Hafíslágmarkið 2010

Fyrir mig og aðra þá sem fylgjast með þróun hafísbreiðunnar á Norðurhveli er þessi tími ársins uppgjörstími því þetta er jú þegar hafísinn nær sínu árlega lágmarki. Bandaríska hafísrannsóknarstofnunin NSIDC auglýsti á dögunum að 10. september hafi lágmarki ársins verið náð og hafísbreiðan eftir það farin að aukast á ný. Frá upphafi gervihnattmælinga árið 1979 er þetta þriðja minnsta útbreiðsla hafíssins en minni útbreiðsla mældist árið 2008 og metárið 2007.

Hvað sem mönnum finnst um það hvort minnkandi hafís á norðurhveli sé eitthvað til að hafa áhyggjur af eða ekki er þetta mjög athyglisverð þróun sem mikil ástæða er til að fylgjast með. Hafísinn er oft nefndur sem mikilvægt tákn um hlýnun jarðar sem þýðir að menn túlka hafísslágmark hvers árs útfrá því hvað þeim finnst um hlýnun jarðar. Í loftslagsumræðunni skiptast menn gjarnan í efasemdarmenn og áhyggjumenn. Efasemdarmenn gleðjast ekkert sérstaklega þegar haldið á lofti fréttum um lélegt ástand hafíssins en hafa þó leiðinni engar sérstakar áhyggjur þótt ísinn minnki. Áhyggjumenn hafa hinsvegar ekkert á móti því að hafíssútbreiðslan dragist saman ef það verður til að opna augu almenning um alvarleg áhrif hnattrænnar hlýnunar, en hafa samt áhyggjur af minnkandi hafís. Þetta er auðvitað frekar athyglisvert en þarf þó ekki að vera mjög undarlegt.

Spár sem gerðar eru um hafíslágmark markast líka af viðhorfum manna til loftlagsbreytinga, efasemdarmenn spáðu flestir hafíslágmarki yfir 5 milljónum km2 á meðan áhyggjumenn spáðu gjarnan minna en 5 milljón km2. Niðurstaða upp á 4,76 samkvæmt NSIDC hlýtur því að vera tiltölulega hagstæð fyrir áhyggjumenn þótt auðvitað valdi hún þeim nokkrum áhyggjum. Einnig ætti ég sjálfur samkvæmt þessum kannski vafasömu fullyrðingum að teljast til áhyggjumanna enda spáði ég á loftslag.is í vor að lágmarkið yrði 4,5 milljón km2. Þegar þetta er skrifað hef ég reyndar ennþá smá trú á að lágmarkið gæti endað undir 4,76 án þess að ég hafi af því neinar sérstakar áhyggjur.

Hafís 2000-2010

Þann 15. september s.l. leit hafísútbreiðslan út eins og sést til hægri en til samanburðar sýni ég meðalútbreiðsluna í september fyrir 10 árum. Eins og sjá má eru núna stór íslaus hafsvæði norður af Alaska og Síberíu og báðar siglingingaleiðirnar norður fyrir Síberíu og Kanada greiðfærar skipum ef varlega er farið. Þetta er allt annað ástand en var t.d. um og fyrir aldamót þegar í mesta lagi aðeins önnur leiðin náði að opnast í lok sumars.

Útbreiðsla hafíssins er auðvitað bara einn mælikvarði á heilbrigði ísbreiðunnar. Ísinn getur verið misjafnlega gisinn á milli ára. Í metlágmarkinu árið 2007 náðu vindar t.d að þjappa ísnum mikið saman og hrekja hann suður um sundið milli Grænlands og Svalbarða. Þetta hefur ekki gerst í sama mæli í sumar.
Hinn eini sanni mælikvarði hlýtur hins vegar að vera heildarrúmmál íssins þar sem þykktin á ísnum er tekin í dæmið. Það hefur hins vegar verið erfitt að meta þykkt íssins af nógu mikilli nákvæmni hingað til. Úr þessu verður bætt á næsta ári þegar upplýsingar fara að berast frá nýju gervitungli Gryosat-2 sem mælir þykkt íssins með mikilli nákvæmni. Við hafísaðdáendur getum vonandi fylgst með þeim mælingum jafnóðum á netinu.

Að lokum er hér mynd sem ég útbjó útfrá ljósmyndum sem nálgaðist á Arctic Mosaic síðunni hjá NASA og er frá 16 september. Breidd myndarinnar ætti að spanna um 1000 km en norðurpóllinn er þarna í hvíta svæðinu vinstra megin. Eins og sjá má er ísinn afskaplega lítilfjörlegur þarna lengst norður undir pólnum, stór opin svæði í bland við gisinn ís og kannski bara freistandi fyrir einhvern að skella sér í ískalt sjósund

Norðurpóll 2010


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Takk fyrir þetta. Skemmtilegar pælingar um áhyggjumenn og efasemdamenn

Höskuldur Búi Jónsson, 18.9.2010 kl. 12:45

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég hef engar áhyggjur af þessu, hvorki til né frá. Ég ræð engu um þetta og verð bráðum dauður. Til hvers að hafa áhyggjur? Auk þess legg ég til að hætt verði að tala um ''loftslagsumræðu'' en þess í stað talað um ''loftslagsumræðu vegna hlýnunar jarðar''.Ég hef haft áhuga á loftslagi í 43 ár og aðeins örfáir sérvitringar og sérfræðingar höfðu þá minnsta áhuga á því þangað til fyrir svona 15 árum. Nú geipa allir um lotftslag af því að þeir vilja bjarga heiminum. En sannlega segi ég yður: Heiminum er ekki viðbjargandi.

Sigurður Þór Guðjónsson, 18.9.2010 kl. 14:57

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það er hentugast ef hægt er að finna eitt orð yfir fyrirbæri frekar en heila setningu en nákvæmara væri náttúrulega að segja: „Loftslagsumræða vegna líklegrar hlýnunar jarðar af völdum aukinna gróðurhúsaáhrifa af mannavöldum“

Orðið áhyggjumenn fann ég hjá Höska Búa sem notar það fyrir sjálfan sig, er þó ekki viss um að hann hafi stöðugar áhyggjur um loftslagsmál.

En sannir svartsýnismenn þurfa ekki að hafa áhyggjur enda vita þeir allra best að heiminum er ekki viðbjargandi.

Emil Hannes Valgeirsson, 18.9.2010 kl. 16:06

4 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Nú virðist hafísinn vera að minnka aftur, hvað sem öllum áhyggjum eða áhyggjuleysi líður. Byrjað er að tala um tvöfalda dýfu (e. double dip)

Sveinn Atli Gunnarsson, 19.9.2010 kl. 10:11

5 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Mig langar að bæta við, að mér finnst það merkilegt viðhorf að hafa ekki áhyggjur af einhverju bara af því að maður persónulega telji sig ekki geta haft áhrif eða verði bara dauður þegar vandamálið verður meira. Allavega á ég börn og vonandi leiðir það til barnabarna við tækifæri (vonandi verður það þó eftir fyrsta lagi 20 ár ;) ) og mér finnst ekki að ég geti afskrifað vandamálið og ekki reynt að hafa örlítil áhrif á umræðuna, þó ekki sé annað, hvað sem því líður sem aðrir hafa gert eða reynt í 43 ár áður...heiminum er væntanlega ekki viðbjargandi ef allir hugsa á þann veg Sigurður.

Sveinn Atli Gunnarsson, 19.9.2010 kl. 10:46

6 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Sæll, Svatli, ég var búinn að taka eftir þessu með nýja lágmarkið og átti satt að segja von á því. Hvað sagði ég ekki í athugasemd hjá ykkur morguninn 16. sept? :

„Ísinn gæti hafa náð sínu lágmarki í ár en þó held ég að það sé vissara að hinkra aðeins áður en lágmarki er lýst yfir. Þótt Norður-Íshafið sé byrjað að frjósa á sumum stöðum gæti ísinn enn verið að þéttast vegna sterkara vinda sem nú eru þarna norðurfrá“

Emil Hannes Valgeirsson, 19.9.2010 kl. 10:56

7 identicon

Ég held líka að ístungan sem skagar í átt að A-Síberíuhafi haldi áfram að bráðna þótt frysti á öðrum stöðum. Hver sem ástæðan er þá er þessi þróun vatn á myllu Emils, sem gæti staðið uppi sem glæsilegur sigurvegari í ísspákeppninni á Loftslag.is :-)

Hröð minnkun hafíssins er áhyggjuefni að mínu mati. Þó ekki vegna þess að söknuður sé að "landsins forna fjanda". Þetta snýst um jörðina í heild. Minnkun íssins veldur því að meiri sólarorka verður eftir á jörðinni, sem aftur eykur hraða hlýnunarinnar. Þetta er einn af þeim þáttum sem virðist ganga hraðar en t.a.m spár IPCC gerðu ráð fyrir. (Eitthvað hefur verið rætt um að "black carbon", sót, frá athöfnum manna hafi þarna vanmetin áhrif).

Það er ekki vitað nákvæmlega hversu mikið plánetan mun hitna við 2földun á styrk CO2 í lofthjúpi. 3 gráðu hækkun á meðalhitastigi jarðar var nálægt miðju á niðurstöðum líkana síðast þegar ég vissi.

2XCO2 frá upphafi iðnbyltingar mun verða af mannavöldum síðar á þessari öld ef ekki er gripið í taumana. Þar við bætast áhrif annarra gróðurhúsalofttegunda.

Hröð minnkun hafíssins eykur líkurnar á, og gerir erfiðara að afstýra, að jörðin stökkvi inn í loftslag sem ekki hefur ríkt síðan fyrir milljónum ára.

Slíkt stökk veldur algerri kaos í öllu lífríkinu og ekki síst í samfélögum manna.

Jón Erlingur Jónsson (IP-tala skráð) 19.9.2010 kl. 18:41

8 identicon

Gervihnattamyndin af ísnum kringum norðurpólinn er merkileg. Vekur spurningu um hvenær verði hægt að sigla til norðurpólsins, án aðstoðar ísbrjóts og án þess að taka bátinn nokkurn tímann upp á ís. Þetta er uppskrift að framtíðar svaðilför, talsvert ólíkri ferð Nansen og félaga á skipinu Fram, þótt á sömu slóðir sé.

Jón Erlingur Jónsson (IP-tala skráð) 19.9.2010 kl. 19:04

9 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Já það er athuglisvert að sjá ástand íssins við norðurpólinn og sjálfsagt er hægt væri að sigla þarna alla leið norðureftir um þessar mundir á sæmilegum ísbrjót. Ísbreiðan virðist vera svona að stórum hluta nema á svæðinu norður af Grænlandi og Kanadísku heimskautaeyjunum þar sem þéttan margra ára ís er helst að finna.

Emil Hannes Valgeirsson, 19.9.2010 kl. 20:43

10 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það hefur aldrei bjargað neinu að  hafa áhyggjur af því sem ekki er á manns valdi. Reyndar á ég ekki börn og þarf því ekki að miða út frá því en eflaust verður það líka notað gegn mér með hnehykslun. Og verði þér þá að  góðu Svatli.

Sigurður Þór Guðjónsson, 20.9.2010 kl. 00:08

11 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Nei, ég ætla ekki að nota það gegn þér, allra síst í hneykslun.

Það er raunar eitt að hafa vilja hafa áhrif á umræðuna (vegna þess að mínum augum er hlýnun jarðar af mannavöldum hlutur sem margir vilja gera lítið úr) með það fyrir augum að opna augu fólks fyrir því hvað vísindin segja almennt um málið eða þá að vera frá sér af einhverjum áhyggjum (sem ég er ekki, enda bjartsýnismaður að eðlisfari). En hvernig sem við túlkum áhyggjustig eða umræðustig varðandi þessi mál, þá hafa vísindin nokkuð samhljóða álit á þessum málum sem mér finnst að við eigum að taka alvarlega og byrja að huga að lausnum og hafa áhrif á umræðuna með því að segja frá því, engin ástæða til að stinga höfðinu í sandinn og þaga yfir því.

Sveinn Atli Gunnarsson, 20.9.2010 kl. 08:25

12 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Jæja, en þú varst nú smávegis að hneyklast á mér! Að gera sér grein fyrir einhverjum vanda og vilja vinna bug á honum er ekki það sama og hafa áhyggjur. Áhyggjur draga menn bara niður, ekki síst ef þær beinast gegn einhverju sem maður getur lítið eða ekkert við gert. Það var það sé ég átti við. Auk þess er vafasamt að taka öllu  sem ég skýt fram, t.d. um það hvort heiminum sé viðbjargandi, alveg bókstaflega. Ég dreg hlýnun af völdum gróðurhúsaáhrifa alls ekki í efa þó ýmislegt finnist mér einkennilegt og feikna leiðinlegt í ''lofslagsumræðunni'' á báða bóga. En ég get hreinskilnislega ekki séð að þessi vandi sé yfirburða miklu meiri en allur annar umhverfis- og félagslegur vandi sem að heiminum steðjar en samt setur ''loftslagsumræðan'' það einmitt þannig upp. Það er það leiðinlegasta við hana. Vísindin geta lýst þeim hitabreytingum sem þegar hafa orðið og með minni vissu þeim sem eiga eftir að verða miðað við ákveðnar forsendur. En þau geta ekki lýst með vísindalegum hætti þeim afleiðingum sem þær muni hafa og því um síður sagt fyrir um það hvort eða hvað til bragðs skuli taka. Bollaleggingar um þá þætti, sem ég er ekki að segja að séu ekki mikilvægir, eru ekki vísindi. Þau eru eitthvað annað. Fyrst og fremst pólitík.

Sigurður Þór Guðjónsson, 20.9.2010 kl. 12:06

13 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

En þau geta ekki lýst með vísindalegum hætti þeim afleiðingum sem þær muni hafa fyrir mannlegt samfélag ... ætti nú að standa þarna. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 20.9.2010 kl. 12:10

14 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Ekki ætla ég að efast um að þér þyki þetta leiðinleg umræða Sigurður, enda hefur þú oft haldið því á lofti. Það er þó alls ekki eins mikil óvissa varðandi hvað veldur þessari hækkun hitastigs eða hver hún hugsanlega getur orðið miðað við forsendurnar sem við höfum, þó þér finnist það kannski. Þ.a.l. þekkir maður lausnina, þó svo pólitísk nálgun þeirrar lausnar sé allt annar handleggur.

Ég tek þig ekki bókstaflega, en þú virðist hafa "gaman" af því að slengja þínum skoðunum fram, en finnst greinilega ekki eins "gaman" ef einhver (í þessu tilfelli ég) svara einhverju... Ég hef aldrei gert lítið úr öðrum vandamálum í samfélaginu eða reynt að segja að þetta sé okkar eina vandamál sem við er að etja, en að mínu mati þurfum við að taka vísbendingar varðandi ýmsa þætti og hugsanlegar afleiðingar varðandi hækkun hitastigs alvarlega, þó svo að við höfum önnur vandamál samhliða.

Hitt er svo annað mál, hvernig finnst þér að þessi umræða eigi að vera svo þér líki (ég hef reyndar ekki enn þá hugmynd um það, þrátt fyrir margar athugasemdir frá þér um hversu leiðinleg umræðan eins og hún er sé)..? Væntanlega er himinn og haf á milli þess sem mér þykir um sama mál, ég mun þó ekki láta það trufla mína nálgun og vonandi ert þú til í að láta mína nálgun ekki trufla þig mikið eða valda þér leiðindum. Því ég mun halda áfram á minni braut sama hvað þér, persónulega, finnst um það.

Sveinn Atli Gunnarsson, 20.9.2010 kl. 12:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband