynntu það sem kæmi næst. Sjálfsagt hefur það þótt of kostnaðarsöm útgerð að vera með stífmálaðar þulur á vaktinni heilu kvöldin, jafnt um helgar sem virka daga. Það hlýtur þó að vera hægt að gera þetta af meiri smekkvísi. Sú sem ljáir þeirri sjálfvirku rödd sína er landsþekkt söng- og leikkona og hefur líklega ekkert með þetta fyrirkomalag að gera þótt almennt mætti hún lesa sinn texta með blíðari tón. Fyrir mig sem horfir reglulega á RÚV eru sjálfvirkar kynningar á dagskrárefni fram í tímann oft afar þreytandi og þá er ég ekki bara að tala um það sem kemur í lokaatriði mynda. Væntanlegir sjónvarpsþættir eru kynntir í tíma og ótíma, stundum langt fram í tímann og svo hvað eftir annað. Þá er eins gott að fjarsýringin sé ekki langt undan svo hægt sé að lækka í hljóðinu eða draga alveg niður í því.

 

sjalfvirka þulan

 


Skýstrókar við Suðuströndina

Í gönguferð minni um Grindarskörð og Hvirfil ofan Lönguhlíðar varð ég vitni af skýstróknum við Þorlákshöfn sem fjallað er um í viðtengdri frétt og náði hinum sæmilegustu myndum af fyrirbærinu. Ekki nóg með það því skömmu eftir að strókurinn leystist upp fór annar að myndast nálægt Selvogi að mér sýndist. Yfir þetta hafði ég ágætis útsýni en gjarnan hefði ég viljað hafa almennilegu myndavélina meðferðis í stað símamyndavélarinnar. Myndirnar segja þó sýna sögu og eru teknar þann 1. ágúst 2018 milli kl. 15 og 16.

Skýstrókur Þorlákshöfn 1

Kl. 15:19. Þessi fyrsta mynd er tekin í átt að Þorlákshöfn og sjá má litla mjóa totu teygja sig niður úr bólstraskýinu.

Skýstrókur Þorlákshöfn 1

Kl. 15:25. Totan hefur lengst og var hér orðin að löngum mjóum spotta sem virtist ná langleiðina til jarðar. Myndin er tekin á svipuðum stað og sú fyrri en sjónarhornið er þrengra. Skömmu síðar leystist hvirfillinn upp og sást ei meir.

Skýstrókur Selvogur

Kl. 15:36. Hér er horft lengra í vestur í átt að Selvogi en þarna virðist nýr skýstrókur vera byrja að skrúfast ofan úr skýjunum.

Skýstrókur Selvogur 2

Kl. 15:40. Sama sjónahorn og á myndinni á undan en þarna er nýi skýstrókurinn fullmyndaður. Hann er heldur breiðari um sig en sá fyrri, nær beint niður og svífur ekki um eins og hinn gerði. Væntanlega hefur hann ekki gert mikinn usla á jörðu niðri en kannski náð að róta einhverju upp mjög staðbundið. Þessi skýstrókur varði í nokkrir mínútur í þessu formi.

Skýstrókur Selvogur 3

Kl. 16:02. Um 20 mínútum eftir að skýstrókurinn fór um Selvoginn, helltist úrkoman úr skýinu.

Útsýni til borgarinnar

Horft frá sama stað í hina áttina þar sem sést til Höfuðborgarsvæðisins. Helgafell er þarna vinstra megin og Húsfellið er hægra megin. Miklir hvítir skýjabólstrar eru yfir Esju en veðrið er annars mjög meinlaust. Mikill óstöðugleiki er greinilega þennan dag, kalt í efri lögum og talsverður raki í lofti sem þéttist í uppstreyminu. Um morguninn hafði þokuslæðingur legið yfir sundunum.

Hvað veldur því að svona greinilegir skýstrókar hafi myndast þennan dag vil ég segja sem minnst. Þessir strókar eru auðvitað ekkert sambærilegir þeim sem myndast í USA, bara smá sýnishorn. Öflugt uppstreymi hér á landi er þó ekki óalgengt sérstaklega ekki yfir sólbökuðum söndunum við Suðurströndina. En oftast er uppstreymið nánast ósýnilegt. Þennan fyrsta dag ágústmánaðar hefur rakinn hinsvegar verið nægur til að þétta rakann í uppstreyminu og gera það sýnilegt þegar loftið skrúfast upp í loftið eins og öfugt niðurfall í vatnstanki.

- - -

Viðbót 2. ágúst: Ranaský (funel cloud) er eiginlega réttara heiti yfir þetta fyrirbæri sem myndaðist þarna, samkvæmt því sem Trausti Jónsson segir á Fésbókarsíðu Hungurdiska. Alvöru skýstrókar eru stærri og öflugri fyrirbæri. En hvað sem þetta kallast þá var þetta óvenjuleg sjón og ég held útskýring mín á fyrirbærinu sé ekki fjarri lagi.

 


mbl.is Skýið teygði sig til jarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband