Allt í plasti

Plastströnd

Fyrir stuttu rak á fjörur mínar frétt erlendis frá sem greinir frá niðurstöðum þýskrar rannsóknar um uppruna plastmengunar í úthöfunum. Rannsóknin var birt í tímaritinu Environmental Science and Technology síðastliðið haust og kom þar fram að um 90% af plastinu kemur frá 10 stórfljótum í heiminum. Nánar tiltekið er um að ræða Níl og Nígerfljót í Afríku, Ganges og Indus á Indlandi, Gulafljót, Yangste, Haihe og Perlufljót í Kína, Mekong í Suðaustur-Asíu og Amur sem rennur um landamæri Rússlands og Kína. Árnar liðast um löndin eins og æðakerfi líkamans og þannig safnast í stórfljótin allt það plastrusl sem einu sinni hefur fundið sér farveg í lækjum og vötnum inn til landsins. Stórtækastar eru þó milljónaborgir í Suðaustur-Asíu og Afríku sem liggja gjarnan meðfram fljótunum eða við ósasvæði þeirra. Fleiri smærri ár víðsvegar um heiminn, aðrar en þær áðurnefndu, koma auðvitað líka við sögu enda eru fyrirkomulag sorpmála víða í algerum ólestri í þriðja heiminum. Í nóvember sl. var til dæmis frétt um fljótandi plasteyju í Karíbahafinu sem rakin er til fljóts sem rennur til sjávar í Hondúras eftir að hafa safnað í sig miklu plastrusli inn til landsins í Guatemala. Þannig geta sprottið upp milliríkjadeilur um ábyrgð og lausn á staðbundnum vandamálum.

En plastvandinn er ekki staðbundinn heldur hnattrænn vandi sem fer sífellt versnandi eins og svo margt annað sem tengist lifnaðarháttum mannsins. Heilmikil vitundarvakning hefur átt sér stað meðal almennings hér á landi þótt lítið virðist hafa verið vitað um uppruna plastsins svona almennt. Áherslur til úrbóta hafa ef til vill verið nokkuð handahófskenndar. Aðaláherslan hefur verið lögð á að takmarka notkun plastpoka við matarinnkaup sem í sjálfu sér er góðra gjalda vert en langflestir plastpokar enda reyndar ekki í sjónum heldur sem ruslapokar sem síðan fara út í tunnu ásamt öðru heimilisplasti, annað hvort til urðunar eða endurvinnslu. Ekkert hef ég þó séð um það hvort urðað plast valdi plastmengun í höfunum enda efast ég um að svo sé. Bent hefur verið á að heilmiklu af rusli er losað í sjóinn frá skipum og veiðarfæri eiga það til að losna upp og valda miklum skaða í lífríkinu. Þá hefur komið fram að þvottur á fatnaði úr gerviefnum (t.d. flísfatnaðar) sé stór uppspretta smárra plastagna í sjónum auk þess sem ýmis snyrtiefni innihalda plastagnir.

Margt þyrfti að gera á mörgum sviðum hvar sem er í heiminum. En eins og gjarnan þar sem um hnattrænan vanda er að ræða þá hlýtur að vera árangursríkast að leysa vandann þar sem hann er mestur og einbeita sér að stóru uppsprettunum. Þess vegna hlýtur að vera gagnlegt að vita að megnið af plastinu í sjónum kemur frá nokkrum stórfljótum sem renna um lönd þar sem umhverfismál eru styttra á veg komin en hjá okkur fyrirmyndarfólkinu.

Sjá einnig hér: Rivers carry plastic debris into the sea


Bloggfærslur 21. janúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband