Skjálftar í Öræfajökli

Ekki getur maður neitað því að það örli á smá spennutilfinningu hjá manni þegar eitt mesta og hæsta eldfjall landsins fer að sýna af sér hegðun sem gæti verið vísbending um að þar séu kannski einhverjir stærri atburðir í vændum. Ég legg nú ekki í að fara að spá einhverju en allavega þá er það staðreynd jarðaskjálftar hafa mælst nær daglega í Öræfajökli núna í haust og farið á bera á því í fréttum. Óróleikann má þó rekja lengra aftur, jafnvel nokkur ár en jarðskjálftavirkni hefur ótvírætt farið vaxandi á þessu ári hvað sem það boðar. Einhver þensla og tilfærsla mælist þarna sem þýðir að fjallið er eitthvað að bólgna út en þó virðast jarðvísindamenn ekki alveg vissir um hvað þarna sé á ferðinni. Farglétting vegna bráðnandi jökuls gæti verið hluti af skýringunni en eins og kunnugt er þá rís landið upp þegar fargið ofan á því minnkar. Hvort að það gæti aftur verið skýringin á því að kvika sé mögulega á hreyfingu undir fjallinu veit maður ekki og ekkert víst að nokkur tengsl gætu verið þar á milli varðandi þessa skjálfta.

Öræfajökull skjálftar 4. nóv 2017
En ef við segjum að þarna sé kvika að safnast fyrir þá vitum við ekkert hvort slíkt eigi eftir að leiða til eldgoss í náinni framtíð og ef þetta er fyrirboði eldgoss þá vitum við heldur ekkert hversu langt sé að bíða þar til atburðir gerast. Vikur, mánuðir eða nokkur ár? Ekki spyrja mig, enda veit ég ekkert um það frekar en aðrir.

Við vitum þó hvernig eldstöðin er í sveit sett og þekkjum söguna. Árið 1362 var þarna mesta þeytigos Íslandssögunnar sem gjöreyddi blómlegri byggð sem þá hét því krúttlega nafni Litla-Hérað enda undu menn þar glaðir við sitt og smjör draup af hverju strái áður en ósköpin dundu yfir. Heldur verra var þó flest fólkið stráfell einnig, enda krafturinn í gosinu þvílíkur að strókurinn náði því stigi að hrynja í svokölluðum gusthlaupum í stíl við það sem gerðist í Vesúvíusi forðum. Þar við bættust jökulhlaupin sem æddu niður af jökli næstum strax eftir upphaf hamfaranna öllum að óvörum enda löngu fyrir tíma Almannavarna ríkisins. Seinna gosið í Öræfajökli eftir landnám varð árið 1727 það var minna í sniðum og olli mun minna tjóni en sveitin var þá reyndar ekki nema svipur hjá sjón frá dögum Litla-Héraðs sem reyndar fékk heitið Öræfasveit eftir eyðinguna 1362.

Helstu eldstöðvar landsins virðast annars vera til alls líklegar um þessar mundir en þó alls óvíst hvar næsta gos ber uppi. Ef Öræfajökull lætur til sín taka þá má hafa í huga að hann stendur utan við gliðnunarbelti landsins sem þýðir að það eru ekki neinar virkar sprungureinar út frá honum. Kvikan mun því ekki ferðast langa vegalengd áður en hún kemur upp eins og tilfellið var með Bárðarbungu sem að lokum skilaði kviku af sér vel utan jökuls. Öræfajökull mun bara gjósa með látum þar sem hann er, en mögulega gæti eitthvert hraunrennsli átt sér stað ef gossprungur opnast í hlíðunum utan sjálfs jökulsins, svona svipað og gerðist á Fimmvörðuhálsi. Jökulhlaupin eru svo sér kapítuli en stuttur tími líður frá upphafi goss þar til þau taka að ógna samgöngum og raunar telja viðbragðsaðilar að forða þurfi fólki af svæðinu áður en gos hefst, takist mönnum að tímasetja það á annað borð.

Þótt örli á smá hamfarspennufíkn í manni þá vonast maður auðvitað að það gerist sem minnst þarna. Full ástæða er hinsvegar til að fylgjast með gangi mála og það gera auðvitað líka opinberir ábyrgðaraðilar sem munu vinsamlegast láta okkur vita ef eitthvað þarf að óttast. Áhugamenn hafa líka eitthvað um málið að segja og standa vaktina og má þar sérstaklega benda á Jarðfræðibloggið hans Jóns Frímanns, þar sem fylgst er með málum og ýmsar vangaveltur koma fram um stöðu mála í eldstöðvum landsins.

Af vef Veðurstofunnar má svo benda á þetta hér: Nýir jarðskjálftamælar við Öræfajökul

 


Bloggfærslur 4. nóvember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband