Veðurannáll 2003-2006 - Hlýindi og góðæri

Árin fjögur sem nú verða tekin fyrir er mikið merkistímabil til sjávar og sveita sem og í kauphöllum. Tímabilið hófst með meiri hlýindum en verið hafa hér landi á síðari tímum, og þrátt fyrir dálítil bakslög inn á milli þá voru öll árin hlý. Óhjákvæmilegt var að tengja þessi hlýindi við hina almennu hnattrænu hlýnun af mannavöldum þótt vissulega gátu duttlungar náttúrunnar einnig hafa komið þar nærri. En allavega, þá voru þarna fjölmörg ný hitamet sett á landinu og jöklar rýrnuðu sem aldrei fyrr. Og ekki nóg með það. Þetta voru miklir uppgangstímar í fjármálalífinu þar sem okkar snjöllu og útsjónarsömu útrásarvíkingar lögðu land undir fót og voru á góðri leið með að gera Ísland að viðskiptastórveldi - miðað við höfðatölu. Allar skuldsetningar voru af hinu góða og allt kom út í plús enda var þetta góðæri ólíkt öllum hinum fyrri sem endað höfðu með skakkaföllum.

Árið 2003 var meðalhitinn í Reykjavík 6,1 stig og árið þar með það hlýjasta í borginni í mælingasögunni. Tvö ár á hlýskeiði síðustu aldar, 1939 og 1941, voru áður þau hlýjust (5,9°C) en þá voru mælingar gerðar í miðbæ Reykjavíkur þannig að samanburður við fortíðina er aldrei alveg nákvæmur. Hinsvegar ef árinu 2003 er hnikað aftur um tvo mánuði þá fæst 12 mánaða tímabil með meðalhitann 6,6 stig sem er alveg einstakt, enda voru síðustu tveir mánuðir ársins 2002 afar hlýir. Misjafn er síðan eftir landshlutum hvort 2003 hafi verið allra hlýjasta árið eða ekki. Á Akureyri var til dæmis hlýrra árið 1933. Annars voru allir mánuðir ársins 2003 yfir meðallagi í hita í Reykjavík, minnstur var munurinn í maímánuði sem var bara örlítið ofan við meðallag. Apríl var mjög hlýr, aðeins 0,1 gráðu frá meti 1974, en bæði júní og ágúst voru hlýrri en nokkru sinni í Reykjavík, enda fór svo að sumarið var það hlýjasta sem mælst hafði í borginni. Þrátt fyrir hlýindin þá var sumarið fremur úrkomusamt á landinu. Í Reykjavík var júní t.d. með þeim úrkomusamari frá upphafi. Annars var veður almennt gott á árinu nema þá helst í febrúar sem var frekar leiðinlegur og mjög úrkomusamur. Snjólétt var yfir vetrarmánuðina en árið endaði þó í kulda og snjóþyngslum dagana fyrir áramót.

Árið 2004 var meðalhitinn í Reykjavík 5,6 °C. Þótt það sé hálfri gráðu kaldara en árið áður er það samt með hlýjustu árum. Fyrstu tvo mánuðina voru talsverðar sveiflur í hitafari en mars og apríl voru hinsvegar hlýir. Snjólétt var um veturinn, ekki síst til fjalla, skíðafólki til lítillar gleði. Það voraði snemma og sumarið var bæði hlýtt og frekar sólríkt. Hitinn í borginni náði 20° í júní sem telst ávallt til tíðinda. Mestu tíðindin voru hinsvegar hitabylgjan mikla í ágúst sem lifði lengst suðvestanlands. Hitinn fór þá yfir 20° í Reykjavík fjóra daga í röð og jafnvel einnig á nóttunni. Hæstur komst Reykjavíkurhitinn í 24,8° þann 11. ágúst sem var nýtt hitamet. Mestur hiti á landinu mældist þó á Egilsstöðum sama dag, 29,2 stig sem var nýtt landsmet fyrir ágústmánuð. Mjög misgott veður tók svo við um haustið með miklum hitasveiflum. Í október var hitinn undir meðallagi í fyrsta sinn í heila 30 mánuði. Kuldamet var slegið fyrir nóvember þegar næturfrostið í borginni fór niður í 15 gráður í annars frekar mildum mánuði. Í desember var veður hinsvegar mjög óstöðugt, bæði vindasamt og úrkomusamt.

Árið 2005 var meðalhitinn 5,1°C. Aftur kom því ár sem var hálfri gráðu kaldara en árið áður. Fyrstu vikurnar voru kaldar en í febrúar tóku við hlýrri S- og SV-áttir sem ollu því að mikill hafís tók að safnast saman fyrir norðan land, aldrei þessu vant. Hafísinn var mestur í mars en náði þó ekki landi að ráði nema vestur á Ströndum og við Grímsey. Þrátt fyrir hafísinn var mjög hlýtt í mars þriðja árið í röð. Dágóðan hlýindakafla gerði seinni partinn í apríl en seinni partinn í maí kólnaði heldur með þurrum en sólríkum norðanáttum. Ágætis veður var í júní og júlí fyrir utan þungbúinn og svalan kafla í júlí en ágúst var ekkert sérstakur. Haustið kom snemma að þessu sinni með snörpum norðanáttum og voru september og október samanlagt með allra kaldasta móti. Síðan tóku við umhleypingar sem héldust út árið.

Árið 2006 var hlýtt í Reykjavík, eða 5,4°C. Þetta var sjötta árið í röð sem árshitinn náði 5 stigum í borginni en það hafði ekki gerst áður. Fyrri part janúar var snjóþungt og kalt en síðan tók við milt veður og var febrúar sá hlýjasti síðan 1965. Miklir þurrkar voru SV-lands í mars og apríl sem ollu m.a. gífurlegum sinueldum á Mýrum. Eftir talsverð hlýindi á landinu fyrri partinn í maí, gerði ákaft norðanáhlaup með snjókomu norðanlands. Var það eitt sinn kallað Silvíu-Næturhretið hér á síðunni. Sumarið byrjaði hinsvegar mun betur fyrir norðan en þá var öllu þungbúnara suðvestan­lands. Seinni hlutann náði sumarið sér betur á strik fyrir sunnan. Haustið var mjög hlýtt þangað til að gerði norðan leiðindi í nóvember með tilheyrandi frosti. Í desember voru nokkur hressileg illviðri og þegar verst lét vikuna fyrir jól gerði asahláku með miklum flóðum í ám sunnanlands og skriðuföllum fyrir norðan. Strandaði þá einnig flutningaskip við Hvalsnes. Á aðfangadag var 8 stiga hiti í Reykjavík og sjálfsagt veglegar góðærisjólagjafir í pökkum.

Af ýmsum tíðindum hér heima og erlendis á tímabilinu má nefna að í mars 2003 létu Bandaríkjamenn verða að því að ráðast inn í Írak með gríðarlegum hernaðarþunga. Engin fundust þó gjöreyðingarvopnin. Ísland var í hópi nokkurra viljugra þjóða sem studdi innrásina opinberlega. Það kom þó ekki í veg fyrir að Bandaríska varnaliðið yfirgæfi landið í lok september 2006. Miklar hamfarir urðu í Asíu um jólin 2004 eftir risajarðskjálfta vestur af Súmötru í Indlandshafi sem olli mjög mannskæðri flóðbylgju í ýmsum strandríkjum. Mest þó í Indónesíu. Í ágúst 2005 gekk fellibylurinn Katrín á land við New Orleans og olli meðal annars miklum flóðum í borginni. Hér heima voru náttúrufarsþættir smærri í sniðum. Eins og oft áður voru skjálftar við Kleifarvatn. Þeir stærstu urðu í ágúst 2003, 5 stig og síðan annar upp á 4,6 í mars 2006 skv. samtímaheimildum. Í júní 2004 varð skjálftahrina úti fyrir Eyjafirði en ekkert af þessu olli tjóni. Ekki frekar en eina eldgosið á tímabilinu sem kom upp í Grímsvötnum í byrjun nóvember 2004 og greinilegt að aukið líf var að færast í eldstöðvarnar í Vatnajökli. En ekki gaus Katla.

Að lokum kemur veðurgrafík með sama hætti og í fyrri annálum.

Annáll 2003-06 hiti

Annáll 2003-06 einkunn

- - - -

Fyrri annálar í sama dúr:

Veðurannáll 1987-1990
Veðurannáll 1991-1994
Veðurannáll 1995-1998 - Umskipti
Veðurannáll 1999-2002

 


Bloggfærslur 16. nóvember 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband