Staðan á bræðslumálum á norðurslóðum

Hafísbráðnun sumarsins er nú komin í fullan gang á Norður-Íshafinu og mun halda áfram fram í september þegar hinu árlega lágmarki í hafísútbreiðslu verður náð. Þegar ég "hitaði upp" fyrir bræðslusumarið fyrir mánuði þá gældi ég við þann möguleika að það yrði minni hafís þarna í norðri en áður hefur sést á vorum dögum. Einnig boðaði ég stöðuuppfærslu að mánuði liðnum sem er akkúrat það sem kemur hér.

Og hver er svo staðan? Er eitthvað óviðjafnanlegt í uppsiglingu? Eiginlega er ég ekki alveg eins viss um það og fyrir mánuði. Þrátt fyrir vísbendingar um þynnri og veiklulegri hafís en áður hefur sést, eftir mjög svo hlýjan vetur, þá hefur bráðnunin ekki farið neitt óvenjulega hratt af stað þótt vissulega sé fullur gangur á henni. Svo virðist sem hlýindunum í vetur hafi fylgt töluverð snjókoma á norðurslóðum sem dýrmætur tími hefur farið í að vinna á sem hefur sitt að segja upp á framhaldið. Nokkuð sólríkt hefur verið á Íshafinu en jafnframt án verulegra hlýinda úr suðri. Á línuriti frá bandarísku snjó- og hafísmiðstöðinni, NSIDC, má bera saman stöðuna við fyrri ár að eigin vali og hér eru það síðustu 10 ár sem eru til samanburðar. Sjálfur hef ég fiktað í litum og bætt við upplýsingum.
Hafislínurit júní 2017
Dökkblái ferillin stendur fyrir 2017 og er útbreiðslan þann 20. júní mjög nálægt því sem hún var á sama tíma árin 2010, 2011, 2012 og 2016 þótt það sjáist ekki vel í kösinni. Öll önnur ár frá upphafi gervitunglamælinga 1979 eru ofar eða mun ofar. 2016 hefur nánast misst forystuna í minnstu hafísútbreiðslu á þessum tímapunkti eftir að hafa verið afgerandi lægst vikurnar á undan. Árið 2012, sem er núverandi handhafi sjálfs lágmarksmetsins mikla, er þarna komið í baráttuna eftir nokkuð víðfeðma vetrarútbreiðslu. Minni eigin spá, sem ég gerði fyrir mánuði, er þarna bætt við í ljósbláum lit og er sá ferill ögn neðar en raunveruleikinn segir til um núna þótt ekki muni mjög miklu. Raunar er nægur tími til að elta spána uppi ef aðstæður leyfa.

Til að skoða stöðuna nánar þá koma hér, eins og í síðasta yfirliti, tvö kort sem sýna dreifingu íssins og áætlaða þykkt, sem skiptir ekki litlu máli. Til vinstri er kort frá 18. júní 2016 og samskonar kort fyrir sama dag núna í ár, 2017.
Ísþykkt júní 2016 og 2017
Gulgræni liturinn á 2016-kortinu er til vitnis um rúmlega 3ja metra þykkan ís á allstóru svæði sem varla er að finna á 2017-kortinu hægra megin, og ætti að gefa árinu í ár nokkuð forskot að þessu leyti þótt ísinn núna sé almennt nokkuð þéttur og fastur fyrir þar sem hann er enn er til staðar. Sjá má þó að ísinn er farin að hörfa verulega undan ströndum Síberíu og opin svæði farin að myndast þar. Óvenju opið svæði er einnig núna inn af Beringssundi milli Alaska og Síberíu. Aftur á móti er meiri ís við Svalbarða og almennt norður af Atlantshafi enda hafði mikill ís leitað þangað í vetur. Spurning er hversu mikið hafísbreiðan á eftir að dragast saman á miðhluta Norður-Íshafsins en mestallur ís á jaðarsvæðum svo sem á Hudson-flóa og umhverfis Baffinsland á eftir að bráðna í sumar samkvæmt venju. Spurning er þó hvort norðvesturleiðin um Ameríku eigi eftir að opnast eins og stundum hefur gerst, en norðausturleiðin norður fyrir Rússland ætti þó að verða nokkuð greið þegar á líður.

Framhaldið ræðst svo auðvitað af veðrinu - og talandi um það þá gerist það núna eftir nokkuð hægviðrasama og bjarta tíð að stóreflis lægð er að koma sér fyrir nálægt norðurpólnum. Lægðir á þessum slóðum geta ýmist tafið fyrir bráðnun eða gert mikinn usla á ísbreiðunni. Með lægðum eykst skýjahula sem hindrar bráðnun á bjartasta tíma ársins. En sumarlægðum fylgir einnig rigning ef nógu hlýtt loft fylgir en staðsetningin núna er reyndar þannig að hlýtt loft frá suðlægari svæðum berst yfir Íshafið og herjar á ísinn. Ekki skiptir síður máli að stóraukin hreyfing kemst á ísbreiðuna með tilheyrandi öldugangi ef opin hafssvæði hafa myndast. Á kortinu hér má sjá hina miklu hringhreyfingu á ísnum vegna lægðarinnar sem spáð er að muni ríkja þarna og gera sitt í allnokkra daga að minnsta kosti, í samvinnu við hæðarsvæði nálægt norðurströndum Kanada. Þetta er staða sem ekki er hliðholl ísnum og veitir ekki af ef sumarið ætlar að vera með í botnbaráttunni.

ísrek 20. júní 2017
Já það verður fróðlegt að fylgjast með þessu hafi maður áhuga á hafísmálum á annað borð og þá þakkar maður fyrir allar þær upplýsingar sem í boði eru á veraldarvefnum. Sjálfsagt er svo að taka stöðuna aftur eftir mánuð.

- - -

Kortin eru fengin héðan: https://www7320.nrlssc.navy.mil/hycomARC/arctic.html
Línurit og fróðleikur frá NSIDC: http://nsidc.org/arcticseaicenews/


Bloggfærslur 20. júní 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband