Plötukynning - Brottför kl. 8 með Mannakornum

Brottfor kl.8Árið 1979, þegar gekk á með gengis- fellingum, óðaverðbólgu og landlægri kuldatíð, keypti ég mér hljómplötu í fyrsta skipti á ævinni, þá á fjórtánda ári. Sú sem varð fyrir valinu var þriðja skífa hljómsveitarinnar Mannakorna og hét Brottför kl. 8. Ég hef aldrei verið stór í sniðum þegar kemur að plötukaupum og fjárfesti ekki í svoleiðis nema að vel ígrunduðu máli og eins var það auðvitað í þessu tilfelli. Þetta voru vel heppnuð plötukaup enda ekki við öðru að búast þegar Mannakorn eru annarsvegar, sérstaklega á þessum fyrstu árum hljómsveitarinnar.

Brottför kl. 8 fylgdi á eftir hljómplötunni, Í gegnum tíðina, sem er oft talin meðal bestu platna íslensku popptónlistarsögunnar þar sem finna má lög eins og Sölva Helgason, og auðvitað lagið, Í gegnum tíðina. Þessi plata er hinsvegar sjaldnar nefnd og kemst t.d. ekki inn á TOP 100 bókina yfir bestu íslensku plöturnar, fellur sennilega í skuggan af hinni fyrri. Í Brottför kl. 8 er dálítið farið úr einu í annað í tónlistarstíl en nýjabrum þess tíma eins og pönk og diskó er þó víðsfjarri. Þeir Magnús Eiríksson og Pálmi Gunnarson voru meira fyrir blúsinn eins og heyrist en einnig má finna þarna kántrý, jass ásamt hreinni og beinni dægurtónlist.

Það lag sem varð vinsælast á plötunni og er orðin sígild perla er Einhverstaðar einhvertíma aftur, sungið af óþekktri 17 ára söngkonu, Ellen Kristjánsdóttur þeirri sömu Ellen Kristjáns og allir þekkja í dag. Annað lag sem heyrðist talsvert var Gamli skólinn, sungið af Pálma en það virðist þó vera gleymt í dag. Þau lög sem höfðuðu eiginlega mest til mín eru reyndar þau sem búa yfir dálítilli dulmögnun eins og lagið Ferjumaðurinn sem Ellen söng, einnig Álfarnir þar sem Magnús syngur um þegar hann villtist í þoku á heiðinni og var ginntur af Álfkonu. Kántrýlagið Graði Rauður, eina erlenda lagið á plötunni, fannst mér ekki alveg gera sig en er þó kannski ágætt fyrir sveita- eða hestamenn. Lokalag plötunnar er magnaður Guðsblús, sunginn af Pálma Gunn en það er eins og venjulega Magnús Eiríksson sem á heiðurinn af lagi og texta.

Þeir sem standa að spilverkinu á plötunni eru auk Magnúsar og Pálma: Baldur Már Arngrímsson, Jón Kristinn Cortes, Björn Björnsson, Eyþór Gunnarsson, Halldór Pálsson, Karl Sighvatsson og Úlfar Sigmarsson. Það var svo Leifur Breiðfjörð sem hannaði plötuumslagið en þarna má alveg þekkja teiknistílinn frá glerlistaverkunum sem hann er annars þekktastur fyrir. 

Hér er textinn við GUÐSBLÚSINN – fínn sálmur þó að innihaldið eigi ekkert sérstaklega við mig.

Þú veist að djúpt í þínu hjarta er ennþá einn örlítill guð.
Og þú veist að hann er því bjarta,
Ef þú syndgar þá heyrirðu suð.
Þá samviskan þín er að syngja við sofandi innri mann óð.
Við guð minn nú glösum skal klingja,
og kveða hans ljúfustu ljóð.

Ég held oft að guð sé í öllu sem lifir og lífsanda fær.
Í sigurverki svo snjöllu,
Að allt sem hann lífgar það grær
En líf sprettur aðeins af lífi og lífgeislinn fljúgandi fer
Ég trúi að hann fagnand svífi
Að lokum úr búknum á mér.

Ó guð minn hve oft var ég illur og ónýtur í þessum heim.
Eftir þokur og villur,
og eftir endalaust geim.
Get ég nú setið í friði og hlustað á hjartað mitt slá.
Ég býst við að enginn því tryði,
hve ágætan guð ég á.

- - - - - 

Þessi bloggfærsla er hugsuð sem sú fyrsta af mánaðarlegum plötukynningum. Svipað má reyndar segja um síðustu færslu um letrið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jens Guð

  Þetta er skemmtilegt uppátæki hjá þér;  að hefja mánaðarlega plötukynningu.  Ég hlakka til að fylgjast með.  Mér þykir alltaf gaman að lesa vangaveltur fólks um plötur.

Jens Guð, 29.1.2010 kl. 17:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband