Sólblettir, norðurljós og vígahnettir á SpaceWeather

Það er margt að finna á veraldarvefnum. Tilkoma þess fyrirbæris þýðir að nú geta alþýðumenn eins og ég nálgast allskonar upplýsingar sem áður voru aðgengilegar þröngum hópi sérfræðinga. Þetta á til dæmis við um vefsíðuna spacewether.com sem ég heimsæki nokkuð reglulega enda víðar veður en á jörðinni. Þarna má fá ýmsar fréttir af því sem er að gerast í okkar sólkerfi og gæti hugsanlega haft áhrif á okkur hér á jörðinni. Flest af því er af saklausara taginu og annað ekki. Það eru sérstaklega þrjú atriði á Spaceweather vefnum sem mér finnst áhugaverðari en önnur:

DailySunSólin. Daglega uppfærist ný mynd af sólinni sem má stækka upp úr öllu valdi. Mjög náið er fylgst með hverjum nýjum sólbletti en þeir hafa verið að aukast undanfarna mánuði eftir óvenjumikla deyfð síðustu 3 ár. Sólblettir hafa fengið meiri athygli en áður enda telja sumir að mismikil virkni sólar sé stærsti áhrifavaldurinn á loftslag jarðar. Þótt lítil samstaða sé um það er almennt viðurkennd að mismikil virkni hafi einhver áhrif á hita jarðar til lengri eða skemmri tíma. Sólblettauppsveiflan (nr.24) sem nú er að farin af stað ætti að ná hámarki eftir nokkur ár en miðað við hvað þessi uppsveifla fór hægt af stað er ekki gert ráð fyrir að hún verði öflug. Menn hafa enn minni trú á þarnæstu uppsveiflu (nr.25) sem ætti að toppa um árið 2025, þeir svartsýnustu segja jafnvel að þá muni kuldatíð herja á jörðina. Á myndinni frá 4. desember sést einmitt nokkuð stór blettur (nr1131) en hann á eftir að færast til hægri og jafnvel stækka enn meir.

Norðurljós
Norðurljós tengjast virkni sólar og sjást hér á jörð þegar rafhlaðnar agnir sólar skella á segulsviði jarðar. Á spaceweather sést á korti hvernig ástandið er hverju sinni á norðurhveli og þannig getum við hér á Íslandi fylgst með hvort ljósasýningar séu í gangi yfir okkur eða ekki. Tilvalið er því að kíkja á Spaceweather áður en langt er af stað í kvöldgöngu í skammdeginu. Ef meiriháttar sólblossar og segulstormar eiga sér stað má treysta á umfjöllun um það á síðunni en slíkar uppákomur geta vissulega haft afleiðingar hér á jörðu.

Vígahnettir eru sennilega eitt allra hættulegasta fyrirbærið sem jarðarbúar gæta vænst utan úr geimnum. Á Spaceweather er mjög góð tafla yfir þá loftsteina og vígahnetti sem annað hvort hafa farið fram hjá okkur nýlega eða eru væntanlegir. Stærðin á hverjum er gefin upp í metrum eða kílómetrum, einnig kemur fram dagsetning minnstu fjarlægðar (Miss Distance) – gefin upp sem hlutfall af fjarlægðinni frá jörðinni til tunglsins (LD).

loftsteinar tafla
Í töflunni má sjá að rauður áherslugrunnur er á þeim sem næstir eru því að hitta jörðina. Þann 12. október var á ferðinni loftsteinn að nafni 2010 TD54 og munaði bara 1/10 af tunglfjarlægðinni að sá hitti í mark, að vísu var þá bara um að ræða 7 metra grjóthnullung sem sennilega hefði brunnið upp hvort eð er í lofthjúpnum. Sannkallaðir vígahnettir eru á stærð við stórfjöll, eins og 5,2 km boltinn 1998 TU3 sem skaust framhjá þann 17. október. Það skot geigaði illilega, eða sem nemur 69-faldri fjarlægð til tunglsins en slík óhittni er þó sem betur fer fremur regla en undantekning þegar um svona flikki er um að ræða.

Ef maður vill nánari upplýsingar um ferðalag hvers loftsteins innan sólkerfisins er hægt að ýta á bláu heitin í töflunni (ekki þó á þessu sýnishorni) og fá þannig upp gagnvirka mynd frá NASA þar sem hægt er að leika sér með sjónarhornið að vild og súmma til og frá. Óvirka skjámynd af því má sjá hér:

Nasa skjámynd

- - - -

Sífellt finnast nýjir loftsteinar á sveimi í sólkerfinu. Ekki get ég sé að neinn þeirra ógni okkur alveg á næstunni en það er um að gera að vera á varðbergi.

spaceweather.com


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Arnar

Kannski áhugaverð slóð fyrir þig hingað til okkar á NBI (set þitt svið sem link)  http://www.nbi.ku.dk/Forskning/Astronomi/

Jón Arnar, 4.12.2010 kl. 22:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband