Plötukynning: Sandinista - The Clash

Ef ég hefði verið spurður að því fyrir svona 20 til 25 árum, hvaða hljómplötu ég myndi taka með mér á eyðieyju, (gerum þá við ráð fyrir að hægt sé að spila hljómplötur á eyðieyjum) kæmi platan Sandinista með the Clash strax upp í hugann. Ein ástæðan (en ekki sú helsta) er sú að platan er þreföld að magni með alls 36 lögum og var upphaflega gefinn út þannig í vínilútgáfunni árið 1980 en þannig fékkst mikið fyrir lítið. En burtséð frá lagafjölda þá er þessi plata sannkölluð músíkveisla sem ég naut til fulls árum saman og geri reyndar enn – öðru hvoru.

Sandinista umslagSandinista, var gefin út í lok árs 1980 og kom í kjölfarið af London Calling sem fyrir flestum aðdáendum er mikilvægasta plata hljómsveitarinnar. Með útkomu Sandinista má segja kveðið hafi við nýjan tón hjá hljómsveitinni sem reyndar fór misvel í hörðustu aðdáendur. Nú var ekki bara pönk og nýbylgjurokk á boðstólnum því á þessari plötu er farið um víðan völl í tónlistarheiminum, allskonar tónlistarstefnum hrært saman: raggie, ska, funk, jass, kalipsó, gospel, rapp og jafnvel barnamúsík. Þetta var plata fyrir heiminn eða eins og þeir sögðu sjálfir: "to hell with Clash style, there's a world out there." Semsagt, einskonar heimsplata þar sem umfjöllunarefni texta fór langt út fyrir öngstræti verkamannahverfana heima fyrir. Heimspólitíkin er þarna fyrirferðamikil, svo sem kalda stríðið sem á þessum árum var sjaldan kaldara, flestir gerðu ráð fyrir að kjarnorkuvetur skylli á hvað úr hverju – ekkert „global warming“ í þá daga.

En þótt tónlistin sé dimm og þung á köflum á plötunni er hún líka heit. Suðræn calipsó stemmning er ekki dæmigert fyrir það sem Clash hafði staðið fyrir en í þeirra höndum fær þessi tónlist nýjan tón og nýja merkingu. Þeir halda líka kúlinu allan tíma, Joe Strummer var auðvitað einn mesti töffari rokksögunnar en auk hans fá allir í hljómsveitinni að spreyta sig í söng ásamt reyndar nokkrum utansveitarmönnum, konum  og jafnvel börnum.

Viðbrögð aðdáenda og gagnrýnenda við þessari undarlegu Clash plötu voru frekar misjöfn. Sumir eru sammála mér um að þetta sé eiginlega bara meistaraverk en aðrir eru ekki sáttir. Gjarnan er nefnt að ýmsu hefði mátt sleppa og hægt hefði verið að gera einfalda 12 laga plötu með bestu lögunum. Allskonar tilraunastarfsemi fær enda að fljóta með, sérstaklega á seinustu plötunni, sumt má flokka sem dub eða mix af lögum sem þegar hafa koma fyrir á plötunni. Sumir vildu síðan bara fá sitt gamla góða Clash-rokk og ekkert annað en hvað mig varðar þá skiptir það sjálfsagt máli að þetta var fyrsta Clash platan sem ég hlustaði almennilega á.

Því má bæta við að platan Sandinista lenti í 19. sæti í nýlegri samantekt New Musical Express yfir bestu plötur 9. áratugarins. Þann lista má sjá í bloggfærslu hjá Jens Guð.

Það er auðvitað nauðsynlegt að koma með tóndæmi. Þar er úr vöndu að ráða því ekkert lag er í rauninni dæmigert fyrir plötuna, en fyrir valinu er flott lag sem mætti kalla hjarta plötunnar, „Washington Bullets“. Þetta lag gæti allt eins heitið Sandinista en titill plötunnar er komið úr þessu lagi, þar sem vísað er til Sandinistahreyfingarinnar í Nicaragua. Í þessu lagi fá stórveldin að heyra það, ekki bara Bandaríkin þótt halda megi það í fyrstu. Þarna má heyra spilað á tré-ásláttarhljóðfæri nem nefnist marimba eftir því sem mér skilst. Clash gerði yfirleitt ekki tónlistarmyndbönd á sínum tíma en þessi samsetning sem kemur hér er framtak einhvers áhugamanns. En lagið er gott og skilaboðin standa fyrir sínu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband