Vetrarhitasúlur

Myndin hér líkist kannski gosstrókum en hún hefur ekkert með eldgos að gera enda komið nóg af því hér í bili. Hinsvegar sýnir þetta súlurit hvernig hitinn í Reykjavík var frá degi til dags mánuðina nóvember til mars nú í vetur. Það eru tölur úr mínum eigin veðurskráningum sem liggja þarna að baki en hver súla á að sýna dæmigerðan hita yfir hádaginn í Reykjavík sem liggur einhverstaðar á milli meðalhita sólarhringsins og hámarkshita dagsins.

 

Vetrarsúlur 2009-10

Það er greinilegt á myndinni að þetta var yfirleitt hlýr vetur í Reykjavík, algengt að hitinn væri á bilinu 3-7 stig og stundum meira. En það voru miklar hitaandstæður því inn á milli komu nokkuð eindregnir kuldakaflar og þá sérstaklega um og fyrir hver mánaðarmót, líkt og núna. Lengsti kuldakaflinn var seinni hluta desember og fyrstu dagana í janúar. Í þessum kuldaköstum var yfirleitt bjart og þurrt, enda fylgdi þeim lítil snjókoma.

Þótt þetta hafi verið svona hlýr vetur þá sýnist mér eftir snöggan samanburð að þessir mánuðir séu í 8. sæti miðað við sömu mánuði frá aldamótum 1900, samkvæmt opinberum athugunum. Talsvert hlýrra var t.d. þessa mánuði veturinn 2002-'03 (3,2 stig) miðað við 1,9 stig nú. Annars lýtur samanburðurinn svona út, og sést að það er ekki bara á þessari öld sem við höfum fengið hlýja vetur:

2002-03: 3.2°C
1928-29: 2.9°C
1963-64: 2.7°C
1945-46: 2.7°C
1941-42: 2.3°C
1933-34: 2.1°C
2005-06: 2.0°C
2009-10: 1.9°C


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Þess má geta að hitastig febrúarmánaðar á heimsvísu var það 6. heitasta frá 1880, sjá Hitastig febrúar 2010 á heimsvísu.

Sveinn Atli Gunnarsson, 1.4.2010 kl. 19:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband