Hitafar í Reykjavík að loknum fyrri hluta ársins

Árið 2017 er hálfnað og því tilvalið að birta mánaðarhitasúluritið sem dúkkar annars upp hér öðru hvoru og sýnir hvernig meðalhitinn í Reykjavík stendur sig í samanburði við tvö fyrri tímabil. Að venju standa fjólubláu súlurnar fyrir meðalhita þeirra mánaða sem liðnir eru af árinu en til samanburðar eru annars vegar síðustu 10 ár (rauðar súlur) og hinsvegar 30 ára viðmiðunartímabilið (bláar súlur) sem enn er í gildi og uppnefnist hér "kalda meðaltalið" vegna þess hversu kalt það var í raun. Lengst til hægri eru auk þess nokkrar árshitasúlur. Allt eins og áður hefur verið boðið upp á.

Mánaðarhitar Rvik 2017 - 6 mánuðir.

Þótt hitinn núna í júlíbyrjun sé heldur í daprara lagi þá má vel una við það sem liðið er af árinu. Febrúar og maí koma mjög vel út og eru hátt yfir 10 ára meðaltalinu (2007-2016). Enginn mánuður er sérstaklega svalur nema kannski apríl sem rétt nær yfir kalda meðaltalið og bara lítillega hlýrri en febrúar. Um framhaldið vitum við ekki mikið annað en að nokkur skortur gæti orðið á sumarhlýindum næstu daga. Nóg er samt eftir en það má minna á að seinni hluti ársins í fyrra var mjög hlýr og endaði árið 2016 í 6,0 stigum sem er með því hæsta sem gerist, en fátt benti hinsvegar til þess um mitt ár í fyrra.

En brugðið getur til beggja vona eins og frægt er og þá koma árshitasúlurnar hægra megin til sögunnar. Litatónuðu súlurnar tvær segja til um hvar árshitinn getur endað ef seinni hluti ársins verður með hlýrra eða kaldara móti. Ef framhaldið verður í kalda meðaltalinu þá verður árshitinn 5,16 stig, samkvæmt mínum útreikningum, sem þó er ekkert sérlega lélegt enda svipað meðalhitanum í Reykjavík á gömlu hlýju árunum sem margir eldri borgarar dásama. Verði meðalhitinn hinsvegar í hlýja 10 ára meðaltalinu mun árshitinn enda í 5,75 stigum sem er bara mjög gott. Alltaf er síðan möguleiki á eindregnum öfgum í aðra hvora áttina en best er að vera ekki að reikna mikið með því. Hófleg svartsýni á áframhaldandi hlýindi á þessu ári er þó alveg raunhæf og heilbrigð að mínu mati.

 


Bloggfærslur 3. júlí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband