Lækjargata 2 og eldheitir borgarstjórar

Þessa dagana má sjá að uppbygging er loksins komin á fullt skrið á horni Lækjargötu og Austurstrætis þar sem gamla húsið hans Sigfúsar Eymundssonar brann fyrir þremur árum. Búið er að steypa upp fyrstu hæðina en ofan á hana á að endurbyggja húsið í heild og því má segja að húsið hækki um eina hæð neðanfrá. Mér hefur alltaf fundist þetta sjálfsögð lausn því húsið er fallegt, það má þó vel við því að hækka enda fæst þannig meira hæðarjafnvægi milli húsanna á þessum stað. Ég tók mynd af Lækjargötuhúsinu nýbrunnu vorið 2007 og í framhaldinu dundaði ég mér við að fótósjoppa húsið einni hæð hærra. Myndina birti ég hér á blogginu haustið eftir, eða stuttu eftir að ég byrjaði á þessu bloggveseni, en þá voru einmitt komnar fram hugmyndir um að hækka húsið.

Lækjargata 2
Þegar brann þarna vorið 2007 var þáverandi borgarstjóri Villi Þ. auðvitað mættur á svæðið og var fljótur að lýsa því yfir að húsið yrði endurbyggt þannig að sómi yrði af fyrir borgarbúa. Sumum fannst þetta full glannaleg yfirlýsing í miðri atburðarásinni, en hann má eiga það að í þessu einstaka máli var ég ánægður með borgarstjórann fyrrverandi.

Framundan eru hugsanlega enn ein borgarstjóraskipti hér í Reykjavík. Einn þeirra sem þar koma til greina er Jón Gnarr sem sagðist í Kastljóssviðtali ætla að verða svona borgarstjóri sem hefur frekar lítið fyrir hlutunum en mætir kannski í bæinn til að vinka fólkinu, ekki síst þegar það er að brenna einhverstaðar - svona í stíl við Bastían bæjarfógeta. Ef Jón Gnarr hefði verið borgarstjóri vorið 2007 hefði hann samkvæmt þessu auðvitað mætt í bæinn til að stappa stálinu í borgarbúa og jafnvel gefið slökkviliðinu góð ráð.

En hvort hann hefði lofað endurbyggingu húsanna í sinni gömlu mynd og einni hæð til viðbótar er önnur saga. Í hinum svokallaða Besta flokki er stefnan ekki endilega sú að halda upp á gömul hús ef marka má það sem frambjóðandinn Páll Hjaltason sérfræðingur flokksins í skipulagsmálum, segir á heimasíðu flokksins:
„Uppgjöf borgarinnar gagnvart öfgafriðunum voru greinileg í kaupum hennar á Laugaveg 4-6 og klisjukenndri uppbyggingu á brunareitnum á horni Lækjartorgs. Hvað á svo að vera í þessum húsum? Fleiri öldurhús og ferðamannabúðir?“
 
Þarna finnst mér koma fram frekar leiðinlegt sjónarmið gagnvart þeirri gömlu húsagerð sem gefa miðbænum sinn sérstaka svip, burt séð frá því hvort í þeim húsum sé eitthvað skemmtilegt eða ekki. Margir arkitektar vilja auðvitað helst byggja nútímaleg hús í stað þess að endurskapa eitthvað gamalt enda eru þeir til þess menntaðir. Nútímaleg hús eru sjálfsögð t.d. í nýjum borgarhlutum, en á þessum stað á horni Lækjargötu og Austurstrætis er ég ekki viss um að við værum bættari með nútímalegt gler/steinhús. Allavega ekki miðað við nokkur slík sem hafa risið miðsvæðis undanfarið. Það má mín vegna kalla uppbyggingu á gömlum húsum „klisjuennda“ en mér finnst hún alveg í fínu lagi í miðbænum. Húrra fyrir Villa.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband