Hvenær er listaverk listaverk?

Sólfar og turn

Það hefur oft reynst erfitt að finna eina skilgreiningu á því hvað sé list. Ýmist er talað um list útfrá einhverjum fagurfræðilegum gildum eða öðrum huglægum gildum sem eiga að sýna okkur tilveruna í nýju og óvæntu ljósi eða að vekja hjá okkur óræðar tilfinningar. Þannig er listrænt gildi verks háð persónulegri upplifun hvers og eins og því ómögulegt að allir geti komið sér saman um það hvenær list er raunverulegt list.

Svo má líka einfalda málið og segja að allt sem gert er í listrænum tilgangi sé list, óháð því hversu vel eða illa heppnað viðkomandi verk sé í huga áhorfandans. Í leiðinni verður þá að gera strangar kröfur til verksins að það sé upphaflega gert í listrænum tilgangi og standi sjálfstætt sem slíkt og ekkert annað. Sólfarið við Sæbrautina er til dæmis hreinræktað listaverk. Þó það hafi víðtækar skírskotanir þá er það ekkert annað en listaverk. Niðursuðudós getur líka verið listaverk, sé hún gerð í listrænum tilgangi eingöngu, jafnvel þótt hún sé í engu frábrugðin venjulegri niðursuðudós sem ætluð er til sölu í matvöruverslun.

Eiffel turninnEiffel-turninn var upphaflega byggður fyrir heimsýninguna í París árið 1889 en til stóð svo að rífa hann niður að nokkrum árum liðnum. Menn voru missáttir við þetta mannvirki sem sumum fannst vera forljótt járnavirki og gagnslaust í þokkabót. Ekki voru allir vissir um hvað Eiffel turninn væri, enda virtist hann ekki byggður í praktískum tilgangi sem gagnaðist samfélaginu. Þá sagði einhver snjall náungi að Eiffel turninn væri ekkert annað en listaverk, enda byggður sem slíkur og gæti því staðið sem listaverk um aldur og ævi. Eftir það hefur engum dottið í hug að rífa Eiffel turninn.

Einn flötur er á þessu máli til viðbótar. Hafi Eiffel turninn verið byggður sem gagnslaust mannvirki, hvað þá með byggingar sem hér hafa verið reistar á undanförnum árum – góðæristurnana? Háhýsið við Höfðatorg mætt flokka sem ágætis byggingarlist en er reyndar ekki alveg gagnslaust því einhver starfsemi fer þar fram á efri hæðunum. En ef hann stæði alveg tómur og væri þar með gagnslaus, mætti þá flokka hann sem sjálfstætt listaverk? Í rauninni ekki, enda var hann byggður sem skrifstofuhús sem er praktískt fyrirbæri og því alltof seint að skilgreina hann sem sjálftsætt listaverk. Ef bygging hússins hefði hinsvegar verið ákveðin með listrænan tilgang í huga eingöngu þá mætti vel kalla hann listaverk í dag.

Turnendi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"To be or not to be"  THAT is the question.

Jói á Vespunni (IP-tala skráð) 21.3.2010 kl. 10:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband