Sjálfvirka þulan og Hrafninn flýgur

Yfir mörgu má kvarta svona almennt og vissulega eru umkvörtunarefni misalvarleg. Eitt er það atriði sem hefur hvað eftir annað valdið pirringi hjá undirrituðum en það er það sem ég kalla sjálfvirka þulan í Sjónvarpi allra landsmanna og þá sérstaklega hvernig hún kemur inn í lok dramatískra kvikmynda og kynnir næsta dagskrárlið af mikilli ákveðni. Reglan virðist vera sú að skella á sjálfvirku þulunni eftir að síðasta setningin hefur verið sögð í myndinni og rétt áður en kreditlistinn birtist. Akkúrat sú stund í kvikmyndum er oft ákaflega mikilvægt og viðkvæmt augnablik fyrir upplifunina enda vandlega úthugsað að hálfu leikstjóra og annarra sem sjá um lokafrágang kvikmyndanna og spilar tónlistin þar oft stórt hlutverk.

Síðasta dæmi um þetta og alveg dæmigert var núna sl. sunnudagskvöld þegar Sjónvarpið sýndi Hrafninn flýgur eftir Hrafn Gunnlaugsson. Þá ágætu kvikmynd hefur maður reyndar séð alloft en hún vakti athygli á sínum tíma út fyrir landsteinanna og varð til þess Hrafn hélt áfram að gera myndir í sama stíl - reyndar með misgóðum árangri. Kvikmyndin Hrafninn flýgur er kannski full langdregin og einhæf á köflum en málið er þó að sagan er einföld og segir með sterku lokaatriði hvernig hefndin heldur áfram milli kynslóða. HrafninnGestur (Jakob Einarsson), hefnir föður síns sem veginn var á sínum tíma af tveimur fóstbræðrum leiknum af Flosa Ólafssyni og Helga Skúlasyni. Þegar Gestur hafði með kænsku sinni att fóstbræðrunum saman þannig að liðsmenn lágu í valnum hver af öðrum var komið að lokauppgjörinu þegar Gestur fellir aðalskúrkinn (Helga Skúla) sem hafði einmitt rænt systur Gests (Eddu Björgvins) eftir að föðurmorðið átti sér stað á sínum tíma, tekið hana sem eiginkonu og átti þarna með henni son á barnsaldri. Að öllum vígaferlum loknum segir Gestur að hér eftir muni penninn taka við af sverðinu og gróf vopnin í jörðu við túnfót hins fallna föðurmorðingja og hélt síðan á brott. Systirinn vildi ekki fylgja bróður sínum á brott en stóð nú uppi með son sinn sem nú syrgði sinn föður sárt. Myndin hefði getað endað þannig en allra síðasta atriðið gerði þó gæfumuninn og kvikmyndina að því sem hún var. Litli strákurinn var ekki nógu ungur til að gleyma. Hann gekk rakleitt að þeim stað sem vopnin voru falin, gróf þau upp og horfði á eftir Gesti með hefnd í huga. Nærmyndin af stráknum með vopnin í höndum var lokaandartak og grundvallaratriði myndarinnar, dramatíkin í hámarki með tilheyrandi tónlist - eitt áhrifamesta lokamóment í íslenskri vil ég meina, sem ég ætlaði að njóta enn einu sinni til botns þetta sunnudagskvöld. En hvað gerist? Jú, kemur þá ekki sjálfvirka þulan á viðkvæmasta mómentinu og tilkynnir næsta dagskrárlið hátt og snjallt: “TIL HEIÐURS BEE GEES” og svo einhver heilmikil romsa um það á meðan hljóðið í myndinni er lækkað á þessu grundvallaraugnabliki.

Hrafninn flýgur er annars ekki aðalatriði þessarar bloggfærslu, heldur hin sjálfvirka þula sem á sínum tíma kom í stað sjónvarpsþulanna góðkunnu sem birtust á milli dagskrárliða og kynntu það sem kæmi næst. Sjálfsagt hefur það þótt of kostnaðarsöm útgerð að vera með stífmálaðar þulur á vaktinni heilu kvöldin, jafnt um helgar sem virka daga. Það hlýtur þó að vera hægt að gera þetta af meiri smekkvísi. Sú sem ljáir þeirri sjálfvirku rödd sína er landsþekkt söng- og leikkona og hefur líklega ekkert með þetta fyrirkomalag að gera þótt almennt mætti hún lesa sinn texta með blíðari tón. Fyrir mig sem horfir reglulega á RÚV eru sjálfvirkar kynningar á dagskrárefni fram í tímann oft afar þreytandi og þá er ég ekki bara að tala um það sem kemur í lokaatriði mynda. Væntanlegir sjónvarpsþættir eru kynntir í tíma og ótíma, stundum langt fram í tímann og svo hvað eftir annað. Þá er eins gott að fjarsýringin sé ekki langt undan svo hægt sé að lækka í hljóðinu eða draga alveg niður í því.

 

sjalfvirka þulan

 


Bloggfærslur 6. ágúst 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband