Meira af Hawaiieldum

Hraungos Hawaii 18. maí.

Ekkert lát er eldsumbrotunum á austustu og eldvirkustu eyju Hawaii eyjaklasans og úr því maður er byrjaður skrifa um atburðina þá er ekki um annað að ræða en að bæta við enn einni færslunni, nú þegar allt er í gangi. Raunar er varla hægt að segja að eitthvað upphaf séu á þessu gosi og endir er varla í sjónmáli, enda er hér um að ræða eina virkustu eldstöð jarðar þar sem næstum er alltaf eitthvað að gerast. Í þeim stuttaralegu fréttum sem við fáum af atburðunum í fjölmiðlum skortir nokkuð upp á heildarsýnina. Kortið hér neðan ætti að gefa betri yfirsýn en þar legg ég áherslu á þá tvo staði sem leika aðalhlutverkið í atburðarásinni. Annars vegar er það gígurinn á Kilauea elddyngjunni sem fóðrar kerfið af kviku og svo er það svæðið niðri í byggðinni 40 kílómetrum frá gígnum þar sem hraunsprungur hafa opnast og kvikan kemur upp.

Hawaii Big Island suður

Það sem þarna á sér stað minnir dálítið það sem gjarnan gerist hér á landi. Kvika leitar út úr megineldstöð og kemur upp sem sprungugos tugum kílómetrum fjarri. Bárðarbunga og Holuhraun er nærtækt dæmi. Ísland og Hawaii eiga það sameiginlegt að vera yfir mjög virkum möttulstrókum. Þó er sá grundvallarmunur að Hawaii-eyjar tengjast ekki flekaskilum eins og Ísland gerir. Sprungugos eru þannig mjög algeng á Íslandi enda eru megineldstöðvarnar okkar og hriplekar vegna gliðnunar landsins. Gosin leita því gjarnar út í sprungukerfin og hindra að stórar eldkeilur myndast innan gliðnunarbeltisins. Öræfajökull er náttúrulega utan gliðnunarsvæðisins og hefur því fengið að vaxa og dafna í friði.

Eyjan þar sem eldgosin eru, gjarnan nefnd Big Island, er á stærð við Vestfjarðakjálkann og rís hátt upp af hafsbotninum. Hæstu eldfjöllin á eyjunni, Mauna Loa og Mauna Kea, eru yfir 4000 metra há og stundum sagt að eyjan sé í heild sinni stærsta og hæsta fjall jarðar frá hafsbotni talið. Kilauea dyngjan er reyndar ekki nema um 1000 metra há en á framtíðina fyrir sér, þar sem eldvirknin þróast með tímanum í suðausturátt. Eitthvað veldur þó sprungumyndun, en eins og ég sé þetta þá virkar kvikuuppstreymið undir Kilauea eins og þegar nagli er rekinn í gegnum trékubb - of nálægt brúninni - þannig að klofningur myndast út frá naglanum. Þannig háttar allavega til þarna á eyjunni að sprungukerfi eru til sitt hvorrar áttar frá kvikuuppstreyminu sem gefur færi á flutningi kviku til beggja átta. Vonum bara að flísinn stóra losni ekki í heilu lagi og steypist í sjó fram.

Sprungureinin til suðvestur frá gígnum hefur verið til friðs un langan tíma en hinsvegar hefur kvika leitað ótt og títt á austursvæðið (East Rift Zone). Í langa gosinu frá janúar 1983 til apríl 2018 náði kvikan þó ekki nema hálfa leið í austur og kom upp við gíginn Puu Oo og rann hraun þaðan til sjávar. Með nýrri innspýtingu frá iðrum jarðar nú vor, náði kvikan að valda þenslu og sprengja sér leið lengra í austur og koma upp á þeim svæðum sem nú gjósa.

Hraunflæði 19. maí

Sprungugosin í byggðinni hafa sótt mjög í sig veðrið undanfarna daga eftir að hafa legið niðri þegar ég skrifaði síðasta pistil fyrir viku síðan. Hraunflæði hefur einnig aukist en þau flæða þó sem betur fer að mestu um óbyggð svæði í átt til sjávar. Auk hraunsins þá veldur gasmengun miklum óþægindum en gasuppstreymi hefur haldið áfram þótt sprungur hafi hætt að spúa út úr sér kviku. Öll byggðu svæðin þarna austast á eyjunni eru sennilega áfram í hættu enda ómögulegt að segja hvað úr verður. Þarna getur gosið lengi og hraunrennsli gæti enn átt eftir að færast í aukanna. Á kortinu hér að ofan frá U.S. Geological Survey sést staða mála á svæðinu þann 18. maí. Á kortinu má einnig sjá merkt inn víðáttumeiri hraun frá árunum 1960, 1955 og 1840 enda er hraunsrennsli ekkert nýtt fyrirbæri á svæðinu.

Sprengivirkni í Kilauea öskjunni, eða í Halemaumua gígnum svokallaða, var talsverð í vikunni eins og búist hafði verið við. Þó kannski ekki eins mikil og óttast var og olli ekki teljandi skaða. Þann 16. maí gekk mikið á, en sem betur fer stóð vindur frá mestu byggðinni. Fólk veigraði sér ekki við að spila golf og njóta útsýnisins á golfvelli skammt frá gígnum við Kilauea. Mesta sprengingin var svo skömmu fyrir dögun morguninn eftir, en síðan þá hefur svæðið róast mjög. Hvort allt púðrið þar sé búið í bili vita menn ekki svo gjörla en hættuástand er enn ríkjandi. Askjan þar sem gígurinn er í hefur eitthvað verið að síga og er það til marks upp að kvika færist úr kerfinu ekki ólíkt því sem var í Bárðarbungu á meðan gaus utan jökuls.

Kilauea gosmökkur

- - -

Annars gerist fátt í náttúrunni sem ekki hefur gerst áður. Myndin hér að neðan hefur birst víða og er frá svipuðum stað og sú að ofan. Árið 1924 var einnig líf og fjör í Kilauea eldstöðinni með töluverðri sprengivirkni og öskufalli. Prúðbúið fólk létt sér þó ekki bregða og var mætt til að horfa á herlegheitin úr hæfilega lítilli fjarlægð með tilliti til vindáttar.

Kilauea 1924

- - -

Heimildir: USGS, U.S. Geological Survey  og  Honululu Star Adviser Einnig má benda ítarleg skrif og umræður á vefnum: Volcano Café

Fyrri pistlar um gosið á Hawaii:
12. maí: Freatóplínískt þeytigos yfirvofandi á Hawaii
6. maí: Aðstæður skoðaðar á Hawaii með hjálp korta.


mbl.is Íbúum bjargað frá glóandi hrauni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. maí 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband