Jöklarnir rýrna samkvæmt gervitunglamyndum

Mér datt í hug að gera smá athugun á því hvernig jöklar hálendisins eru að spjara sig á þessu sumri sem hefur verið í hlýrri kantinum auk þess sem það hófst óvenju snemma í ár með afspyrnuhlýjum aprílmánuði. Samanburðurinn er einungis sjónrænt mat á gervitunglamyndum frá NASA, en á Worldview-vefsíðu þeirra er hægt að kalla fram myndir hvaðan sem er á jörðinni nokkur ár aftur í tímann og gera samanburð milli dagsetninga. Á myndunum sem hér fara á eftir hef ég valið að bera saman dagana 31. júlí, 2017 og 2019 en á þeim dagsetningum var bjart og gott útsýni yfir miðhálendi landsins.

Munurinn á jöklunum er greinilegur milli þessara tveggja sumra. Árið 2017 rýrnuðu jöklar landsins eins og þeir hafa gert síðustu 25 ár eða svo. Mismikið þó. Jöklabráðnun var mest árið 2010 en síðan hafa komið ár eins og 2015 og 2018 þar sem afkoma sumra jökla var meira í jafnvægi eða jafnvel jákvæð. Myndirnar eru af Langjökli, Hofsjökli og vestanverðum Vatnajökli en dekkri jaðrar jöklana nú í sumar bera þess greinilega merki að bráðnun hefur verið öllu meiri en þarna fyrir tveimur árum. Sumarið er þó ekki búið og ekki komið að uppgjöri. Væntanlega mun samt nokkuð draga úr jöklabráðnun með kaldara lofti sem stefnir yfir landið.

Langjökull 2017 og 2019

Hofsjökull 2017 og 2019

Vatnajökull 2017-2019

 


Bloggfærslur 6. ágúst 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband