Veðrið á sumardaginn fyrsta 1987-2017

Ég hef tekið hér saman létt yfirlit yfir veðrið sumardaginn fyrsta í Reykjavík allt frá árinu 1987 sem byggist á mínum eigin skráningum og á að lýsa einkennisveðrinu yfir daginn. Sumardagurinn fyrsti er alltaf á fimmtudegi á tímabilinu 19.-25. apríl þegar enn er allra veðra von, eins og við höfum reynslu af, en sérstaklega er það hitastigið sem gjarnan á erfitt með að ákveða hvaða árstíð það vill tilheyra. Eins og sést á töflunni er þó yfirleitt nokkuð sólríkt á þessum árstíðaskiptum og að sama skapi þurrt. Köldustu dagarnir dóla sér nálægt frostmarkinu og þeir hlýjustu vippa sér yfir 10 stigin eins og ekkert sé. Engin regla er í vindafarinu fremur en endranær en það má nefna að hægviðrasamir dagar eru þarna táknaðir með hlykkjóttri pílu úr viðkomandi vindátt og tvöföld píla er vindur af tvíefldum styrk. Síðasti dálkurinn er einkunn dagsins á skalanum 0-8, fengin með ákveðnu kerfi sem ég nenni ekki að útskýra nema ef einhver spyr. Eini sumardagurinn fyrsti sem fær fullt hús stiga er árið 2004 og gerir það með miklum glans. Ekki þurfti þó að kvarta árin 1996, 2001 og 2007 þótt sá síðastnefndi hafi verið í svalara lagi. Það stefnir reyndar ekki í mikið sumarveður að þessu sinni á þessum annars ágæta degi. Hefðbundin veðurbókarskráning mun fara fram í lok dags, en ég er þó að hugsa um að bæta við skráningu dagsins eftir kvöldmat.

Sumardagurinn fyrsti

Skráning dagsins er nú komin inn og óhætt að segja að veðrið hafi verið afar fjölbreytt. Bjart var með köflum og stöku él. Hitinn fór í 4 stig í sólinni en kólnaði á meðan élin gengu yfir. Vindur nokkuð sterkur úr vestri fyrri partinn en lægði heldur er leið á daginn. Veðureinkunn dagsins er 3 stig, þar af tvö stig fyrir veðurþáttinn og eitt stig fyrir hitann. Ekkert fyrir vindinn.


Bloggfærslur 20. apríl 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband