Árshitinn í Reykjavík síðustu 110 ár í kubbamynd

Fyrsta bloggfærsla mín á þessu ári er kubbamyndin eins og ég kalla hana en hún sýnir árshita hvers árs í Reykjavík frá árinu 1901. Í stað þess að sýna þetta á línuriti eins og venjulega er hér hvert ár sýnt með kubbum sem staðsettir eru eftir hitaskalanum til vinstri og hefur hver áratugur sinn lit til aðgreiningar. Samskonar mynd hef ég birt síðustu tvö ár og nú er árið 2010 komið inn og eins og sést er það ofarlega á blaði, með meðalhitann 5,9 gráður.

Kubbamynd 1901-2010

Ef myndin er skoðuð sést að árið 2010 er þarna í ágætum félagsskap með árunum 1939 og 1941 en þessi þrjú ár eru í 2.-4. sæti yfir hlýjustu árin í Reykjavík frá upphafi mælinga. Óvissa er alltaf einhver vegna mismunandi athuganastaða innan borgarinnar í gegnum tíðina en árið 2003 er án lítils vafa það allra hlýjasta í Reykjavík. Árin í kringum 1940 og síðasti áratugur marka nokkurn veginn hitatoppana tvo sem hafa komið á landinu síðustu 110 árin. Talsvert köld ár komu um og eftir árið 1979, en það ár situr afgerandi á botninum með aðeins 2,9 stig í meðalhita sem er talsvert kaldara en köldu árin í kringum frostaveturinn mikla 1918. Til að finna kaldara ár en 1979, þarf að fara aftur til ársins 1892. Athyglisvert er hvað hitasveiflur hafa verið litlar eftir árið 2000 en þau ár eru öll fyrir ofan 5 gráðurnar sem þýðir að meðalhiti þessa áratugar er hærri en hefur verið áður. Á fjórða og fimmta áratugnum komu vissulega mjög hlý ár en meðalhiti þeirra áratuga var dreginn niður af lakari árum inn á milli.

Svo er bara spurning hvað gerist á þessu ári. Halda þessi hlýindi áfram eða hvað? Það væri sjálfsagt viðbrigði að fá eitt ár sem væri bara í meðallagi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Þessi grafíska framsetning segir meira en mörg orð Emil !  Maður þarf ekki að horfa á myndina lengur en í 10 sek til að sjá hvað áratugurinn 2001-2010 sker sig úr.  Eins hvað árin 1981-1989 voru köld þó eitt árið (1987) hafi verið með öðrum brag. Og þannig mætti áfram telja. 

Mér sýnist í fljótu bragði vanta árið 2000. Getur það verið ?

ESv

Einar Sveinbjörnsson, 1.1.2011 kl. 23:52

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það getur verið. Árið 2000 hafði hreinlega bara dottið út hjá mér, en er nú komið inn með meðalhitann 4,5°C.

Þetta tímamótaár var eiginlega síðasta árið sem ekki telst vera hlýtt.

Emil Hannes Valgeirsson, 2.1.2011 kl. 00:56

3 Smámynd: P.Valdimar Guðjónsson

Mjög athyglisverð framsetning.     Ahhh,  mjög þægilegt að lifa nú tímabil lítilla sveiflna.

Ég tala nú ekki um að vera laus við stöðuga umhleypinga. Standi það sem lengst. En valt er víst að treysta slíku.

P.Valdimar Guðjónsson, 2.1.2011 kl. 11:10

4 identicon

Mjög flott framsetning. Síðasti áratugur hefur verið einstakur í veðurfarslegu tilliti. Man líka eftir árinu 1979, þá sex ára. Úlpuveður allt "sumarið". 2003 hófst sláttur í maílok. Einstakt.

Baldur Helgi Benjamínsson (IP-tala skráð) 2.1.2011 kl. 11:19

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Flott Og gleðilegt ár Emil! Við myndum aldeilis finna fyrir því ef við fengjum ár sem væri bara í meðallaginu 1961-90 að hita. Það færi ekki framhjá neinum. En við erum bjartsýn og framsækin þjóð og búumst við enn meiri hlýindum á þessu ári.

Sigurður Þór Guðjónsson, 2.1.2011 kl. 19:02

6 Smámynd: Hörður Þórðarson

Takk, Emil. Hvað var eiginlega í gangi þarna 1979?

Hörður Þórðarson, 2.1.2011 kl. 20:06

7 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Okkur vantar 5,8 og 6,0 í safnið en gerum auðvitað ráð fyrir 6,2 í ár.

Ég var nú bara mjög sáttur með árið 1979 þegar ég eignaðist skíði í fyrsta sinn og gat notað þau langt frameftir vori en maímánuður það ár var líka sá kaldasti á öldinni. Hvað var í gangi 1979 er spurning fyrir veðurfræðinga en kuldi þess árs er kannski áminning um hvað getur gerst.

Emil Hannes Valgeirsson, 2.1.2011 kl. 21:32

8 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Flott framsetning eins og við er að búast frá þér.

1979 var hafísár ef ég man rétt - allavega kom hafís inn í Húnaflóann.

Höskuldur Búi Jónsson, 3.1.2011 kl. 08:57

9 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Emil, við vorum í einhverjum spágír hjá þér í janúar á síðasta ári, sjá Meðalhiti í Reykjavík frá 1901 í kubbamynd. Ég spáði sjálfur 5,2; Höski var með 5,8; Emil 6,2 og svo var Sigurður örlítið svartsýnni með 2,8°C. Það er því ljóst að Höski komst næst því í það skiptið.

Það er spurning um endurtekningu á leiknum, ef menn eru til í það. Ég legg þá út með 5,4°C, sem mínum spádómi, sem birtist hér án allrar ábyrgðar :)

Sveinn Atli Gunnarsson, 3.1.2011 kl. 12:51

10 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Já það má alveg rifja þetta upp og óska Höska til hamingju og skal hann útnefndur spámaður ársins á þessari síðu. Ég var farin að sjá fram á að 6,2 stig gæti orðið niðurstaðan áður en hlýindum ársins lauk í upphafi nóvember.

Nú ætla ég að spá því að árið 2011 verði 4,8 stig og því kaldasta árið síðan 2000.

Emil Hannes Valgeirsson, 3.1.2011 kl. 13:10

11 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Þá spái ég tölunni 6,0°C á þessu ári

Höskuldur Búi Jónsson, 3.1.2011 kl. 13:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband