30 ára kuldaskeiðinu lauk með snjóflóðinu á Flateyri

Í upphafi árs 1965 kom talsverður hafís að landinu og lá í framhaldinu úti fyrir norðurlandi fram eftir vetri með tilheyrandi kuldum á norðurhelmingi landsins. Þetta var sennilega fyrsta merki um það sem í vændum var því næstu árin fór hafísinn að gerast mun nærgöngulli en tíðkast hafði lengi og við tók kalt tímabil sem stóð yfir meira og minna næstu þrjá áratugina, með smá hléum á milli þó. Á tímabilinu 1965-1995 var meðalhitinn á árunum í Reykjavík 4,2 stig, sem er 0,7 gráðum lægra en 30 árin þar á undan og rúmlega einni gráðu kaldari en meðalhiti síðustu 10 ára. Það munar um minna.

Pínulitla-ísöldinHámark þessa kuldaskeiðs, sem ég hef áður kallað „pínulitlu ísöldina“, má segja að hafi verið á árunum 1979-1983 og uppfrá því fór veðurlag eitthvað að mildast. Síðasti virkilega harði veturinn hér á landi var veturinn 1994-95 sem einkenndist af miklum snjóalögum Norðanlands og í einu illviðrinu þann vetur féll snjóflóðið mikla í Súðavík. Veturinn þar áður féll einnig gríðarlega stórt snjóflóð niður í Tungudal skammt frá Ísafjarðarkaupstað sem kostaði eitt mannslíf.

Óhugur í Vestfirðingum haustið 1995
KomandiVetur_DVÞað var engin furða að óhugur væri í Vestfirðingum haustið 1995 þegar stórhríðir byrjuðu af fullum krafti seint í október. Um það fjallaði athyglisverð DV-frétt sem ég klippti út á sínum tíma og birtist daginn fyrir snjóflóðið á Flateyri undir fyrirsögninni: „Komandi vetur sker úr um búsetuna“. Þar segir Súðvíkingur meðal annars: „Þessi vetur sem nú er greinilega genginn í garð, sker úr um hvort hér verður einhver búseta í framtíðinni. Það er óhugur í fólki; það er kvíðið og útlitið ekki björgulegt eins og núna blæs“. Síðan er haft eftir íbúa á Flateyri: „Menn eru orðnir verulega hvekktir á þessu. Ef til vill er þessi landshluti kominn norður fyrir mörk hins byggilega heims

(Til að lesa fréttina má stækka hana upp með því að smella nokkrum sinnum) 

Daginn eftir að fréttin birtist eða um morguninn þann 26. október féll svo hið mannskæða snjóflóð á Flateyri með þeim afleiðingum að 20 manns fórust. Þetta hörmulega snjóflóð var nokkurskonar endurtekning á þeim atburðum sem áttu sér stað í Súðavík í upphafi sama árs. En þó ekki alveg, því ólíkt því sem gerðist eftir Súðavíkurflóðið þá gerði skaplegt veður strax eftir snjóflóðið á Flateyri sem gerði aðstæður bærilegri en annars hefðu orðið. Góð vetrartíð hélt áfram næstu misserin og skemmst er frá því að segja að sú góða veðurtíð hefur haldist meira og minna síðan – með nokkrum hléum þó. Það má því segja að 30 ára kuldaskeiðið 1965–1995 hafi byrjað með hafískomunni í upphafi árs 1965 og endað með dramatískum hætti með snjóflóðinu á Flateyri þann 26. október árið 1995. Enn er blómleg byggð við lýði á Vestfjörðum og ekki lengur talað um að sá landshluti sé kominn norður fyrir mörk hins byggilega heims. Allavega er það varla veðrinu að kenna ef fólk hefur flutt þaðan burt.

Þótt vetrarveðrátta sé hafin á landinu er ekki þar með sagt að langvarandi harðindi og vetrarhörkur séu framundan. Í því sambandi má nefna það sem Einar „okkar“ Sveinbjörnsson nefnir í lokDV greinarinnar að varasamt er að draga ályktanir af einstökumatburðum, eins og kom í ljós með óveðrið í októberlok 1995. Hinsvegar má örugglega líka hafa í huga að tíðarfar síðustu ára er ekki endilega vísbending um tíðarfar næstu ára. 

DV–vedur25okt95

Veðurspá fyrir landið þann 25. október 1995, samkvæmt DV þann 24. október.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sumir hafa miðað við 9. apríl 1963 þegar upphaf pínulitlu ísaldarinnar hófst. Ég man vel eftir þeim degi og öspunum sem drápust þá.

http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=662062

Ágúst H Bjarnason, 26.10.2010 kl. 11:27

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það má sjálfsagt miða upphafið við ýmislegt og ekki óeðlilegt að vorhretið 1963 sé ofarlega í huga trjáræktarmanna. Mér finnst þó pínulitla ísöldin ekki geta hafa byrjað fyrr en eftir 1964 enda var það með hlýjustu árum hér á landi.

Emil Hannes Valgeirsson, 26.10.2010 kl. 13:49

3 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Takk fyrir fróðlegan pistil Emil.

Mig grunar að rangt kvæmi af öspinni hafi haft mikil áhrif á hvernig fór fyrir öspunum 1963 (kemur m.a. fram í tenglinum sem Ágúst setur inn, þar sem Haukur var sendur af örkinni m.a. til Alaska). Svona vorhret eftir hlýindaskeið á vorin eru ekki óalgeng (þó það hafi kannski verið í harðari kantinum 1963). En í kjölfarið var fundið kvæmi af Alaskaösp sem ekki fer jafn auðveldlega af stað á vorin þó það komi hlýindakafli. Það hefur haft mikil áhrif varðandi ræktun aspar í landinu, enda komið hörð ár eftir 1963, en mikið er af Alaskaösp sem er gróðursett eftir þann tíma og komist ágætlega af, þrátt fyrir vorhlýindi og kuldahret.

En það getur svo sem vel verið að sú dagssetning (9. apríl 1963) sé nothæfur byrjunarpunktur á pínulitlu "ísöldinni", þar sem þá kom í ljós að þetta ákveðna kvæmi aspar var ekki nothæft við íslenskar aðstæður, eftir ágætis ræktunarskilyrði um þó nokkra hríð þar á undan.

Sveinn Atli Gunnarsson, 26.10.2010 kl. 14:10

4 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Það er rétt að menn voru óheppnir með val á öspum á þessum tíma, en það breytir ekki því að hretið sem kom þennan dag var óvænt og hitafallið mikið. Menn lærðu á þessu og sóttu kvæmi annað með mjög góðum árangri. Svona vorhret geta þó komið hvenær sem er. Þau hafa verið sjaldgæf undanfarin ár sem betur fer, en hvað verður veit enginn.

Sjálfur setti ég niður fyrir ári 400 aspir sem ég kom til með afleggjurum sumarið 2008. Allt af tveim afbragðplöntum sem ég fékk á Mógilsá árið 1983. Það voru afkomendur plantna sem komu til landsins eftir 1963. Það er þó örugglega til eitthvað af öspum hér á landi sem eru afkomendur trjáa sem lifðu vorhretið af.

Hvort 9. apríl sé rétt eða röng dagsetning á byrjun þessa kuldaskeiðs skiptir auðvitað litlu máli. Dagurinn lifir þó í minningu margra sem slíkur.

Mér er lika minnisstætt skólaferðalag nemenda MR vorið 1965. Þá hlupum við á hafís á Húnaflóa.

Annars er það auðvitað mikilvægari spurning fyrir þá sem njóta þess að planta skógi: Hvenær megum við eiga von á næstu pínulitlu ísöld? Sjálfsagt verður fátt um svör, en skógarrefur einn hvíslaði því að mér að nú væri farið að styttast í það...

Ágúst H Bjarnason, 26.10.2010 kl. 20:09

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Hvenær og hvort nýtt sambærilegt kuldaskeið skellur á vitum við náttúrulega ekki. En eins og með aðrar svona meginbreytingar þá koma þær ekki í ljós fyrr en síðar þegar við höfum yfirsýn til margra ára í einu. Sjálfur er ég þó stöðugt búinn undir það versta.

Ég get líka sýnt hvað ég var að gera í upphafi pínulitlu ísaldarinnar, en þá þarf að skoða eldri færslu og aðeins persónulegri sem ég skrifaði á köldum vetrardögum árið 2008. Sú bloggfærsla er að hluta til grunnurinn að þessari frá í dag.

http://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/429757/

Emil Hannes Valgeirsson, 26.10.2010 kl. 20:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband