Veðurannáll 2007-2010 - Hrun og meiri hlýindi

Árin fjögur sem nú verður fjallað um er ekki bara tímabil stórra atburða í sögu landsins heldur er það einnig merkilegt veðurfarslega séð og því verður þessi pistill af lengra taginu. Fram eftir árinu 2007 var ennþá allt á uppleið og Íslendingar á góðri leið með að sigra heiminn. Vendipunkturinn varð hinsvegar á miðju sumri sama ár þegar kólnun varð á erlendum fjármálamörkuðum og tímar lánsfjármagns á tombóluprís þar með liðnir. Og þar sem útrásin mikla hafði meira og minna verið fjármögnuð með lánum snérist þetta allt smám saman upp í eitt allsherjar ólán. Bólan sprakk svo um haustið 2008 þegar bankarnir féllu og í framhaldinu féll allt hvað um annað og þjóðin nánast á vonarvöl. Sjálf ríkisstjórnin sprakk (þó ekki bókstaflega) eftir búsáhaldabyltinguna í upphafi árs 2009. Erfiðir tímar tóku við þar sem mikið var þrasað og býsnast og sýndist sitt hverjum, ekki síst á hinum nýju samfélagsmiðlum, fyrst í bloggheimum og síðan á hinni nýtilkomnu fésbók. Og eins og stundum gerist í góðum ævintýrasögum þá fór auðvitað að gjósa ofan á allt annað, en það var reyndar gott og mikið gos sem spúði ösku yfir hafið - ekki síst til Breta sem áttu það svo sannarlega skilið eftir þá ósvífni að hafa sett á okkur hryðjuverkalög og krafið okkur um að standa skil á fjármagni sem útrásarmenn okkar véluðu útúr saklausu fólki þar í landi. En svo er það veðrið. Hvað það varðar er skemmst frá því að segja að á þessum árum héldu hlýindi áfram eins og ekkert hafði í skorist. Oftar en ekki lék veðrið við landsmenn, ekki síst Reykvíkinga sem þarna upplifðu hvert gæðasumarið á fætur öðru. Nánar um það hér á eftir þar sem farið er yfir tíðarfarið í stuttu máli.

Árið 2007 var hlýtt eins og undanfarin ár og mældist meðalhitinn í Reykjavík 5,5°C og er það sjöunda árið í röð sem meðalhitinn nær 5 gráðum. Árið byrjaði að vísu með frekar köldum og snjóþungum janúar en síðan tóku hlýindi við. Í febrúar var nærri stöðug austanátt og var mánuðurinn sá sólríkasti í borginni síðan 1947. Mars og apríl voru breytilegir en óvenjuleg hlýindi gerði í tvígang norðan- og austanlands í apríl með yfir 20 stiga hita þar sem mest var. Maí var síðan dæmigerður norðanáttamánuður með bakslagi í hita. Sumarið 2007 var hinsvegar mjög gott á landinu. Í júní færðist sólskin í aukanna eftir því sem á leið og var ríkjandi bjartviðri meira og minna suðvestalands fram í ágúst. Óvenju þurrt var ekki síður fyrir norðan í júní þegar einungis mældust 0,4 mm á Akureyri. Júlí var mjög hlýr og sá næst hlýjasti í Reykjavík frá upphafi (12,8°). Eftir allt þurrviðrið þá stal úrkoman algerlega senunni síðustu mánuðina en árið endaði sem úrkomumesta árið í Reykjavík frá 1921. September, október og desember­ voru umhleypingasamir og einstaklega úrkomusamir. Desember setti reyndar úrkomumet auk þess að vera óveðrasamur og sveiflukenndur í hita. Þrátt fyrir stormasöm áramót voru öflugar góðærisbombur sprengdar til að fagna nýju ári enda vissu fæstir hvað næsta ár myndi bera í skauti sér.

Árið 2008 var meðalhitinn 5,3°C í Reykjavík. Yfir vetrarmánuðina voru miklar hitasveiflur en ólíkt mörgum nýliðnum árum var lítið um langvarandi vetrarhlýindi. Nokkuð harkalega vetrartíð gerði upp úr miðjum janúar og framan af febrúar. Mars og apríl voru hinsvegar betri. Nú bar svo við maímánuður var hlýr, en í Reykjavík var hann sá hlýjasti síðan 1960. Áfram héldu hlýindi yfir sumarmánuðina en júní var einstaklega þurr og sólríkur suðvestanlands og sá næst sólríkasti í Reykjavík frá upphafi. Sólin skein þó víðar og var sumarið t.d. það fjórða sólríkasta á Akureyri. Undir lok júlí gerði hitabylgju og var þá nýtt hitamet sett í Reykjavík þegar hámarkshitinn mældist 25,7 stig en eldra metið hafði verið sett í ágústhitabylgjunni 2004. Stuttu eftir að landsmenn höfðu fagnað Ólympíusilfri í handbolta tók gamannið að kárna með rysjóttri tíð í september. Svo kom október, sjálfur hrunmánuðurinn, með kaldri tíð frá fyrsta degi og snjóaði þá strax í fyrstu viku mánaðarins í Reykjavík. Þjóðin hafði um annað að hugsa en veðrið síðustu mánuðina en annars voru nóvember og desember ekki svo slæmir nema svona inn á milli eins og gengur.

Árið 2009 var meðalhitinn í Reykjavík 5,6°C og því ekkert lát hlýindum og góðri tíð þótt annað væri uppi á teningnum í landsmálum. Á tímum búsáhaldabyltingarinnar í janúar var hitinn ofan frostmarks. Dálítið kuldakast gerði fyrri hluta febrúar en annars var veturinn í mildari kantinum. Maí var sólríkur og mjög hlýr um miðbikið. Eftir sæmilegan júní kom alveg einstaklega góður júlímánuður sem í Reykjavík var með þeim allra sólríkustu og hlýjustu sem komið hafði og var auk þess sá þurrasti í borginni frá 1889. Víða um sveitir þótti þurrkurinn þó fullmikill. Eitt norðanskot gerði reyndar seint í mánuðinum en annars var hlýtt og náði hitinn tvisvar 21 stigi Í Reykjavík. Góð sumartíð helst þar til seint í september þegar kólnaði talsvert og eins og árið áður var kalt fyrri hlutann í október. Síðan var frekar milt um haustið þar til kuldinn náði völdum þegar líða fór að jólum. Fyrir norðan var óvenju úrkomusamt og reyndar hafði ekki mælst meiri úrkoma í desember á Akureyri.

Um árið 2010 er það helst að segja að lengi getur gott batnað en þetta var óvenju hagstætt ár veðursfarslega séð með stöku undantekningum eins eðlilegt er. Þetta á þó frekar við um landið sunnan- og vestanvert, en norðan- og austanlands var tíðarfarið nær því sem eðlilegt er. Ársmeðalhitinn í Reykjavík var 5,9°C sem gerir árið eitt af þeim allra hlýjustu en auk þess var árið með þeim allra sólríkustu og þurrustu í borginni. Í takt við það var meðalloftþrýstingur sá hæsti sem mælst hefur. Janúar byrjaði frekar kaldur en svo tóku hlýindi völdin þar til kólnaði seinni hlutann í febrúar. Mars var lengst af hlýr þar til lokin en annars var mjög snjólétt víðast hvar þessa vetrarmánuði. Apríl var að þessu sinni kaldari í borginni en mars og auk þess þurr. Maí var almennt góður og hlýr. Svo kom sumarið og það reyndist vera eitt það allra hlýjasta sunnan- og vestanlands en helst eru það hin margrómuðu ár 1939 og 1941 sem veita þessu sumri samkeppni og reyndar árinu í heild. Austfirðingar voru að vísu ekki sérlega kátir með sumarið en þeir áttu það til að voru nokkuð áveðurs að sumarlagi þessi ár. Þurrkar voru enn og aftur ríkjandi víða, að þessu sinni aðallega í júní sem einnig var mjög hlýr, jafnvel methlýr sumstaðar vestanlands, þar á meðal í Reykjavík. Og það sem meira er, þá var meðalhitinn í borginni heil 13,0 stig í júlí en aðeins hitabylgjumánuðurinn júlí 1991 hefur náð þeirri tölu í höfuðborginni. Áfram var hlýtt í ágúst og fram í október. Að vísu var ekkert óvenju sólríkt um sumarmánuðina en ágætt þó. Til marks um tíðarfarið þá var lítill snjór í fjöllum eftir sumarið sunnan- og vestanlands og jöklar rýrnuðu sem aldrei fyrr. Esjan varð alveg snjólaus um miðjan júlí sem er óvenju snemmt en annars var þetta 10 árið í röð sem skaflar hverfa úr Esjunni. Þegar aðeins tveir mánuðir voru eftir af árinu 2010 var það alveg í dauðafæri með að verða allra hlýjasta árið suðvestanlands en kaldur nóvember kom í veg fyrir það. Þá var mjög þurrt sunnanland en snjóþungt fyrir norðan. Svipað var í desember sem átti annars sína köldu og hlýju daga.

Af náttúrufarslegum atburðum skal fyrst nefna öflugan jarðskjálfta uppá 6,3 stig í lok maí árið 2008 með upptök í Ölfusi sem olli nokkru tjóni þar um kring. Þetta var einskonar framhald skjálftanna árið 2000. Eldgosið sem getið er um í inngangi er auðvitað gosið í Eyjafjallajökli en forsmekkurinn að því var lítið hraungos á Fimmvörðuhálsi sem hófst aðfaranótt 21. mars 2010 og var mörgum til skemmtunar. Aðfaranótt 14. apríl hófst síðan gosið í Eyjafjallajökli sem vakti heimsathygli. Sú athygli reyndist vera afar jákvæð landkynning þrátt fyrir hafa teppt flugsamgöngur í Evrópu. Hin furðulega eyja í norðri var þarna allt í einu orðin áhugavert land til að heimsækja og ekki síst ódýrt. Upp úr rústum hrunsins fóru hótelbyggingar brátt að rísa og á næstu árum fóru hjól atvinnulífsins smám saman að snúast á ný og brúnin að lyftast á landsmönnum. Ljúkum þessu að venju með veðurgrafík:

Annáll 2007-10 hiti

Annáll 2007-10 einkunn

Um myndirnar er það að segja að meðalhitatölur er fengnar af vef Veðurstofunnar og ekki meira um það að segja. Veðureinkunnirnar koma úr mínum eigin veðurskráningum og fundnar út með því að skipta veðrinu á hverjum degi í fjóra þætti, sól, úrkomu, vind og hita. Hver veðurþáttur getur fengið 0, 1 eða 2 stig eftir því hvort sá þáttur er neikvæður, í meðallagi eða jákvæður. Hver dagur getur þannig fengið 0-8 stig í einkunn en mánaðareinkunn er síðan meðaltal allra einkunna mánaðarins. Það þykir slæmt ef mánaðareinkunn er undir 4 en gott ef hún er yfir 5 stigum. Á þessu tímabili 2007-2010 er aðeins einn mánuðir undir 4 stigum (september 2007). Hinsvegar er 5 stiga einkunnir óvenju margar og þarna birtist í fyrsta skipti dökkrauð einkunn yfir 5,5 stigum (júlí 2009).

- - -

Fyrri annálar í sama dúr:
Veðurannáll 1987-1990
Veðurannáll 1991-1994
Veðurannáll 1995-1998 - Umskipti
Veðurannáll 1999-2002
Veðurannáll 2003-2006 - Hlýindi og góðæri

 


Bloggfærslur 23. nóvember 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband